Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bloggfærslan sem bíður

Þann 25. nóvember síðastliðinn skrifaði ég bloggfærslu sem átti vel við þá, á enn betur við nú. Ósköp hófstillt en mér var samt mikil alvara, svo mikil að þessi færsla bíður enn birtingar, allt á sína stund og sinn stað.

Og í tilefni af nýjum haus á blogginu mínu, þeim þriðja frá upphafi, þá sendi ég þeim Atla, Ásmundi og Lilju baráttukveðjur. Það viðmót sem þau mæta núna valdur því að mér er svona innanbrjósts.

 


Veðurlagsins blíða?

Vona að sem fæstir þurfi að vera á ferðinni á Austurlandi þessa stundina:

17.12 

 


Margar spurningar en fullt af góðu fólki sem náði (og náði ekki) kjöri á stjórnlagaþing

Slatti af fólki sem ég er hæstánægð með að hafi verð kjörið á stjórnlagaþing, mér sýnist að réttlætiskennd og þekking eigi sterka fulltrúa. Auðvitað líka þekkt nöfn, en eins og Einar Mar stjórnmálafræðingur, sem mér finnst oft hitta naglann á höfuðið, þá voru líka þekkt nöfn sem fengu ekki  brautargengi.

Þar sem ég hef ekki kafað í kosningaúrslitin og þekki ekki allar forsendur niðurstaðna, þá sýnist mér að dreifing atkvæða hafi verið býsna mikil, þó ég geti ekki fullyrt það. 

Vissulega eru það alltaf vonbrigði þegar sérlega hæft fólk nær ekki kjöri, en hætt var við því að svo yrði. 

Hins vegar þarf að draga æði mikinn lærdóm af því sem úrskeiðis fór við foramkvæmd þessara kosninga, og þá fyrst og fremst að keyra ekki aftur fram svona umfangsmiklar kosningar á svona skömmum tíma og með svona lítilli kynningu.

Listi þeirra 25 sem voru næst inn innihélt meðal annars þrjár konur sem voru á og við toppinn á mínum lista.


Var stjórnlagaþingið ,,talað niður" og þá hvers vegna - eða er það bara flækjustigið?

Hef heyrt það svolítið að undanförnu að stjórnlagaþingið hafi verið ,,talað niður" og fáir stjórnmálamenn hafi haft orð um hversu mikilvægt það væri, en margir fræðimenn og fréttamenn bent á að það hefði nú engin raunveruleg völd. Nú hef ég ekki fylgst svo glöggt með hverjir hafa þagað þunnu hljóði um þessa merkilegu tilraun, sá þó að Jóhanna hafði alla vega á síðustu stundu ítrekað mikilvægi þessa þings og það er vel. Og Ögmundur skrifaði mikla brýningu á síðuna sína, ogmundur.is og vonandi hafa fleiri hvatt fólk til að kjósa.

Hitt er annað mál að kynning var seint á ferðinni og framkvæmd að mörgu leyti flausturskennd, til dæmis þekki ég allt of mörg dæmi um fólk, sumt ótölvuvætt, sem alls ekki fékk kynningarbækling og veigraði sér við að gera eitthvað í því af misskilinni kurteisi eða ofurhlédrægni. Ekki gott. Þá var flækjustigið mikið rætt og þótt það væri allt í bestu meiningu verið að leiðbeina fólki voru skýringarnar stundum ekki til að bæta, en annað var vel gert. 

Smá vonbrigði, verð að viðurkenna það, þótt ég hafi bara verið blásaklaus áhorfandi með mitt eina atkvæði til ráðstöfunar, sem mun vonandi skipast fallega milli frambjóðendanna sem rötuðu á minn lista.

Eitt skil ég ekki, hvers vegna þarf að ógilda atkvæði til þeirra sem eru neðan við vitlaust innfært númer? Las það í fjölmiðli í dag og finnst furðulegt. 

 


VEGFERÐIN til ESB og brauðmolarnir

Það hefur líklegast ekki farið framhjá neinum að við Íslendingar höfum hafið vegferð aðildarviðræðna (sem er dulnefni fyrir aðlögun) að ESB.

Erum við lögð af stað fram og aftur um blindgötuna eins og Megas forðum og vitum ekki að blindgatan er ESB?

Var okkur hent upp í lest og ráðum ekki hvort eða hvenær við komumst út úr henni?

Erum við í sporum Hans og Grétu þegar þau voru með steinvölur í vasanum og gátu rakið leið sína heim úr skóginum?

Eða erum við í sporum þeirra þegar þau létu brauðmolana detta úr vösum sínum og ætluðu að rekja slóðina aftur heim, en þá voru fuglarnir búnir að éta þá?

Hrædd er ég um að þessi vegferð sé eins og síðastnefnda leiðin, alla vega eru brauðmolarnir til staðar, þessir reyndar í boði ESB (sem óttast líklega steinvölurnar og færðu því Hans og Grétu nóg af brauðmolum) sem er örlátt á þá ótal mola sem falla af borðum þess til handa ótrúlegustu hópa sem eru ,,vænaðir og dænaðir" í sölum sambandsins. 

Þessar vangaveltur eru að fæðast í huga mér hér og nú og ef til vill fylgi ég þeim eftir í næstu bloggpistlum.

ESB fulltrúar tala skýrt - okkar aðlögunarferli allt annars eðlis en aðildarviðræður Noregs á sínum tíma

ESB fulltrúar tala skýrt - okkar aðlögunarferli allt annars eðlis en aðildarviðræður Noregs á sínum tíma, þótt annað sé látið í veðri vaka. Hvet ykkur til að lesa þessa frétt eða frumheimildina í euobserver.com, vefur sem ágætt er að skoða af og til. Einkum eru að ummæli fulltrúa ESB sem vert er að skoða sérstaklega - ég er sammála greiningu Ögmundar, en vildi auðvitað helst slá viðræðurnar af áður en lengra er haldið, en gott og vel, við höfum hafið þessar viðræður og sú leið sem hér er kynnt til sögunnar er í sjálfu sér góðra gjalda verð.
mbl.is Í anda ,,Kafka-skrifræðis"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að stafa þetta ofan í ykkur ... ?

Var að heyra fyrstu niðurstöður þjóðfundarins. Það kom mér ekki á óvart hversu mikil áhersla er lögð á fullveldi Íslands, verndun tungumálsins og yfirráð yfir þjóðareignum. Á sama tíma sýna kannanir, þrátt fyrir gríðarlegan og oft mjög ómálefnalegan áróður gegn ESB-andstæðingum, að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki inn í ESB. Þarf að stafa þetta ofan í ykkur kæru kratar allra flokka?*

*(Undanskil að sjálfsögðu gæðakrata á borð við Stefán og fleiri góða menn sem vilja ekki sjá að Íslands gangi í ESB).


Réttindaleysi (gervi)verktaka á vinnumarkaði og fyrsta þingmálið mitt

Nöturlegar aðstæður í samfélaginu í dag hafa afhjúpað á nýjan leik mál sem ég fór að reyna að berjast fyrir þegar á árinu 1989. Það er nefnilega talsvert um að launafólk sé að vinna sem verktakar á vinnumarkaði og vakni svo upp við vondan draum nokkurn veginn réttindalaust. Þetta var rétt þegar ég samdi mitt fyrsta þingmál 1989 (eða kannski var það strax á árinu 1988) og er því miður enn rétt. Málið, sem er hér að neðan, fékk afgreiðslu á alþingi, nokkuð sem allt of fá þingmannamál fá, og var ,,vísað til ríkisstjórnarinnar" sem er talið ögn skárra en að fá þau afdrif að vera svæft í nefnd, en í þessu tilviki var lítið um efndir. Í ljósi frétta þessa dagana finnst mér þetta mál eiga fullt erindi enn á ný, rökin geta nánast staðið óbreytt nema að fólk er almennt ekki lengur í verktöku til að reyna að bera meira úr býtum (sem alltaf var umdeilanlegt). Vonandi eru verkalýðsforkólfar aðeins skilningsríkari nú en á þessum tíma í garð þessa rúmlega tvítuga máls.

 

Tillaga til þingsályktunar

um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.



Flm.: Anna Ólafsdóttir Björnsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Guðrún Agnarsdóttir,

Kristín Einarsdóttir, Málmfríður Sigurðardóttir, Þórhildur Þorleifsdóttir.

Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að gera sérstakt átak til að kynna fólki á vinnumarkaðinum réttindi þess og skyldur. Í því skyni skipi ráðherra sjö manna nefnd er kanni:


1.     Hvernig best megi tryggja að allir er ráðast til starfa á almennum vinnumarkaði þekki réttindi sín og skyldur, þar með talin launakjör, lífeyrisréttindi, reglur um hvíldartíma, orlofsgreiðslur og uppsagnarákvæði. Nefndin kanni hvort lögbinding starfssamninga milli einstaklinga og atvinnurekenda sé æskileg leið til að tryggja að enginn sé ráðinn í vinnu án þess að þekkja réttindi sín og skyldur. Nefndin kanni enn fremur hvernig fræðsla um þessi mál yrði best felld inn í skólakerfið.
2.     Hvernig best megi tryggja að einstaklingar, er fá laun sín greidd sem verktakar eða eftir uppmælingu, njóti eigi lakari kjara en launþegar í hliðstæðum störfum. Tekið sé tillit til heildarlauna, vinnutíma, álagseinkenna, lífeyrisréttinda og orlofs. Leitað verði upplýsinga um hve margir eru utan stéttarfélaga á vinnumarkaðinum.
    Nefndin skili niðurstöðum eigi síðar en í júní 1990.
    Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á 110. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá og er því endurflutt nær samhljóða þar sem efni hennar er ekki síður tímabært nú en þá.
    Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á undanförnum áratugum. Mikill meiri hluti vinnufærs fólks stundar nú vinnu á almennum vinnumarkaði. Það ætti að vera réttur sérhvers manns í þessum stóra hópi að geta framfleytt sér af vinnu sem byggist á hóflegu vinnuframlagi.
    Íslensk vinnulöggjöf er að stofni til frá fjórða áratug þessarar aldar og miðast um margt við aðstæður þess tíma. Algengast var þá að menn stunduðu almenna launavinnu og fengju greitt fast tímakaup eða fast mánaðarkaup. Þetta er að breytast. Sífellt fleiri eru ráðnir samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar í störf sem áður voru unnin á föstu tíma- eða mánaðarkaupi. Fjöldi fólks telur sig bera meira úr býtum á þennan hátt — útborguð laun eru meiri. En er það svo? Um það er ekki vitað. Fleiri krónur í budduna þurfa ekki að merkja betri kjör. Margir sem vinna samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar njóta hvorki orlofs, né eru venjuleg launatengd gjöld greidd af kaupi þeirra. Atvinnuöryggi þeirra er lítið því þeir eiga hvorki rétt á að fá veikindadaga greidda né uppsagnarfrest. Vinnuveitendur þessa fólks greiða ekki að sínum hluta í lífeyrissjóð og brögð munu vera að því að ákvæðisvinnufólk og einstaklingar sem vinna sem verktakar greiði ekki í lífeyrissjóð, þótt í 2. gr. laga nr. 55/1980 standi skýrum stöfum: „Öllum launamönnum og þeim, sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, er rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, enda starfi lífeyrissjóðurinn skv. sérstökum lögum eða reglugerð, sem staðfest hefur verið af fjármálaráðuneytinu.“
    Vinnutíma og einkenni álags innan þessa hóps þarf að kanna sérstaklega. Nefnd sú, sem hér er lagt til að verði skipuð, þyrfti að láta gera samanburðarkönnun á ákvæðisvinnu, tímavinnu og störfum einstaklinga sem fá greitt sem verktakar. Könnunin þarf að taka til meðalvinnutíma, vinnutekna og álags starfanna. Kannanir hafa verið gerðar er mæla einkenni álags í einstökum störfum. Má í því sambandi benda á ýmsar kannanir Vinnueftirlits ríkisins, könnun er gerð var að frumkvæði ASÍ, Landssambands iðnverkafólks og VMSÍ árið 1982, „Fiskvinnsla: Heilsufar, vinnutilhögun, aðbúnaður og félagslegar aðstæður iðnverkafólks“, er gefin var út árið 1984, skýrslu sömu aðila er gerð var sama ár, „Fata- og vefjaiðnaður. Heilsufar, vinnutilhögun, aðbúnaður og félagslegar aðstæður iðnverkafólks“, sem út kom í febrúar árið 1985 og hóprannsókn um einkenni frá hreyfi- og stoðkerfi Íslendinga á aldrinum 16–65 ára, er Vinnueftirlit ríkisins gerði að mestu samkvæmt spurningalista samstarfshóps á vegum norrænu embættismannanefndarinnar um vinnuverndarmálefni (birt 1988).
    Víðtækar breytingar hafa orðið á vinnumarkaðinum og ástæða til að ætla að þessar breytingar kunni að verða enn meiri. Með upplýsingabyltingu og tölvuvæðingu er áætlað að vinna geti færst meira inn á heimilin á nýjan leik, þar sem hver situr við sinn skjá og vinnur að tilteknum verkefnum. Ekki er ljóst hvernig slík vinna yrði metin og því fyllilega tímabært að hafa þessa framtíðarsýn einnig í huga. Einnig hafa ýmsar hugmyndir um breytt fyrirkomulag á stéttarfélögum verið til umræðu. Þar má einkum nefna stofnun vinnustaðafélaga.
    Til að mæta þessum breyttu aðstæðum og vera búin undir frekari breytingar er nauðsynlegt að fylgjast vel með þróuninni og bregðast við henni á raunhæfan hátt. Í fyrsta lagi með því að gera sér grein fyrir hvað breytingar á vinnumarkaðinum hafa í för með sér fyrir starfsfólk í ýmsum starfsgreinum. Í öðru lagi með því að stórefla vitund og þekkingu fólks á vinnumarkaðinum á réttindum sínum og skyldum. Það ættu að vera lágmarksréttindi allra að fá einhverja fræðslu um vinnumarkaðinn á meðan á skyldunámi stendur. Líklegt er að þessi fræðsla ætti heima í efstu bekkjum grunnskólans og henni þyrfti síðan að fylgja eftir í framhaldsskólum.
    Einnig ættu það að vera sjálfsögð mannréttindi að enginn gæti ráðist í vinnu án þess að þekkja réttindi sín og skyldur frá fyrsta degi. Þetta mætti gera með því að binda í lög að engan mætti ráða í vinnu eða í einstök verkefni án þess að við hann væri gerður bindandi starfssamningur. Mikilvægt er að vinna að þessum málum í góðri samvinnu við stærstu launþegasamtök landsins. Starfssamingur mundi ekki aðeins vera til hagsbóta fyrir þá er vinna samkvæmt uppmælingu eða sem verktakar heldur einnig fyrir almenna launþega. Ef allir, sem selja vinnu sína á vinnumarkaðinum, fengju frá upphafi yfirlit yfir laun sín, réttindi og skyldur yrði auðveldara fyrir hvern og einn að fá yfirsýn yfir kjör sín. Miðlun upplýsinga um kaup og kjör á vinnumarkaði yrði markvissari ef slíkir samningar væru fyrir hendi.
    Á þessu máli er fyllilega tímabært að taka en án upplýsinga er erfitt að gera sér grein fyrir sífellt flóknari vinnumarkaði.
 

 


Hlakka til að kjósa til Stjórnalagaþings - en hvað svo?

Verð að viðurkenna að ég hlakka alveg sérlega mikið til að kjósa til Stjórnlagaþings. Búin að finna býsna margt fólk sem ég vil ólm kjósa og vissulega einnig örfáa sem ég vona heitt og innilega að nái ekki kjöri. En þetta er lýðræði og við erum ekki komin lengra en á það stig og nýtum það því vonandi vel. Síðan mun þetta fólk koma saman í alla vega tvo mánuði og ég er mjög spennt að heyra niðurstöðuna og ekki síður að sjá hvernig farið verður með þessa niðurstöðu. Hef setið í einni af fjölmörgum stjórnarskrárnefndum lýðveldisins og það gekk hvorki né rak þar. Ekki þar með sagt að allt sé ómögulegt í núverandi stjórnarskrá, en ég á mér þá ósk heitasta að það verði til stórkostleg stjórnarskrá fyrir sjálfstætt og framsækið (og þá á ég ekki við í sömu merkingu og útrásarpakkið notaði það orð) Ísland, þar sem mannréttindi, mannsæmandi lífskjör og sjálfsákvörðunarréttur fólks verður tryggður. Nú, eins og ávallt, er veður til að skapa.

Ef minn óskalisti nær kjöri kvíði ég engu og ég er viss um að margir fleiri hæfir fulltrúar, sem aðrir þekkja deili á og skoðunum þeirra, eru í framboði. Tvennt veldur áhyggjum, það er frítt að hafa áhyggjur segir góður maður sem ég þekki og rétt meðan það verður ekki sálfræðinga- eða lyfjadæmi. Ég hef áhyggjur af því að leyft er að auglýsa fyrir allt að 2 milljónir, því fólkið sem ég þekki réttsýnast hefur flest hvert ekki slíka peninga á milli handanna. Ég hef líka áhyggjur af því að þetta endi sem sýndarspil, ekki vegna þess að ég treysti ekki VG heldur koma fleiri flokkar að afgreiðslu þessara mála og þeim er mis-umhugað um réttsýnar breytingar. Varðandi fyrra atriðið þekki ég reyndar fullt af fólki sem ætlar EKKI að kjósa neinn þann fulltrúa sem eyðir peningum í auglýsingar, prinsippatriði. Íhugunarvert!


Stjórnlagaþing, pólitík, Sprengisandur, Smugan og Svipan

Þjóðmálaumræðan er of spennandi til að hægt sé að slíta sig frá henni. Oft hef ég verið komin á fremsta hlunn með að skrifa status á Facebook, nafn á bloggi eða færsluna: Hætt í pólitík og farin að spila golf! En það er hægt að gera hvort tveggja og auk þess er golfkunnáttan rýr. Hins vegar þarf oft að forgangsraða ansi hressilega til þess að geta sinnt öllu, vinnunni (9:30-17:30), heilsunni (golfinu og skvassinu) og fjölskyldunni sinni (sem ekki er hægt að afgreiðan innan sviga).

Ef ofan á þetta bætist pólitískur áhugi, sem útilokað er annað en sækja sér stuttar og hnitmiðaðar upplýsingar og velja þær vel. Eins og ég er nú hrifin af RUV þá er engu að síður þáttur á annarri stöð sem ber af því sem þar er að finna, það er Sprengisandur á sunnudagsmorgnum. Þegar líður á sunnudagsmorgun og ég farin að rumska fálma ég eftir tökkum á útvarpi og renni yfir á þann þátt. Vissulega verð ég stundum öskureið þegar ég heyri fólk vera með gáfulegt bull, því það heyrist þar sem annars staðar, en Sigurjóni er það lagið að fá til sín einkar spennandi fólk í umræðuna.

Smugan er vefmiðill sem ég nýti mér oft og finnst sérlega gott að lesa suma af föstu pennunum þar, ritstýruna Þóru Kristínu, Einar Ólafs, þann góða mann og Ármann Jakobsson, sem virðist sjá fleti á málum sem öðrum tekst ekki og er ég þá eflaust að gleyma einhverju uppáhaldinu mínu.

Þá er það Svipan. Eftir að hafa leitað að almennilegri umfjöllun um þá sem bjóða sig fram til stjórnlagaþings sá ég að Svipufólk er að gera fantagóða hluti í umfjöllun sinni um þingið og frambjóðendurna, betra en aðrir sem ég hef fundið. Í kommentakerfinu er þegar búið að afhjúpa tengsl sem ekki voru gefin upp. Yljaði gamla anarkistahjartanu mínu því ég hef trú á ,,fólkinu" og opinni umræðu. Margt gott á þessum vefmiðli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband