Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Loðinn og afdráttarlaus - er það málefnasamningur ríkisstjórnarinnar?

Þegar er farið að deila hart um hvað felist í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar (Matthildingar (Daðvíð Oddsson, Hrafn Gunnlaugsson og Þórarinn Eldjárn) kölluðu þetta fyrirbæri reyndar málamyndasamsetning, á meðan sá frægi útvarpsþáttur ,,Beint útvarp frá Matthildi" var við lýði).

Sem sagt, var verið að afstýra Norðlingaölduvirkjun eða ekki? Ekki, segir Landsvirkjun.

Óbreyttur hraði á stóriðjuframkvæmdum eða ekki? Allir spyrja í kross og enginn veit neitt.

Kristján Rétursson hefur fjallað nokkuð um orðfærið á plagginu: Stefnt skal að ... og allt þetta loðna orðalag sem einhvern tíma hefði verið kallað ,,loðið og afdráttarlaust"

Ég veit að ég á eftir að grafa mig í þessi orð og reyna að skilja þau, og fylgjast svo með hvernig verk ríkisstjórnarinnar þróast. En í augnablikinu finnst mér þetta allt saman frekar og finnst tilhugsunin um kalda en sólríka hvítasunnu fulla af framkvæmdum og vonandi smá hvíld líka vera fýsilegri. 

 


Hvað á að gera um hvítasunnuna?

Blogga um nýju ríkisstjórnina? Flota gólfið á efri hæðinni? Glápa á sjónvarpið? Fara upp í sumarbústað? Slappa af? Vinna í lokaverkefninu sínu? Alla vega get ég svarað fyrir mig, ég ætla að reyna að gera þetta allt, en ekki allt í einu þó. Ég veit að þetta er ekki svooooo löng helgi, en mér er sama, ætla samt að reyna það. Ég vitna stundum í spakmælið: Ef þú ert í vafa, gerðu hvort tveggja! sem með hæfilegri aðlögun gæti hljómað þannig: Ef þú ert í vafa, gerðu allt!

Opnun eða ekki opnun á umræðu um ESB aðild?

Geir las Evrópusambandskafla málefnasamnings nýju ríkisstjórnarinnar og ég gat ekki heyrt að verið væri að opna á umræðu um ESB aðild. Athugasemdir Ingibjargar Sólrúnar gáfu heldur ekki tilefni til að telja að svo sé. Hins vegar var annað gefið í skyn í gærkvöldi, annað hvort eru fréttir misvísandi eða eitthvað sem ekki sést í málefnasamningnum verið rætt. Við fylgjumst spennt með. Annars verður heilmikil stúdía að leggjast yfir þetta skjal, en það gerir maður ekki fyrr en í kvöld.


Draumurinn var réttur en ráðningin röng - síður en svo nein draumastjórn.

Sagði frá því á blogginu að mig dreymdi Ingibjörgu Sólrúnu rétt fyrir kosningar (sem kemur ekki oft fyrir). Var að vona að það yrði fyrir vinstri stjórn. Draumurinn var réttur, en mér sýnist að draumar hennar hafi leitt hana annað. Leitt. 

Þetta er sannarlega ekki draumarstjórn. Og af hverju í ósköpunum dreymdi Samfylkinguna um að efna frekar til frjálshyggjustjórnar en þeirrar vinstri stjórnar sem hún hlaut kosningu út á? Svarið fáum við væntanlega í málefnasamningnum í fyrramálið, hálfgerð martröð að bíða eftir því hvort hann inniheldur 1 stk ESB, nokkur álver, einkarekna heilbrigðisþjónustu eða eitthvað annað, sumt frekar hrollvekjandi? Mig dreymir enn um annars konar niðurstöðu, jafnvel í anda martraðar ritara Reykjavíkurbréfsins á sunnudaginn var.


Ekkert viss um að ég hlakki lengur til að sjá málefnasamninginn ...

Fyrst vil ég óska Samfylkingunni til hamingju með jafnræði kynjanna í ráðherraliðinu. En ég hef áhyggjur af ummælum Ingibjargar Sólrúnar varðandi Evrópumálin, áhyggjur af því að hún segir að Samfylkingin ætli að halda Evrópumálunum á lofti. Varaði við því um daginn að ríkisstjórn sem setti Evrópusambandsaðild á dagskrá gæti verið í uppsiglingu, og þegar tilvonandi utanríkisráðherra lætur þessi ummæli falla þá er full ástæða til að hafa áhyggjur af innihaldi málefnasamningsins, það er að segja fyrir okkur sem viljum vera utan skrifræðis ESB og erum á móti því að tapa forsjá yfir auðlindum á borð við fiskimið okkar.
mbl.is Ingibjörg: Evrópumálum verður haldið á lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnishorn af tegundinni - heil kona í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins!

Ég hélt það væri liðin tíð að einni konu væri stillt upp í hópi karla og það þætti duga. Greinilega ekki í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins! Varla að maður trúi þessu, konurnar eru greinilega mjög reiðar en vel tamdar, illu heilli. Nú langar mig að sjá Ástu Möller öskra og Guðfinnu stappa í gólfið.

Veðmál á síðasta snúningi en málefnasamningurinn forvitnilegri

Nú er allt að springa úr spenningi í veðmálum út um allt land um ráðherra skipan. Vissulega er ég búin að setja niður minn lista, ekki óskalista heldur líklegan ráðherralista, veit um eina villu í honum, þannig að ég vinn engin velmál, enda engin í gangi. 

Málefnasamningurinn er mun forvitnilegri, einkum stóriðjan og Evrópusambandsmálin. Fylgist spennt með fréttunum og aukafréttatímnunum. 


Kúnstpáska eða fyrirstaða

Veit ekki hvort ég á að túlka hlé sem gert var í dag á stjórnarmyndunarviðræðum sem kúnstpásu eða að rekist hefur verið í einhverja fyrirstöðu. Spurning hvort vangaveltur fjölmiðla um hver fyrirstaðan sé séu réttar. Hef lýst áhyggjum mínum út af Evrópusambandsmálunum og vona sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér um það að þar sé brotpunkturinn sem Samfylkingin ætlar að ná fram. Hef samt enga trú á að uppúr slitni.

Uppákoman með Jón Sigurðsson (eru fjölmiðlar að reyna að knýja hann í afsögn) eru líka merkileg. Ekki óvitlaus tilgáta, en hálf hallærislegt að leyfa manninum ekki að bíða með að tilkynna þetta, eða yfir höfuð að fá að ráða þessu sjálfur, ef hann ætlar að sitja áfram.


Fálæti út af Flateyri og hvað er framundan?

Mér finnst merkilegt fálæti út af ástandinu á Flateyri. Kvennalistinn vildi á sínum tíma byggðakvóta og ég er alltaf að sjá betur og betur hvað það er góð hugmynd. Framsalshugmyndin var trúarbrögð á þeim tíma í nafni þess að auka hagræði í greininni, en ég sé ekki vitundarögn þjóðhagslegt hagræði í að knýja fólk til fólksflutninga og þeytings á eftir kvótanum landsenda á milli. Eykur hagvöxtinn, rétt eins og ýmis óáran svo sem vont tíðarfar, en það er vegna þess að hagvöxtur er svo vitlaus mældur. Þjóðir sem hafa reynt að mæla grænan hagvöxt og hagvöxt út frá lífsgæðum og fleiri breytum sem nú eru utan við helkalda hagvaxtarútreikninga, hafa sannarlega unnið brautryðjendastarf, en nokkuð langt er síðan ég hætti að fylgjast nógu grannt með þeim málum. Grunar samt að ég hafi séð enduróm í Draumalandinu hans Andra Snæs. En vinkona mín sem dæsti og skírði stjórina sem virðist vera að fæðast stjórn stóriðju og ESB má alveg bæta við: Og fólksflótta vegna kvótaframsals ...

Núna kallar Jón Bjarnason á að þingmenn kjördæmisins komi saman og ræði ástandið en mætir alveg ótrúlegu tómlæti. Ég ætla rétt að vona að menn fari að vakna til lífsins og taka á alvöru viðfangsefnum og missi sig ekki í eintómt stólakarp.


Varúð - Evrópusambandsstjórn í uppsiglingu

Miklar vangaveltur eru upp á hvaða býti Samfylkingn fer í stjórn. Flestir sem ég hef heyrt í telja að nú fái hægri öflin í Samfylkingunni byr undir báða vængi, en það er þá líka þvert á þá stefnu sem Samfylkingin fékk fylgi sitt út á í kosningunum, velferðarmálin og miklar vinstri áherslur. Held ekki að velferðarmálin muni koma sterk út úr þessari ríkisstjórn, hins vegar verður eflaust eitthvað gefið í skyn í málefnasáttmála, sem ekki mun leiða til efnda. Það sem ég held að verði stóra málið sem Samfylkingin nær fram séu aðildarviðræður við Evrópusambandið. Allt í einu heyrir maður undarlegar yfirlýsingar frá Sjálfstæðismönnum, Kristjáni Júl. í Silfri Egils og Einar Oddur í BB. Mjög ógnvekjandi. Svo óttast ég um hag landbúnaðar og sjávarútvegs á Íslandi og er frekar sannfærð um að ekkert verði af stóriðjustoppi.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband