Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skundum á Austurvöll (og treystum vor heit)

Fékk fráhvarseinkenni þegar ég komst ekki á Austurvöll seinasta laugardag, tala nú ekki um þegar ég missti af þrumuræðu Katrínar frænku minnar, sem hefur vakið þennan mikla úlfaþyt. Hef reyndar bæði heyrt hana í fjölmiðlum og á netinu, blessunarlega. En nú skal skunda á Austurvöll og treysta heitin með öllu þessu fólki sem er að mótmæla á mjög mismunandi forsendum vissulega, en þó í góðri einingu. Þá er það bara lopapeysan, húfan og ullarsokkarnir. Myndirnar eru frá fyrri mótmælum.CIMG4045

CIMG4047

 

 

 

 

 

CIMG4046CIMG4044


Krónan í kút (ekki sett á flot heldur í björgunarhring) - og ítrekun á því að fleiri kosta sé völ

Það hefur verið logið að okkur, viljandi, óviljandi, óvitandi og óforskammað, allt í bland og ekki sama fólk sem á í hlut í öllum tilvikum. Í fyrsta lagi virðist ekki eina lausnin nú að setja krónuna á flot, í öðru lagi þá eru alls konar tengingar (einu sinni var til SDR) til og í þriðja lagi er evran ekki innan seilingar en ýmiss konar tengingar við hana, annan gjaldmiðil eða myntkörfur eru vel mögulegar. Vonandi er búið að koma okkur í gegnum þessa áfallastjórnun (stjórnun með áföllum - samasem stýring með ótta).

Áfallastjórnun: Stjórnað með áföllum

Það fer ekki á milli mála að þessi þjóð, sem er seinþreytt til vandræða, er á suðupunkti. Áföll eru að dynja á fjölskyldum og fyrirtækjum og samstaða fólks er mikil. Hins vantar talsvert upp á að fá að vita hvort og hvernig ríkisstjórnin ætlar að styðja og styrkja fjölskyldur og fyrirtæki. Það liggur á. Vissulega var öflun lána tímafrek og niðurstaðan umdeild. En engu að síður þá má ekki bíða eitt andatak lengur eftir að fá að vita hvernig á að glíma við vandann. Aðeins fátt eitt hefur verið nefnt og fátt fast í hendi. Bind helst vonir við Jóhönnu Sigurðardóttur, bæði vegna þess málaflokks sem hún vinnur fyrir, og vegna reynslu hennar í störfum sínum og góðra verka fyrr. Núna óttast ég að hún fái ekki stuðning samherjanna vegna þess að hún neitar að skera niður um 10% í ráðuneyti sínu, hvernig á hún eiginlega að geta það? Félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið munu ekki geta skorðið niður! Hins vegar var flott af Ingibjörgu Sólrúnu að vera búin að skera niður í utanríkisráðuneytinu tvöfalt það sem beðið var um. Það er ekki hægt að setja á ,,flatan" niðurskurð milli ráðuneyta, skynsemi verður hér að ráða ferð.

Það sem ég óttast núna er eftirfarandi:

Sundurþykkja innan og milli stjórnarflokkanna hafa tafið hrikalega og gera stjórnina líklega óstarfhæfa.

Í ljósi þess er alvarlegt mál ef rétt er að aðstoð IMF - hversu umdeilanleg sem hún er, þá er hún eina hálmstráðið í bili - sé háð því að ríkisstjórnin lafi.

Það er slæmt að áfallastjórnunin sem er í gangi virðist helst felast í því að eitt áfall á dag haldi skrílnum í skefjum. Sem eitt lítið eintak í skrílnum þá bregður mér vissulega við hvert eitt áfall, en læt ekki kúga mig til hlýðni, frekar en flestir aðrir landsmenn.

Dregist hefur úr hömlu að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að reyna að láta þá borga sem hafa valdið mestu um hvernig komið er - útrásar,,víkingana" og hvort sem um er að kenna meðvirkni stjórnvalda eða andvaraleysi, þá má ekki við svo búið standa mikið lengur.

Krónan er á leið á flot. Eflaust er það ekki ,,hollt" fyrir okkur að fá að vita hvenær og hvernig. Nei, það dugar að láta okkur borga brúsann.


Borgarafundur sem fer vel af stað ...

Flott að horfa á borgarafundinn í sjónvarpinu, Þorvaldur Gylfason fór á kostum, var fyrirfram svolítið hrædd við að hann væri myndi bara tala fyrir hönd sumra, það er ESB-sinna, en það var öðru nær, glæsileg ræða! Vildi gjarnan að ég hefði komist, en skárra en ekkert að þessum fundi skuli vera sjónvarpað. Það er athyglisvert að nú eru þingmenn og ráðherrar farnir að mæta nokkuð vel á fundinn og rökrétt framhald af þeim framboðsræðnabrag sem mér fannst á vantraustsumræðunni í dag (að því leyti sem ég hafði tök á að hlusta á hana).

Silja Bára byrjar líka vel, stemmningin greinilega flott, ef þetta eru ekki skilaboð þá veit ég ekki hvað? Sneisafullt, þannig að það kemur ekki að sök að ég kemst ekki ;-) í þetta sinn.


Mikið af framboðsræðum, ekki síst stjórnarsinna, í vantraustsumræðunum í dag

Mér fannst ótrúlga mikið af framboðsræðum, ekki síst úr röðum stjórnarsinna, í vantraustsumræðunum í dag. Geir var að vísu ekki á þeim buxunum en býsna margir aðrir, bæði flokkssystkini hans og Samfylkingarfólk. Einnig gætti þessa meðal stjórnarandstæðinga, sem er enn skiljanlegra, þar sem þeir voru að biðja um stjórnarslit og kosningar.

Og er Kristinn að leita að nýjum flokki? Náði ekki greinargerð hans.


Það er þjóðin sem vill kosningar í vor - þess vegna er verið að ræða vantraust á ríkisstjórnina

Vantrauststillagan sem verið er að ræða á alþingi núna er ekki síst andsvar við stigvaxandi þunga í kröfunni um kosningar í vor. Snemma í vor, líklegast. Því miður er þessi krafa komin til vegna þessa að ekki er að sjá að ríkisstjórnin valdi þessu mikilverðasta verkefni nokkurrar stjórnar í seinni tíð, vegna innbyrðis sundurþykkju, persónulegri og pólitískri, innan flokka og milli flokka. Þess vegna verður þessi krafa sífellt háværari, fundirnir á laugardögum og aðrir fundir sífellt fjölmennari, hitinn í umræðunni og aðgerðunum sífellt meiri. Við svo búið er ekki endalaust hægt að láta standa. Ég er ánægð með málflutning þingmanna Vinstri grænna, og ekkert undrandi á því, eins fannst mér ræða Höskulds nokkuð góð og margir sprettir annarra stjórnarandstöðuþingmanna góðir. Jóhanna Sigurðardóttir er sú stjórnarsinna sem mér fannst eiga bestu sprettina og efast ekki um að hún vill grípa til góðra aðgerða, en það var athylgisvert að hún tók svo til orða að þetta væri EF stjórnarflokkarnir næðu saman um ákveðnar aðgerðir.

Mér finnst hart að það skuli þurfa aðgerðarlitla og sundurlynda ríkisstjórn og kosningar framundan (sem mér finnst líklegt að verði hvort sem þessi tillaga verður felld eða ekki) til þess að hjól atvinnulífsins fari að snúast aftur, ekki besta leiðin en kannski sú eina til að eitthvað raunverulegt verði gert til þess að sporna við aðgerðarleysi og evru-sjálfsblekkingin verði slegin út af borðinu, því ég hef trú á að það muni gerast og leitað verði raunhæfari leiða til að endurreisa gjaldeyriskerfi okkar.


Mergjuð ummæli Ólafs Gunnarssonar rithöfundar um aðild Íslands að Evrópusambandinu

Ólafur Gunnarsson rithöfundur er í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Það er út af fyrir sig gleðiefni. Og ég hlakka rosalega til þess að lesa Dimmu rósirnar hans. En það sem einkum vakti athygli mína í þessu viðtali eru ummæli Ólafs um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þau eru á þessa leið:

,,Ég er opinn fyrir öllum kúltúráhrifum. En ég er samt skíthræddur við Evrópusambandið. Eins og stendur í Egilssögu: Konungsgarður er víður inngöngu en þröngur útgöngu. Var það ekki í fréttum í vikunni að Evrópusambandið hygðist engar tilslakanir gera vegna fiskimiðanna? Vilja Íslendingar missa sjálfstæðið? Einhver fugl stakk upp á því að við ættum að breyta stefnu sambandsins hvað varðar þessi mál þegar við værum gengin í það. Hver vitiborinn maður hlýtur að sjá að þetta er brjálsemi; svipuð heimspeki eins og að segja að gott væri að komast í helvíti vegna þess að maður gæti haft svo góð áhrif á djöfulinn."


Kaldhæðnislegt - og samt ekki Megasi að kenna (alla vega ekki beint)

Var að hlusta á Rás 2 (Lögin við vinnuna ;-) núna áðan þegar Megas brast á með eitt af sínum bestu lögum. Nema ég fór í sakleysi mínu að fletta laginu upp á YouTube og fann það, mikið rétt, en í alveg ótrúlega kaldhæðislegu samhengi. Njótið vel og tékkið á allri íróníunni út í gegn.

 


Lán eða lánleysi

Það er áhugavert að heyra stjórnarsinna kalla á kosningar og segir ekki annað en að viðkomandi telji að stjórnvöld hafi klúðrað málum, væntanlega meðal annars þeim lánum sem nú er verið að taka með verulegt lánleysi í farteskinu. Það má ekki gleyma því sem okkur er hótað að sé framundan: Krónan lækki enn í verði, stýrvextir fari enn hærra. Ef við erum bundin á klafa ákvarðanatöku sem ekki er okkur í hag fer svona. Hér eru þrjú óheillaskref, lánleysið okkar:

1. Bankaútþenslan var í krafti regluverks sem hentaði okkur ekki, þar sem við máttum ekki stöðva bankana okkar í að þenjast allt of mikið út erlendis samkvæmt regluverki ESB gegnum EES. Sama hvaða úrræði aðrar þjóðir kunna að hafa fundið, þess hefur jafnan verið vandlega gætt að við spilum eftir leikreglunum sem stóru þjóðirnar setja, þótt þær fari ekki alltaf eftir þeim sjálfar.

2. Skilyrði IMF (þótt þau komi ekki upp á yfirborðið nema í orðalaginu: sameiginlegur skilningur) fyrir stóra láninu eru þess valdandi að krónan mun væntanlega falla enn meira og stýrvextir hækka og hverjir gjalda þess mest: Auðvitað fjölskyldurnar í landinu, sem flestar eru æði skuldsettar, illu heilli.

3. Ef við færum i Evrópusambandið myndum við ekki fá undnanþágur í sjávarútvegsmálum við inngöngu, í mesta lagi eitthvað óverulegt. Við erum hugguð með því að í staðinn ættum við að reyna að hafa áhrif innan frá, en erum við ekki nýbúin að fá skýr skilaboð um það hverjir ráða ferðinninn innan ESB? Stóru þjóðirnar. Við uppfyllum ekki skilyrði myndbandalagsins þannig að Evruupptaka er einhvern framtíðartónlist, ef við færum inn, og ef það þætti þá eitthvert vit í því.

Skyldu Samfylkingarráðherrarnir sem vilja kosningar til þess að hjól atvinnulífsins færu að snúast, í krafti kosningaloforða? 

 


Ekki bara krónan sem fer á flot ...

Flestir komnir með hnút í magann af því krónan er að fara á flot. Því er spáð að verðgildi hennar rýrni enn um sinn, mikið eða lítið. En enginn veit það samt, ekki vitundarögn. Hnúturinn sem okkar mál eru komin í (hann er svolítið stærri en þessi í maganum), hvort sem lánsumsóknin hjá IMF verður tekin fyrir á morgun eða ekki (eitt plan, ef sú er raunin, er ekki gott, hvorki við þessar aðstðður eða aðrar) - með þeim afleiðingum sem það kann að hafa á framtíð blessaðrar þjóðarinnar okkar. Eins og venjulega hófst dagurinn á heldur nöturlegum fréttum, í þetta sinn sá Davíð um skammtinn. Nú þarf að fá einn dag með góðum fréttum, svo annan, annan ... en því miður er ég hrædd um að það augnablik sé liðið hjá í bili, á meðan biðjum við fyrrverandi fréttafíklar (FF-samtökin) um að bataferlið fari að byrja og síðan komi í kjölfarið fullt af fréttasnauðum dögum. Mér fannst það alltaf fyndið að það skyldi vera kínversk bölbæn að óska öðrum þess að þeir lifðu á áhugaverðum tímum.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband