Færsluflokkur: Menning og listir

Passíusálmur númer 51 og stjórnarskráin

Við sátum hérna fyrr í kvöld, Ari minn og Gurrí vinkona og vorum að rifja upp Passíusálm númer 51 eftir Stein Steinarr. Mikið rosalega er það nú alltaf skemmtilegur kveðskapur. Fyrir ykkur sem ekki munið eftir þessu ljóði þá byrjar það á þessum frábæru línum (eftir minni):

Á Valhúsahæðinni er verið að krossfesta mann

og fólkið tekur sér far með strætisvagninum til að horfa á hann  ...

Það er svo gaman að rekast á skemmtilegan kveðskap. Svo komu systur mínar og tveir vinir til viðbótar og mikið verið að pæla og skoða, hlusta og spjalla, rétt í lokin sagði Elísabet systir að það væri búið að semja tónlist við stjórnarskrána. Mér fannst það auðvitað snilld og ætlaði varla að ná því hvernig það hefði getað farið framhjá mér, sem er eiginlega forfallinn aðdáandi nútímatónlistar, ekki síst íslensku tónskáldanna. Alin upp í tímum hjá Atla Heimi í Menntó og bý núna við þann lúxus að hafa hér mörg bestu tónskáld landsins hér í sveitinni minni (sem er víst orðin bær) hér á Álftanesi. Og auðvitað var þetta héðan af svæðinu, tónlist eftir Karólínu sem býr hérna í götunni (og hefur samið mikið af tónlist sem ég er hrifin af) og meðal flytjenda eru Ingibjörg Guðjónsdóttir, sem er alveg rosalega góð söngkona og svo Tinna dóttir Karólínu. Hmmmm, ég verð greinilega að fylgjast betur með og ná að hlusta á þetta verk. Sé ekki að verkið hafi verð flutt annars staðar en á Akureyri og í tengslum við listviðburð (sýningu) þar. Stutt síðan ég heyrði mjög flott verk eftir Karólínu við annan svolítið óvenjulegan texta: Njólu, heimspeki- og eiginlega heimslýsingarrit eftir Björn Gunnlaugsson (sem var kennari í Bessastaðaskóla) og þá var það einmitt Ingibjörg sem söng, mjög flott verk. 

 


Bækur - listi í mótun

Hef ekki verið að nota listamöguleikana hér á blogginu, en rakst á ágætis lista yfir uppáhaldsbækur á öðru bloggi og ákvað að skella inn einum lista sem er kominn í endalausa röðina hér til vinstri. Það er sem sagt listi yfir bækur sem ég er hrifin af, af ýmsum ástæðum. Þannig að þetta er sem sagt nýjasta viðbótin á blogginu mínu.


Hvers vegna fer ég ekki oftar í leikhús?

Góðu fréttirnar fyrst, þegar ég fer í leikhús hef ég nánast alltaf verið ljónheppin með sýningarnar sem ég sé. Sumar hreinlega ómetanlegar, Rómeó og Júlía hjá Vesturporti og lítil sæt leiksýning með Maggie Smith sem plastpokakonu standa uppúr á seinustu árum og ef ég ætti að telja upp allt sem ég hef séð í leikhúsi og hefur haft varanleg áhrif á mig, þá yrði það langur (en skemmtilegur) listi. Kannski tímabært að fara að taka hann saman og skiptast á dæmum hér í bloggheimum. Vondu fréttirnar: Hef misst af nokkrum sýningum sem er eiginlega óafsakanlegt að hafa klúðrað. Hins vegar verð ég áreiðanlega aldrei ,,fastur frumsýningargestur" neins staðar. Ástæðan er sú að ég tek virklega nærri mér þegar ég sé vondar leiksýningar. Sem betur fer hefur það ekki gerst oft, samanber fyrstu setninguna í þessum bloggpistli.

En í gærkvöldi fór ég sem sagt í leikhúsið og sé ekki eftir því. Fékk spontant tölvupóst frá Nínu systur fyrir rúmum mánuði um hvort ég vildi ekki koma á sýningu sem ég vissi þá ekkert um. Þekki nef Nínu fyrir góðum sýningum svo ég sagði auðvitað bara já. Þetta var leikritið Kommúnan sem Vesturport sýnir í Borgarleikhúsinu með stjörnuleikurum, innlendum og erlendum. Nú er ég ekki búin að sjá myndina Tilsammans, eftir Moodyson, (mun bæta úr því) sem leikritið er byggt á, en á stöku stað fannst mér sænski þefurinn af íslensku gerðinni aðeins of mikill, allar reglurnar og að bresta í söng í tíma og ótíma - hmm, sannfærir ekki mitt íslenska hjarta, og þó, man eftir einum hópi sem tengdist mínum menntaskólaárum sem hefur sennilega farið svona að.

