Byltingin er að byrja sagði maðurinn í sjónvarpinu (enda er lögreglan farin að ráðast á saklaust fólk sem hvorki er anarkistar né ungt, vinstri grænt)*

Stefán Eiríksson er reyndar búinn að segja að sumt í framgöngu sinna manna sé ekki verjanleg vinnubrögð (ef rétt er - og það er rétt, það vitum við sem föst erum við skjáinn vegna áhuga, pestar eða hvors tveggja). Það er sannarlega spurning hversu langur tími þarf að líða áður en stjórnvöld skilja skilaboðin, hversu marga þarf að meiða og hversu mikil verðmæti verða fyrir hnjaski (og þá er ég að tala um viðbót við það bankarán sem við mörg hver höfum orðið fyrir, án þess að njóta mikillar samúðar).

Þegar gömul kona er farin að lemja hækjunni sinni í ljósastaur til að reyna að vekja stjórnvöld af doðanum, svo ég vitni til lýsingar Kristjáns Hreinssonar, þá er byltingin hafin. Hvernig hún þróast er undir mörgum komin. Vonandi verður höggvið á hnútinn strax í kvöld og fregnir berist um að stjórninni hafi verið slitið og sú nýja, hvernig sem hún verður vaxin, boði til kosninga. Mér finnst ég ekki á réttum stað að sitja eins og klessa og hósta og hósta. Kannski hefði ég átt að hósta niðri á Austurvelli í dag, nægur er hávaðinn. Ég er bæði glöð og döpur yfir atburðum dagsins, gleðst yfir byltingunni sem varð þegar Obama var kjörinn, hann minnti okkur á að fyrir aðeins 60 árum hefði faðir hans ekki fengið afgreiðslu ... gleðst yfir kraftinum í mótmælunum, ekki eignaspjöllum eða meiðslum, heldur heilargri og réttlátri reiði yfir úrræðaleysinu sem yfir okkur hefur dunið, en er döpur vegna þess að ég veit ekki hvort það er orðið of seint að bjarga okkar dýrmæta landi og þjóð.

* Þetta er víst hámarkið, ef marka má viðtal við mann í fréttunum, áhugaverð sýn en við eigum samt öll samleið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Lögreglan er fyrst og fremst varðhundur þessara óhæfu stjórnvalda og gaf tóninnn um framhaldið. Öllum sjónarvottum ber saman um að ofbeldi lögreglunnar hafi veirð tilefnislaust. Forsætisráðherra og aðrir ráðherrar munu svo verja athafnir hennar fram í rauðan dauðann og ögra fólkinu meira og meira. Sannaðu til. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.1.2009 kl. 20:47

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Hætt við því að það sé rétt.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.1.2009 kl. 20:59

3 Smámynd: Þórleifur V Friðriksson

Er ekki lögreglan hverju sinni handbendi ráðandi stjórnvalda hverju sinni, eða hvað?

Þórleifur V Friðriksson, 20.1.2009 kl. 21:02

4 identicon

Lögreglan er að reyna að halda vinnu sinni. Þeir VERÐA að vera þarna og vera úthúðað fyrir það. Þar er misjafn sauður....eins og allstaðar.

Ég er hinsvegar smeykur um að það sé of seint að bjarga sjálfstæði okkar. Svo illa hefur stjórnvöldum tekist til. 

Sjálfstæðisflokkur hefur verið nokkuð augljós í ráninu og hin stóra von jafnaðarmanna seldi sig einfaldlega. Hvað er svona flókið við það? Klíka er klíka!

Nú er bara spurning um hvaða tungumál á læra.....dönsku...norsku?

Bjarni Hákonarson 20.1.2009 kl. 21:10

5 identicon

Eg var nu a staðnum og get ekki tekið undir að aðgerðir lögreglu hafi verið tilefnislausar. Þarna gengu einstaklingar hart fram með ögrunum og ohlyðni gegn lögreglunni. Folk fekk verulega langan fyrirvara aður en piparuðanum var sprautað.

Furðulegt að sja folk hrinda lögreglu i sifellu, neita að fara að fyrirmælum, ögra og djöflast og halda að lögreglan syni engin viðbrögð.

Svo ekki se minnst a þa sem kveiktu i puðurkerlingum og hentu i lögreglumenn.

Þorður Ingi 20.1.2009 kl. 21:12

6 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst líklegt að lögreglumenn séu misjafnir eins og mótmælendur, munurinn er bara afleiðingar gerða hvorra fyrir sig og valdsins sem hvorir fyrir sig hafa.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.1.2009 kl. 21:51

7 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Vegna fyrirsagnarinnar þá held ég að maðurinn hafi einfaldlega verið að segja að væri rangt sem haldið væri fram að það væru einungis anarkistar og vinstrigrænir sem væru í mótmælunum.  En þetta hljómaði ansi skemmtilega.

María Kristjánsdóttir, 20.1.2009 kl. 22:36

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Já, mér fannst þetta bara svo rosalega fyndið, svona í alvarleika málsins, en efast ekki um að þetta var einmitt punkturinn sem maðurinn kom með.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 20.1.2009 kl. 23:31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband