Skrifstofuhljóð

Hef átt mér ýmsar skrifstofur um ævina og eitt af því sem er áberandi eru umhverfishljóðin sem þeim fylgja. Í opnu rými, eins og ég hef unnið í mestanpart það sem af er árþúsundinu tilheyra hljóðin reyndar ekki umhverfinu heldur einkaheiminum, því oftast er best að einbeita sér með því að setja á sig eyrnaskjól (headphone-a) á slíkum stöðum. Hef jafnvel staðið mig að því að ræða á msn við manninn við hliðina á mér ef ég er að vinna í opnu rými, frekar en að kjafta við hann.

En svo eru það aðrar skrifstofur með allt annars konar umhverfi. Í Sjálfsbjargarhúsinu, þar sem ég sit við skriftir þessa dagana, alla vega tvisvar í viku, eru einstaklega skemmtileg umhverfishljóð. Fyrir utan gluggann eru grenitré sem heyrist stundum í þegar hvessir, tónstofa Valgerðar er við hliðina á minni skrifstofu, og ekki spillir að inni á skrifstofunni, þar sem ég hef aðstöðu, er trommusett og hljómborð, mjög flott þegar ég lít upp úr tölvunni. Ys og þys allan daginn, gengið út og inn nálægt minni skrifstofu, en þetta eru glaðleg hljóð og þægileg.

Oft hef ég haft skrifstofuaðstöðu í miðbænum, neðarlega á Laugavegi, niðri í Austurstræti og í Aðalstrætinu og núna seinast hef ég smá skyldum að gegna í Hafnarstrætinu. Miðbæjarhljóðin eru virkilega skemmtileg, umferðahljóð, kaffihúsatilfinning, hér var dúndrandi þungarokk á Kaffi Rót um daginn (eitthvað komið fram á kvöld) og svo eru sírenur af og til sem tilheyra litlum, sætum stórborgum. Brak og brestir í gömlum húsum auka enn á sjarmann á flestum þessara skrifstofa sem ég hef haft athvarf á, að einni undanskilinni, sem samt var ósköp ágæt. Núna sig ég í húsi sem er frá því sautjánhundruð og súrkál (í alvöru, byggt fyrir árið 1800) þar sem gólfin eru skökk en húsið er himneskt engu að síður.

Ekki má ég gleyma skrifstofunni í Háuhlíð, þar sem ég skrifaði Sögu Húsmæðrakennaraskóla Íslands, en þetta var í Öskjuhlíðinni með fallegan gróður allt um kring og húsið fullt af heimilisfræðikennaranemum og kennurum þeirra. Skrifstofan mín full af gömlum matreiðslubókum þar sem finna mátti setningar eins og ,,Tag et sölvfad ... ". Þótt húsið væri ekki orðið fimmtugt þá var þar mjög hressilegur umgangur á kvöldin, þegar enginn var í húsinu nema ég, og þessi umgangur var ekki af mínum völdum, né heldur Securitas, sem vaktaði húsið. Mér fannst þessi umgangur bara þægilegur og lýkur þá umfjöllun um skrifstofuhljóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband