Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Sumum virðist ekki duga að kyssa vöndinn - þarf að éta hann líka? (og heiðarlegar undantekningar)
17.11.2008 | 23:09
Nú er það orðið vel ljóst, sem áður voru sterkar grunsemdir um, að Evrópusambandið kúgaði okkur Íslendinga til þess að hlýða sér í einu og öllu eða hafa verra af ella! Burtséð frá því hvaða skoðun við höfum atburðarásinni og ákvarðanatökunni, þar mátti vissulega margt betur fara, sömuleiðis á því hverjum bæri að axla ábyrgð gagnvart sparifjáreigendum sem vildu þá ávöxtun sem Icesave bauð uppá - eitt er dagljóst og það er á hverja er hlustað innan Evrópusambandsins. Þá stóru og sterku.
Og þótt regluverk EES (upprunnið hjá ESB) hafi valdið því að við máttum ekki hafa hemil á útþenslu bankanna og ofvexti erlendis, þá er svo búið um hnútana að sama batterí og setur leikreglurnar ber enga samábyrgð á afleiðingum reglnanna. Og enn eru þau öfl sem vilja koma okkur inn í Evrópusambandið að fara hamförum í kröfunni um að koma okkur í Evrópusambandið. Framsókn búin að losa sig við alla viðspyrnu (mögulega líka flestalla kjósendur í kjölfarið) og Sjálfstæðisflokkurinn orðinn ansi ráðvilltur líka. Það lítur út fyrir að sumir vilji ekki bara kyssa á þennan vönd yfirgangs Evrópusambandsins heldur sé verið að búa sig undir að éta hann líka. Gott ef ekki að að setja tómat og sinnep á skaftið til að koma því betur niður.
Þess vegna er hressandi að heyra einn og einn heiðarlegan krata með snúast gegn ofríki ESB, eins og Kristján Pétursson, bloggvin minn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.11.2008 kl. 03:20 | Slóð | Facebook
Hvaða ,,kreppuviðbragða-týpa" ert þú?
16.11.2008 | 18:00
Fólk bregst misjafnlega við kreppunni. Ég er bara að byrja þessa umræðu, á eftir að velta henni miklu betur fyrir mér, kannski að búa til könnun úr henni, og hver veit nema að þetta endi sem formuð könnun á síðunni minni. Þangað til er innlegg ykkar, uppástundur og játningar (hvaða týpa?) vel þegin. En hér er til að byrja með svona frekar losaralegur listi af sumum þeim ,,kreppuviðbragða-týpum" sem ég þykist hafa rekist á:
- Sumir bera sig rosalega vel, þótt allt sé komið á vonarvöl.
- Aðrir bera sig rosalega vel af því allt er í fína lagi hjá þeim og ,,þeirra fólki".
- Sumir bera sig rosalega illa ÞÓTT allt sé í fína lagi hjá þeim og ,,þeirra fólki".
- Sumir hætta að horfa á útvarp og sjónvarp og neita að ræða fréttirnar, strútastefna eða skynsemi.
- Eitt það fyrsta sem ég heyrði, og ætlaði varla að trúa því, þegar ég var að hlusta á (efnislausa) blaðamannafundi stjórnvalda en var enn í öðrum veruleika úti í Bandaríkjunum var að fólki væri ráðlagt að hlusta ekki á fréttirnar nema tvisvar á dag (eða var það þrisvar) - sem sagt að missa sig ekki í þunglyndi. Sumir hlýða því og verða samt þunglyndir.
- Sumir hlýða ofanverðu og líður bara miklu betur.
- Sumir hreinlega missa sig í þunglyndi.
- Sumir verða afbrigðilega umhyggjusamir.
- Sumir hafa alltaf verið umhyggjusamir.
- Margir gera allt sem þeir geta til að ,,lágmarka skaðann" - eru miklu sparsamari en venjulega, baka brauðið sitt sjálfir og eyða engu (ja, eða nánast engu) í óþarfa.
- Sumir falla í píslarvætti.
- Svo eru það sumir sem eru búnir að missa vinnuna, samannurlað spariféð eða hvort tveggja og hafa engan tíma til að velta svona asnalegum greiningartilraunum fyrir sér.
- Og enn eru þeir til sem halda áfram að eyða gígantískum fjárhæðum, þótt þær séu í eigu annarra strangt til tekið. Þeir skiptast í tvo hópa: Þá sem kunna ekki að skammast sín og þá sem kunna ekki að skammast sín, en fara lágt með það.
- ... og sumir bregðast við með því að veita almenningi engar upplýsingar, völdum fjölmiðlum einhverjar (sem ekki má segja) og virðast ekki vera að gera neitt af viti. Því miður eru sumir þeirra stjórnmálamenn.
- Einhverjir flýja land eða undirbúa landflótta.
- Og svo eru það margir, margir, fleiri, á kannski eftir að pússa og bæta við eða fella úr þessari greiningu.
Við mótmælum öll (og getum ekki annað)
16.11.2008 | 02:17
Það er ekki hægt annað en mæta á Austurvöll og halda áfram að mótmæla ástandinu sem verður alvarlega með hverjum degi. Í þetta sinn í fylgd með tveimur ættliðum sitt hvoru megin við mig, mömmu og Óla. Mér brá pínulítið í brún í dag þegar ég sá að tveir Evrópusambandsfánar voru á lofti, en verð að vera sjálfri mér samkvæm - viðurkenni að það er allt í lagi að við mótmælum öll á svolítið mismunandi forsendum - og ég hef ekki hikstað yfir rauðu (byltingar-) og svörtu (anarkista-) fánunum sem hafa verið á lofti, svo ég get ekkert sagt við því þótt sumir mótmælenda vilji inn í Evrópusambandið.
Íslenskir fánar líka á lofti eins og við er að búast, fjölskrúðugur hópur að vanda, pelsklædd kona með íslenska fánann í hönd eins og á 17. júní, vinnulúnir verkamenn við hlið hennar, gamlir vinnufélagar mínir héðan og þaðan, alls konar fólk sem er búið að fá nóg. Sætt viðtal í fréttunum við einn mann sem sagði svo einlæglega að allir væru farnir að mótmæla: Meira að segja ég! Minnir mig svolítið á hann Ólaf fóstra minn sem var manna staðfastastur í BHMR-verkfallinu um árið, hafði aldrei fyrr tekið þátt í verkfallsátökum og vildi ekki skipta sér af pólitík, hvorki verkalýðspólitík né annarri, en 67 ára gamall komst hann að raun um að hann gat ekki annað en tekið þátt, og þá af heilum hug.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:19 | Slóð | Facebook
Kominn tími á eitthvað skemmtilegt: There is no one as Irish as Barack Obama ;-? OG SVO MINNI ÉG AUÐVITAÐ Á MÓTMÆLIN Á MORGUN!
14.11.2008 | 23:53
Fann þetta lag á Facebook hjá Nínu systur. Eitthvað stendur þar um að þeir munu spila í Washington þegar Obama tekur við, 19. janúar minnir mig að það sé.
Ómótstæðileg löngun til þess að vakna vongóð og glöð einhvern morguninn
14.11.2008 | 01:31
Kaldhæðislegi Dallas-brandarinn læðist að mér þessa dagana, þegar ég (í einhverju útþynntu Pollýönnu-kasti) hlusta á morgunfréttirnar og vona það besta. Í fyrstu fólst það í því að ég vonaði að morgunfréttirnar færðu okkur eitthvað jákvætt varðandi efnahagsmálin. Síðan óskaði ég þess að morgunfréttirnar færðu okkur eitthvað ekki alltof neikvætt um efnahagsmálin. Svo fór ég að óska þess að morgunfréttirnar færðu okkur alla vega ekki katastrófu á hverjum morgni og nú er ég komin á það stig að ég vona að morgunfréttirnar færi okkur einhverjar raunverulegar fréttir af efnahagsástandinu.
Ég get samt ekki kæft niður löngunina til þess að vakna vongóð og glöð yfir efnahagsmálunum (eða alla vega framtíð þeirra, fortíðin er eins og hún er og nútíðin frekar hrikaleg) einhvern morguninn - eftir að vera búin að hlusta á morgunfréttirnar.
Og ef eitthvert ykkar veit ekki út á hvað Dallas-brandarinn gekk þá var það hópur á Facebook sem vildi að Íslendingar vöknuðu einhvern morguninn við það að við værum komin aftur til ársbyrjunar 1991, Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Davíð ekki einu sinni kominn á þing ... þetta hafði sem sagt allt saman verið draumur, líkt og þegar Bobby raknaði við sér í sturtunni í einhverjum þættinum af sápuóperunni Dallas (rosalega 80s) og þættirnir seinasta árið eða svo höfðu bara verið draumur sem hann dreymdi - eða einhvern veginn þannig var þetta.
Og ekki segja: Slökktu á útvarpinu! - ég veit að fréttirnar ,,hverfa" ekki þótt ég hlusti ekki á þær.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook
Mikið væri forvitnilegt að fá könnun um afstöðuna til Evrópusambandsins núna
12.11.2008 | 22:09
![]() |
Barroso: Ísland leysi deilumál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Voru ekki allir hinir búnir að sjá Spaugstofuna?
12.11.2008 | 03:09
Missti af Spaugstofunni á laugardaginn var, en einhver var að segja mér að hún hefði verið góð. Svo ég kíkti á hana á netinu, og mikið rétt, hún var góð. Hér er hlekkur á þáttinn, ef einhverjir fleiri misstu af henni og langar að skoða:
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4431777
Viðtal við Bjarna Harðarson
11.11.2008 | 20:22
![]() |
Fékk aðeins í magann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þolinmæði á þrotum
10.11.2008 | 22:47
Ekki efa ég að stjórnvöld eru að vinna að erfiðum málum. Og oft hef ég haldið að þolinmæði teldist til dyggða, en ég verð að viðurkenna að þolinmæði margra, mín þeirra á meðal, er á þrotum. Spurningar vakna:
- Er virkilega bara ein leið (að mati stjórnvalda) til að leysa bráðan vanda í efnahagsmálum, að bíða þolinmóð eftir svari frá IMF?
- Er virkilega ekki hægt (að mati stjórnvalda) að veita borgurum landsins meiri upplýsingar um hvað er verið að gera, ef eitthvað er verið að gera annað en bíða.
- Eiga Íslendingar virkilega ekki annarra kosta völ (að mati stjórnvalda) en að lúta geðþóttaákvörðunum Breta sem gerðu illt verra í bankakreppu Íslendinga með aðgerðum okkar?
- Er virkilega ekki hægt (að mati stjórnvalda) að höggva á hnútinn í gengismálum nema með því að fara þá umdeildu leið að fara út í aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Þolinmæði er eflaust dyggð, en of mikil þolinmæði er hættuleg. Margar fjölskyldur sjá ekki framtíðarframfærslu og óttast atvinnuleysi og svo er fyrirtækjum, hægt eða hratt, að blæða út á meðan við bíðum.
Þátttaka í þjóðaráfalli
9.11.2008 | 17:52
Var að spjalla við vinkonu mína í gær. Ég komst að raun um að ég er enn dofin fyrir viðburðunum í samfélaginu, kannski af því ég var í svo vel vernduðu umhverfi hjá systur minni í Ameríku þegar áfallið skall á, líklegra þó að fleiri séu í sömu stöðu og ég. Ennþá á afneitunarstiginu kannski, og ekki komin á reiðistigið.
Mér líður svolítið eins og ég hafi upplifað náttúruhamfarir, margir lent í meira tjóni en ég, sumir í miklu meira, sumir í minna. En alla vega, þá eru þetta ekki náttúruhamfarir, það eina sem þetta á sameiginlegt við náttúruhamfarir er að það nær til hópa fólks, flestra landsmanna í þessu tilfelli. Í þessu tilfelli geta flestir (en ekki allir - og að því leyti er þetta frábrugðið náttúruhamförum) sagt að þeir beri enga ábyrgð á hamförunum.
Og það var það sem kom fram á fundinum í gær. Þarna var fullt af fólki sem gat sagt með sanni: Þetta snertir okkur - en þetta er ekki okkur að kenna. ,,Vil ekki þurfa að hreinsa upp skítinn enn einu sinni," sagði hún Sigurbjörg Árnadóttir sem bjó í Finnlandi þegar þeirra áfall dundi yfir. Það þurfti fall heilla Sovétríkja til að hrinda því af stað (ásamt meðvirkandi þáttum). Hér eru það bara fullkomlega óábyrgir útrásar,,víkingar" og aðgerðarlítil stjórnvöld sem bera ábyrgð á ástandinu.
Ætla að hlusta á viðtalið við Vigdísi í kvöld - mér finnst sláandi sem ég hef heyrt úr þættinum - ,,auðvitað tek ég ástandið nærri mér" eða eitthvað á þá leið. Og það er einmitt það sem er svo auðvelt að finna í þessum orðum Vigdísar, hún er þátttakandi í þjóðaráfallinu.
Kemur ekki á óvart að tónlist og bækur seljast vel. Samfélagið er þegar orðið annað en það var. Að njóta listar er eitt af því sem skiptir meira máli í svona árferði, að njóta afþreyingar af sama toga. Lenti í því í nótt að geta ekki lagt nýjustu bók Arnaldar frá mér fyrr en ég var búin með hana. Úff, þetta er ein af hans bestu og skilur eftir sig ansi lúmska óvissu. Ekki á það bætandi í miðju þjóðaráfalli, en mæli samt eindregið með bókinni.