En það var mikill húmor og ágætis írónía í sýningunni, uppsetningin alveg frábær og hlutur leikaranna gerði sýninguna svo skemmtilega sem raun bar vitni. Árni Pétur fór á kostum, enda kunnáttumaður í þeim heimi sem um var fjallað og í rauninni var hvergi misfellu að finna í frammistöðu leikaranna, einfaldlega rosalega trúverðug öll saman. Ólafur Darri og Sara Dögg sem túlkuðu systkinin voru með góðar rullur og unnu vel úr þeim og Gael Garcia Bernal var frábær. kommunanEiginlega þarf ég að halda áfram, því þau voru öll svo flott. Kommúnistinn kannski aðeins yfir strikið í klissjunum, en þessi karakter er eflaust til, og vel leikinn, lesbían Anna var líka flott, og dekurdúkkan alveg óborganleg. Fulli eiginmaðurinn átti bestu sprettina í glasi og krakkarnir komumst vel í gegnum sýninguna líka. Það var ekki dautt augnablik í sýningunni, svo ég segi bara: Ef þið komist á þessa sýningu þá mun ykkur varla leiðast. Aldursdreifing áhorfenda var skemmtileg, slatti á mínum aldri, sem sagt kommúnutímaaldrinum, slatti af eldra fólki sem undraði mig svolítið (duldir fordómar eða kannski voru þessi ,,eldri" allir á mínum aldri líka ;-) og svo fullt af fólki á þeim aldri að eiga foreldra eða tengdaforelda á þessum kommúnutímaaldri. Fékk reyndar fína reynslusögu af einni þeirra í hléinu, en það er önnur saga. 


Dreg tillögu mína um ráðríki í stað ráðherra til baka og mæli þess í stað með -ráði Sigurðar Hreiðars, forsætisráð, utanríkisráð og svo framvegis. Alveg þjóðráð!

Dreg tillögu mína um ráðríki í stað ráðherra til baka og mæli þess í stað með -ráði Sigurðar Hreiðars, forsætisráð, utanríkisráð og svo framvegis. Alveg þjóðráð! Þessi hugmynd kom fram í vingjarnlegum ritdeilum hér á bloggsíðunni minni og ég vil endilega koma henni á framfæri, og auðvitað rétt feðraðri. Engin ástæða til að skreyta sig með lánuðum fjöðrum. Í tilefni af því má ég til með að segja ykkur eina litla sem téður Sigurður sagði mér einmitt einhverju sinni:

Maður hringdi í bókabúð Æskunnar í því skyni að athuga hvort til væri sú ágæta ljóðabók Svartar fjaðrir, sem hann var vanur að gefa fermingarbörnum.

- Góðan daginn, eigið þið til ,,Svartar fjaðrir"?

- Nei því miður, engar fjaðrir! 


Ég þarf eiginlega að fara að lesa Álftaness sögu

Sú saga er sögð um einhvern náunga sem tók þátt í spurningakeppni, sem haldin var á Hótel Borg held ég, fyrir eitthvað um það bil sextíu árum, að hann hafi getað hlustað á hvaða texta sem var og sagt úr hvaða bók hann væri. Þar kom þó að hann gataði, og bókin var eftir hann sjálfan! Þá á hann að hafa sagt: ,,Þá bók hef ég að vísu skrifað, en aldrei lesið." Ef einhver getur sagt mér nánari deili á þessum manni þá er það vel þegið, ég er alin upp með sögunni en man hana ekki á annan hátt en þennan.

En ástæðan fyrir því að ég rifja þessa sögu upp er sú að ég hef nokkrum sinnum að undanförnu heyrt eitthvað sem mér finnst áhugavert um sögu Álftaness og verið sagt að þetta stæði í Álftaness sögu. Það er svo sem allt í lagi, nema hvað ég skrifaði hana víst sjálf og það angrar mig aðeins að þekkja ekki efni hennar betur. Það eru ekki nema tólf ár síðan ég lauk ritun hennar.  Og núna, þegar ég er á fullu að skrifa texta sem varðar sögu Álftaness, þá er ég alltaf að uppgötva eitthvað nýtt, sem ég mundi ekki. Þannig að kannski væri það þjóðráð að lesa nú Álftaness sögu einhvern tíma. 

Annars er þetta að frétta af frelsisvinnunni minni: Brjálað að gera þrátt fyrir að Sandgerðissaga sé í biðstöðu meðan ég fæ viðbrögð við áætlun sem ég var að senda til ritnefndar. Er að reyna að sökkva mér ofan í stærðfræðina en líklega hef ég þurft að ljúka því verkefni sem ég er í núna til að geta einbeitt mér betur að henni. 

 


Barði er ,,ekki hægt"

Hef ekki haft nennu í mér við að setja mig inn í kapphlaupið um íslenska framlagið í Eurovision, vildi alveg afdráttarlaust fá Svein, höfund ,,Ég les í lófa þinn" aftur með í þetta sinn og er ekki alveg að fatta fyrirkomulagið. Áfram ósátt við fjarveru Sveins. Heyri lag og lag á Rás 2 og þau hafa ekki vakið athygli mína, ennþá. En í kvöld var það smá blogg frá Jenný Önnu sem varð til þess að ég fór á vef RÚV og horfði á lag sem ég var búin að heyra utan að mér að ætti að vera í kvöld. Var næstum búin að leggja undir mig umræðuna hjá henni og sé að það er víst bara best að hlífa henni og segja það sem ég hef að segja hér.

Sem sagt, einn lagahöfunda nú er Barði Jóhannsson, sem sló í gegn í mínu lífi með því að syngja hið ofurhressa lag: Stop in the name of love! eins og algert dauðyfli og gera það töff. Hann er með fyndnari mönnum. Þegar ég heyrði að hann ætlaði að vera með techno og Gilzenegger þá óneitanlega vaknaði forvitni mín. Og svo þegar ég var búin að lesa bloggið hennar Jennýar Önnu þá var bara að tékka á laginu, og Hó, hó! þetta lag er alveg með ólíkindum, sem og viðtalið við Barða (sem er bara venjulegur Barði). Erpur kemur líka sterkur inn. Þið sem eruð óþolinmóð eins og ég, færið bara stikuna fram í rúmlega miðjan þátt. Og það vann sem sagt í keppni kvöldsins.

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4360041


Eggert og blómin

Hafdís vinkona mín var búin að segja mér að ég mætti alls ekki gleyma því að fara á sýninguna hans Eggerts á Kjarvalsstöðum. Ég er í mikilli þakkarskuld við hana, eins og nokkrum sinnum áður, til dæmis þegar hún dreif mig á Þingvelli einhvern tíma í góðu tómi og við gerðum nokkar vatnslitamyndir af fallegum mótívum þar. Myndir af afrakstrinum reyndar hér í myndamöppunni Myndlist.

Þessi sýning hans Eggerts er alveg ótrúleg. Eini gallinn við hana er sá að það var alveg útilokað að skoða hinar sýningarnar í húsinu, sem voru ágætlega áhugaverðar, eftir upplifunina. En alla vega, síðasta sýningarhelgi núna um helgina, þið sem hafið tök á, ekki missa af þessari sýningu.

437207A


Eitt sinn sagnfræðingur, ávallt sagnfræðingur

Þrátt fyrir næstum sjö ár í hugbúnaðarbransanum, sem ég er mjög skotin í, þá eru þessar tvær vikur sem ég hef nánast eingöngu helgað mig sagnfræðinni (og næstu sjö vikur á undan þegar ég var að reyna að sinna sagnfræðinni ásamt námi og 69% starfi) eins konar deja vu. Það er eins og ég hafi aldrei hætt, enda hætti ég víst aldrei alveg. Að setjast aftur í fallega lessalinn í þjóðdeildinni í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem vatnið gárast rétt utan við gluggann - flott bygging hjá Manferð - og fletta í skjölum, gömlum blöðum og skýrslum, fara á efri hæðirnar og spæjast svolítið í héraðssögum og ævisögum og sitja svo í tölvunni heima og pússla saman myndefni og máli, þetta er bara gaman.

Sem sagt, Sandgerðissagan er að verða að bók. Það sem er búið að vera allt of lengi bara handriti í hillu og myndir í kössum og umslögum verður vonandi bara virkilega skemmtileg bók fyrir marga að lesa.

Svo er bara svo margt að gerast í sagnfræðinni, margar hugmyndir, draumar og fjör.

En það er reyndar talsvert af draumum mínum varðandi þróun tölvutækninnar sem ég á eftir að hrinda í framkvæmd, engin spurning, hér og þar, þessar hugmyndir eru kannski ekki nema riss í bók og pikk í tölvu en þeirra tími mun koma.


Skemmtileg ferð FONÁ (Fugla- og náttúruverndarfélags Álftaness) út í Rana í himnesku veðri - en ,,veðurfræðingar ljúga"

Hér á Álftanesi eru mörg skemmtileg félög og eitt þeirra er FONÁ (Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness. Félagið stendur meðal annars fyrir gönguferðum um falleg svæði hér á nesinu, og ein slík var farin í dag, út í Rana, sem er sá hluti Bessastaðaness sem næstur er Garðabæ og Kópavogi. Mér er stundum kippt með í slíkar ferðir til að miðla sögufróðleik um nesið á vegum ýmissa félaga og gönguklúbba. Það tryggir mér ýmsa skemmtilega göngutúra árið um kring. Hóparnir eru misstórir en allar þessar ferðir eru hver annarri skemmtilegri og ferðin í dag var líklega sú fyrsta sem ég fór að hluta til á slóðir sem ég hef ekki áður gengið hér á nesinu, það er ysta leiðin út í Rana var mér gersamlega ný gönguleið. Margar álftir á leiðinni, þær hafa verið ábendandi á túnum og tjörnum hér að undanförnu, enda er þetta Álftanes. Þarna trítluðum við á milli hesta sveitunga okkar, sem voru í haustbeit og væntu mikils af okkur. Svolítið aðgangsharðir, en það var bara krydd í tilveruna. Við skoðuðum Skothús sem er hæsti punktur hins viðfeðma Bessastaðaness og gengum síðan seinasta spottann út í Rana í fjörunni og vorum þá komin ótrúlega nálægt Sjálandi í Garðabæ, Arnarnesi og Kópavoginum. Á myndinni er raninn eins og smá fingur sem bendir að Eskinesi og myndar um leið ós á Lambhúsatjörn, sem er nokkurn veginn fyrir miðju að neðan á myndinni. Þarna eru mýrar og móar, fallegar íssorfnar klappir og fjörur, mismunandi greiðar yfirferðar. Víkin við Ranann heitir Músavík en við fórum upp á land aftur áður en við komum í hana, enda greiðfærast þá leiðina til baka. Takk, FONÁ fyrir að drífa mig í þessa skemmtilegu ferð. 

 

 

 

 

 

 

 

Veðurspáin var hins vegar frekar uggvænleg og allir pollagallar með meiru dregnir upp, þótt ekki væri hægt að finna allt til sem heppilegt hefði verið. En hvað sagði ekki skáldið: Veðurfræðingar ljúga! ... og það var rétt í dag. Við fengum ekki dropa á okkur þrátt fyrir úrhellisspá, heldur þvert á móti sólarglennu og indælis veður alla leið. Ég er reyndar mikill aðdáandi veðurfræðinga og veðurfregna, en í þetta sinn stóðust þessi brigslyrði, sem betur fer, og veðrið var gott, en eflaust hafa einhverjir tekið mark á spánni og hætt við ferðina, fyrir utan alla þá sem tóku kirkjukaffið framyfir. Það er alltaf vinsælt. En við göngugarparnir vorum brosandi hringinn eftir ferðina þar sem við mættum prúðbúnum kirkjugestum á hlaðinu á Bessastöðum við í polla/göngugöllunum og þeir í sparifötunum. Allir vonandi jafn uppnumdir og við eftir stefnumót við náttúru og sögu nessins okkar. 


 

 


Tónlist er ótrúleg list

Kom uppnumin af sinfóníutónleikum í kvöld þar sem verið var að flytja norræn verk, Carl Nielsen, Jón Þórainsson, Sibelius og gleymdan Dana, Rued Langgaard, sem skrifaði geysimikið af verkum á fyrri hluta 20. aldar en fékk ekki eina einustu af 17 (minnir mig) sinfóníum sínum flutta opinberlega á meðan hann lifði. Frekar súrt því þessi 5. sinfónía hans var alla vega mjög áhrifamikil og lifandi. Ég er ein af þeim sem elska það sem var kallað ,,nútímatónlist" alla vega fyrir 20-30 árum, sem aðallega merkti að það var tónlist sem ekki var í stíl fyrri alda og skrifuð á 20. öld. Völuspá Jóns Þórarinssonar gott dæmi, en það var verkið sem fékk mig til að skæla á þessum tónleikum áðan. Man eftir það þegar Þingvellir bergmáluðu af sömu tónum og dynjandi kórsöng 1974, framkallaði jákvæðan hroll. Hef greinilega heyrt upptöku af verkinu síðan, gæti verið oftar en einu sinni, eða kannski er þetta bara verk sem passar svo vel við sálina að það er hægt að finnast það kunnuglegt. Ekki síðra að hlusta á þetta verk núna, einkum þar sem Elísabet systir tók þátt í flutningnum. En þetta voru tónleikar eins og tónleikar eiga að vera, skildu mann eftir uppnuminn. 

Stór hljómsveitarverk og þungarokk, þetta er gæsahúðartónlist, en auðvitað geta lítil verk um Svantes lyckliga dag eða smáverk eftir Erik Satie, Grieg eða Zappa líka breytt heiminum.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband