Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Taka höndum saman strax

Áherslurnar í stjórnmálum eru um stundarsakir að breytast og raunveruleg viðfangsefni mögulega að hafa forgang, ekki allt of tímafrekt kjaftæði um það sem bara veldur ágreiningi, svo sem ESB og valdabaráttu einstaklinga. Ég er auðvitað skíthrædd um að annað en umhyggja fyrir heimilum ráði för einhverra, svo sem þörf og vilji til að koma höggi á ríkisstjórnina. Núna er hreinlega ekki hægt að sóa tíma í neina vitleysu, allir þurfa að taka höndum saman ef ekki á að verða uppreisn réttlátrar reiði þeirra sem hafa farið illa út úr kreppunni. Vonandi eru teikn á lofti um að alvöru umræða sé í gangi meðal allra sem koma þurfa að um raunverulegar aðgerðir sem gagnast sem allra flestum.


Mótmælt af mörgum ástæðum

Í upphafi mótmælanna haustið 2008 fann ég fyrir því hvað það var margt og margvíslegt sem fólk var á mótmæla. http://www.annabjo.blog.is/blog/annabjo/entry/712917/

Sama er upp á teningnum núna, samt held ég að tvennt sem aðallega veldur mótmælunum nú. Annars vegar hin hræðilega staða sem mörg heimili eru í og krafa um miklu meiri úrbætur en gerðar hafa verið, hins vegar að spillingaröflin séu enn á fullu í öllum kimum samfélagsins. Réttlætiskenndinni er misboðið.


Allt sem getur gerst meðan þú ert upptekin

Merkilegt hvað allt hefur sinn gang hvrt sem maður er að fylgjast með eða ekki. Eins og fleiri Íslendingar er ég mikill fréttafíkill og skil eiginlega ekki hvernig (stór)viðburðir geta átt sér stað án þess að ég fylgist með þeim, en auðvitað er það einmitt það sem gerðist í síðustu viku. Meðan ég var upptekin í mínum litla heimi, þar sem nóg var að gerast, var æði viðburðarík fréttavika að líða. Hálf skrýtið.

Veðurblíða og vitleysa

Veðurblíðan þessa dagana og fyrr í sumar reyndar líka er alveg einstök og afskaplega vel þegin. Fyrir fólk eins og mig, sem hefur aldrei alveg áttað sig á hvort það er hundkristið eða heldur heiðið, þá brýst þakklætið út í mikilli þörf fyrir að þakka einhverju almætti fyrir almennilegheitin, hvort sem það eru veðurguðirnir eða hinn eini sanni guð. Hreinskilnislega sagt, þá bara veit ég það ekki. En þakka samt.

Vitleysan er hins vegar sú að fyrir réttu ári var samþykkt að ganga til aðildarviðræða við ESB fyrir hönd sumra Íslendinga. Oft hef ég hugsað um gamla brandarann þegar einhver sagði alveg rasandi kringum EES-málið: Er ekki bara hægt að láta Jón Baldvin fá einstaklingsaðild að ESB? Það ár sem liðið er síðan þessi umdeilda - og að mínu mati afskaplega vonda - ákvörðun var tekin hefur sýnt svo ekki er um að villast að þetta var ekki gert í þágu almennings, kostnaður, umfang og fyrirhöfn, auk ólíðandi tímasóunar, er á kostnað annarra og miklu betri verka. Mig svíður í vinstri græna hjartað að þetta skuli hafa gerst. 


Enn og aftur um kattasmölun

Það var fróðlegt að sýna mynd sem heitir Kattasmölun á Jónsmessuhátíð í Sjálandshverfi fyrir rétt rúmri viku. Viðbrögð fólks voru í rauninni áhugaverðust, myndin sjálf átti hluta athyglinnar en þeir sem lásu heiti myndarinnar: Draumur um kattasmölun, brugðust mjög sterkt við, yfirleitt með hlátri og fyrrverandi stjórnmálamenn hlógu ekki minnst, meira að segja vinkona mín sem lengst af var mjög handgengin Jóhönnu og hefur verið virk í Samfylkingunni frá upphafi. Einum virkum Samfylkingarmanni sem áður var í Framsókn stökk að vísu ekki bros, en hann var undantekningin. Þið sem skoðið myndina, veitið því athygli úr hverju kötturinn er gerður.

kat.jpg


Næstskrýtnasti sautjándinn

Sá skrýtnasti var auðvitað jarðskjálfta-sautjándinn. Náttúruöflin hafa minnt á sig svo um munar undanfarin ár og ég vona og óska að skilaboðin séu skýr, við erum bara partur af náttúrunni og ekki sá merkilegasti og ættum að virða hana.

17jun1944.jpg

Einmitt í dag þótti við hæfi að ESB samþykkti aðildarviðræður Íslands við ESB þrátt fyrir að drjúgur meirihluti þjóðarinnar sé andsnúinn aðild.

Í dag langar mig ekki að rölta niður í Kvenfélagsgarðinn hér á Álftanesi. Litlu að fagna ef þetta er seinasti sjálfstæði sautjándinn okkar. Það nöturlega er að ef til vill sýnir dómurinn frá í gær fram á að engin þörf er á því að svipta okkur sjálfstæðinu. Enn sem fyrr finnst mér að allt höfuðborgarsvæðið eigi að sameinast um öll stærri mál en hvert svæði haldi sjálfsstjórn og sérkennum sínum, jafnvel fái sjálfstjórn og geti hlúð að sérkennum sínum. ,,Synir Breiðholts" hafa látið á sér kræla, þegar ég bjó í Vesturbænum vorustofnuð þar ein fyrstu hverfasamtökin, Íbúasamtök Vesturbæjar, en reyndar man ég eftir Framfarafélagi Breiðholts líka.

AGS er farinn að sýna aukna hörku í viðskiptum við Ísland, ekkert elsku mamma hér, bjóðið upp heimili fólksins í hvelli eða hafið verra af!

Dómurinn í gær hefur þó vakið miklar vonir um úrlausn fyrir fjöldamörg heimili, fyrirtæki og sveitarfélög (Álftanes). Mér fannst það viturlega mælt sem ég heyrði í gær: Fyrst það er allt í lagi að láta fjölmörg heimili og fyrirtæki fara á hausinn, þá á ekkert að rjúka upp til handa og fóta og fara að grípa í taumana, loksins þegar (sumt) fólk eygir réttlæti. Og þetta sagði kona sem varaði sig sjálf á gjaldeyrislánunum og er að sligast undan verðtryggðu lánunum sínum. 

Veðrið í dag er yndislegt, margir fagna, ég ætla að geyma mín fagnaðarlæti þar til síðar og treysti því að senn verði ástæða til enn dýpri og meiri gleði en einmitt í dag á þessum næstskrýtnasta sautjánda júní sem ég hef lifað. Stund þegar heimilin rísa upp undan klafanum, íbúar sveitarfélaga og landa ákveða sjálfir örlög sín og án þvingunar.

 


Sæl aftur Pollýanna!

Best að gefa henni og Jóni Gnarr sjans.


Frá þessum kvenna-konum

,,Þið þessar kvenna-konur!" var það eina sem viðmælenda mínum datt í hug að segja við mig fyrir einum 25 árum þegar ég var í heilagri reiði að kanna orðróm um að ekki ætti að gefa frí smá dagspart í tilefni af mikilli kvennasmiðju sem haldin var á tíu ára afmæli kvennafrídagsins.

Þetta orð, sem átti ábyggilega að vera skammaryrði, fannst mér alltaf svo indælt og hef reynt mitt besta til að koma því í umferð. Ýmislegt hefur breyst en kveikjan að þessum vangaveltum nú er annars vegar væntanleg heimsókn danskrar konu sem telur að íslenskar konur séu þær frábærustu í heimi og hafi náð ótrúlegum árangri og hins vegar alls konar hugsanir sem hafa verið að flögra að mér frá því ég sat ráðstefnu tengslanets kvenna á Bifröst um daginn, gríðarlega góða ráðstefnu. Ég er auðvitað að hugsa, erum við búnar að ná svona miklum árangri eða ekki? Þekkt er virkni kvenna fyrir rússnesku byltinguna og í henni og hvernig þeim var svo ýtt til hliðar, eftir bankahrunið átti að gera allt öðru vísi en áður og kalla konur til, er það að ganga eftir á þann hátt sem við vildum? Þegar ég hlusta á Sigríði Benediktsdóttur og Evy Joly efast ég auðvitað ekki, en samt, ekki sofna á verðinum.

Og margt er enn tabú. Mér fannst að mörgu leyti fróðlegt að heyra í Sóleyju Tómasdóttur velta fyrir sér hvort við séum enn á flótta undan óþægilegustu umræðunni í kvenfrelsismálum og mannréttindum, umræðunni um vændiskaup, súlustað, mansal, nauðganir og allt það sem enn virðist umdeilt þótt það ætti ekki að vera umdeilanlegt. Hvort það er sú umræða sem pirrar fólk og skýrir ef til vill minna fylgi VG í Reykjavík en margir væntu? Ég er reyndar ein þeirra sem tel bæði Sóleyju og Þorleif frábæra VG-félaga og harðneita að vera dregin í VG-dilka (nema hvað ég er mjög stolt yfir því að tilheyra ósmalanlegum köttum), en ég varð mjög hugsi þegar Sóley varpaði þessu fram. Hugs, hugs, eins og hún Gurrí vinkona mín segir. Það er bara hollt að fara í hlutverk þessara kvenna-kvenna.


Vertu sæl Pollýanna!

Ég er alin upp við Pollýönnu-lestur og upplestur. Hélt að það væri hægt að leysa allt með því að vera nógu rosalega jákvæð. Jamm og já. Sé á bókalistanum hér til hliðar að ég hef verið farin að velta henni fyrir mér út frá hruninu fyrr en ég hélt. Leyfi því að standa sem ég hef þegar skrifað. En í morgun, þegar ég var að hlusta á erindi Barböru Ehrenreich á geysilega fróðlegri ráðstefnu á Bifröst, þá sagði ég í huganum, í gamni og alvöru: Vertu sæl Pollýanna.

Öll erindin í dag hafa verið einstaklega fróðleg, en ég staldra við Barböru til að byrja með. Erindi hennar leiddi til hugsana um þennan ,,þetta reddast"-hugsunarhátt okkar Íslendinga, auk þess sem hún fór á kostum þegar hún sagði frá hinni pínlegu gleðikúgun sem jafnt krabbameinssjúklingar sem efasemdarfólk um aðferðir útrásarvíkinganna (fyrir hrun) eru beittir. Veslings danskur bankamaður sem varaði við hruninu og fleiri álíka voru úthrópaðir og ráðlagt að fara í endurmenntun og krabbameinssjúklingum er sagt að vera bara nógu rosalega jákvæðir og þá muni þeir sigrast á sjúkdómnum. Sem sagt ef þú deyrð samt, þá varstu bara of neikvæð! Barbara talar af reynslu, hún lifði af krabbamein fyrir um það bil tíu árum, en ekki vegna þess að hún væri svo jákvæð eða elskaði krabbameinið, eins og sumir reyndu að segja henni að gera. Held að hana langi í ,,helvítis fokking fokk"-bol, hún er nefnilega nógu hugrökk til að taka málstað þeirra sem kvarta hástöfum þegar ástæða er til.

Er það von að maður fari að efast um Pollýönnu?

Merkilegt að hlusta í kjölfarið á Sigríði Benediktsdóttur brillera í erindi sínu um bankahrunið þar sem hún hafði loksins enn betri tíma til að flytja mál sitt, en hún hafði þegar hún sló í gegn við kynningu bankahrunsskýrslunnar. Tek undir með þeim sem sögðu að nú viljum við fá Sigríði heim! Hún og Eva Joly virðast vera þær sem litið er til við endurreisnina.  

Brynja Guðmundsdóttir, frumkvöðull og töffari, vakti líka sérstakan áhuga minn, en hún rakti stofnun fyrirtækis síns sem er að gera það einstaklega gott. Mikið er ég ánægð með að hún skuli vera Álftnesingur og farin að láta til sín taka á nesinu með stofnun Hagsmunasamtaka íbúa Álftaness, sem eru reyndar ein af fáum samtökum á Álftanesi sem ekki bjóða fram við þessar kosningar, enda var það yfirlýst stefna samtakanna frá upphafi að vinna þvert á allar flokkslínur.

Og þannig leið dagurinn á Bifröst í blíðunni og með hvert dúndur-erindið á fætur öðru. Herdís Þorgeirsdóttir, sem stóð fyrir þessari ráðstefnu í fimmta sinn nú í ár, á sannarlega heiður skilinn. Ég á erfitt með að slíta mig frá dýrðinni hér í Borgarfirði, mikill lúxus að vera hér uppi í bústað enn einu sinni, hér er ekki hægt annað en láta sér líða vel, en Álftanesið bíður með alla sína blíðu og kosningar á morgun, svo kannski er rétt að fara að renna aftur í bæinn og kannski þarf ég að lesa Pollýönnu aftur við tækifæri. Ef eitthvað kemur út úr því mun ég án efa leyfa blogglesendum að fylgjast með. Lofa samt engu.


Vor

Það fer ekkert á milli mála að vorið er komið og ég leyfi mér hér með að óska okkur öllum góðs sumars, einu sem fá ærlega vætuspá í maí alla vega, eru Rangæingar og Skaftfellingar svo þeir losni við öskuna úr túnunum sem fyrst.

Við þurfum líka á vori að halda í samfélaginu. Alvöru vori þar sem hlúð er að því sem máli skiptir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband