Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Framboðslistar VG lagðir fram - stefnan í kosningabaráttunni mótuð um helgina

Þá eru framboðslistar VG í Reykjavík og Suðvestrinu komnir fram. Ég lenti á góðum stað á listanum í Reykjavík norðri - eins og ég reyndar vissi fyrir (reyndar ekki hvort það yrði í norðri eða suðri) en beið með að ræða þar til listinn væri fullgerður - og hlakka til að kjósa Suðvesturlistann sem er mjög skemmtilega skipaður, eins og fyrirsjáanlegt var. Allt getur gerst en horfur eru á að við fáum þrjú þingsæti í öllum kjördæmum nema einu, mér er sagt að núverandi niðurbrot kannana segi að það sé vgnorðvesturkjördæm. Mismunur á stærð kjördæmanna og lítið úrtak í niðurbrotnum tölum getur hins vegar raskað þessu enn meira og kosninganóttin verður spennandi. Mér sýnist þó að ég sé líkleg í varaþingsæti, sem er mjög áhugaverð staða. Eins og ég hef ekki saknað þingsins sem vinnustaðar þessi 14 ár sem eru liðin síðan ég hætti þar, þá sé ég núna lag fyrir hugsjónirnar, lag sem ekki kemur alltaf.

Vinstri græn hafa skýra og góða stefnuskrá. Áherslurnar í kosningabaráttunni núna verða mótaðar á landsfundinum sem hefst núna klukkan þrjú í dag og stendur alla helgina.Þetta verður stutt og snörp barátta, ekki nema fimm vikur til kosninga. Til að tryggja réttlæti, jöfnuð og vönduð vinnubrögð í því gríðarlega átaki sem verður að koma samfélaginu aftur í starfhæft horf og tryggja hag þeirra sem verst eru settir er ekki hægt að sætta sig annað en stjórn með VG innanborðs eftir kosningar. Ábyrgð okkar sem mótum kosningaáherslur er því mikil en veganestið, stefna VG, gott.

Okkar fólk á mjög annríkt við að stjórna landinu og þoka frábærum málum áfram, loksins sjáum við að verið er að vinna heimavinnuna sína til þess að geta tekið á þessum hrikalegu efnahagsmálum. Því miður var komið nánast að auðu borði í mörgum þeim mikilvægu verkefnum sem nú er verið að vinna að, aðgerðaleysi fyrri stjórnar, sem ég var að vona að væri ekki eins svakalegt og virtist vera, var því miður ótrúlegt. Ég er líka sérlega ánægð með afstöðuna sem tekin er gegn mansali og vændi, þar sem áherslan er ekki á að níðast neitt frekar á stúlkunum og konunum sem hafa ,,lent" í þessu hlutskipti heldur beina sjónum sínum að því hvað liggur að baki mansali og þeirri flóknu umræðu sem flest í klám- og kynlífsvæðingu samfélagsins. Mikil kvenfyrirlitning og mannfyrirliting sem þar á sér stað, því við eigum ekki að gleyma því að strákar eru líka hluti fórnarlambanna sem selja sig, þótt fæstir þeirra séu gagngert fluttir til landsins í því skyni, nóg er af innlendum fíklum sem menn virðast reiðubúnir að notfæra sér.


Ætli fólk sé ekki fullfært um að hafa skoðun sjálft - og sé jafnvel hjartanlega sammála Jóhönnu?

Ætli fólk sé ekki fullfært um að hafa skoðun sjálft - og sé jafnvel hjartanlega sammála Jóhönnu? Ég ítreka enn það sem ég sagði í blogginu í gær, Obama er þegar búinn að taka í taumana í Bandaríkjunum í hliðstæðum málum. Hvort sem ríkinu eða verkafólki er sendur reikningurinn er álíka óafsakanlegt og í slíkum tilvikum er það vitlausasta sem hægt er að gera (og siðlausasta) að telja sig geta greitt þeim sem best hafa það stórar fúlgur í arð. Það fyrirtæki sem ekki getur greitt umsamdar smáhækkanir á lág laun hefur ekki efni á að greiða arð. Það fyrirtæki sem við og afkomendur okkar þurfum að greiða milljarðartugi með um ókomin ár hefur ekki efni á að greiða arð. Svo einfalt er það.
mbl.is Atvinnurekendur reiðir Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxtalækkunin - viltu ekki að ég skyrpi í vatnskassann líka?

Vaxtalækkunin í boði alþjóða gjaldeyrissjóðsins gefur því miður tilefni til þess að rifja upp sögu sem átti að hafa gerst á bensínstöð. Bíleigandi rétti afgreiðslumanni 500 krónur og bað um bensín. Afgreiðslumanninum var misboðið að láta snatta sér fyrir svona lítinn pening og spurði: Viltu ekki að ég skyrpi í vatnskassann líka?
mbl.is „Ótrúlega lítil lækkun"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

VG birtir framboðslista sína í Reykjavík og Suðvesturkjördæmi í kvöld - og landsfundur um helgina

Þá fara línur að skýrast hjá VG, þrír listar verða kynntir á félagsfundum í kvöld. Tímaramminn hefur verð knappur en engu að síður verður hægt að kynna listana fyrir landsfund, sem verður um helgina. Dugnaðarfólk í VG.

Verið að taka á málunum gagnvart svipuðum tilvikum í Bandaríkjum Obama

Heyrði í fréttum í dag að verið er að taka málefnum AIG í Bandaríkjunum með mjög hörðum aðgerðum enda misbýður það flestum að á sama tíma og milljarðar eru greiddir í arðgreiðslur skuli leitað til ríkisins um milljarða-fyrirgreiðslu, eins og fyrirtæki hér á landi eru dæmi um - eða til verkalýðsins eins og hér á við. Harkalega tekið á þessu þar - með öllum löglegum leiðum - og siðleysi ekki liðið.
mbl.is „Hreinlega siðlaust“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei, L-listinn er ekki Ástþór

Fékk skelfingu lostið símtal áðan. Best að árétta það strax: L-listinn er ekki Ástþór og co. heldur eru þeir Bjarni Harðarson, fyrrverandi Framsóknarmaður og séra Þórhallur Heimisson meðal stofnenda þessa kosningabandalags og fljótlega eftir að það framboð fór að spyrjast vildi svo til að fólk sem ég met mikils (og hef þó ekki getað dregið til okkar Vinstri grænna, líklega vegna þess að það er of nálægt miðju) gekk til liðs við hópinn, þeirra á meðal Guðrún á Guðlaugsstöðum, sem aldrei hefur fyrr blandað sér í landspólitíkina. Þetta er hér með tekið fram.

Ef þið kjósið ekki Vinstri græn eigið þið samt góðan valkost

L-listinn fer vel af stað og teflir fram góðu fólki í þessum tveimur kjördæmum, Suðvestur og Norðvestur. Ef ég væri ekki jafn ánægð með mitt frábæra Vinstri græna fólk og stefnu og raun ber vitni myndi ég líklega eiga valkost nú engu að síður. Enginn hinna flokkanna kæmi til greina hjá mér, ekki einu sinni íhugunar og ég get vel unnt þeim sem einhverra hluta vegna eiga ekki samleið með okkur Vinstri grænum að geta kosið gott fólk með góða stefnu í velferðar- og Evrópusambandsmálum. Þórhallur er vel þekktur á mínu heimasvæði og Guðrúnu hef ég lengi þekkt, hún hefur alltaf verð gallhörð Framsóknarkona, en réttlætiskenndin rak hana endanlega úr flokknum og ég tel að bæði hún og L-listinn séu í góðum félagsskap hvort af öðru. Hún er skarpgreind og heiðarleg og eins og hún á (Guðlaugsstaða)-kyn til hefur hún fylgst geysivel með þjóðmálum frá því í æsku.
mbl.is L-listinn teflir fram sr. Þórhalli og Guðrúnu í Kraga og NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bullandi málefnaumræða hjá okkur Vinstri grænum - og okkar fólk með uppbrettar ermar

Málefnaumræðan hjá Vinstri grænum er spennandi þessa dagana og í kvöld lenti ég í því að þurfa eiginlega að sitja tvo málefnafundi samtímis (í feministahópi og utanríkismálahópi), sem merkilegt nokk tókst bara nokkuð vel. Sá fyrri hófst klukkan átta og sá síðari hálftíma seinna þannig að hægt var að ná því helsta úr báðum fundum og ef vg_logo_rautt_web.jpgég væri líka Ung vinstri græn hefði ég þurft að vera á þremur fundum í kvöld. Um helgina verður landsfundurinn okkar og stefnir í metþátttöku, enda gaman að vera vitni að því að fylgjast með okkar fólki með uppbrettar ermar að taka til hendinni í samfélaginu og fær vonandi að halda því áfram eftir kosningar. Ekki spillir að grasrótin (þar er ég eitt af ýlustráunum) er mjög vel virk og veitir aðhald sem alltaf er þarft, en kann líka vel að meta það sem vel er gert.

Svo var það bara vinna og myndlist í mátulegum hlutföllum líka, eins og venjulega.


Bókin var góð - vona að myndin sé það einnig

Það verður vandaverk að uppfylla væntingar lesenda bókarinnar Karlar sem hata konur því bókin var svo skrambi góð (svona eftir að maður áttaði sig á því að þetta var ekki sjálfshjálparbók). Þetta gætu alveg verið karakterar sem duga, eftir myndinni að dæma. Ég fór reyndar einu sinni full væntinga ein í stærsta bíó Köben (ef ekki Norðurlanda) að sjá kvikmyndaútgáfu af annarri góðri norrænni bók, Lesið í snjóinn, bókinni um Smillu eftir Peter Höeg, og var bara nokkuð ánægð þótt spennuhluta bókarinnar væru gerð meiri skil en öðrum og enn betri hlutum. Sú mynd fékk reyndar misjafna dóma en Gabriel Byrne hélt myndinni uppi að mínu mati. Þannig að ég mun taka áhættuna, reyna að sjá þessa mynd í góðum (stórum) bíósal og hlakka til að sjá hvernig til tekst með karaktera sem eru spennandi.
mbl.is Norðurlandabúar flykkjast á norræna sakamálamynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fermingarminningar í Vikunni

Fékk skemmtilegar spurningar frá blaðamanni Vikunnar um daginn, eitthvað á þessa leið: Hvernig var fermingardagurinn, veislan, kjóllinn og eftirminnilegasta gjöfin? Gerðist eitthvað sérstakt á fermingardaginn? Nú, ég lagðist auðvitað í upprifjanir og í Vikunni sem nú er í sölu er afraksturinn og annaferming.jpgþessi eldgamla mynd af mér með Manfred Mann gleraugun, sem líka fóru á Kinks-tónleikana ári fyrr eða svo. Svo er auðvitað fullt af fínu efni í Vikunni eins og venjulega, mér er alltaf vel við þetta blað, þar sem ég vann í fimm indæl ár í hópi einstakra öðlinga út blaðamannastétt á árunum 1980-1985, Sigurðar Hreiðars (auto.blog.is), Jóns Ásgeirs Sigurðssonar, Borghildar Önnu Jónsdóttur, Ragnars Th. og ótrúlega margra annarra frábærra vina minna upp á lífstíð. Margir snillingar hafa komið við á Vikunni um lengri eða skemmri tíma og ég hef tekið eftir því að flestum finnst Vikan hafa verið langskemmtilegust á meðan þeir voru að vinna þar :-) en mér finnst hún reyndar oftast hafa verð góð og vera það núna.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband