Tíðindi dagsins kalla á blogg

Lagaumhverfið og skortur á vilja til að herða löggjöf um skattaskjól eru líklega það markverðasta í umfjöllun fjölmiðla – hvernig stendur á þessu?

En að öðru leyti liggur mér þetta á hjarta núna: Er ég sú eina sem er ekkert óskaplega undrandi á því að ýmsir ráðamenn þjóðarinnar skuli standa nákvæmlega fyrir það sem þeir standa? Í ljósi þeirrar staðreyndar að ýmsir þeirra tilheyra sérréttindastétt sem telur hreinlega eðlilegt að skara eld að eigin köku en þykist standa fyrir annað þegar að kosningum kemur. Og þá er ég að tala um í víðari skilningi en bara þeir einstaklingar sem eru í kastljósinu núna. Mikil misskipting auðs og valds er staðreynd, bæði á Íslandi og annars staðar og hún leiðir einmitt til þessarar stöðu. Tveir og stundum þrír flokkar hafa verið kræfastir í því að hygla forystumönnum sínum og staðið vörð um hagsmuni stóreignafólks. Fullt af öðrum flokksmönnum styðja hinar fallegri hugsjónir þessara flokka og alls ekki fulltrúar eigin hagsmunagæslu. Við þekkjum flest marga þeirra. En: Afsakið, en hvaða flokkar voru eiginlega kosnir til valda aðeins fimm árum eftir hrun? Og hver kaus þá? Vissulega gerði ég það ekki, en er samt hluti af þessu samfélagi sem ber ábyrgð á þessum mönnum. ,,Ooops we did it again“, segir í vinsælu lagi. Það hefur ekki eins mikið breyst frá því skattaskjólsmálin komu upp eins og margir vilja vera láta. Það var alltaf tilefni til tortryggni. Og ef niðurstaðan verður sú sem mig grunar, að annar af helst auðs- og valdaflokkum landsins svíki hinn í tryggðum og verði fyrir vikið refsað ,,minna“ en hinum, þá kemur það mér heldur ekki á óvart. Hefði ekki gert það ef við (það er ráðamenn Íslands og fulltrúar landsins á alþjóðavettvangi) værum ekki enn einu sinni orðin opinber á alþjóðavísu að dómgreindarleysi. Eins og Guðni Th. Jóhannesson minnti á í fréttatíma áðan, þá hefur tekið sig upp gamalgróinn hugsunarháttur: ,,Ég á þetta, ég má þetta.“

Kosningar nú í vor/sumar, samhliða forsetakosningunum, eru að mínu mati líklegasta niðurstaðan nú, ekki sú eina mögulega, heldur líkleg. Hvernig nákvæmlega það ber að veit ég ekki á þessari stundu. Það mun líklega koma í veg fyrir breytingar á heilbrigðiskerfinu sem sumar hverjar virðast stefna að því að halda áfram að rukka íslenska sjúklinga miklu meira en sjúklinga í nágrannalöndunum. Ég ætla rétt að vona að næsta ríkisstjórn muni bera gæfu til að létta þessum byrðum af sjúklingum og rétta hlut þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Afsakið aftur, en ég er ekki bjartsýn. En breytingar alla vega sá kraftur sem gefur möguleika til að gera betur – eða verr.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband