Færsluflokkur: Menning og listir

Góðir Göggutónleikar

Tónleikarnir sem ég var að koma af, til minningar um Göggu Lund, voru flottir. Dagskráin byrjaði kl. 18:00 á minningarbrotum um Göggu, vinir og vandamenn og brot úr flottri heimildamynd Ponzi hituðu vel upp fyrir tónleikadagskrána. Tónelikarnir sjálfir, þar sem flutt voru fjölmorg þjóðlög sem Gagga og Rauter, undirleikari hennar, höfðu á dagskrá sinni. Búin að hlakka lengi til tónleikanna og þeir voru þess virði, engin spurning að fínt var að miða tímasetningu heimkomunnar við þennan atburð.

Engel Gagga Lund - minningartónleikar í Óperunni í kvöld

Í kvöld verða í óperunni minningartónleikar um Göggu Lund söngkonu sem meðal annars hefur raddþjálfað marga íslenska leikara og söngvara, Björk þeirra á meðal, ef mig misminnir ekki. Gagga hafði alltaf mikla trú á Björk og fleiri Íslendingum sem hafa gert það gott. Tímasetti heimkomu mína gagngert til þess að missa ekki af þessum viðburði, annars hefði ég kannski freistast til að vera í Bandaríkjunum framyfir kosningar (4. nóvember). Þetta verður áreiðanlega skemmtileg dagskrá. Susse frænka, systurdóttir Göggu og fleira gott fólk hefur staðið í ströngu við undirbúninginn. Meira um þetta á vef óperunnar: www.opera.is og svo er hægt að kaupa miða á midi.is - það er eitthvað laust enn.

Gagga frænka mín var merkileg kona. Hún eyddi bernskunni hér á landi og fluttist hingað aftur árið 1960, ég kynntist henni ekki fyrr en um 1966 þegar pabbi var fluttur í bæinn eftir að hafa búið á Seyðisfirði, en þau Gagga voru systrabörn. Man fyrst eftir henni í fermingarveislunni minni, en kannski hitti ég hana enn fyrr, í skírn Elísabetar systur, ári fyrr. En alla vega, hún virkaði strax sterkt á mig frá fyrsta degi og ég er fegin að hún eyddi seinustu áratugunum hér heima á Íslandi, sem var talsvert ,,heima" fyrir hana, heimskonuna, sem ekki var af íslenskum ættum. Frændsemi okkar var gegnum Danmörku, mamma hennar og danska amma mín voru systur og ég man ekki betur en afi hafi kynnst ömmu vegna vinskapar Siggu systur hans og þessa danska frændfólks okkar.


Bækur, bækur, bækur og glæsileg garðveisla þar sem gestgjafinn kemur á óvart (sem var kannski ekki svo óvænt ;-)

Er stödd á þeim punkti í tveimur aðalverkefnum mínum að heimsókn í Þjóðarbókhlöðuna er óhjákvæmileg. Þess vegna meðal annars er ég enn í bænum. Átti góða stund í dag þar sem ég fór í gegnum tímarit sem geymd eru niðri í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar og dáðist enn og aftur að því hversu gott er að vinna í því ágæta húsi, jafnvel þótt vatnið umhverfis húsið sé ekki til staðar eins og sakir standa. Hvort það er vegna yfirstandandi gluggaþvottar veit ég ekki, en hvers vegna ætti það að vera? En það er nú annað mál. Hins vegar hef ég ekki þurft að fara klyfjuð bókum af safninu að undanförnu, hef yfirleitt lokið ætlunarverkinu á staðnum, en nú brá svo við að ég þrammaði með svona 15 kíló af bókum út, fann nefnilega tilvísun í áhugaverða bók þegar ég var rétt að ljúka vinnu upp úr tímaritunum sem ég var með í höndunum og þegar ég var komin að hillunum sýndist mér að nokkrar aðrar bækur kynnu að vera gagnlegar líka. Þannig að nú er bíllinn minn hlaðinn bókum um sjávarútveg fyrr og nú, flestum nýútkomnum reyndar, því ég var búin að kanna ýmsar eldri heimildir. Meiri ósköpin sem er skrifað, en ég þarf að skoða allar mögulega bitastæðar heimildir.

Svo var að bruna heim og skipta um föt og hlutverk. Var á leið í afskaplega vel heppnaða garðveislu, þar sem Ragnar Arnalds var að halda uppá sjötugsafmælið, sem er auðvitað fáránlegt, þar sem hann ætti ekki að vera mikið meira en sextugur og heldur ekki hans ágæta kona, Hallveig, sem er nýkomin úr brúðuleikhúsferð til Síberíu, eins og kom fram í viðtali við Ragnar um daginn í einhverju blaðinu. Ragnar er formaður Heimssýnar og þar liggja okkar leiðir saman um þessar mundir, hann er góður málsvari sjálfstæðis þjóðarinnar. Flestir vita líklega einnig af því að hann er góður rithöfundur, hefur aðallega fengist við leikritun, en ég verð að viðurkenna að ég hafði ekki hugmynd um að hann væri farinn að semja sönglög, en við fengum að heyra dæmi um það í garðveislunni góðu og ekki spurning að listahæfileikar hans ná til þess sviðs einnig. Þetta var bæði óvænt uppgötvun og um leið ekkert svo óvænt. Gott fólk í kringum Ragnar og skemmtilegir endurfundir við gamla vinkonu sem ég vissi að yrði þarna, en hef ekki séð í óþarflega mörg ár, ekki síðan ég stundaði afmælisveislur á Sundlaugaveginum.


Hrikalega flott Eurovision-lög

Það hafa oft verið flott lög í Eurovison. Framlög seinustu tveggja áranna frá Íslandi eru meðal minna uppáhalda. En hér er smá skammtur af óvæntu og fyrirsjáanlegu frá Eurovision, lög sem ég elska:

Fyrst sigurlagið 1963, ef þið ætlið bara að hlusta á eitt, þá er það þetta:

 

 

Æjá, ég verð líka að hafa þetta með, þótt ég sé þegar búin að nefna það:

Nú vantar mig bara hið vinsæla Vi gratulerar, sem er norska útgáfan af Congratulations, laginu sem Cliff vann Eurovision EKKI með, heldur vann eitthvert lag sem ég held ég hafi ekki heyrt síðan. En maður var að gera annað 1968, fór í kröfugöngur í Osló - stúdentauppreisnin var annað hvort búin eða ekki byrjuð þegar ég kom þangað í lok maí en þess í stað var hægt að fara í kröfugöngu gegn innrásinni í Tékkó (vor í Prag) - og það var sko ekki ein ganga heldur nokkrar, vinstri menn voru til að mynda með fleiri en eina (ég í einni þeirra) og hægri menn ábyggilega með eina eða fleiri og jafnvel miðjumenn. En norska þjóðin söng: Vi gratulerar til heiðurs brúðkaupi Haraldar og Sonju.


Kvikmynd um Kjötborg, frábært framtak, hlakka til að sjá hana

Þótt það sé langt síðan ég bjó í vesturbænum, þá átti ég alltaf erfindi af og til í Kjötborg, og Gurrí vinkona mín bætti síðan upplýsingum við til að fylla í eyðurnar, þannig að mér fannst ég alltaf fylgjast með þeim áfram. Bara flott! Hlakka til að sjá þessa mynd.

10 ástæður fyrir því að blogga um Monk

1. Monk er frábær

2. Susan Silverman var i Monk þættinum í kvöld og HÚN er frábær

3. Monk er byrjaður aftur

4. Monk liggur svo vel við bloggi 

5. Leikarinn sem leikur Monk (Tony) er nýbúinn að fá verðlaun, eða ef hann er ekki nýbúinn að fá verðlaun, þá ætti hann að vera nýbúinn að fá verðlaun

6. Margir vita hvað verið er að tala um, og þeir sem ekki gera það láta sér ábyggilega á sama standa

7. Kynningarstefið er svo grípandi

8. Gurrí fílar Monk líka

9. Mig langar að venja fleiri á að horfa á Monk, sem sagt þröngva sjónvarpssmekk mínum upp á aðra

10. Þrátt fyrir allt þetta mikilvæga sem er að gerast í tilverunni einmitt núna, þá er bara svo miklu auðveldara að blogga um Monk


Afskaplega ó-óvænt úrslit í bandinu hans Bubba

Hafi einhver úrslit nokkru sinni verið fyrirsjáanleg þá voru það úrslitin í Bandinu hans Bubba. Þótt mér finnist Arnar miklu skemmtilegri rokkari þá er Eyþór mjög flottur og hæfileikaríkur og ALLIR vissu að hann myndi vinna. Og hvað gerðist? Hann vann!

Þetta hefur verið ágætis skemmtun í vetur og aðallega vegna þess að hæfileikafólk hefur fundið sér ágætan, nýjan, farveg. Björn Jörundur og Villi naglbítur mátulega klikkaðir í hlutverkin sín og margir gestadómaranna bara mjög fínir líka.  Bubbi verið furðu lítið áberandi í þessu, skrýtið að sjá hann vera að máta hlutverk ,,grand old man" en hann ræður þessu. Alla vega hefur þessi ágæta sérviska hans að fá allt sungið á íslensku (fín sérviska sem sagt) valdið því að meira að segja hörðustu Queen textar hafa verið íslenskaðir.

 

 


Hellaristur

Ég er hugfangin af hellaristum. Var svo lánsöm þegar ég fór að heimsækja foreldra mína í Frakklandi rétt upp úr tvítugu að fá tækifæri til að fara inn í alvöru helli í Dordogne dalnum, ekki þennan frægasta (Lascaux) heldur annan minna þekktan (La Mouthe), sem þó var opinn. Núna er líklega búið að loka þeim öllum. En hughrifin voru rosaleg. Á þessum tíma var ég í námi í Myndlista- og handíðaskólanum og líka í sagnfræði í háskólanum og sennilega nýlega búin að uppgötva töfrana sem hellaristurnar framkalla. Þetta er menning forfeðra okkar, í rauninni fyrsta túlkun sem vitað er um, þar sem hellisbúarnir sem lifðu á veiðum, tjáðu eitthvað mjög töfrandi.

Rifjaðist upp fyrir mér þegar Guðný vinkona mín sagðist vera að fara til Frakklands. Hún er svo sem ekkert að fara á þessar slóðir, en við vorum í upprifjunarstuði, þannig að þetta kom í hugann. Svo dró ég upp nafnspjaldið mitt, sem ég lét prenta þegar ég uppgötvaði að ég átti ekki nafnspjald, af því ég vinn ,,bara" hjá sjálfri mér. En það fylgir því ákveðið frelsi að vera með eigið spjald, svo ég skellti bara nafni, email og símanúmeri á það og svo einni af grafíkmyndum mínum. Og Guðný var fljót að fatta tenginguna við hellaristurnar, á efri hlutanum aðallega, en myndefnið er reyndar sannar svefnstellingar Grámanns okkar, mikils undrakattar sem við áttum lengi. Og ég læt þessa mynd fljóta með og vona að fleiri kunni að meta hana.

 


Ég er aðdáandi Engispretta

Sagði frá því á blogginu um daginn að ég hefði séð skemmtilega leiksýningu. Þar sem ég sá hana á aðalæfingu vildi ég leyfa frumsýningunni að líða áður en ég færi að fjalla um sýninguna frekar. Nú er frumsýningin búin, fyrstu dómar að birtast, og eins og ég hef nú alltaf gaman af Jóni Viðari, þá er ég alls ekki alltaf sammála honum, og til dæmis ekki núna. Mér finnst sýningin Engisprettur nefnilega mjög góð.

Þetta er fantavel skrifað handrit eftir unga serbneska konu og heildaryfirbragð sýningarinnar er glæsilegt þrátt fyrir nöturlegt efni, enda eru orð og athafnir fólksins einmitt í hróplegu ósamræmi við nokkuð glæst (en þreytt) yfirborð. Yfirborðsmennska og æskudýrkun eru túlkuð á ýktan hátt og mér finnst handritið ekki gefa tilefni til annars. Hófstilltari persónur mynda angurværan undirtón fyrir lætin. Leikritið var svolítið hægt í gang, en eftir það ekki dauður punktur, þótt það sé talsvert langt í sýningu. Mér fannst Þórunn Lárusdóttir skemmtilegust ýktu persónanna, jarðbundin karakter Sólveigar Arnarsdóttur skilaði sér líka vel og svo var Pálmi Gestsson mjög sannfærandi í sínu hlutverki. Mæli hiklaust með þessari sýningu og endurtek það sem ég sagði um daginn, hún er það efnismikil að ég er ekki frá því að ég þurfi að fara aftur á hana til að ná öllu því sem fram er borið. En það er bara kostur.


Leikhús, leikhús, hvar hef ég (eiginlega) verið?

Það er alltaf svo óskaplega gaman að fara í (gott) leikhús. Núna er ég búin að fara á tvær ólíkar en virkilega góðar sýningar í sama mánuðinum og hugsa: Af hverju fer ég ekki oftar í leikhús? Þar sem ég hef þegar útlistað það samviskusamlega hér á blogginu, þá eru ekki fleiri orð um það. En ég get alla vega sagt að sýningin sem ég sá í kvöld var góð, reyndar svo margsluning og efnismikil að það liggur við að mig langi að sjá leikritið aftur, seinna. Segi ykkur meira um þessa sýningu seinna, af sérstökum ástæðum læt ég þetta duga í bili. Spennan magnast.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband