Færsluflokkur: Lífstíll

Stórkostlegur dagur: Ari mætti með bikar heim, gull fyrir fimmgang, 32 ára trúlofunarafmæli og ýmislegt fleira

Þetta er búið að vera rosalega góður dagur. Ari fagnaði 32 ára trúlofunarafmælinu okkar með því að vinna gull fyrir fimmgang á íþróttamóti Sóta og fékk líka fimmtu verðlaun í fjórgangi fyrir annan hest. Verðlaunamerin heitir Paradís og hinn heitir Jarpur, svo öllu sé haldið til haga. Bikarinn hans AraÞótt ég elti Ara á marga viðburði á vegum hestamannafélagsins þá var ég upptekin í dag og missti af herlegheitunum. Reyndar hef ég þá kenningu að Ara gangi alltaf betur þegar ég er fjarstödd, reynslan hefur sýnt það, en samt kem ég með stundum, það er svo gaman. Í kvöld er einmitt afmæli hjá félögum Ara í hestabransanum þannig að við eigum eftir að fagna frameftir kvöldi.

Við Óli fórum á málþing til heiðurs Oddi Benediktssyni, hittum fullt af skemmtilegu fólki og hlustuðum á rosalega góða fyrirlesara, sem reyndar hittu misvel í mark eftir því sem áhugasviðið var. Við tölvunördarnir skemmtum okkur rosalega vel en þeir sem mættu aðallega vegna þess að þeir eru vinir Odds annars staðar frá eða úr fjölskyldunni skemmtu sér misvel yfir hugbúnaðarfyrirlestrunum, skrýtið! Fín stemmning. Tók líka í mig kjark og lét Ebbu Þóru sem er leiðbeinandi minn í lokaverkefninu fá handritið á því stigi sem það er nú, hef verið að ýta því á undan mér óralengi en fann smá trikk til að gera það, prentaði út eintak og lét hana fá af því ég vissi að ég myndi hitta hana í dag. Það er svo miklu auðveldara að bíða aðeins með að senda uppkastið í tölvupósti, það þarf alltaf að laga það smávegis í viðbót. 

Svo hitti ég Grétu, gamla skólasystur úr MR, í Samkaupum, við eigum bráðum stúdentaafmæli en það hefur eitthvað skolast til að boða okkur. Fann samt á vefsíðunni okkar www.mr72.is hvenær þetta stúdentaafmæli á að vera, ætla sko ekki að missa af því! Frábær dagur í alla staði og engan veginn búinn. Nú er bara að rölta út í Vesturtún, mundi auðvitað ekkert eftir afmælinu, þannig að við Óli versluðum vel í matinn í Samkaupum, hann hefur þá alla vega nóg að snæða í kvöld og við öll um helgina. 


Fallegur dagur, góð veisla að baki og spennandi kosningar framundan!

Þessi fallegi dagur, vel heppnu veisla að baki, afmælisbarnið var yfir sig ánægt með góða mætingu, en amk. 65 af 80 komust og svo er partí í kvöld hjá ömmunni sem ekki komst, þar sem sumir hinna mæta. Skelli inn myndum frá veislunni fljótlega. Til hamingju með 30 árin

Núna eru það kosningarnar sem eiga hug okkar allan. Afmælisbarnið kaus fyrir veisluna í gær, sem var auðvitað flott, og svo höfum við verið að lesa barmmerki frá ungum vinstri grænum, Hanna var hrifnust af: Hugsaðu! Það pirrar ríkisstjórnina. - En ég hallast að því að: Ekki biðja um jafnrétti, kjóstu það! passi best fyrir mig. Og það ætla ég auðvitað að gera.

Við fórum mjög pent í áróðurinn í afmælisveislunni í gær, minnug þeirra áhrifa sem pabbi vinar okkar fékk þegar hann endaði afmælisræðu í fertugsafmæli sonar síns (sem er Sjálfstæðismaður) á því að segja: ,,Og svo ætla ég bara að minna ykkur á að kjósa Ólaf Ragnar!" Held að sonurinn hafi ekki kunnað honum neina sérstaka þökk. En hins vegar verður að segjast að þessi sonur er svo sjálfstæður Sjálfstæðismaður að hann var reyndar samherji okkar í Álftaneshreyfingunni vegna skipulagsmálanna í seinustu kosningum, en það er önnur saga. Inga og Hanna

En, það var auðvitað svolítið rætt um pólitík og ég viðurkenni að græna hliðin var upp á fallega VG pokanum mínum sem segir einfaldlega X-V, svona ,,óvart". Ef einhver skyldi vera óákveðinn, sem ég held reyndar að sé ekki algengt í fjölskyldunni okkar eða vinahópi. 

Það var þó nokkuð vinstri græn slagsíða á veislunni, og þá er ég ekki að tala um grænu skreytingarnar (afmælisbarnið valdi litina) heldur að það var svolítið fyndið að líta yfir hópinn, þarna var Oddrún, ekki orðin þrítug en samt fyrrverandi frambjóðandi VG, Hilda systir Gurríar á dóttur sem er rétt skriðin yfir tvítugt en samt líka fyrrverandi frambjóðandi VG, Óli okkar tók þátt í forvalinu seinast og almennt finnst mér bara mikið af krökkum í kringum okkur sem gefa ástæðu til bjartsýni, sama tilfinning og ég fékk á kvennakvöldinu hjá VG um daginn.  Fullt af góðum gestum


Marsipantertan sem datt ekki á hausinn

Eins og títt er í þessari fjölskyldu þá er allt heimagert í veislunni á morgun, nema hvað ég pantaði eina stóra marsipantertu, ekta afmælistertu, í bakaríinu á neðri hæðinni í vinnunni minni. Ægifögur terta er ansi stór og þegar indæla stúlkan í afgreiðslunni þar bar hana út í bíl fyrir mig, þá ætlaði ég síst að skilja hvernig henni tókst að koma henni á gólfið farþegamegin. Gleymdi auðvitað að útskýra fyrir henni að skotthurðin væri biluð, þannig að eflaust undraði hún sig á staðsetningunni. Ég var svo sannfærð um að ekki tækist að koma tertunni klakklaust í kæli úti í Álftanesskóla, þar sem veislan verður haldin, og afmælisbarnið fékk það hlutverk að fiska hana upp af gólfinu farþegarmegin og draga hana út um of lítið op milli sætisins og hurðarinnar. Tókst svona ljómandi vel og síðan var rölt inn í skóla og hvorug datt á hausinn, Hanna eða kakan. 

Bárum slatta af bökkum með bakkelsi út í kælinn í skólann, fyrir utan sjálfa afmæliskökuna og nú ætla feðgarnir að baka og skreyta kökur og ég að klára að smyrja, bæði núna og í fyrramálið (sumt þarf að smyrjast á seinustu stundu, eins og gengur). Spennandi að vita hvernig mætingin verður og rosalega gaman að vera búin að fá stelpuna sína heim, þótt í mýflugumynd sé.  


Tilfinningaskyldan og sunnudagskvöld á pásu

Þegar mikil vinna, nám og aðrar annir eru að drekkja manni er oft freistandi að setja mannleg samskipti á pásu, hætta að sinna vinum og vandamönnum og nota tímann í annað, það er vinnu, svefn og nám. Stundum er þetta vissulega nauðsynlegt, en í öðrum tilfellum mikill misskilningur.
Fyrir svona tuttugu árum var ég sjálfstætt starfandi (og þar með hjá harðasta húsbónda sem hægt er, aldrei frí) og hafði ósköp lítinn tíma fyrir vini og ættingja. Þá æxlaðist það þannig að vinir mínir fóru að dúkka upp á sunnudagskvöldum og í svona átján ár var það siður að hittast hjá mér á sunnudagskvöldum og skiptast á skoðunum, hlusta á músík og bara að vera til. Þessi siður hefur verið í pásu í rúm tvö ár, sem betur fer fæ ég oft kvartanir, sem bendir til þess að þetta hafi verið góð hugmynd.

Gagga frænka mín, (Gagga Lund) söngkona sem var algert æði, hafði ,,salon" á fimmtudögum, minnir mig, á meðan hún bjó í London og mér skilst að það hafi verið mjög skemmtilegt, þannig að kannski er þessi árátta í blóðinu. Ég man ekki betur en fyrsta veturinn sem ég átti með mig sjálf í Reykjavík og leigði lítið kjallaraherbergi með aðgangi að góðu eldhúsi, hafi ég verið búin að skapa einhvers konar gestakvöldssið áður en margar vikur voru liðnar. Sá siður skapaðist í kringum eggjakökuna sem ég bjó til úr eggjunum sem Hanna frænka mín gaf mér alla fimmtudaga, en þrisvar í viku skrapp ég út á Álftnes til að heimsækja heimilisköttinn meðan foreldrar mínir bjuggu erlendis, og alltaf nestaði Hanna (sem bjó í næsta húsi við köttinn) mig út með kílói af eggjum sem varð uppistaðan að þessum eggjakökuveislum. Eggjakakan var eins konar naglasúpa og alltaf dugði hún handa öllum gestum sem mættu, sem voru mismargir.

Þegar svona siða nýtur ekki við, og tilfinningaskyldan (að sinna því sem tilfinningin segir manni) kallar, þá er síminn þarfasti þjóninn. Ég á eina góða vinkonu sem alltaf passar upp á mig og hringir af og til og við spjölluðum einmitt um helgina. Svo heyrði ég loksins í Gunnu vinkonu fyrir norðan, það var sannarlega kominn tími á það, og tölvusíminn og sms-ið sá til þess að við Hanna mín náðum saman að lokum, milli helgarbíltúra hennar til Rúmenínu, Úkraínu og Slóvakíu, ég hlakka til að heyra restina af ferðasögunni! Við mamma spjöllum reglubundið saman í síma eða ,,live" og gerðum það líka og svo var barnaafmæli hjá Elísabetu systur með frjálsri mætingu og þangað mætti ég rétt í þann mund sem seinasta barnið var farið, enda var erindið miklu heldur að hitta hana, Má og krakkana, en aðra afmælisgesti, þótt það hefði nú reyndar verið gaman að hitta Nönu frænku svona í leiðinni, en maður fórnar ekkert hverju sem er til þess. Þegar maður er vaxinn upp úr barnaafmælum í bili (barnabörnin sem sagt ófædd enn) þá er svo notalegt að neita sér um þau. En allt í allt var þetta góð helgi fyrir tilfinningaskylduna.


Elska landið, verra með veðrið

Fórum aðeins upp í Borgarfjörð um helgina og gat ekki hætt að dást að fegurð landsins og náttúrunnar. Hins vegar hefur ástar/haturssamband mitt við veðrið ekkert skánað, aðallega nettur fjandskapur við kulda, trekk, rok, slyddu og hálku. Mér er ekki illa við snjó ef það er ekki of mikið rok og kuldi og ég elska 25 stiga hita á Þingvöllum eða Borgarfirði, sem ég hef oft upplifað einkum í ágústbyrjun. Rok og rigning getur meira að segja verið í lagi ef hlýtt er í veðri, en því miður er ekki of mikið um slíkt. 

Nú er að vanda alveg ágætis kuldaspá fyrir ,,sumardaginn fyrsta" sem er auðvitað geggjað fyrirbæri, og ekki er síðri þjóðtrúin um að það viti á gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman (!). Þetta er auðvitað með merkilegri markaðssetningarfrösum Íslandssögunnar. Hver fann þetta eiginlega upp?

En svo koma svona fallegir dagar eins og sunnudagurinn og út um bíl- og sumarbústaðarglugga og maður gleymir öllu. Við erum æði rík af orðum sem lýsa ekki bara veðri heldur líka samfélagsástandi, gluggaveður, grjótfok og uppáhaldið mitt: Skrifstofufárviðri, sem á við þessa örfáu virkilega góðu sumardaga sem við fáum.

Þessi hugleiðing sem hömruð inn á tölvuna í tilefni sumarkomunnar og fallega sunnudagsins sem er nýliðinn og ég vona að Ari segi ekki eins og hann sagði um árið: Vona að þetta verði snjólétt sumar, því það var einmitt árið sem Jónsmessuhretið kom og nágrannar okkar urðu veðurtepptir í tjaldi í Víkurskarði og komust ekki til byggða á sumardekkjunum, sama árið og tengdapabbi lýsti hestaferð um Kaldadal þannig að allir hefðu hallað sér fram í vindinn eins og þeir væru á mótorhjólum og enginn hefði komist af baki (nema kannski einu sinni) vegna veðurs þótt þeir þyrftu að létta af sér. Og þetta sumar tók Gunna vinkona fyrir norðan myndir af fénu sínu vaðandi snjó upp á kvið, sem betur fór voru lömbin orðin meira en mánaðargömul.

Í einhverjum annál sagði eitthvað á þessa leið: Þetta ár kom sumarið ekki. Og þegar maður les slíkt skammast maður sín auðvitað fyrir nöldrið, ég vildi ekki búa í torfbæ (þeir geta orðið furðu kaldir) eða vera háð því að rölta út til að gefa skepnum án góðra og hlýrra vetrarklæða, eins og mig grunar að formæður okkar og -feður hafi þurft að gera. En það er heldur ekki gott að gera illt verra með því að ógna því bláþráðarjafnvægi sem veðrátta heimsins er nú þegar í. Þannig að í guðanna bænum, við verðum að hætta að taka frekari sjens á veðráttunni, ef við ætlum að geta notið náttúrunnar öðru vísi en út um gluggann. Þess vegna er svo nauðsynlegt að vera hæfilega grænn og ekki of hrifinn af vondu veðri. Hvernig sem veðrið mun þróast með auknum áhrifum gróðurhúsaloftslagsins þá er eitt alla vega víst, það skánar ekki. Danirnir sem klæddust havaískyrtum og fóru í gríngöngu hér um árið og spreyjuðu úr úðabrúsum til að heimta aukinn hita með gróðurhúsaveðráttunni vour bara að djóka! og þeir vissu það.


Drungi og draumalíf í Egilshöll

Ég átti erindi í Egilshöll í dag. Ekki til að taka þátt í krataþingi, heldur var ég að fara á skauta, nokkuð sem ég hef ekki gert í 25 ár og ekki af neinu viti í 40 ár. Þar sem ég rölti í lopapeysunni minni gegnum krataflákana, með skauta um öxl (ekki bara til að skera mig úr kratahópnum) þá fann ég fyrir þunga og drungalegnri stemmningu og fannst hópurinn frekar gleðisnauður. Mjög ólíkt því sem ég fann fyrir í upphafi kosningabaráttunnar í forvali VG þegar allt var hreinlega að springa úr fjöri og sköpunarkrafti, og þá vorum við ekki komin í nema svona 15-17% í skoðanakönnunum. Ég vona, kratanna vegna, að ég hafi bara hitt illa á. Reyndar heyrði ég í útvarpinu á bakaleið að það hefði verið jafnréttisfundur í hádeginu, líklega stóð hann enn þegar mig bar að garði, og kannski var meira fjör þar.

Hins vegar var alger draumur að komast á skauta eftir 25 ára fjarveru úr þeim heimi. Ég naut þeirra forréttinda að alast upp við Bessastaðatjörn frá 12 ára aldri og þar var oft mjög gott skautasvell og hægt að skauta nánast óhindrað svo langt sem augað eygði. Nú eru veður rysjóttari og gott að vita Alsæl á skautumaf þessum tveimur stöðum þar sem hægt er að komast á skauta óháð veðri. Ég hef oft horft öfundaraugum á skautasvellin í New York, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, á fallegum torgum þar, en þetta er bara fínt þarna í Egilshöll. Fyrst staulaðist ég meðfram handriðinu alveg undrandi á því hvað svellið var sleipt. Harðneitaði þó að taka göngugrind. Svo fór maður að færast í aukana, sleppa sér, en fékk samt smá bakslag þegar Kjartan vinnufélagi minn greip í mig og keyrði áfram, úff, rosalega brá mér, og er þó ekki viðbrigðin. Hótaði að henda mér í svellið og láta öllum illum látum ef hann gerði þetta aftur! Hann lét Geira vinnufélaga okkar um að grípa mig næst, en ýtti sjálfur á Geira, og í það skiptið lifði ég af. Henti mér ekki í svellið og lét ekki öllum illum látum, og olli þar með nokkrum vonbrigðum. Svo loksins þegar ég fór að finna jafnvægið var erfitt að hætta. Eina sem stoppaði mann af var þreyta í ökklunum, sem gerði vart við sig af óvana og stífari skautum en ég var vön hér í eina tíð. Eflaust eru þessir betri fyrir skrokkinn. Skemmtinefnd INNN, þar sem ég vinn(n) á heiður skilinn fyrir framtakið. Hér eru tveir fulltrúar úr þeirri nefnd, Arnar og Hrefna, mikið indælis fólk. Svo skreppum við á árshátíð í kvöld, á Borginni, sæl og glöð eftir skautana, og kannski á Óliver á eftir. Hver veit?

Hrefna rokkaðiArnar var flottur


Á vængjum meðalmennskunnar

Stundum langar mig bara að lifa rólegu og viðburðasnauðu lífi (held ég), svífa átakalaust á vængjum meðalmennskunnar. En svo líður það hjá. Alla vega, er að fara til Ameríku á morgun, New York, Portales, Santa Fe og Albuquerque - here we come. Skýri þetta kannski betur með vængi meðalmennskunnar eftir páska, kannski, kannski ekki!

Enginn tími fyrir spennufall

Enginn tími hefur gefist til að fara í spennufall eftir æsispennandi kosningakvöld í gærkvöldi. Tvær fermingar í dag, sem betur fer bara ein veisla, Snædís og Sigga Lóa föðursystir hennar (já, alveg rétt) fermdust og haldin var glæsileg veisla í Vonarholti hjá tengdamömmu. Síðan var haldið í smá endurskipulagningu á heimilinu sem lyktaði með mikilli páskavæðingu, þar sem við vorum að eignast forkunnarfagran páskagulan sófa, sem mamma var að láta okkur fá  og í tilefni af því var auðvitað settur upp páskadúkur og páskaliljur í vasa á borðstofuborðið. Smá svipmynd úr símanum mínum:

 Páskar 2007

Ég þarf nefnilega að taka forskot á páskana (fengum okkur páskaegg nr. 1 í kvöld til að fá sinn málsháttinn hvert). Á miðvikudaginn fljúgum við Elísabet systir til Ameríku til Nínu systur, enda ekki seinna vænna að heimsækja hana, þar sem hún hyggur á heimflutning til Íslands. Hún átti góðar stundir við kennslu í Háskóla Íslands fyrir rúmum tveimur árum og langar heim. Við höfum trú á því að það sé þörf á konu með doktorspróf í amerískum bókmenntum, mikinn feminista, sem hefur m.a. kennt bókmenntir indjána við Háskóla Íslands og fleira spennandi. Það hlýtur að bíða hennar spennandi staða hér heima, en það verður að vera hér á höfuðborgarsvæðinu því við erum búin að vera nógu lengi aðskilin systkinin. Nenni ekki að útskýra það í þaula, það myndi taka ca. tvo hæðarmetra af bloggi. 

En alla vega páskar í Santa Fe, þar sem Nína er viss um að okkur þyki skemmtilegra þar en í Portales, litla háskólabænum þar sem hún býr. Hún gaf mér þvílíkt yndislega bók frá Santa Fe fyrir tveimur árum að ég bíð spennt. Svo skilst mér líka að þar séu falleg, bleik hús (þótt fleiri séu Santa Fe blá, eins og hurðirnar í sumarbústaðnum okkar). Fyrir þá sem ekki vita þá mun ég einn góðan veðurdag afhjúpa verkið mitt, bleik hús. Ykkur verður öllum boðið á opnunina. 


Það er líka óstundvísi að mæta of snemma

Gurrí eðalbloggari minnti mig á eitt enn varðandi stundvísi sem mér hefur alltaf þótt vanmetið. Það er óstundvísi þeirra sem mæta of snemma í viðburði og veislur. Hver man ekki eftir fólkinu sem mætti með börnin sín tveimur tímum of snemma í barnaafmæli og skildi þau eftir. Ekki samt eins óþægilegt eins og frænkurnar sem mættu ,,stundvíslega" háfltíma of snemma í fermingarveislurnar og ætluðust til fullrar þjónustu, þrátt fyrir óstundvísina. Krakkana mátti þó alla vega setja inn í herbergi og loka af með leikföngum, kökum og leikfélögum. Eina krúttlega dæmi sem ég man eftir um óstundvísi af þessu tagi var þegar ég kom að indælli konu sem ég var með í nefnd sitjandi þolinmóð á tröppunum á fundarstað, þegar ég mætti korteri FYRIR fundartíma til að skella yfir kaffi. Hún var á strætó, og frekar en að mæta fimm mínútum of seint lagði hún það á sig að mæta 25 mínútum of snemma.

Samkvæmislíf helgarinnar - óvirk hestakona og tímaskyn tveggja ætta

Fermingavertíðin er hafin og hófst með miklu brag í tengdafjölskyldunni minni, sem er reyndar ekki bara fjölskylda heildur heill ættbálkur. Á hverju ári eru haldin nokkur fjölskyldumót og meðalþátttaka aldrei undir 70 manns, oft nær 100. Fall er fararheill, við mættum stundvíslega, klukkutíma of seint. Smá misskilningur í gangi, í þetta sinni meðal innfæddra í ættbálknum, ég átti sem sagt ekki sök á þessum misskilningi að þessu sinni. En þar sem ég veit að ligg ávallt undir grun, þá fékk minn ástkæri að útskýra seinkunina óvenju ítarlega. Stundvísi hefur aldrei verið minn helsti kostur, þótt ég geti, með miklum sjálfsaga, haldið mig á mínútunni ef ég er í erindum vinnunnar eða að fara í jarðarfarir. Og svo giftist ég manni með sama þol fyrir tímasetningum þannig að við ættum sennilega að biðja börnin afsökunar á gölluðum genum. Velkist einhver í vafa um að svona geti legið í genum þá vil ég benda á að tvö hálfsystkini mín eru alin upp í systkinahópum allsendis óskyldum okkur, og skildu aldrei af hverju þau voru svona miklu frjálslegri í mætingu en hin systkini þeirra. Þegar við fjögur systkinin í okkar ætt loksins náðum saman og fórum að bera saman bækur okkar, þá kom ýmislegt merkilegt í ljós, m.a. ótrúlega lík rithönd þriggja systkinanna og óstundvísi annarra þriggja ... sú okkar sem á svissneska móður er stundvís. En þetta ætlar að verða skemmtileg fermingarvertíð.

Svo er auðvitað  sveitin mín, Álftanesið, með öllu sínu fjölbreytta félagslífi. Við sláum mörgum afskekktari bæjum úti á landi við í félagsstarfi innan sveitar. Með eigin ungmennafélag, kvenfélag, Lions, Rauða kross deild, Fugla- og náttúruverndarfélag, skáta, hestamannafélagið Sóta, Dægradvöl (menningarfélag), eldri borgara félag, kór og þannig mætti lengi telja, - eitt sinn var hér meira að segja eigið hundaræktarfélag. Í gær var það hestamannafélagið sem var með Góugleði, sem alltaf er mikil gleði. Í pínulitla félagsheimiliu var etið vel, drukkið, spilað á gítar og sungið undir forystu fyrrverandi bæjarstjóra og Jörundar Dalamanns (vissuð þið að Eurovisionlagið (Ég les í lófa þínum) er frábært sing-a-long lag?) Og loks var dansað eins og gólfrými leyfði. Þetta eru einstakar skemmtanir og hesthúsin eru á miðju nesinu (ennþá) þannig að allir gátu gengið heim sem ekki voru svo heppnir, eins og við, að eiga son sem sótti okkur.

Ég telst til óvirkra hestamanna. Þeir gera allt sem aðrir hestamenn gera, nema fara á hestbak. Ég drekk sem sagt kaffi, get drukkið brennivín og etið hákarl, tekið í nefið, ég heyja, rek saman hesta, kembi, fer í hestaferðir og var á tímabili liðtæk í hestaættum. En fer helst ekki á bak síðan ég hryggbraut mig um árið. Átti yndisleg unglingsár á hestbaki, en þau eru liðin. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband