Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Stórkostlegur dagur: Ari mætti með bikar heim, gull fyrir fimmgang, 32 ára trúlofunarafmæli og ýmislegt fleira
19.5.2007 | 19:42
Þetta er búið að vera rosalega góður dagur. Ari fagnaði 32 ára trúlofunarafmælinu okkar með því að vinna gull fyrir fimmgang á íþróttamóti Sóta og fékk líka fimmtu verðlaun í fjórgangi fyrir annan hest. Verðlaunamerin heitir Paradís og hinn heitir Jarpur, svo öllu sé haldið til haga. Þótt ég elti Ara á marga viðburði á vegum hestamannafélagsins þá var ég upptekin í dag og missti af herlegheitunum. Reyndar hef ég þá kenningu að Ara gangi alltaf betur þegar ég er fjarstödd, reynslan hefur sýnt það, en samt kem ég með stundum, það er svo gaman. Í kvöld er einmitt afmæli hjá félögum Ara í hestabransanum þannig að við eigum eftir að fagna frameftir kvöldi.
Við Óli fórum á málþing til heiðurs Oddi Benediktssyni, hittum fullt af skemmtilegu fólki og hlustuðum á rosalega góða fyrirlesara, sem reyndar hittu misvel í mark eftir því sem áhugasviðið var. Við tölvunördarnir skemmtum okkur rosalega vel en þeir sem mættu aðallega vegna þess að þeir eru vinir Odds annars staðar frá eða úr fjölskyldunni skemmtu sér misvel yfir hugbúnaðarfyrirlestrunum, skrýtið! Fín stemmning. Tók líka í mig kjark og lét Ebbu Þóru sem er leiðbeinandi minn í lokaverkefninu fá handritið á því stigi sem það er nú, hef verið að ýta því á undan mér óralengi en fann smá trikk til að gera það, prentaði út eintak og lét hana fá af því ég vissi að ég myndi hitta hana í dag. Það er svo miklu auðveldara að bíða aðeins með að senda uppkastið í tölvupósti, það þarf alltaf að laga það smávegis í viðbót.
Svo hitti ég Grétu, gamla skólasystur úr MR, í Samkaupum, við eigum bráðum stúdentaafmæli en það hefur eitthvað skolast til að boða okkur. Fann samt á vefsíðunni okkar www.mr72.is hvenær þetta stúdentaafmæli á að vera, ætla sko ekki að missa af því! Frábær dagur í alla staði og engan veginn búinn. Nú er bara að rölta út í Vesturtún, mundi auðvitað ekkert eftir afmælinu, þannig að við Óli versluðum vel í matinn í Samkaupum, hann hefur þá alla vega nóg að snæða í kvöld og við öll um helgina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.5.2007 kl. 23:13 | Slóð | Facebook
Afmælismálþing og smá vinna um helgina
19.5.2007 | 00:58
Vinnan mín er þess eðlis að hún kemur í svolitlum skorpum, aðallega fer kúrfan í toppa en minna bólar á léttum dögum, sem er svo sem allt í lagi af því ég er ekkert yfir mig hrifin af iðjuleysi í vinnu. Venjulega reyni ég að hafa vinnuna ekki með mér heim, enum sjö leytið í dag var ég bara orðin of þreytt til að halda áfram svo það er lítil mappa af lljómandi skemmtilegu verkefni í töskunni minni og á það verður kíkt þegar andinn kemur yfir mig. Annars ætla ég á málþing til heiðurs Oddi Benediktssyni prófessor í tölvunarfræði á morgun. Hlakka til, Oddur á brautryðjendastarf að baki í tölvunarfræði á Íslandi og svo var hann ágætur kennari í þeim eina og hálfa kúrsi sem ég tók hjá honum, einkum skemmtilegur í kúrsinum: Gæðastjórnun í hugbúnaðargerð, sem var mjög spennandi. Langaði að vera búin að vinna aðeins meira í lokaverkefninu mínu áður en ég hitti kennarana mína alla, það er svo grátlega lítið sem ég á eftir í að það sé á skemmtilegu stigi. Vona að ég sleppi eitthvað í það um helgina.
Hef ábyggilega sagt eitthvað um það í blogginu fyrir einhverjum vikum að ég tryði á líf eftir kosningar. Ekki hef ég nú beinlínis sýnt það í framkvæmd, upptekin af pólitíkinn þar til kannski í dag. Hef þó rétt lufsast á eitt leikrit og svo hrunið fyrir framan sjónvarpið trekk í trekk og fengið mér rúnt á göngubretti, sem er mikil heilsubót, þótt það sé enn betra að rölta úti við. En kuldaskræfan sem þolir heldur ekki rigningu nema hún sé yfir 17 stiga heit, kann alveg að meta innigöngutúra líka.
Vona sannarlega að sumarið komi þetta árið.
Forsetinn ætlar ekki að boða alla flokksformenn til sín
18.5.2007 | 11:48
Óviðráðanleg þörf fyrir Pollýönnuleik
18.5.2007 | 00:30
Eftir viðburði dagsins er alveg nauðsynlegt að fara í smá Pollýönnuleik. Hann felst í því að sjá björtu hliðina á öllu, líka atburðum síðustu daga, það er eftir kosningar. Veit ekki hvort hálfnafna mín yrði stolt af minni niðurstöðu, en hér er hún:
1. Enginn hefur slasast í pólitískum átökum að undanförnu (svo vitað sér).
Hmmm, ég finn ekkert fleira.
Ótrúlega mikil hægri stjórn á leiðinni?
17.5.2007 | 20:26
Léttir og leiðindi: Mun eigingirni Sjálfstæðismanna ráða för og er það sanngjarnt gagnvart þjóðinni? Hlýðir forsetinn Geir?
17.5.2007 | 15:02
Finn fyrir raunverulegum létti yfir því að núverandi stjórnarsamstarf skuli hafa verið blásið af. Hvort sem það var raunsæi Framsóknarmanna eða áhugaleysi Sjálfstæðismanna sem réð för, forvitnilegt að vita hvort eitthvað lekur út um það.
Þá eru það leiðindin. Geir tók af skarið strax í dag að hann ætlaði að tala við Samfylkinguna (forsetinn þarf þó væntanlega að samþykkja það, Geir! Það var alveg óþarfi að hnýta í hann í leiðinni með því að segja að hann ætti að hlýða þér og vinna vinnuna sína - sem þú sagðir óbeint). Fylgi hugur máli, sem ætla má, þá getur stefnt í langa og leiðinlega stjórn (það sagði ég líka þegar Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn tókum höndum saman fyrir 12 árum og hafði því miður rétt fyrir mér). Mér finnst það ákveðin eigingirni hjá Sjálfstæðismönnum að ætla að túlka úrslit kosniganna sem svo að þeim beri að mynda stjórn sem er þægilegust fyrir Sjálfstæðismenn. Því það er ástæðan sem Geir gaf upp: Styttra milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en milli Sjálfstæðisflokks og VG.
Ég get bara alls ekki túlkað kosningurslitin þannig að þær snerust um að velja þægilegasta samstarfsflokkinn fyrir Sjallana. Það var kannski hægt að réttlæta að fyrst stjórnin hélt velli væri tilefni til að ræða áframhaldandi samstarf. Ótvíræður sigurvegari kosninganna var VG, Sjálfstæðisflokkur var rétt að lappa upp á ástandið eftir stórtap fyrir fjórum árum. Samt ætla Sjálfstæðismenn að tala við Samfylkinguna, ef forsetinn veitir Geir stjórnarmyndunarumboðið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:23 | Slóð | Facebook
Skúbb RÚV - Framsókn á fundi
17.5.2007 | 12:28
Fyrst ekkert er að frétta (á yfirborðinu alla vega) af stjórnarmyndunarviðræðunum, þá er alveg nauðsynlegt að tala um veðrið aðeins. Eftir himneskan sumardag á Akureyri, þegar ég skrapp til að fagna með Málmfríði vinkonu minni, þá hef ég ekki haft neitt óskaplega mikla vortilfinningu. 20 stigin fyrir norðan breyttust í frost og snjókomu á svipstundu en ég var flogin suður áður en til þess kom.
Mig langar svo óskaplega til að fá sumar, sól, logn og hlýju, helst um allt land, í sumar. Til vara alla vega hér á þéttbýlasta horninu, þar sem flestir geta notið þess. Nú er rétt búið að aflýsa ísöld hér á norðurhveli, í kjölfar gróðurhúsaáhrifanna, þannig að við þurfum ekki að selja húsin og finna fjallstind á Kanarí (út af hækkun sjávarstöðu) til að þrauka til æviloka. Nóg eru áhrifin samt og þótt þessum ragnarökum hafi verið aflýst í bili, þá þýðir auðvitað ekkert að taka úðabrúsana og úða út í loftið eða grípa til annarrar ábyrgðarlausrar hegðunar.
Mig langar í betri almenningssamgöngur, helst rafmagnslestir, hef aldrei skilið þetta lestaleysi hér á landi, þetta er skemmtilegasti ferðamáti sem um getur, minni bið en í flugi, hraði, þægindi og furðu mikið öryggi. Sé fyrir mér leiðina Vatnsmýri - Kársnes (um göng) - Gálgahraun (um göng) - Hafnarfjörður - Vogar - Bláa lónið (hverjir eru bíllausir á Íslandi?- túristar!) - Keflavíkurflugvöllur. Alveg hugfangin af hugmyndinni. Þyrfti bara að taka tengivagn í 2-3 km (eða rölta út í hraun á góðum sumardegi) og þá væri ég komin í miðbæinn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.5.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook
Heitar tilfinningar og mögulegt stjórnarsamstarf
16.5.2007 | 02:07
Kvennalistanum var legið á hálsi á sínum tíma fyrir að fara ekki í ríkisstjórn þegar færi gafst, jafnvel þótt ljóst væri að aldrei stæði til að samtökin fengju að komast til nokkurra áhrifa í þeim ríkisstjórnum sem sóttust eftir að starfa með þeim. Heilshugar studdi ég þessar erfiðu ákvarðanir og tel að engar forsendur hafi verið fyrir því fyrir Kvennalistann að fara í ríkisstjórn, því miður. Þá var talað um að (Kvennalista)konur væru aldrei tilbúnar að axla ábyrgð. Bæði fyrr og síðar fóru þó Kvennalistakonur í meirihluta í stærstu bæjarfélögum landsins, fyrst á Akureyri og síðan í Reykjavík, innan Reykjavíkurlistans, og þá með nógu miklu trukki til að hafa raunveruleg áhrif. Mér er sérstaklega minnisstætt að ein svo óskaplega sanngjörn krafa var sett fram sem forsenda fyrir stjórnarþátttöku Kvennalistans: Raunverulegar aðgerðir til að minnka (og smátt og smátt eyða) kynbundnum launamun. Viðbrögðin sem Kvennalistakonur fengu voru: Stelpur, þið megið ekki vera svona ósveigjanlegar! Ekki einu sinni tilboð um hvernig stíga mætti einhver skref í þessa átt, bara tilboð um að finna þessum málum farveg innan einhvers ráðuneytisins.
Nú er sú staða komin upp að ef Vinstri græn fara í ríkisstjórn (og þar sé ég eins og sakir standa ekki annan kost en DV stjórnina og hef fært fyrir því rök) þá væri hreyfingin í allt annarri aðstöðu en Kvennalistinn var á sínum tíma. Helsti munurinn, og sá sem mestu máli skiptir, er að VG færi í stjórn á þeim forsendum að geta haft veruleg áhrif í stjórnarsamstarfi. Annar munur er að eins og pólitísk staða er núna þá getur þurft að hugsa fyrir því að afstýra annarri og verri ríkisstjórn í leiðinni, tveir aðrir ríkisstjórnarkostir eru uppi á borðinu, annars vel raunhæfur, en báðir þessir kostir eru að mínu mati svo varasamir að ekki er hægt að láta þá yfir sig ganga án þess að reyna að spyrna við fótum. Þar er ég að tala um möguleika á stórfelldu bakslagi hvað varðar hag sjúklinga og annarra sem eiga undir högg að sækja, með einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sem myndi skila okkur dýrara kerfi, bæði fyrir þjóðarbúið og sjúklingana. Ennfremur möguleika á áframhaldandi og jafnvel vaxandi stóriðjustefnu. Hins vegar skil ég óskaplega vel þá sem segja, VG má ALDREI gera þetta eða hitt, aðallega aldrei fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Gengið er út frá því að ekki sé mögulegt að fara í slíkt stjórnarsamstarf nema að sæta einhverjum afarkostum. Ég veit ekki um neinn innan Vinstri grænna sem býst við slíkum tilboðum eða væri reiðubúinn að taka þeim.
Æi, kæru landar og löndur sem ekki tóku afstöðu gegn áframhaldandi stjórnarmeirihluta. Hvað lífið væri miklu auðveldara ef stjórnin hefði nú bara fallið. En væntalega skýrist málið, ekki endilega fljótlega, þótt það sé trú mín að svo verði.
Tókum að okkur að flýta fyrir og skipta ráðuneytum milli flokka (DV)
15.5.2007 | 23:16
Við mæðgurnar tókum að okkur að flýta aðeins fyrir og skipta ráðuneytum milli Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Hér er listinn - þetta er ekki óskalisti heldur raunsæ tillaga. Tókum mið af því að Geir hefur sagt að flokkur hans vildi gjarnan fá heilbrigðisráðuneytið og Steingrímur J. hefur lýst áhuga á fjármálaráðuneytinu.
1. Forsætisráðuneytið - D
2. Fjármálaráðuneytið - V
3. Utanríkisráðuneytið - D
4. Innanríkisráðuneytið - V
Hér er þörf á skýringu. Við teljum að ýmis hlutverk núverandi dómsmálaráðuneytis, forsætisráðuneytis og mögulega annarra ráðuneyta séu í raun málefni innanríkisráðuneytis. Einkum á það við um dómsmálaráðuneytið sem er að vasast í mörgum samræmingarmálum stjórnsýslunnar. Dómsmálaráðuneyti á að einbeita sér að dómsmálum. Undir þetta ráðuneyti ætti m.a. að falla veiting ríkisborgararéttar, kirkjumál (ef þau verða enn á hendi ríkisins) og þau hlutverk sem við höfum á hendi eftir blessunarlega brottför hersins.
5. Heilbrigðisráðuneyti - D
6. Félagsmálaráðuneyti - V
7. Viðskiptaráðuneyti - D
8. Atvinnumálaráðuneyti - V
Hér þarf enn að gefa skýringu: Landbúnaður og sjávarútvegur og fljotlega komi iðnaður með þegar endurskoðun ráðuneyta er lengra komin (ekki undanskilinn eins og mögulega mátti túlka Þorgerði Katrínu).
9. Samgönguráðuneyti - D
10. Umhverfisráðuneyti - V
11. Iðnaðarráðuneyti - D
12. Menntamálaráðuneyti - V