Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ég hélt ég fylgdist með ... en!

Tvö símtöl í dag hafa skilið mig eftir hrikalega hugsandi, og þótt ég hafi svo sem alls ekki tíma til þess að hugsa allt það sem ég er að hugsa, þá kemst ég líklega ekki hjá því. Ábyrgð stjórnvalda á þeirri stöðu sem við erum í var umræðuefnið og satt að segja verður sú mynd svartari með hverjum deginum, alvarlegast er ef einhverjar yfirhylmingar eru í gangi. Ef þetta er torskilið þá bendi ég ykkur bara á að fara í huganum yfir allar þær fréttir sem yfir okkur dynja varðandi skort á samráði við þjóðina varðandi setningu Icesave-laganna (af einhverju freudisku ,,slippi" var ég búin að skrifa Iceslave) og svo hvarflaði hugurinn (eða var stýrt) í átt að því sem er að gerast í Luxembourg. Og kannski er þetta bara toppurinn á ísjakanum. En ég hef ekki komist yfir að fylgjast nógu vel með ... þarf að bæta úr því.

Merkilegur þáttur um HIV - undrandi á viðhorfunum

Horfði á þátt á RUV (missti reyndar framan af honum) þar sem Stephen Fry fjallaði um aðstöðu HIV smitaðra í Bretlandi og víðar, m.a. í Suður-Afríku þar sem veikin er útbreiddust. Það sem stakk mig var fáfræði og fordómar og hugrekki viðmælenda Stephen Frys. Ótrúlegur þáttagerðarmaður, þessi frábæri leikari, fyrst tókst honum að gera þunglyndið (sem hann stríðir sjálfur við) svo áhugavert að það lá við að það væri skemmtilegt í dauðans alvöru sinni og þessir þættir lofa góðu. Ég er ekki sú besta í að fylgjast reglubundin við nokkrum þáttum, en ég hugsa að ég tékki aftur á þessari þáttaröð, sem mér heyrist að sé að byrja. Alveg sama hvað allri kreppu líður, það er ýmislegt annað sem þarf að minna sig á af og til.

Að vera eða vera ekki - kominn yfir það versta, þar er efinn!

Mér finnst ekki hægt annað en fagna því að krónan er aftur á uppleið, þótt við vitum ekki hversu mikinn þátt gjaldeyrishömlurnar eiga í þeirri staðreynd. Hins vegar tala allir mjög varlega um ástandið, tortryggnin í garð stjórnvalda, fjármálayfirvalda og þess háttar, er svo sannarlega ekki að ástæðulausu. Kraumandi ólga sem fær aðgerðarsinna til þess að ráðast inn í alþingi og efinn í svörum næsta manns, þegar fólk spyr hvert annað: Ætli við séum komin yfir það versta, eru tvær hliðar á sama pening, trúnaðarbresti sem orðið hefur. Það er mikið verk að vinna í uppbyggingarstarfi. Mér líst vel á framlag VG til umræðunnar, en áherslur fundar flokksráðs VG er nákvæmlega það sem ég held að skipti máli núna.


Lag við hæfi

Þarf ekkert að útskýra þetta frekar, er það?

 


Skrýtið andrúmsloft ... mætt á mótmæli, einkennileg talning á mótmælendum, spekingar spældir yfir styrkingu krónunnar, uggur í andlitum við jólainnkaupin og listamannabæirnir Álftanes og Akureyri

Mér finnst andrúmsloftið í bænum í dag skrýtið. Var frekar að hugsa um að vinna upp smá vinnutap að undanförnu, enn fullt eftir að deginum til þess að gera það. Sem sagt að sleppa mótmælunum. En það var eiginlega ekki hægt. Svo ég mætti nú um síðir og sé reyndar alls ekki eftir því. Þó ekki væri nema vegna þess að þá veit ég af eigin raun að talning lögreglunnar á mótmælendum: Rúmlega þúsund, er argasta bull og vitleysa og ég veit ekki hvaða tilgangi það þjónar að bera svona dellu á borð. Ekki nema þetta rúmlega sé svona þúsund og tvö-þrjú þúsund ... við sem vorum þarna vitum alla vega betur.

Enn sem fyrr mótmælir fólk á margs konar forsendum og tekur undir með ræðumönnum á mismunandi stöðum. Hörður boðar hertar aðgerðir, ekki veit ég hvað mun felast í þeim, mun bara fylgjast með á færi og taka þátt í því sem samviska mín heimtar. Eins og að trítla á Austurvöll að undanförnu.

Viðbrögð margra við styrkingu krónunnar eru ákveðin vonbrigði. Við vitum það ósköp vel að hluti skýringarinnar er sá að komið hefur verið á höftum og hömlum, tímabundið, að því er sagt er, hve stór hluti skýringarinnar veit enginn. Kerfi sem vissulega á eftir að sníða ýmsa vankanta af, og ég held að það muni verða gert. Enginn af öllum þeim spekingum sem þenja sig núna hafði þó spáð þessum stóra uppkipp. Þar sem margar breytur spila saman getur ýmislegt gerst. Ég held að kapp sumra við að kasta krónunni (fyrir sumar er það liður í að koma okkur í ESB hvað sem það kostar) vegi þyngra en ánægja yfir því að þeir sem hrun krónunnar hefur bitnað sárast á eygi nú von. Enda eru það bara vesælir námsmenn erlendis, smásöluverslunin og skuldarar (einstaklingar og fyrirtæki) í erlendri mynt. Styrking krónunnar getur skilið milli feigs og ófeigs í þessum hópum og eflaust fleirum. Sveiattan! að geta ekki fagnað þessum bata. Við eigum að taka umræðuna um breytingu á gjaldmiðli, sem vel getur verið hyggilegt að huga að, undir öðrum kringumstæðum en þessum.

Það stakk mig illa þegar ég sinnti þremur erindum (nú er það bara harkan sex, farið á nákvæmlega þá staði sem ætlunin er og ekkert múður!) í Smáralind á heimleiðinni, hversu þungt er yfir fólki. Uggur í svip, áhyggjur, engin jólagleði. Áhyggjur vegna atvinnumála er að finna mjög víða nú og ég vona sannarlega að við ákveðum að finna leiðir sem stemma stigu við frekari uppsögnum en að fara Evrópusambandsleiðina og koma ,,öllu í lag" með því að auka atvinnuleysið.

AmmaKata3Eitt af erindunum í Smáralind var að kaupa geisladisk sem var að koma út, ég hefði sennilega ekki tekið eftir honum ef ég hefði ekki rekið augun í mynd af ömmu Kötu á umslaginu (upp á grín má reyndar nefna það að hún er líka amma hennar Katrínar Oddsdóttur sem sló í gegn með mótmælaræðu um daginn - og gerði allt vitlaust meðal sumra samnemenda sinna í HR). Fór þá að huga að innihaldinu og þar sem ég er ákafur aðdáandi nútímatónlistar var engin spurning að mig langaði að eignast þennan grip sem þið sjáið hér með pistlinum. Bý svo vel að nokkur af yngri tónskáldum þjóðarinnar búa hér á Álftanesi, í listamannabænum Álftanesi, og við fáum oft að njóta tónsmíða þeirra hér innan sveitar. Ég var reyndar að vona að á þessu diski fyndi ég Stjórnarskrána hennar Karólínu Eiríks því það var einmitt Hymnódía, sem flutti það verk á Akureyri, ásamt valdri sveit einsöngvara, sem ég held að sé eini flutningur þess. Það hefði verið toppurinn! Mig langar svo mikið að heyra það og vel við hæfi á þessum undarlegu tímum! En samt líst mér vel á úrvalið á þessu diski, þekki til verka flestra höfundanna og þessi diskur bætist í litla, skemmtilega safnið mitt, sem ég var að átta mig á að ég á nú orðið af nútímatónlist. Ekki margir sem nenna að hlusta á þetta með mér, en það gerir ekkert til, sumt er bara betra að hlusta á einn síns liðs. Á reyndar einn góðan vin í Finnlandi sem deilir þessu áhugamáli með mér svo ég hef eitthvað nýtt til þess að kynna fyrir honum næst þegar hann lítur við.


Ný könnun um flot krónunnar - og úrslit úr fyrri könnun sýna vaxandi bjartsýni

Svörin við könnuninni sem ég hef verið með í gangi hafa verið nokkuð áhugaverð, einkum þróun þeirra. Þegar ég setti hana inn var svarið ,,Þetta er mun alvarlegri staða en látið er upp" langvinsælasta svarið, mig minnir að það hafi verið með 42% hlut á móti bjartsýnissvarinu ,,...allt uppávið" sem var í 26-27 %. Núna er munurinn á svörunum að nálgast hefðbundin skekkjumörk. Hvað veldur aukinni bjartsýni veit ég ekki. Set inn smá könnun um flot krónunnar, forvitin að vita hvers þið væntið, því það eru jú væntingar sem ráða miklu. En hér er niðurstaða úr þeirri sem ég er að taka út:

Hver er staðan í kreppunni okkar?
Botninum er náð, héðan í frá er allt uppávið 33.5%
Þetta er mun alvarlegri staða en látið er uppi 36.5%
Það þarf að brjóta niður til að byggja upp 10.5%
Hvaða kreppu? 4.0%
Finnum sökudólgana og látum þá svara til saka 14.0%
Sláum lán út á framtíðina 1.5%
200 hafa svarað

Mig grunar að ESB-könnun á visir.is og Bylgjunni gefi VÍSbendingu um breytt viðhorf

Vonandi er þjóðin hætt að vera hissa og lúbarin og orðin reið og hugrökk! Sé að visir.is hefur gert könnun á viðhorfi þjóðarinnar til ESB-aðildar með og án krónu og Íslands án ESB með og án krónunnar. Svörin eru birt á vef Bylgjunnar (neðst á síðunni): http://www.bylgjan.is/ - svona alla vega smá stund í viðbót. Annars eru upplýsingarnar birtar á síðu Vilborgar bloggvinkonu minnar með meiru: http://www.villagunn.blog.is

Þótt þátttaka á svona síðum sé sjálfsprottin, þá finnst mér þetta í takt við það sem ég heyri í kring um mig. Uppgjöfin er að verða að bakai og þeim fer fækkandi athugasemdunum á borð við: Getum við gert nokkuð annað en að fara í ESB, ... neyðumst við ekki til að ganga inn! ... er nokkuð hægt að klúðra þessu meira? (sem er reyndar alveg hægt, bæði í aðildaviðræðum, samningum og innan ESB). Bíð spennt eftir næstu könnun með vísindanlegu úrtaki, það skyldi þá aldrei fara svo að eitthvað merkilegt kæmi út úr því?

Á morgun verður krónan sett á flot og það getur svosem komið smá bakslag í umræðuna þá, en hmmm, ESB-sinnum hefur ekki tekist að sannfæra fólk um að aðild að ESB og umræða um möguleika á öðrum gjaldmiðlum sé ein og hin sama. Það er hún nefnilega alls ekki, EF fólk er tilbúið til að hugsa út fyrir þrengsta kassann! 

 


Vinkonurnar og fundirnir settu svip sinn á 1. desember - og VG á flugi!

Allt of sjaldan sem Gunna vinkona mín á leið í bæinn, þannig að ég var heppin að geta slakað út fráteknum tíma, sem ég hefði annars eytt í Myndlistarskólanum í Kópavogi (sem er líka gott mál en fleiri tækifæri gefast) og verið með Gunnu sæmilegan hluta úr deginum. Hún og Heiða mættu til mín í morgun, ekkert óguðlega snemma, og svo þurfti Heiða að fara í vinnuna, en Gunna varð eftir hjá mér og við byrjuðum daginn á latte hérna heima og vorum svo ótrúlega duglegar að saxa á listann sem Gunna hafði með sér þar til ég skildi við hana í heimsókn hjá Sigríði, sem er á tíræðisaldri. Fengum sem betur fer líka tíma til þess að spjalla. Við náðum fyrsta korterinu á fundinum á Arnarhóli og það var líka ágætt að sýna lit þar.

Aðalfundur dagsins var svo fullveldishátíð Heimssýnar í Salnum, flott dagskrá og fín mæting og mér þótti vænt um hve margar úr hópi vinkvenna minna er annt um blessað fullveldið okkar og fyrir utan nánustu fjölskylduna, þá hitti ég þarna líka ættingja sem mér finnst gaman að vita eru sama sinnis, vissi ekki um þá alla, svo fær maður líka alltaf góðar ábendingar og pælingar á svona mannamótum. Bjarni Harðarson komst nokkuð nærri kjarna málsins er hann sagði að í samtökum okkar væri fólk sem væri á móti Evrópusambandsaðild á mjög mismunandi forsendum og hefði að öðru leyti mjög mismunandi skoðanir. Þetta endurspeglaðist einmitt skemmtilega hjá ræðumönnunum Katrínu Jakobsdóttur og Styrmi Gunnarssyni, sem bæði voru skrambi góð. Framlag listamannanna var líka sérlega vel heppnað, held ég hafi ekki verið að ímynda mér hvað þau tóku einlæglegan þátt í dagskránni. Þórarinn Eldjárn, Diddú, Eydís og Jónas. Frábært! Enda daginn á sama hátt og ég byrjaði, hitti Gunnu og Heiðu, í þetta sinn heima hjá Heiðu.

Og svo þessar frábæru fylgistölur í nýjustu skoðanakönnuninni sem segja mér að VG stendur fyrir það sem þjóðin vill stefna að núna á þessum erfiðu tímum, það eru engin smá skilaboð. Jamm, ég veit að þetta eru ekki kosningar, við öll í VG erum meðvituð um það. Þjóðin vill vissulega kjósa, en ætli hún fái það. Ætli valdamenn vilji að þjóðin kjósi VG? Því miður ekki.


90 ára fullveldishátíð Heimssýnar í Salnum kl. 17 á mánudaginn 1. desember - mikilvægt að allir sem láta sér annt um fullveldið sýni samstöðu!

Eitt af því sem hefur verið mjög til umræðu í fjármálahamförunum sem yfir landið hafa gengið að undanförnu er vitund okkar Íslendinga sem þjóðar. Ánægjulegt að sjá hversu samtaka og staðráðin við Íslendingar erum í að halda haus, þótt fjármálabrjálæðingar hafi farið hamförum og stjórnvöld. bæði fjármálaleg og pólitísk, gufast meira en góðu hófi gegnir að mati okkar margra, alla vega þeirra sem norpa á Austurvelli í hvaða veðri sem er. Eitt hið mikilvægasta sem rætt hefur verið er fullveldið sem verður 90 ára á mánudaginn, 1. desember. Það ætti að minna okkur á að oft hefur verið hart í ári, að þegar fullveldinu var fyrst fagnað, 1. desember árið 1918 var álfan okkar góða, Evrópa, í sárum eftir fyrri heimsstyrjöldina og Ísland var undirlagt að skæðri drepsótt, spönsku veikinni. Samt varð einn mikilvægasti áfangi okkar á sjálfstæðisbrautinni að veruleika þennan dag.

Nú hefur mörgum þótt syrta í álinn og sjaldan hafa spurningarnar um fullveldi verið jafn áleitar og einmitt nú. Háskólinn heldur fund um hvort við séum fullvalda, en það hefur verið dregið í efa meðal annars þar sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur sett okkur miklar leikreglur. Ennfremur hefur það verið mál margra (einkum sem vilja að við göngum í Evrópusambandið) að þar sem við lútum reglum innri markaðarins gegnum EES séum við þegar búin að afsala okkur fullveldinu. Og sumir segja að það sé bara allt í lagi. Mér dettur stundum í hug þessi setning:

Svo skal böl bæta að benda á annað verra.

Sem betur fer erum við mörg sem teljum ástæðu til að fagna því að við séum fullvalda þjóð og höfum nú verið það samfellt í 90 ár. Og við viljum vera það áfram. Í aðild að Evrópusambandinu felist fullveldisafsal og það sættum við okkur ekki við. Mörg okkar höfum fundið okkur farveg í Heimssýn, félagi sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Heimssýn heldur fullveldishátíð í Salnum í Kópavogi í tilefni af 1. desember og hefst hátíðin klukkan 17 þann dag og stendur í hálfan annan tíma. Það er full ástæða til að fagna fullveldinu og halda í það og sú samstaða sem Íslendinga sýna nú þegar á bjátar segir mér að margir séu sama sinnis. Vildi bara láta ykkur vita, sem ég ekki hef þegar sagt af þessu. Þótti vænt um það í dag þegar ég hitti gamla vinkonu að hún hlakkaði til að fara á hátíðina, hef heyrt það sama úr svo mörgum áttum að undanförnu. Sem betur fer er fólki ekki sama um blessað fullveldið.

... og þeir sem ætla á fundinn á Arnarhóli sama dag geta líka komið, því hann er klukkan 15! Koma svo til okkar í Salinn í Kópavogi kl. 17, alveg stórfín blanda.

 


Góður fundur í kulda og trekki

Laugardagsfundur enn og aftur og enn er ekkert farið að breytast, því miður hægt að búast við því að þörf sé á svona fundum áfram. Það er á vissu leyti gott að geta láti óánægju sína í ljós á raunverulegan hátt og finna samstöðuna. Hins vegar sorglegt að þetta skuli vera svona.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband