Sólarferðir á óvænta staði og ljúga veðurfræðingar?
18.5.2023 | 19:24
Hef farið í sólarlandaferðir á furðulegustu staði, minnisstæðust líklega hitabylgjan sem við Ari lentum í í Hamborg kringum afmælið mitt 2016, í fyrstu af mörgum heimsóknum mínum til þeirrar góðu borgar eftir Hamborgar-árið mitt, ári fyrr. Þegar ég var þar var veður oftast bærilegt, enginn almennilegur vetur þótt ég flyttist þangað í byrjun janúar, en heldur ekki neitt skrifstofufárviðri um sumarið, enda hefði verið erfitt að vinna alla daga á svölunum góðu. Í byrjun júní 2016 sýndi Ara-hitamælirinn góði í Winterhude hins vegar ekkert nema 36 gráður.
Sólarlandaferðin mín til Bornemount í Englandi fyrir fjórum árum er líka minnisstæð. Stuttbuxnaveður allan tímann. Peter frændi minn frá Nýja-Sjálandi sem býr í Reading kvartaði sáran undan hitanum þótt ég haldi að hann hafi ekki farið yfir 30 gráðurnar þann daginn.
Þegar við Ari fórum til Grænlands í byrjun september eitt árið var hlýjasta borg ,,Evrópu" Nuuk þann daginn og okkur var sannarlega sagt frá því. Við reyndar aðallega að skoða Bröttuhlíð en þar var dágóður hiti og sömuleiðis er kvölda tók í Dal blómanna. Það var þó ekki beinlínis sólarlandaferð því sólin skein ekki allan daginn.
Þá er 27 stiga hitinn á Hamarsvellinum í Borgarfirði í júlí 2014 enn minnisstæður, en ég kláraði bæði mitt vatn og eitthvað frá meðspilurunum af því tilefni. Á Snæfellsnesi sama dag var ekki nema 14 stiga hiti.
Nú skoða ég grimmt veðurspár fyrir hvítasunnudag, en þá ætla ég að bregða mér af bæ, ein að vanda. Mun ekki gefa upp áfangastað að svo stöddu, en svona er langtímaspáin á Holiday-Weather. Skyldu veðurfræðingar Holiday Weather ljúga (eða ekki)? Þar er efinn.