Bloggfærslur mánaðarins, september 2023

Eggið eða hænan

216230_1030681925746_6115_n

Hef ekki hugmynd um hvort kom á undan, eggið eða hænan. Hins vegar man ég að þegar ég var krakki fannst mér (eins og ennþá) gaman að skrifa sögur, en byrjaði alltaf á því að myndskreyta þær og setti svo textann í auða plássið á milli. Það var ágætis aðalæfing fyrir blaðamennsku þegar stundum þurfti að ,,skrifa í pláss" sem sagt fá skilgreinda lengd texta áður en hann var skrifaður. Var að vinna í vatnslitaútgáfu á mynd sem ég gerði fyrir mörgum árum þegar ég vann mest í grafík. Allt í einu rann það upp fyrir mér að vatnslitaútgáfan var miklu frekar í ætt við myndskreytingu (við óskrifaða barnasögu held ég bara) en eiginlega (virðulega) vatnslitamynd.

kottur1

 

Spurning hvort ég læt af því verða að skrifa þessa barnasögu einhvern tíma. Hef bara einu sinni skrifað barnasögu og það var einmitt á blaðamennskutímanum þegar einhvern tíma vantaði barnasögu í Vikuna og ég skrifaði sögu (í pláss) og teiknaði auðvitað mynd með, söguna um hana Bullukollu, sem mér finnst alltaf vænt um. 

2021-04-08_15-54-26

Skemmtilegasta dæmið um ,,vitlausa" röð er þó frá því að ég kláraði tölvunarfræðina og fór að vinna við hugbúnaðargerð. Tókst eftir nokkurra ára starf í faginu að koma mér að sem tæknihöfundi og lagði ríka áherslu á að vera með á öllum stigum ferlisins, frá þarfagreiningu og yfir í að forritun og prófunum var lokið og hugbúnaðurinn tilbúinn til notkunar. Eftir nokkra góða fundi með teyminu mínu taldi ég mig hafa nægar upplýsingar til að gera ,,manual" fyrir þennan hluta lausnarinnar okkar og dreif í að skrifa hann. Hafði ekki hugmynd um að dregist hafði að hefja forritun og gat ekki annað en hlegið þegar til mín kom einn reyndasti forritarinn hjá fyrirtækinu og tilkynnti mér að hann ætlaði að fara að byrja að forrita og mundi gera það eftir ,,manualnum" mínum. Gamli RTFM bolurinn minn (hef átt þá nokkra, þvottavélin ritskoðaði einn þeirra) hafði í þetta skiptið orðið að áhrínsorðum/-bol.

anna olafsdottir bjornsson (2)

Nú er ég reyndar farin að ganga í bol með áletrun eitthvað á þá leið að fólki eigi frekar að lesa bækur en boli, en það er önnur saga. 


Lélegur lygari en bærilegasti bullari

Rifjaðist upp fyrir mér í dag í spjalli í vinnunni (eins og svo margt) þegar mér blöskraði alveg hvernig mynd sumir Bretar höfðu af Íslendingum. Vinnufélagi hafði þurft að minna einhvern Englending á að þótt þeim fyndist að Ísland hlyti að vera óttalega frumstætt þá hefðum við þó tvöfalt gler í gluggum, ofn í hverju herbergi og alls ekki teppi á gólfum á klósettunum. Þetta er mildari útgáfa af því sem ég sagði við mína ensku félaga, þegar ég var orðin leið á að vera spurð hvort ég byggi ekki í snjóhúsi: - Jú, auðvitað, sagði ég. - Á 7. hæð í snjóhúsablokk, stigi upp (stundum sagði ég lyfta) og svo þessi fína rennibraut niður. Þann 15. október færu allir nema fjórir að sofa og svæfu fram á vor, en mættu vakna til að halda jól og páska. Þessir fjórir vökumenn sæju svo um grunnþarfir samfélagsins meðan hinir svæfu. Þetta sparaði auðvitað reiðinnar býsn í orkukostnaði og öðrum tilfallandi. Ef ég vildi leggja áherslu á orð mín benti ég á að ég héti Björnsson, og allir á Íslandi hétu bjarnarnöfnum, til að leggja áherslu á að við legðumst öll í híði. Verst var að ég grunaði suma um að íhuga sannleiksgildi orða minna. Hélt að þetta væri svo augljóst bull. 

Það tók sig líka upp gamall bullari um daginn þegar ég var spurð hvað ég sæi fyrir mér af skrifum í framtíðinni (þar sem ég er nú lögst í glæpasagnaskrif) og ég sagði hiklaust að ég stefndi að 50 glæpasögum. Svo fór ég nú að fá bakþanka en lék mér þó að því að skrá niður plott á hartnær 30 þeirra, svo hver veit? Ég er ekki nema 71 árs og enn í nánast fullri vinnu og að sinna myndlistinni af ögn meiri ákafa en ég þorði að vona. Hef örugglega fínan tíma næst þegar ég fer á eftirlaun.

Aftur á móti er ég alveg herfilegur lygari, sem betur fer. Lítið gefin fyrir þá tegund af bulli þótt ég sé alin upp af þeirri kynslóð sem leit nánast á svokallaðar ,,hvítar lygar" sem almenna kurteisi. Það er alltaf hægt að þegja eða segja eitthvað sem hægt er að standa við án þess að vera ókurteis. Sumir hafa reyndar þörf á að særa aðra í nafni sannleiksástar og það er litlu skárra en lygarnar. 

Ég á nokkra góða vini sem eru snillingar í bulli svo ég er ekki ein á þessum nótum, ekki lengur. 

 


Endurfundir við Hamborg í hita og fjöri

Hamborg hefur verið mér ofarlega í huga að undanförnu eins og glöggir blogg- og FB lesendur mínir hafa orðið varir við. Við því var bara eitt að gera, að drífa sig þangað, jafnvel örferð um helgi reyndist hin frábærasta hugmynd. Frá því ég flutti þaðan eftir mjög tæplega ársdvöl fór ég árlega að heilsa upp á borgina og framan af vini mína þar líka. Lenti í brjálæðislegu sjóarapartíi (fötin, ekki fólkið) fyrsta árið, fór út að borða með einum eða fleirum úr hópnum næstu árin og lenti meira að segja  á Townhall fundi með mannskapnum eitt árið. Svo var fyrirtækið flutt til Altona og þangað náði ég aldrei að fara, hitti seinast Mögdu vinkonu mína á uppáhalds TexMex staðnum okkar, hún var líka hætt. Dró Nínu systur, sem var ein fárra sem ekki náði að heimsækja mig Hamborgarárið góða, og seinast byrgði ég mig upp af Tschibo kaffihylkjum í smá covid-pásu en þá kom ég við á leið frá Kaupmannahöfn til Óla í Amsterdam.

377952766_251964097808486_1197482675362774247_na

 

Nú var enn einu sinni komin Hamborgaróeirð í mig, svo eitthvað varð að gera. Ekki spillti veðurspáin fyrir. Og ég á alltaf erindi til Hamborgar, þótt Balzac kaffihúsin séu hætt undir eigin nafni og fyrirtækið sem ég vann hjá í Hamborg komið á hausinn. Covid kennt um en ég hef aðrar hugmyndir um það. Tvennt hefur einkennt ferðirnar mínar, að skoða eitthvað nýtt og heimsækja gamlar slóðir. Þessi örferð var engin undantekning. Hótelið nálægt innra Alstervatni og ég mundi að ég hafði aldrei átt erindi að rölta kringum það, þótt efra Alster, sem var nálægt mínu Hamborgar-heimili, hafi verið skoðað og skrásett alveg rækilega. Ekki langur göngutúr, meira svona örgöngutúr, kringum það neðra, en nýr. Svo var það næsta verkefni, fornar slóðir. Um marga góða kosti að velja, en ég valdi Winterhude, nálægt gamla Hamborgarheimilinu mínu. Sé ekki eftir því. Tók strætó númer 17, sem er sá réttasti núna, einkum eftir að málglaði bílstjórinn tók upp á því að fara að syngja, þegar ég fór með Nínu systur síðla kvölds með sama vagni. Mér leist ekkert á blikuna þegar tilkynnt var að hjáleið yrði farin til að forðast það að aka Mühlenkamp, aðalgötuna framhjá ,,minni” götu. Hoppaði út þegar mér sýndist vagninn frekar vera að fjarlægjast en að snúa aftur að Goldbekplatz, það er mína stoppustöð.

377581570_251963977808498_803423794285757924_n

Eftir því sem ég nálgaðist Mühlenkamp fór ég að heyra tónlist, en sá ekki hvað var um að vera þótt ég væri komin á fyrsta áfangastaðinn, Elbgold kaffihúsið, það besta í Hamborg og bara á 2 stöðum þar held ég enn. Annað var nálægt mér meðan ég mjög þarna og er nú enn nær minni gömlu íbúð. Fékk mér fínasta latté-to-go, því sólin var rétt að hverfa frá útiborðunum. Þetta með tónlistina bara ágerðist eftir því sem ég fór nær götunni minni, búðinni minni og kaffihúsinu mínu (sem er ekki lengur Balzac heldur Espresso House). Gekk svo inn í fjörið, sem hafði verið innrammað af hjálparsveitarbílum og torkennilegum tjöldum. Rífandi partí alls staðar, líka fyrir utan Peter Marquard Strasse nr. 4. Það var sem sagt hverfishátíð allan liðlangan Mühlenkamp. Alls konar tónlist og mikið fjör, veitingabásar, smálegt af sölubásum, fullt af DJ-um og lifandi tónlist hér og þar. Endaði á Elvis-svæði, ekki vegna aðdáunar minnar á tónlistinni, heldur af því þar var sól og vænlegt veitingahús fyrir síbrotlega vatnslitakonu. Ábreiðuhljómsveitin var alveg skítsæmileg og ekki eins væmin og kóngurinn sjálfur. 

377949386_251963941141835_8733650609722754538_na

Segi ekki að þessi ferð hafi læknað mig af Hamborgarnostalgíunni, en hún gerði hana mun skemmtilegri, enda var það meiningin. 

Ferðaðist afskaplega létt í þessari stuttu ferð, en pikkaði þessa upprifjun þó upp á litla töfralyklaborðinu mínu sem passar við símann minn og það á leiðinni heim frá Hamborg, á meðan þetta var mér allt svo ofarlega í huga. 




Happdrætti DAS ist DAS

Af hreinni tilviljun er ég alin upp við ótalda (alla vega einn) DAS-brandara. Hrafnistubyggingin í Laugarásnum er vegleg og var enn mikilfenglegri þegar færri stórar byggingar voru í grenndinni og ég lítil stelpa. Eitt það fyrsta sem ég lærði í þýsku var brandari um þýskan mann sem benti á Hrafnistu þegar hann átti þar leið um og sagði: - Was ist das? - Das ist DAS, sögðu íslensku gestgjafar hans umyrðalaust. Enda gerðust happdrættin varla veglegri en happdrætti DAS í þá daga, með hús og bíla í verðlaun. Mikið þrekvirki sem gert var í búsetumálum aldraðra fyrir afraksturinn.

Þegar móðursystir Ólafs fóstra mín fluttist að vestan og í bæinn fékk hún inni á Hrafnistu í stóru kvistherbergi sem hún deildi með annarri konu. Hún sagði þegar hún kom fyrst á þetta framtíðarheimili sitt, - Almáttugur, eru karlmenn hérna? - Já, frænka mín, sagði fóstri minn, þetta er nú dvalarheimili aldraðra sjómanna. Frænkan hafði verið einhleyp alla tíð, en ekki leið á löngu þar til hún eignaðist hinn indælasta kærasta. Því miður entist þeim ekki aldur lengi saman því hann féll frá eftir allt of skamman tíma. Hún eignaðist annan kærasta en sá var víst eitthvað svikull og átti kærustu uppi á Akranesi sem hann heimsótti með Akraborginni. Á þeim tíma var fólk á Hrafnistu vel rólfært margt hvert. 

Held að foreldrar mínir hafi átt happdrættismiða hjá DAS lengi vel, ég átti slíkan miða um tíma, en hef dregið verulega úr öllu fjárhættuspili í seinni tíð, enda var ég aldrei liðtæk í því. Hins vegar vildi svo til í dag að fyrsta íslenska símanúmerið sem ég neyddist til að blokkera er símanúmer skráð á happdrætti DAS. Augljóslega er sölufólkið þar á bæ að sirka út okkur með kennitölur sem benda til (stundum ranglega) að við séum komin á eftirlaun. Þá er hringt af miklum móð um miðja vinnudaga með tilheyrandi truflunum. Eftir fyrsta áhlaupið í þessari lotu (fleiri en eitt símtal, bæði ósvöruð og frávísað) skrifaði ég vingjarnlegan en ákveðinn tölvupóst til aðstandenda happdrættisins og frábað mér frekari hringingar. Það dugði í smá tíma en þegar ég fékk aftur símtal á miðjum vinnudegi í dag blokkeraði ég símanúmerið. 

Þetta breytir áreiðanlega engu í lífi mínu, sölumanneskjunnar né happdrættisins, enda allt frjálsir aðilar sem mega gera það sem þeir vilja. 

Við þetta má svo bæta að nánast engum sem þekkir mig raunverulega dettur í hug að hringja í mig, nema lífið liggi við (eða með fyrirfram gefnu leyfi gegnum óáreitnari miðla). Ég hata símtöl, einkum þau óþörfu og óvæntu. 

Eina aukaverkanin á þessu öllu saman er að ég hef verið með gamla - Das ist DAS! brandarann á heilanum síðan í dag. Vona að ég sé hér með að skrifa hann frá mér. Og þar sem ég tel ólíklegt að öðrum finnist hann jafn urrandi fyndinn og mér forðum, þá er ég nokkuð viss um að þið munuð ekki fá hann á heilann. 


Frúin í Hamborg

Árið 2015 var Hamborgarárið mitt. Lungann úr árinu bjó ég og starfaði í þessari fallegu borg. Það er stundum gott að vera bæði skrifglöð, skrifvön og með MSc í tölvunarfræði. Alla vega fékk ég góða vinnu í borginni og hefði dvalið þar lengur ef stemning hefði verið fyrir því að leyfa mér að vinna alla vega helminginn af vinnutímanum heiman frá Íslandi. Þá hefði ég getað verið með fjölskyldunni minni, því einhvern veginn tókst mér ekki að lokka þau nema í heimsóknir til mín. Það þurfti covid til að koma vitinu fyrir atvinnurekendur, en covid setti líka fyrirtækið sem ég vann hjá þar á hausinn og gerði suma góða vini mína atvinnulausa, en fleiri höfðu fært sig um set eins og altítt er í hugbúnaðarbransanum. Einhvern tíma rifja ég kannski upp með ykkur sögu þessarar yndislegu borgar. Nú nú læt ég duga hafa heimþrána til Hamborgar að leiðarljósi. Fyrstu vikurnar var vinnustaðurinn minn í Hafencity, rétt hjá Elbe-fílharmóníunni sem þá var í byggingu. Síðan fluttum við okkur til Neustadt, og þá var sú fallega bygging hreinlega alltaf fyrir augum okkar þegar við fórum upp á svalirnar á 8. hæðinni, sem var oft. Gönguleiðir voru hreint framúrskarandi þessa dvalartíð mína í Hamborg, oft gekk ég heim úr vinnunni, svona klukkutímaleið til Winterhude sem er eitt fallegasta íbúðahverfi borgarinnar. Tók mig reyndar ögn lengri tíma því ég var alltaf að taka myndir á leiðinni. Vinnutíminn var furðulegur, ca. 10 til 19, en við fengum langt hádegishlé, yfirleitt hálfan annan tíma, og fórum þá saman nokkur í senn á nálæg veitingahús, sem voru bæði fjölbreytt og gríðarlega góð. 

34340934_10216510228926674_6207606770819399680_n

Rifjaðist upp fyrir mér í spjalli við vinnufélagana í dag að áður en ég flutti til Winterhude og fór að leigja sjálf, borgaði vinnan mín mánaðarleigu fyrir mig í íbúð á sjöttu hæð nálægt Burgenstrasse. Mér fannst mamma furðu fálát þegar ég var að montast/kvarta undan staðsetningu íbúðarinnar, það er hæð frá götu, en það var ekki fyrr en hún heyrði að þetta væri í lyftulausu húsi að hún fór að hafa samúð með mér. Íbúðin mín í Winterhude var ,,bara" á fjórðu hæð, það var létt. Ég hefði reyndar getað fengið íbúð í lyftuhúsi, en þar sem það var á jarðhæð í mun minna spennandi hverfi, þá tók ég þessa í Winterhude, rétt hjá Alstervatni,  og sé sannarlega ekki eftir því.

20170613_210909

Hef sjaldan gengið eins mikið og skoðað eins margt og einmitt í Hamborg, þreytist ekki að segja fólki að þar séu fleiri brýr en í Feneyjum og Amsterdam samanlagt. Og titillinn á þessu bloggi vísar til Facebooksíðu sem ég hélt úti fyrir vini og vandamenn. Eða á ég að segja að vandamenn hafi notað hana til að vanda um fyrir mér, eins og þegar mér varð á að segja heim til Hamborgar og einn í fjölskyldunni (ekki nánustu þó) sagði: Er Hamborg nú orðin heim! Meira um Hamborg seinna. 


Vatn - björtu hliðarnar

Vatn er máttugt, sem náttúrafl, óvissuþáttur í framtíðarsýn okkar jarðlinganna, en svo ótal margt fleira. Allt frá því ég hætti að vera einrænn krakki í turníbúð í gömlu húsi í miðbænum og flutti í blokk fulla af krökkum, hef ég notið alls konar vatnsævintýra. Fimm ára var það helst að uppgötva hvað það var gaman að sulla í pollum og af þeim var nóg í kringum blokkina okkar, þá fyrstu á Kaplaskjólsveginum. Man tilfinninguna þegar ég fann extra djúpan poll og vatnið var nógu mikið til að þrýsta stígvélunum að ökklanum og upp á legg. Það var sport. Pabbi tók mig stundum niður að höfn, fyrst í Reykjavík og löngu seinna á Seyðisfirði. Hann hafði fengist við skútusiglingar á yngri árum í Danmörku. Sport sem við fjölskyldan heilluðumst af þegar við kynntumst því gegnum vini okkar og komust í ferðasukk með þeim og víðar. Pabbi leyfði mér að klifra upp í vitann við Reykjavíkurhöfn þegar hann vann í Fiskifélaginu en eftir að hann flutti tímabundið á Seyðisfjörð sendi hann mig umsvifalaust á sundnámskeið þar, þótt ég teldi mig nokkuð vel menntaða í þeim fræðum eftir að Veturbæjarlaug var opnuð við hliðina á blokkinni minni. 

Þegar ég var sex ára fór ég í fyrstu sjóferðina mína, með mömmu og ömmu, á saltfisksflutningaskipinu Öskju til Gíbraltar. Sem betur fór var ég sjóhraust eins og amma, sem ferðaðist eins mikið og hún gat sjóleiðina, en hún var mjög ferðaglöð eins og við fleiri í fjölskyldunni. Hálfa árið okkar á Spáni var nálægt strönd og það var buslað í sjónum nánast á hverjum degi. 

IMG_5322

Nokkrar ferðir með Gullfossi, meðan hans naut við og svo ferjur alltaf þegar ég gat, einhverjar bátsferðir. Guðmundur í Vesturbæ leyfði okkur tveimur að koma með í einn aflalítinn veiðitúr á mjög litlum báti og eiginlega hef ég sótt í allar þær bátsferðir sem í boði hafa verið. Við Ari höfum siglt smálega á suðrænum slóðum og svo í sænska skerjagarðinum eftir því sem boðist hefur. Allt er þetta heillandi, þótt ég játi á mig algeran skort á því að langa í siglingu á skemmtiferðaskipi. Mér skilst að það geti elst af mér. 

Sjósund við Ísland prófaði ég fyrst hérna í fjörunni á Álftanesi þegar ég var svona 13-14 ára, og eitthvað buslaði ég í Bessastaðatjörn, en hún var skemmtilegri sem skautasvell, það verð ég að viðurkenna. 

2023-09-02_22-13-25

Það er því kannski engin furða að ég leiti í vatn og sjó þegar ég vel mér myndefni,  bæði í vatnslit og áður í olíu og jafnvel grafík. Liggur bara svo beint við. Og ég get lofað ykkur að það er ekkert auðveldara að mála og/eða þrykkja sjó, vötn eða drullupolla, en synda í sjó eða sulla í pollum. 


Næst þegar ég fer á eftirlaun ...

Heyrði eitt sinn dæmisögu af manni sem átti svo rosalega annríkt. Hann fór til viturs manns og bar upp vandamál sitt. - Fáðu þér kú, sagði sá vitri. Maðurinn gerði það, alltaf var jafn mikið að gera, svo hann fór aftur til vitra mannsins. - Fáðu þér 10 geitur! Maðurinn gerði það, en ekkert virkaði. Aftur reyndi hann. - Fáðu þér tvo uxa, sagði sá vitri. Enn hlýddi maðurinn og leitaði til þess vitra eftir nokkurn tíma. - Fáðu þér 40 kindur! 

Manninum var ekki skemmt. Hann hafði aldrei á ævi sinni haft jafn mikið að gera. Samt gaf hann vitra manninum eitt tækifæri enn til að hjálpa honum. - Seldu nú kúna, geiturnar, uxana og kindurnar, sagði sá vitri. - Og þá muntu hafa endalausan tíma. 

Mömmu fannst þessi saga reyndar bera vott um tillitsleysi gagnvart dýrunum. En allt um það, ég held að ég sé svolítið að feta í fótspor þessa manns. En þegar hún dóttir mín kom askvaðandi fyrir næstum tveimur árum, þegar ég var búin að vera á eftirlaunum í hartnær fjögur ár, var hún í rauninni í sömu sporum og vitri maðurinn, í annað sinn alla vega (í hitt skiptið kom hún mér uppá að hekla veðurteppi). Fann hvað önnum köfnu móður hennar vantaði. Fleiri verkefni. ,,Mamma, það er verið að auglýsa eftir þér," sagði hún og ég var komin í fulla vinnu eftir þrjár vikur. Ég er nokkuð viss um að næst þegar ég fer á eftirlaun mun ég hafa nóg af tíma, svona fyrst í stað alla vega. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband