Áfallastjórnun: Stjórnað með áföllum

Það fer ekki á milli mála að þessi þjóð, sem er seinþreytt til vandræða, er á suðupunkti. Áföll eru að dynja á fjölskyldum og fyrirtækjum og samstaða fólks er mikil. Hins vantar talsvert upp á að fá að vita hvort og hvernig ríkisstjórnin ætlar að styðja og styrkja fjölskyldur og fyrirtæki. Það liggur á. Vissulega var öflun lána tímafrek og niðurstaðan umdeild. En engu að síður þá má ekki bíða eitt andatak lengur eftir að fá að vita hvernig á að glíma við vandann. Aðeins fátt eitt hefur verið nefnt og fátt fast í hendi. Bind helst vonir við Jóhönnu Sigurðardóttur, bæði vegna þess málaflokks sem hún vinnur fyrir, og vegna reynslu hennar í störfum sínum og góðra verka fyrr. Núna óttast ég að hún fái ekki stuðning samherjanna vegna þess að hún neitar að skera niður um 10% í ráðuneyti sínu, hvernig á hún eiginlega að geta það? Félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið munu ekki geta skorðið niður! Hins vegar var flott af Ingibjörgu Sólrúnu að vera búin að skera niður í utanríkisráðuneytinu tvöfalt það sem beðið var um. Það er ekki hægt að setja á ,,flatan" niðurskurð milli ráðuneyta, skynsemi verður hér að ráða ferð.

Það sem ég óttast núna er eftirfarandi:

Sundurþykkja innan og milli stjórnarflokkanna hafa tafið hrikalega og gera stjórnina líklega óstarfhæfa.

Í ljósi þess er alvarlegt mál ef rétt er að aðstoð IMF - hversu umdeilanleg sem hún er, þá er hún eina hálmstráðið í bili - sé háð því að ríkisstjórnin lafi.

Það er slæmt að áfallastjórnunin sem er í gangi virðist helst felast í því að eitt áfall á dag haldi skrílnum í skefjum. Sem eitt lítið eintak í skrílnum þá bregður mér vissulega við hvert eitt áfall, en læt ekki kúga mig til hlýðni, frekar en flestir aðrir landsmenn.

Dregist hefur úr hömlu að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til þess að reyna að láta þá borga sem hafa valdið mestu um hvernig komið er - útrásar,,víkingana" og hvort sem um er að kenna meðvirkni stjórnvalda eða andvaraleysi, þá má ekki við svo búið standa mikið lengur.

Krónan er á leið á flot. Eflaust er það ekki ,,hollt" fyrir okkur að fá að vita hvenær og hvernig. Nei, það dugar að láta okkur borga brúsann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna erum við hjartanlega sammála, þótt ekki séum við það alltaf. Tími Jóhönnu er svo sannarlega kominn og huggun harmi gegn í þessu ástandi að hafa hana á sínum stað. Arfleifð ömmu hennar og nöfnu skilar sér svo sannarlega núna til íslensku þjóðarinnar. Niðurskurður í þessum geira yrði að byggjast á því að menn lofuðu að verða hvorki gamlir né veikir allt þar til hagvöxturinn nær sér á strik aftur.

Til hamingju með nýjan stuðningsmann í baráttunni gegn Evrópusambandinu. Sýnir þetta ekki að sumir foreldrar ná ágætum árangri við að gæta þess að afkvæmi hafi nægilegt rúm til að mynda sér eigin skoðanir án afskipta foreldra? Eða þannig...

Borghildur Anna 27.11.2008 kl. 03:55

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Yfir mig ánægð með stuðningsmanninn og eiginmann hennar. Kemur mér reyndar ekki á óvart.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 27.11.2008 kl. 09:22

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband