Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skrifstofuhljóð

Hef átt mér ýmsar skrifstofur um ævina og eitt af því sem er áberandi eru umhverfishljóðin sem þeim fylgja. Í opnu rými, eins og ég hef unnið í mestanpart það sem af er árþúsundinu tilheyra hljóðin reyndar ekki umhverfinu heldur einkaheiminum, því oftast er best að einbeita sér með því að setja á sig eyrnaskjól (headphone-a) á slíkum stöðum. Hef jafnvel staðið mig að því að ræða á msn við manninn við hliðina á mér ef ég er að vinna í opnu rými, frekar en að kjafta við hann.

En svo eru það aðrar skrifstofur með allt annars konar umhverfi. Í Sjálfsbjargarhúsinu, þar sem ég sit við skriftir þessa dagana, alla vega tvisvar í viku, eru einstaklega skemmtileg umhverfishljóð. Fyrir utan gluggann eru grenitré sem heyrist stundum í þegar hvessir, tónstofa Valgerðar er við hliðina á minni skrifstofu, og ekki spillir að inni á skrifstofunni, þar sem ég hef aðstöðu, er trommusett og hljómborð, mjög flott þegar ég lít upp úr tölvunni. Ys og þys allan daginn, gengið út og inn nálægt minni skrifstofu, en þetta eru glaðleg hljóð og þægileg.

Oft hef ég haft skrifstofuaðstöðu í miðbænum, neðarlega á Laugavegi, niðri í Austurstræti og í Aðalstrætinu og núna seinast hef ég smá skyldum að gegna í Hafnarstrætinu. Miðbæjarhljóðin eru virkilega skemmtileg, umferðahljóð, kaffihúsatilfinning, hér var dúndrandi þungarokk á Kaffi Rót um daginn (eitthvað komið fram á kvöld) og svo eru sírenur af og til sem tilheyra litlum, sætum stórborgum. Brak og brestir í gömlum húsum auka enn á sjarmann á flestum þessara skrifstofa sem ég hef haft athvarf á, að einni undanskilinni, sem samt var ósköp ágæt. Núna sig ég í húsi sem er frá því sautjánhundruð og súrkál (í alvöru, byggt fyrir árið 1800) þar sem gólfin eru skökk en húsið er himneskt engu að síður.

Ekki má ég gleyma skrifstofunni í Háuhlíð, þar sem ég skrifaði Sögu Húsmæðrakennaraskóla Íslands, en þetta var í Öskjuhlíðinni með fallegan gróður allt um kring og húsið fullt af heimilisfræðikennaranemum og kennurum þeirra. Skrifstofan mín full af gömlum matreiðslubókum þar sem finna mátti setningar eins og ,,Tag et sölvfad ... ". Þótt húsið væri ekki orðið fimmtugt þá var þar mjög hressilegur umgangur á kvöldin, þegar enginn var í húsinu nema ég, og þessi umgangur var ekki af mínum völdum, né heldur Securitas, sem vaktaði húsið. Mér fannst þessi umgangur bara þægilegur og lýkur þá umfjöllun um skrifstofuhljóð.


Falin frétt um 55% andstöðu Íslendinga við aðildarVIÐRÆÐUR við ESB

Eftir hverja forsíðufréttina á fætur annarri meðan þjóðin var í sjokki og trúði því andartak að aðildarviðræður að ESB væru björgunarhringurinn sem vantaði, þá hafa komið nokkrar faldar fréttir sem sýna meirihluta Íslendinga andvígan aðildarVIÐRÆÐUM við ESB, ca. 55% á móti 45% sem vilja fara í viðræður. Í stað forsíðufrétta um að þjóðin vilji í ESB er lítill þrídálkur á vinstri síðu inni í blaði.

Alltaf verið að reyna að telja okkur trú um að meirihluti þjóðarinnar vilji fara í aðildarviðræður, það er einfaldlega ekki rétt, meirihlutinn er andvígur viðræðum við ESB og enn stærri meirihluti er síðan andvígur aðild.


Er ljósvakamiðlar í kosningabaráttu gegn VG? Og ef svo er þá hvers vegna? Myndi ekkert heyrast um VG ef við hefðum ekki snillinginn hana Katrínu?

Héldum yndislega fjölskyldu- og framkvæmdahelgi - þar sem við enduðum afmælishald Óla okkar með því að umbylta stofunni svo nóg pláss væri fyrir ættingjana í kaffiboði. Allt of langt síðan við höfum haldið smá fjölskylduboð, þetta var að vísu bara systkini okkar foreldranna og afkomendur þeirra, en samt drjúgur hópur því mætingin var nokkuð góð.

Forval VG í Suðvesturkjördæmi setti líka skemmtilegan svip á helgina, það er alltaf ákveðinn hátíðarbragur á því að merkja við góða kandídata á kjörseðli.

Fékk svo símtal í kvöld sem gerði mig aðeins hugsi, um kvöldfréttir ríkissjónvarpsins, sem höfðu sýnt viðtöl og alls konar spenning kringum öll prófkjör helgarinnar, nema VG. Það var afgreitt með upplesinni frétt og stillimyndum og athugasemd um að Guðfríður Lilja og Ögmundur hefðu skipt um sæti. Var það allt og sumt sem gerðist í því forvali? Ónei. Í hádegisfréttum Bylgjunnar eða RUV fékk ég þá tilfinningu að það  hefði ekki verið neitt forval hjá VG. Í öðrum hvorum miðlinum var nefnilega samviskusamlega ,,gleymt" að geta þess að forvalið hefði farið fram, hvað þá að úrslit hefðu fengist. Ég get eflaust lagst í rannsóknir á því í hvorum fréttunum þetta var, en hér á heimili var mikið að gera fyrir fjölskylduboðin og er enn nóg sem þarf að vinna í, þannig ég kemst ekki í svoleiðis rannsóknarvinnu fyrr en á morgun. Þá verður kannski einhver lesandi búinn að upplýsa málið, því þetta HLÝTUR að hafa stungið fleiri en mig.

Mamma, sem hlustar mikið á útvarp, er löngu farin að benda á að VG sé ótrúlega oft ,,gleymt" í umfjöllunum frétta. Þar sem ég er gömul Kvennalistakona þá er þöggun og ósýnileiki ekki allskostar ný upplifun fyrir mig. Og gaman að sjá umfjöllun um Katrínu Jakobsdóttur á fleiri en einni sjónvarpsstöð, þar var vel að verki staðið og skemmtilegt mótvægi við gleymsku einhverra fréttamanna.

Vinkona mín ein á þessa frábæru setningu - ég held hún sé ættuð frá fyrrverandi tengdamóður hennar: You may be paranoid, but it doesn't mean that there isn't someone out there to get you. Í því samhengi sem ég skrifa þessar vangaveltur má eiginlega snúa þessu við og túlka á þennan hátt: Þó maður sé svolítið paranoid, þá getur samt vel verið að einhver sé að reyna að þegja stjórnmálahreyfinguna þína í hel!

 

 

 


Góð ljóð undir svefninn - ágætis skortur á spennusögum

Uppgötvaði í gærkvöldi að ég var orðin uppiskroppa með spennusögur, sem ég les mikið af og hef alltaf gert. Ég á margar góðar bækur ólesnar en hef verið óheppin með val á þeim að undanförnu, því miður kippt með mér hverri hrútleiðinlegu gæðabókinni á fætur annarri að náttborðinu. Hins vegar bregðast ljóðin aldrei og ég verð seint þreytt á Blótgælum Kristínar Tómasdóttur og er komin með aðra innan seilingar, Birnu þó ... eftir Birnu Þórðardóttur, þegar ég sekk mér ofan í svona góða lesningu hugsa ég bara: Spennusögur, hvað? Góð ljóð eru eitthvað sem erfitt er að verða leiður á og ég get heilshugar mælt með þessum tveimur bókum.

Svo þegar að því kemur er ég búin að dusta rykið af einni sem ég fann hjá mömmu og á þar ólesnar alla vega nokkra tugi af Agötum, en núna eru það ljóðin. 


Ekki má gleyma grundvallaratriðum í kreppunni

Stundum hef ég talið mig meira rauða en græna á skala Vinstri grænna, vegna þess að ég hef verð að berjast í ýmsum kjaramálum og réttlætismálum sem stundum eru kennd við rauða litinn góða. Hins vegar eru ákveðin umhverfismál sem valda því að ekki dugar annað en vera líka ansi grænn, hvað sem allri kreppu líður, því ef ekki er tekið í taumana þá verður framtíðin enn meiri en ella, bæði rauð og græn.

Það sem þarf að huga sérstaklega að er að bakka upp allar góðar aðgerðir Obama, því hann stýrir aðal mengunarlandi heims og á sannarlega ekki alltaf auðvelt uppdráttar heima fyrir með þau góðu sjónarmið sem hann vissulega stendur fyrir í umhverfismálum. Þannig að stuðningur allra annarra landa, meira að segja litla, mannorðssnauða Íslands, hjálpar. 

Einnig þarf að beina sjónum að þróunarlöndum og Asíulöndum, sem benda réttilega á að þótt þau mengi mikið núna, þá séu þau ekki hálfdrættingar á við Vesturlönd sem hafi verið lengur að. Þarna eigum við Íslendingar mikla möguleika á að gera góða hluti og í guðanna bænum ekki spara í framlagi okkar til aðstoðar við aðrar þjóðir í nýtingu visthæfari orkugjafa. Þegar er verið að gera góða hluti á Íslandi á því sviði og satt að segja ættum við núna að huga enn frekar að efla það starf, það ætti að geta verið hagkvæmt bæði fyrir okkur og framlag til heimsmála, því þessari þróun verður að snúa við með öllum tiltækum ráðum.

Á þessum málum eru auðvitað margar hliðar, sumar tegundir eru í útrýmingarhættu og ég get ekki stillt mig um að segja frá hugrakkri baráttukonu sem kannski virkar svolítið barnsleg í baráttu sinni fyrir betri aðstæðum mörgæsa og málar ótrauð á baráttuskiltin sín: Meiri ís! (Mer is, reyndar, því hún er skandinavísk). Ég sníkti þessa mynd til sönnunar út úr einum félaga mínum sem þekkir þessa konu, þannig að þetta er satt.

meiriis.jpg


mbl.is Jörðin hlýnar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flott frumkvæði Vilborgar - afstaða Sjálfstæðismanna í prófkjörinu í Reykjavík til ESB

Bendi sérstaklega ykkur Sjálfstæðismönnum sem eruð að fara að taka þátt í prófkjörinu í Reykjavík á vefsíðu Vilborgar G. Hansen. Hún hefur gert nákvæma könnun á afstöðu prófkjörsþátttakenda til ESB og birtir á vefsíðu sinni sem þið ættuð endilega að skoða. Raunar er þessi lesning fróðleg fyrir alla, hvar í flokki sem þeir standa. Vefsíða Vilborgar. Ef þið viljið bara listann, þá hefur Hjörtur J. Guðmundsson unnið einn slíkan uppúr upplýsingunum sem Vilborg aflaði. Hér er sveifla Hjartar.

Óþarfa hótanir en sumir virðast reiðubúnir til þess að setja ESB ofar velferð

Samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka gengur vel. Ég skil ekki hvað Björgvin gengur til með þessu útspili sínu. Sé ekki betur en ef hann er talsmaður Samfylkingarinnar, sem ég reyndar efast um, þá sé hann að henda öllum hugsjónum um velferðarríkisstjórn út um gluggann og boði til uppboðs þar sem taka þá tilboði þess sem best býður í Evrópusambandsmálum, án tillits til annarra mála, sem núverandi ríkisstjórn er að einbeita sér að og þyrfti svo sannarlega að fá að halda áfram sínum góðu verkum án þess að fá svona hótanir yfir sig.
mbl.is Ný ríkisstjórn um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tilfinningaþrunginn vetur

Sennilega hafa fáir vetur í sögu íslenska lýðveldisins spilað eins hressilega á tilfinningaskalann og sá sem nú er að líða. Samkennd, átök, heilbrigði og heilsuleysi, atvinnuleysi í návígi og sóðalega mikill auður sem sendur er á karabískar eyjar, vonir og áföll - allt þetta og fjölmargt fleira spilar á tilfinningaskalann, með undirspil búsáhaldablúsins sem hefur hrifið okkur svo mörg. Við lifum sannarlega á áhugaverðum tímum og vonandi kemur margt gott út úr þessari deiglu, en hún er bæði heit og svolítið ógnvekjandi. 

melting_809473.jpg

 


Forval VG í Suðvesturkjördæmi um næstu helgi - Ögmundur víkur fyrir Guðfríði Lilju og ætlar að vinna eitt sæti enn

Í seinustu kosningum vann Ögmundur Jónasson þingsæti fyrir VG í Suðvesturkjördæmi, sem er rótgróið íhalds- og kratakjördæmi. Nú ætlar hann sér að vinna eitt þingsæti enn og sækist eftir öðru sætinu fyrir sjálfan sig og fyrsta sætinu fyrir Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, sem er mjög spennandi valkostur. Núa á ég loksins kost á því sjálf að kjósa í forvali VG og ætla sannarlega að skemmta mér vel yfir því að raða á góðan og sigurstranglegan lista næstkomandi laugardag.

Og svo á Elísabet systir afmæli í dag ;-)

 

 


Stígamótaheimsóknin á föstudaginn

Segja má að 8. mars hafi komið snemma þetta árið því þessi baráttudagur kvenna er jafnframt sá dagur sem í mínum minni tengist Stígamótum órjúfanlega. 8. mars 1990 voru samtökin stofnuð og á föstudaginn var haldið upp á 19 ára afmælið.

Það var skrýtið að horfa til baka til ótrúlega minnisstæðs fundar í kjallaranum neðst á Vesturgötunni - hvort það var í húsi Stígamóta eða innar í portinu í Hlaðvarpanum get ég ekki gert upp við mig þótt ég muni hvar í salnum ég sat. Þarna voru ótrúlegar frásagnir þolenda kynferðisofbeldis opnuðu augu margra fyrir því meini sem verið var að taka á og hefur verið hlutverk samtakanna æ síðan. Ég held að enginn sem þar var staddur verði nokkurn tíma samur. 

Síðan hefur margt gerst, umræðan þroskast, lagabreytingar orðið en því miður hafa vandamálin sem við er að glíma ekki orðið minni. Mansal er staðreynd og aðrar hræðilegar staðreyndir er fjallað um í nýútkominni skýrslu Stígamóta sem komið er út og væntanleg fljótlega á netið á www.stigamot.is


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband