Skömmusta og sjálfumgleði

Þótt ég eigi samleið með mótmælendum, enn einu sinni, þá er ég ekki alltaf sammála þeirri orðræðu sem á sér stað. Orðræðan og hvernig við skilgreinum okkur skiptir máli ef okkur á að þoka áfram á skárri stað. Þessi skömmusta gagnvart Evrópu og/eða Vesturlöndum, hún hefur vakið mig til umhugsunar. Mig langar til að vita af hverju hún stafar? Ef við dáumst að nágrannalöndunum af því þau fara flest betur með sjúklingana sína en við, þá er ég með. En ef það er vegna þess að við viljum vera viss um að við tilheyrum ,,elítunni“ í heimi þjóðanna, þá er ég ekki með. Ágætu vinir, gegn hverju erum við einmitt að berjast núna?

Mér líður sem sagt ekkert allt of vel með það hvernig margir hér á landi skammast sín aðallega gagnvart öðrum velsælum Vesturlöndum, núna þegar til umræðu er einmitt misskipting auðs og valda. Slík misskipting á sér ekki aðeins stað innan landa, heldur milli landa. Þótt fáeinir spilltir þjóðarleiðtogar og sá hluti auðsstéttarinnar sem sinnir eingöngu sérhagsmunagæslu komi óorði á mörg þau lönd sem við flokkum okkur EKKI með, lönd sem ekki eru hin frábæru Vesturlönd, þá finnst mér of oft gleymast hve ríka menningu, góða menntun og eftirsóknarverð gildi mörg önnur menningarsvæði en Vesturlönd eiga. Við Vesturlandabúar erum ekkert endilega til fyrirmyndar á öllum sviðum. Má ég nefna umhverfismálin? Og það er staðreynd að ýmsir verstu siðspillar Vesturlanda einbeita sér enn að því að níðast á fólki í öðrum heimshlutum. Eigum við bara að gleðjast yfir því að þeir láta okkur á meðan svolítið meira í friði, ef þeir þá gera það?

Ég veit það vel að ég má vera þakklát fyrir að búa ekki í samfélögum þar sem konur eru gersamlega valdalausar í nafni (misskilinnar eða skilinnar) trúar. Eða í landi þar sem líkurnar á því að búa við sára fátækt og skort á mannréttindum eru yfirgnæfandi meiri en að líkurnar á að tilheyra forréttindastéttinni. Og að hafa ekki búið við raunverulega, alvarlega skoðanakúgun, já ég er þakklát fyrir það líka. En ég get engan veginn talað um Rússa eða Úkraínumenn með einhverri sjálfvirkri fyrirlitningu þótt þeir sitji uppi með meiri forystuvandamál en við (er það annars ekki?). Eða dæmt fyrrum nýlenduþjóðir Evrópu fyrir að halda áfram að láta kúgara kúga sig eftir margra alda þjálfun. Finnst heldur ekki allt á Vesturlöndum frábært. Vona að það skili sér í umræðuna með tíð og tíma, við höfum alveg séð hryggileg dæmi um hvernig sjálfumgleði fer með fólk, stéttir, tímabil og heilar þjóðir og heimshluta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband