Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
Dagur á 100 km hraða (nei ekki Dagur Eggertsson heldur dagurinn í gær)
21.8.2008 | 10:34
Ný skoðanakönnun á síðunni - þeirri seinustu lauk með naumum sigri svartsýnissinna
18.8.2008 | 20:26
Könnun minni um efnahagsástandið lauk með naumum sigri svartsýnissinna, en þeir bjartsýnu eða nægjusömu hafa verið að sækja á jafnt og þétt. Takk fyrir þátttökuna. Nú er komin önnur sem hefur þá sérstöðu að svörin eru af ýmsu tagi, ekkert svona góður, betri, bestur (burtu voru reknir) eða vondur, verri, verstur (voru aftur teknir).
Endilega takið þátt!
Freudisk mistök
18.8.2008 | 19:43
Beit það í mig þegar kvöldaði að gögn sem mig bráðvantaði væru uppi í bústað. Ekki um annað að gera en að skjótast þangað, þótt ég sé skyldum hlaðin heima við eins og sakir standa. Þessi gögn eru auðvitað alls ekki hér, en ég er hér, skrýtið ;-)
Óvænt tilviljun ræður því lika að það sem ég ætlaði að gera í kvöld frestast um einn dag eða svo, vegna ástæðna sem ég stjórna ekki. Þannig að ég ætla að vakna hér í fyrramálið, hress og kát, ná mér í smá sól ef hún skín (spáin bendir til þess) og bruna svo í bæinn og halda áfram að sinna því sem ég er búin að taka að mér í nokkra daga og heldur mér (svona mestanpart) í bænum, þótt Álftanesið okkar sé nú ekki alveg í bænum og yndislegt bæði sumar og vetur. Eina sem vantar þar er lynglyktin og sumarhitinn sem stundum verður í innsveitum og sjaldan annars staðar. Timburlyktin í bústaðnum er líka sérstök, ég þarf kansnki bara að eyða meiri tíma uppi á lofti heima, þar bregður henni fyrir, þótt það sé ekki eins greinilegt og hér.
Um það bil um leið og ég fer héðan fer Hanna með sína vini hingað uppeftir til tveggja daga sælu, ég náði þó alla vega að hafa pottinn tilbúinn fyrir þau í leiðinni. Og þetta sem ég fann ekki heima er þá alla vega þar, ég er sennilega að leita að rangri möppu utan um gögnin, en aðallega held ég þó að bústaðurinn hafi verið farinn að toga ansi fast í mig, eftir heilla þriggja daga fjarveru.
Himnesk (og nett hallærisleg) Mamma mia, lyklaborðið langþráða, Clapton í réttri röð og HVAÐ ER EIGINLEGA AÐ GERAST Í ÞESSUM LEIK?????
18.8.2008 | 02:07
Einstaka sinnum bít ég það í mig að vilja sjá myndir í bíói, en ekki í tölvunni eða á DVD. Mamma mia er ein af þeim. Loksins í kvöld var ég í bænum og gaf mér tíma til þess að fara og þetta var bara fjör. Þetta er sem sagt alveg eins frábær mynd og ég átti von á, Abba var reyndar aldrei mín tónlist, en heldur ekki tónlist sem mér fannst leiðinleg, síður en svo. Man þegar Waterloo sigraði Eurovision og var alveg himinlifandi yfir því, eitt besta ef ekki besta sigurlag þeirrar keppni. Og á eftir komu margir skemmtilegir, svolítið vélrænir, en flottir smellir. Og alltaf gaman. Leikararnir alveg æði, mér fannst unga leikkonan (Amanda Seyfried) sem lék hina verðandi brúði vera bráðskemmtileg. Svo voru þarna auðvitað þvílíkir þungavigarleikarar að það þarf ekkert að hafa fleiri orð um það mál. Meryl Streep og kallarnir flottu (sem voru hreint himneskir í loka-söngatriðinu). Auðvitað er þessi mynd til þess fallin að bera saman sætu, miðaldra kallana og Colin Firth og Pierce Brosnan eru auðvitað frægir hjartaknúsarar (reyndar er gaman að sjá hina hliðina á þeim síðarnefnda í Mrs. Doubtfire, en það er önnur saga). En ég hef alltaf haft ,,soft spot" fyrir Stellan Skarsgaard, sem seint verður talinn til ofursjarmöra, hann á mörg grípandi hlutverk að baki og nær manni lúmskt, meira að segja í erfiðu rullunni sinni í Brimbroti (Breaking the Waves). Mér finnst alltaf nett hallærislegt þegar nútímafólk brestur í söng í miðri setningu í kvikmyndum, en þetta var bara sætt hallærislegt. Verra þegar ég fór að sjá hina ofurlistrænu Regnhlífar í Cherbourg um árið, í Austurbæjarbíói, og bensínsölugæinn söng meira að segja: Hvað viltu marga lítra?
Að öðru, litlir sigrar eru alltaf svolítið skemmtilegir. Ég rakst á alveg óborganlega sniðugt lyklaborð, bleikt eins og tölvan mín, og upprúllanlegt. Þetta fann ég sem sagt í búðarglugga í London í lok maí, en því miður, það var ekki til!. Komdu á mánudag, sagði fanturinn í búðinni og ég var mjög sár, var ekkert að hanga í London (sem ég þó elska) fram á mánudag. Reyndi að kaupa sýningareintakið en hann var alveg hjartalaus þessi. Ég er búin að finna ýktari útgáfu af þessu lyklaborði, og það á tæpan fimmtánhundruð kall í Rúmfatalagernum (of all places), pakkað í plastbox, og ég snarsnerist á hæl eftir að vera búin að borga borðdúkinn og skærin, sem fór í búðina til að kaupa. Og trommaði út með íslenskt lyklaborð, aðeins bleikara en þetta í glugganum á Tottenham Court Rd. en það er bara betra. Og svo get ég rúllað því upp eins og fötunum mínum ef ég er á leið í ferðalag, sem er bara fjör! Og það virkar meira að segja.
Kom við í Hagkaupum og keypti í matinn og nánast datt um Clapton ævisöguna á leiðinni út, stakk henni í körfuna líka. Er byrjuð á henni og ánægð með það hvað hann skrifar mikið um tónlistina í lífinu, eftir blaðafregnum að dæma átti þetta að vera óvægin sukksaga og þess vegna var ég harðákveðin í að ég ætlaði ekki að vera búin að lesa hana áður en ég færi á tónleikana í Egilshöll. En það hefði alveg verið óhætt að lesa fyrstu kaflana alla vega, þessa sem ég er búin með.
Kíkti sallaróleg á íþróttir í Mogganum til að sjá stöðuna í leiknum, hún var 27:29 og ekki fyrir okkur!!!! ... en sem sagt, þeir (strákarnir okkar) mörðu jafntefli á seinustu sekúndum. Hjúkk og æ. Langar ekki að horfa og/eða hlusta, þessi moggatextalýsing er svona nokkurn veginn það sem maður þolir.
Frækilegur ,,sigur" landsliðsins gegn Dönum 32:32
16.8.2008 | 14:54
Þessi leikur áðan var alveg óbærilega spennandi og ég hafði fyrirfram ekki búist við að hafa taugar til þess að horfa á hann. En samt gerði ég það og sé ekki eftir því. Lok fyrri hálfleiks gerðu út um leikinn að mínu mati, yndislegur kafli, og svo auðvitað vítið, sem ég NB þorði að horfa á! Gaman að heyra viðtölin á eftir, þar sem fréttamaður talaði trekk í trekk um sigurinn gegn Dönum þar til Guðjón Valur leiðrétti hann hæversklega, þetta var nú jafntefli ...
Sem minnir mig á annað svipað, þegar Frakkar urðu heimsmeistarar (held ég frekar en Evrópumeistarar) í fótbolta og léku svo fyrsta leikinn sinn á eftir keppnina við Íslendinga, sem ,,sigruðu" þá 1:1. Ég var að segja frá þessu á pöbb í Englandi skömmu síðar, þar sem nokkrir fótboltaglaðir Tjallar skemmtu sér vel yfir orðalaginu og voru alveg sammála því.
Hef ekki geð í mér til að lesa gamla sáttmála
15.8.2008 | 18:08
Sagan endurtekur sig - menn tilbúnir í samstarf við íhaldið án þess að tryggja sér stuðning næsta varamanns
15.8.2008 | 09:07
Marsibil styður ekki nýjan meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:15 | Slóð | Facebook
Blágresið festir rætur
15.8.2008 | 01:19
Nei, þetta er ekki pólitísk frétt. Þannig er mál með vexti að ég hef verið að reyna að koma blágresi til hér fyrir aftan sumarbústaðinn, og nú sé ég að blágresið sem ég flutti af baklóðinni okkar í Blátúninu á Álftanesi er búið að skjóta góðum rótum hér í Borgarfirðinum og virðist ætla að lifa góðu lífi hér. Veit hins vegar ekki hvernig verður með blágresisfræin mín, sem ég setti niður fyrr í sumar. Það verður allt að koma í ljós. Eftir þennan frekar fúla dag í sögu borgarinnar er þó alltaf gott að geta fjallað um eitthvað skemmtilegt sem er bæði blátt og grænt, og þá á ég sannarlega ekki um sjallana og framsókn.
Hann Trausti, fyrrverandi nágranni minn, mikill og einlægur kommi, sagði við mig, þegar ég varð með óbeinum hætti til þess að gatan okkar var skírð Blátún: Anna, hvernig gastu gert mér þetta? Mér til málsbóta get ég sagt að ég er hrifin af mörgum litum en verð að viðurkenna að orðið Blátún hafði sérstakan sess í huga mér frá því ég horfði yfir á fallega húsið Blátún við Kapaskjólsveg af fjórðu hæðinni í blokkinni minni þegar ég var lítil. Þannig að þegar við byggðum úti á Álftanesi þá fékk ég leyfi eins afkomandans í Blátúni til að nota nafnið á húsið okkar og það var síðan yfirfært á götuna. Í bakgarðinum er að sjálfsögðu góð blágresisbreiða og fleiri falleg bleik og blá blóm blómstrandi, en blágresinu ánetjaðist ég í sveitinni minni á Sámsstöðum í fljótshlíð.
Lýsi eftir fólki til að bjarga málinu á seinustu stundu
14.8.2008 | 15:15
Ólafur vildi Tjarnarkvartett | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þetta hefði sem sagt getað farið betur ... aldrei kaus ég Framsókn!
14.8.2008 | 15:07
Visir.is segir frá því að möguleiki hafi verið á að fá skárri niðurstöðu út úr umrótinu í borgarstjórn. En Framsókn ber þá fulla ábyrgð á hvernig fór, ég verð að viðurkenna að ég tel að Ólafur sé maður að meiri ef þessi frétt er rétt.
Frétt Vísis er svohljóðandi:
,,Yfirlýsing lá fyrir um það í morgun að Ólafur F. Magnússon borgarstjóri segði af sér sem borgarfulltrúi og Margrét Sverrisdóttir kæmi inn til þess að mynda Tjarnarkvartettinn á ný. Óskar Bergsson hafði úrslitaáhrif í málinu og valdi að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Þetta segir Sóley Tómasdóttir, varaborgarfulltrúi Vinstri - grænna.
Vísir greindi frá því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, oddviti sjálfstæðisflokksins, hefði slitið meirihlutasamstarfi við Ólaf F. Magnússon borgarstjóra fyrr í dag. Ákveðið var að ganga í samstarf með Óskari Bergssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins. Verður Hanna Birna borgarstjóri, Óskar formaður borgarráðs og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson foresti borgarstjórnar.
Aðspurð um viðbrögð við þessu segir Sóley að Óskar verði að svara því hvers vegna hann hafi tekið Sjálfstæðisflokkinn fram yfir Tjarnarkvartettinn. Þetta veldur að sjálfsögðu vonbrigðum því Tjarnarkvartettinn vann ofsalega vel saman. En þetta var hans ákvörðun," segir Sóley.
Hugmyndin um Tjarnarkvartettinn var rædd á fundi minnihlutans fyrir fund borgarrráðs í morgun og biðu fulltrúarnir í minnihlutanum eftir því að Óskar ákveddi sig. Sóley segir að Óskar hafi ekki haft samband og skýrt frá ákvörðun sinni. "
Best að dusta rykið af barmmerkinu mínu, Aldrei kaus ég Framsókn. Ber enga ábyrgð á þessu og samhryggist þeim Framsóknarmönnum sem ég met að verðleikum, það er Bjarna Harðar, Steingrími ... og eflaust eru þeir fleiri.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook