Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hrun, hryðjuverk og eldgos ekkert til að grínast með, en smá mistök um daginn á mbl.is urðu til þess að ég stóðst ekki mátið

Þessi bloggfærsla fór aldrei í loftið þegar ég skrifaði hana fyrir líklega þremur vikum, en ég held ég standist það ekki að setja hana inn núna. Einkum í ljósi nýjustu tíðinda.

Ég veit að hrunið, hryðjuverk og eldgos eru ekkert til að grínast með, en mbl.is í dag gerir það erfitt að standast það. Það er ekki nóg með að Bretar hafi skilgreint hrunið sem hryðjuverk (svona lauslega túlkað) heldur eru Bandaríkjamenn (eða S.Þ.) farnir að skilgreina eldgosaeyju á svipaðan hátt og með einkennilegum hætti, eldgos á frímerki = löggan kölluð út ... sjá skjáskot, þar sem hætt er við að þetta verði leiðrétt á mbl.is innan skamms.

surts.jpg


Anna.vg - án pólitíkur og annar vefur með aðeins meiri

Farin að vinna í að uppfæra vefsíðuna mína, anna.vg, sem hefur verið í henglum undanfarin ár. Kveikjan að þessu framtaki var reyndar gerð annarrar vefsíðu, villikettir.is sem er mun pólitískari, en hefur ekki verið formlega hleypt af stokkunum, enda ekki fullráðið hvernig hún verður nýtt. En velkomið að skoða báðar síðurnar.

VG á hundrað vegu

Við vinstri græn erum fjölbreyttur hópur og þótt flestar hugsjónir okkar fari saman, þá greinir okkur á um áherslur, aðalatriði og aðferðir. Brotthvarf þriggja þingmanna VG úr þingflokkinum og ályktanir svæðisfélaga í kjölfarið hafa leitt fjölmiðla út á þá braut að bregða upp einsleitri mynd af stöðunni innan flokksins. Annars vegar er þessi órólega deild og hins vegar órofa samsamstæður hópur sem eftir stendur. Þannig er það ekki. Mörg einlæg vinstri græn, meðal annars formenn margra svæðisfélaga, hafa hrökklast úr flokknum og jafnvel með rógmælgi á bakinu. Og því fer fjarri að þær ályktanir svæðisfélaga sem rata í fjölmiðla og sneiða að þeim Atla og Ásmundi, hafi verið samþykktar einróma. Hvað kjósendur VG varðar þá eru þeir ekki síður fjölbreyttur hópur en virkustu flokksfélagar. Set þetta fram til umhugsunar. Það eru ekki allir viðhlæjendur vinir.

Góður sigur Álftnesinga eftir jafnan en spennandi leik í Útsvari

Spennandi og skemmtilega jafn leikur í Útsvari í kvöld sem endaði með góðum sigri Álftaness. Enn sætari sigur þar sem andstæðingarnir voru bæði sprettharðir, fróðir og jafn góðir í leikarahlutverkinu (og giski) og Álftanesliðið. Óska báðum liðunum til hamingju með frammistöðuna og okkar liði með sigurinn.

Þótt máttur auglýsinganna sé mikill og mjög hafi hallað á blanka Álftanesið í þeim hvatningaleik sem útvarpsauglýsingar eru orðnar í sveitarfélagaslagnum, þá eru það á endanum liðin sem þetta stendur allt og fellur með. Það má hins vegar hugga sig við að Ríkisútvarpið ohf. fær vænan skilding í kassann í þessu auglýsingaflóði. Vonandi verður því fé vel varið :-) mér skilst að útvarpið sé enn blankara en Álftanesið góða.


ÓSKA LIÐI ÁLFTANESS GÓÐS GENGIS Í ÚTSVARI Í KVÖLD

Ef hægt væri að kaupa sér sigur í Útsvari þá myndi Fjarðarbyggð sigra Álftanes í kvöld. En þannig er það ekki. Þótt ótal auglýsingar hljómi í útvarpi til að hvetja lið ríkari byggðarinnar (allir vita um blankheit Álftaness, svo það er hitt byggðarlagið), þá endar þetta alltaf með liðunum sem keppa. Ég nota þetta tækifæri til þess að óska liði Álftaness góðs gengis í kvöld.

220px-churchill_v_sign_hu_55521.jpg


Ef við hlýðum ekki ...

Við fáum sífellt skýr skilaboð frá ESB að okkur sé ætlað að hlýða boðskap bandalagsins í einu og öllu. Auðvitað svolítið fyndið að niðurstaða gagnstæðra fylkinga, ESB-andstæðinga á alþingi og ESB-valdamanna skuli vera sú sama.  Forvitnilegt verður síðan að fylgjast með því hver viðbrögð ESB-sinna í hópi stjórnarmeirihlutans á Íslandi verða.

 


mbl.is Styður frestun aðildarviðræðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til varnar heiðarlegum heimilisköttum

Ég get ekki lengur orða bundist yfir þeim ranghugmyndum sem hafa heyrst að undanförnu um heiðarlega heimilisketti. Í framhalda af umræðunni um að köttum verði ekki smalað hefur köttum að ósekju verið skipt upp í værðarlega heimilisketti annars vegar og villiketti hins vegar og það gefið í skyn að heimilisköttum sé hægt að smala.

Þetta lýsir miklu þekkingarleysi á heimilisköttum. Allir sem til þeirra þekkja vita að þeim er ekki hægt að smala. Það er hægt að laða þá að sér með ljúfu viðmóti og þá á þeirra forsendum og með því að ganga að ákveðnum kröfum þeirra. Ég hef mikla reynslu af samskiptum við heimilisketti og hef aldrei séð þeim smalað, ekki einu sinni tveimur í hóp, hvað þá fleirum. Um villiketti þarf ekki að fjölyrða, flestir eru þeir hvekktir af samskiptum við menn sem hafa sýnt þeim illt viðmót og það þarf mikið til að vinna traust þeirra, en það er stundum hægt, sé vilji og þolinmæði til staðar. 

Hitt er svo annað að til eru hjarðdýr, helst veit ég af sauðfé og einhverjir hópar fólks fylgja líka sínum forystusauðum hvort sem það er hyggilegt eður ei. 

Og er þá leiðréttingu komið á framfæri. 

CIMG3002


Æ, æ stjórnlagaþing ...

Mér hefur verið frekar hlýtt til þessa stjórnlagaþings sem ég hélt að væri í uppsiglingu, og trúi enn að verði haldið. Hins vegar er úrskurður hæstaréttar nauðsynlegt aðhald, það dugar auðvitað ekki að halda ólöglegar kosningar undir nokkrum kringumstæðum. En ég vona sannarlega að þessi úrskurður verði engum átylla til að blása þingið af, bara vandið ykkur næst.

Ný könnun um orð ársins 2011

Nýtt ár er gengið í garð og því rétt að skipta út könnunum hér á síðunni. Í fyrra fannst lesendur þessa bloggs eldgosin helst teljast til tíðinda, 52% og 35% fannst ,,Skýrslan" merkilegust. Aðrir valkostir voru varla á blaði, meira að segja veðrið á þessu merkilega veðurári fékk ekki nema tæp 6%. Mig langar að vita hvað fólk telur að verði orð ársins sem nú er hafið. Gaf nokkra valkosti og vona að þeir dugi.

Ég ætla svo sannarlega að vona að þetta verði gleðilegt ár ...

Óska mínum góðu bloggvinum gleðilegs árs og vona að þetta verði þeim öllum gott og gleðilegt ár. Því er ekki að neita að ég horfi fram á árið með blendnum tilfinningum. Þó hef ég hamast eins og ég get að reyna að hafa smá áhrif (helst vildi ég að áhrif sem allra flestra stýrðu ferð) á það hvert við stefnum á þeim vettvangi sem ég þekki skást, í ræðu og riti á pólitískum vettvangi og í samskiptamiðlum. Hef ekki gefið mér tíma í of mikið blogg, í hvert sinn verður að forgangsraða. Jafn ósátt nú sem fyrr með vegferð stjórnvalda í ESB-málum og skil ekki alveg þá fórn, ekki nú frekar en þegar til hennar var efnt. Vonir mínar um gott stjórnlagaþing eru líka blendnar, en ég vona einlæglega að það skili góðum tillögum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband