Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stríð stjórnvalda, ekki fólksins

Árið 2024 er gengið í garð og ég finn að margir vina mínna bera kvíða og harm í brjósti vegna þeirra átaka sem standa yfir víða um heim, þótt við heyrum mest af Gaza-átökunum og stríðinu í Úkraínu af því þau eru okkur landfræðilega næst.

Það fer auðvitað eftir aldri fólks og áhugasviði (við sagnfræðingar erum ekki barnanna best) hversu mikið af átökum og stríðum hafa raðast í minnið. Foreldrar mínir voru enn talsvert brenndir eftir minningar frá árum seinni heimstyrjaldarinnar og eftirstríðsáranna í mömmu tilfelli, því hún upplifði skortinn og kuldann sem var á þeim tíma er hún var unglingur á kvennaskóla í Skotlandi. Afabróðir minn féll í fyrri heimsstyrjöldinni, eftir að hafa flutt til Kanada, ungur Íslendingur, eftirvæntingafullur og óvitandi um framtíðina, sem var ekki löng. Jafnvel við á Íslandi tengjumst átökum úti í heimi bæði persónulega og að því leyti sem við fylgjumst með. 

Mér eru helst í barnsminni (minni barns með hrikalegan fréttaáhuga) Alsírdeilan með sínum vígum, stríðið í Kongó og Kúbudeilan. Sumarið 1959 bjuggu í raðhúsi við hliðina á okkur mömmu á Suður-Spáni belgísk fjölskylda sem hafði flúið forréttindastöðu sína í ,,Belgíska Kongó" og annan eins nýlenduhroka og bjó í þessum fallegu, ljóshærðu börnum sem voru á mínu reki, hafði ég aldrei upplifað né gert mér grein fyrir að til væri í heiminum. 

Svo tók við eitt af öðru, vorið í Prag og Víet-Nam stríðið setti svip sinn á tilveru ungmennaáranna minna og ég tók þátt í mótmælagöngum gegn báðum stórveldunum sem mest var mótmælt í þeim stríðum, Rússunum sem réðust inn í Prag og Könunum í Víet-Nam. Nokkrum árum síðar fór ég til Prag og mér rennur enn til rifja sorgin og kúgunin sem ég varð vitni að hjá þessari bældu þjóð sem hafði átt sínar vonir og drauma, og reyndar óraunsæja mynd af Vesturlöndum líka. 

En það voru önnur átök sem ég man líka á svipuðum tíma. Kveikjan að þessu bloggi mínu var þegar dóttir mín var að segja mér af ferð yfir á tyrkneska svæðið á Kýpur nú í haust. Á haustdögum 1970 var svokölluð Kýpurdeila enn mjög í fréttum (og óleyst enn) og ég, þá 18 ára, búsett í London og sinnti ýmsum störfum. Meðal annars var ég að vinna á frekar fínu kýpversku veitingahúsi í norðvesturhluta London um hríð. Eigandinn og stjórnandinn var Kýpurtyrki en yfirþjónninn Kýpurgrikki, báðir afskaplega notalegir menn. Mér fannst þetta dálítið merkilegt í ljósi aðstæðna, en þeir gáfu skýr skilaboð, þetta var ekki þeirra stríð. 

Sex daga stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs var líka á mínum unglingsárum og vakti mikinn ugg um alla heimsbyggðina eins og flest þau átök sem hafa orðið þar um slóðir og málstaður undirokaðs almennings í Palestínu er fleirum en mér hugleikinn. Þar, eins og annars staðar, tekur fólk afstöðu samkvæmt réttlætiskennd en ekki þjóðerni eða kynþætti. Mér er það minnisstætt þegar ég rifjaði það upp að ég hafði þekkt ágætlega væna konu sem hafði sinnt herskyldu í Ísrael, gyðingur í húð og hár. Hún tengdist Íslandi sterkum böndum og var búsett hér á landi um tíma. Þetta var Myriam Bat-Yosef, eða María Jósefsdóttir, eins og hún kallaði sig stundum uppá íslensku. Var þá gift Erró, meðan hann hét Ferró. Hún var tíður gestur á heimili mínu og mamma fékk hana til að mála risastórt málverk af mér þegar ég var fimm ára gömul, en þá framfleytti hún sér einmitt með því að mála myndir af ýmsu fólki, og hefur áreiðanlega munað um þennan eyri eins og annan. Hún gaf sér góðan tíma til að spjalla við mig, sem var forvitinn krakki, ekki svo mikið þegar ég sat fyrir í sparikjólnum mínum í kuldanum á háaloftinu í Iðnskólanum líklega, alla vega í skóla á Skólavörðuholti, heldur í hlýrri stofunni heima. Mér fannst alveg stórmerkilegt að hún, konan, skyldi hafa sinnt herskyldu. Hún hvarf svo til Parísar og síðar flutti hún til Ísraels í áratug en aftur til Parísar þegar hún var búin að fá sig fullsadda á herskárri pólitíkinni í Ísrael. Leiðir okkar lágu aftur saman snemma á níunda ártugnum þegar ég tók við hana heilmikið blaðaviðtal, en á þeim tíma vorum við uppteknari við feminískar pælingar en aðra veraldarpólitík. Þegar hún féll frá fannst mér vænt um að sjá í minningargrein um hana getið um einarða afstöðu hennar gegn stríðsrekstri Ísraels og að hún sýndi málstað Palestínumanna fullan stuðning. 

Það eru svo ótal margir sem ekki sætta sig við stríðsrekstur stjórnvalda eða þjóða sinna hvernig sem liggur í málum. Alina vinkona mín frá Kharkiv, 100% af rússneskum ættum, er sem betur fer flutt til Hamborgar en svarinn andstæðingur stríðsreksturs Rússa í Úkraínu og svo ótal margt annað fólk vill ekki sjá stríð stjórnvalda og síst af öllum ofstopa stórvelda í garð smærri ríkja. 

Og hverjir mata krókinn? Kaldrifjaðir vopnaframleiðendur og strengjabrúður þeirra, stjórnvöld hvar sem þau grípa til vopna. Ekki fólkið, ekki fórnarlömbin. 

 


Konan sem þoldi ekki ,,þessar kvennakonur!"

Það verður varla undan því komist að verða hugsað til gamla ,,kvennafrídagsins" eins og umræðan er þessa dagana. Kvennaverkfall í uppsiglingu fyrir konur og kvár og nú á tímum samfélagsmiðla veit ég miklu meira um vangaveltur mikið fleiri kvenna (en engra karla) um þennan dag sem er framundan. Þannig hefur samfélagið breyst. Vangaveltur eflaust ekkert meiri en í upphafi þessara aðgerða, en birtast mér alla vega á allt annan hátt. Hvort það er gott eða vont hef ég ekki hugmynd um. 

Kvennafrídagurinn er mestmegnis góðar minningar í mínum huga og þar á ofan var hann auðvitað ótrúleg upplifun. Það var stórkostlegt í einu orði sagt að fá að taka þátt í þessum heimsviðburði, finna kraftinn í allri samstöðunni og sjá þessar tugþúsundir kvenna fylla allan miðbæinn. Við vorum tvær saman þennan dag, ég og tilvonandi mágkona mín og jafnaldra og ekki hægt að biðja um betri félagsskap. Allir í kringum mig, nema ein gömul frænka, voru þarna á víð og dreif um þvöguna og aldrei spurning, við vorum allar með. Mamma ein af stofnendum Rauðsokkahreyfingarinnar, vinkonur mínar og fjölskylda öll (nema frænkan) á einu máli um þessa aðgerð. Vissulega fannst okkur sumum að þetta hefði átt að vera kvennaverkfall, en ekki frídagur, en þessi varð niðurstaðan og hún virkaði svona vel.

Fyrirvarinn sem ég set að dagurinn hafi einungis verið mestmegnis góður kemur til út af einu atviki. Eftir að fundinum á Lækjartorgi var lokið slóst ég í för með nokkrum gömlum skólasystrum og kærasta einnar þeirra og við fórum heim til einnar úr hópnum. Þær voru á þeim tíma talsvert virkari en ég í kvennabaráttunni og tóku sjálfar þátt í ýmsum aðgerðum Rauðsokka mun oftar en ég, enda áttu þær mun borgaralegri og stilltari mæður en ég, vel hugsandi konur vissulega, bara stillari en mín mamma var. Svo þær vissu eflaust að þær yrði sjálfar að redda þessu öllu saman meðan ég hafði fulla trú á að mamma væri svona hér um bil búin að því, prívat og persónulega. Nema hvað, einhver kergja var á milli eina parsins í hópnum og gengu einhver brigslyrði þeirra á milli, ég reyndi að leiða þetta hjá mér, en fékk samt smá bakþanka - mun þetta einhvern tíma verða í lagi, samskipti kynjanna? Þau, þetta ofurmeðvitaða fólk hundóánægð á þessum dýrðardegi? Áhyggjur mínar reyndist að ég best veit gersamlega ástæðulausar hvað þessi tvö varðaði alla vega. Þau hafa staðið þétt saman, æ síðan, og verið fyrirmynd annars fólks að mörgu leyti og getið sér gott orð í sínum störfum og einkalífi að ég best veit. En þennan dag varð ég svolítið áhyggjufull fyrir þeirra hönd.

Það er af gömlu frænku minni að segja að ég efast ekki um að hún hefur staðið við orð sín og straujað skyrtur eiginmannsins tvisvar þennan eftirminnilega dag. Afkomendur hennar hafa aftur á móti fetað mikla kvenfrelsisbraut, en það veit hún ekki, nema forvitnin hafi rekið hana til að fylgjast með að handan. 

Tíu árum síðar var ögn annað andrúmsloft þegar ákveðið var að endurtaka leikinn með öðrum hætti og halda upp á tíu ára afmæli kvennafrídagsins með margvíslegri dagskrá, sýningum og öðrum uppákomum sem stóðu talsvert lengur en einungis þennan dag, þótt konur hyrfu ekki frá vinnu nema þá. Þá hafði ég hellt mér út í kvennabaráttuna og tók virkan þátt í undirbúningi og uppákomum dagsins og því sem á eftir fylgdi. Við vinkonur úr blaðamannastétt vorum allar á einu máli og einhvern veginn æxlaðist það þannig að okkur var falið að hafa samband við trúnaðarmann á vinnustað þar sem orðrómur hafði borist um að eigendur fyrirtækisins væru að reyna að koma í veg fyrir að konurnar sem unnu hjá þeim tækju þátt í dagskrá dagsins. Trúnaðarmaðurinn (kona) tók mér vægast sagt illa þegar ég bar upp erindið og við áttum fremur leiðinlegt samtal sem aðallega fólst í að hún mærði eigendur téðs fyrirtækis. Svo kvað hún upp úrskurð sinn í lok samtalsins og tilkynnti mér að hún þyldi ekki þessar ,,kvennakonur"! 

 


Eldri borgari í ,,öruggu" sæti gleymir sér - Stikkfríður sá þetta ekki fyrir

Af og til hef ég verið beðin um að setjast á framboðslista. Oft varist fimlega, nokkrum sinnum ekki og það hefur yfirleitt endað með mislangri skuldbindingu og gríðarlega löngum vinnudögum, -vikum, -mánuðum og jafnvel -árum. 

Ég veit ekki alveg hvað það var í upphafi sem fékk mig til að segja já við því að setjast á framboðslista (VG) eftir nokkurt hlé nú fyrir nokkrum vikum. Bað um ,,öruggt sæti", það er að engin hætta væri á þingmennsku. Fékk það. Taldi að ég væri einungis að lýsa yfir bjargföstum stuðningi mínum við framboðið með því að taka sæti á þessum lista, en trúði því að úr 20. sætinu þyrfti ég nú ábyggilega ekkert að gera, alla vega ekki mikið, eða alla vega ekkert rosalega mikið. Auk þess var ég nokkuð viss um að nú þegar ég er orðin virðulegur eldri borgari og óttalegur félagsskítur að auki (ekki einu sinni félagi í ungliðahreyfingu félags eldri borgara) yrði ég að hinni vinsælu ,,Stikkfríði" eins og við Kvennalistakonur forðum daga kölluðum margar yndislegar stallsystur okkar. 

En nú hef ég hrifist með, jafnvel þótt ofan á önnur verkefni mín (glæpasagnaskrif, frístundablaðamennsku fyrir Læknablaðið og spennandi myndskreytingarverkefni) hafi bæst verðugt fjölskylduverkefni. Svo ég stend mig að því æ ofan í æ að reyna að finna lausa stund og leggja mitt litla lóð á vogarskálina til að tryggja flokknum mínum brautargengi. Ég er ekki og hef aldrei verið neitt sérlega leiðitöm en í þetta sinn tek ég býsna ákveðna afstöðu með VG, þótt ég viti vel að ég mun ekki, og á ekki, að ráða för eftir kosningar. Get tekið þátt í umræðunni, en alls ekki vitað hvort og að hve miklu leyti mínar áherslur verða ofan á. Er mikið spurð þessa dagana hvernig stjórnarsamstarfi ég haldi að VG muni taka þátt í. Mitt hreinskilna svar er: Ég hreinlega veit það ekki, í flokknum eru skiptar skoðanir og mín tilfinning er að ólík stjórnarmynstur njóti álíka hylli flokkssystkina minna. Ég er hins vegar ánægð með árangur VG á þessu kjörtímabili og vildi svo gjarnan sjá áhrif okkar málefna vaxa og dafna. Þess vegna er ég komin inn í hringiðu stjórnmálaumræðunnar enn einu sinni. 

 

 


Klíp í rass

Heyrði á tal tveggja karlmanna um fertugt. Þeir voru að ræða um og fannst óskaplega fyndið að Salka Sól skyldi kvarta undan því að einhverjir karlar væru að klípa hana í rassinn. Þeir féllu nokkra kílómetra í áliti hjá mér og ég býst ekki við að tala við þá aftur. Vitur kona benti mér reyndar á að með þessu tali væru þeir annað tveggja, að reyna að epsa kvenréttindakonuna upp eða reyna að ganga í augun hvor á öðrum (ekkert endilega kynferðislega), sem sagt að spila sig stóra karla. Þar sem þeir vissu ekki af því að ég varð vitni að þessu samtali þeirra, né nokkur annar/önnur, þá ætla ég að seinni skýringin sé hárrétt.

En hvað um það. Kvartaði á ofurverndaðri Facebook-síðu sem ég hleypi aðeins völdum vinum og ættingjum á. Ekki stóð á góðum ráðum og upprifjunum. Mér var meðal annars ráðlagt að klípa í rassinn á þeim, en tilhugsunin um það olli mér alvarlegri klígju, svo ég mun ekki gera það. En einhverjum bjöllum hringdi þetta nú samt í huganum og allt í einu mundi ég hvers vegna.

Það var veturinn 1984-1985 að ég játa að ég hló eitt sinn að rassaklipi. Varð sem sagt vitni að því að valdamaður nokkur, ungur og fjallmyndarlegur, laut yfir afgreiðsluborð í húsakynnum þar sem hann var hæstráðandi. Og skúringakonan, rúmlega miðaldra, látlaus kona, gerði sér lítið fyrir og kleip hann svo hressilega í rassinn að hann spratt upp eins og gormur. Við sem í kring vorum gátum ekki haldið aftur af hlátrinum. Stikkorð: Valdastaða, aldur og kyn.


Minningar frá kvennafrídögum, ,,kvenna-konur" og villikellingar

Líklega mun 24.október 1975 aldrei líða þeim úr minni sem tóku þátt í þeim merkilega viðburði. Eins og fjöldi kvenna mætti ég á Lækjartorg og hitti þar Síví mágkonu mína neðarlega í Bankastræti. Við stóðum bergnumdar og vissum að við vorum að taka þátt í heimsviðburði. Rauða örin á myndinni bendir á litlu punktana í Bankastræti sem ég held að hljóti að vera við tvær. Síðar um daginn slóst ég í hóp með góðum skólasystrum úr MR og Hagaskóla, við fórum heim til Svövu nokkur saman, því einhverjar voru komnar með eiginmenn upp á arminn. Öll auðvitað mjög heit í kvennabaráttunni þá sem bæði fyrr og síðar. Svava líklega virkust okkar með Rauðsokkum og Kvennaframboðinu en við Sirrý og Ásta fundum okkur einnig farveg með Kvennaframboði og/eða Kvennalista síðar.

postkort_kvennafridagur

Tíu árum síðar var Kvennalistinn orðinn að veruleika og að stjórnmálaafli. Við á Vikunni tókum mjög virkan þátt í undirbúningi undir 10 ára afmælis kvennafrídagsins, bæði með virku framlagi til baráttusýningar sem var haldin í bílakjallara Seðlabankans, ef mig misminnir ekki. Á vef Kvennasögusafnsins segir um þessa sýningu: ,,Þann 24. október opnaði í seðlabankabyggingunni, sem þá var hálfköruð, mikil sýning kvenna er bar heitið Kvennasmiðja. Kjörorð hennar var: Konan - vinnan - kjörin. Sýningin var opin í vikutíma og þar gafst almenningi kostur á að kynnast atvinnuþáttöku kvenna í þjóðfélaginu. Samnefnt dagblað var gefið út og geymir það miklar upplýsingar."

Það sem mér er þó minnisstæðast er að orðrómur var um að eitt fyrirtæki með margar konur í vinnu ætlaði að halda þeim í vinnunni þennan dag með góðu eða illu. Það kom í minn hlut að hringja í trúnaðarmanninn og hún hellti yfir mig bældum kenndum um illsku okkar kvennabaráttukvenna og klykkti út með því að hún þyldi ekki ,,þessar kvenna-konur". Margt fleira var gert kringum þennan viðburð og það sem ég kom helst að var að velja ljóð eftir konur fyrr og nú fyrir dagskrá sem haldin var í Gerðubergi. Líklega ,,lenti" ég í því hlutverki vegna þess að ég hafði haldið úti útvarpsþáttum um bókmenntir í margs konar sambandi á árunum þar á undan.

Árið 2005 fórum við konurnar hjá Betware niður í bæ, galvaskar. Við vorum að drukkna í kvennaþrönginni og komumst aldrei alveg inn á Ingólfstorg, þegar ég skoða vef Kvennasögusafnsins þá sé ég hvers vegna mér fannst svona margar konur vera mættar: ,,Talið er að allt að 50.000 manns hafi verið í miðbænum meðan fundurinn stóð yfir, mestmegnis konur. Það er þriðjungur allra kvenna á landinu. Þetta er stærsti fundur Íslandssögunnar. Fundir voru einnig haldnir víða um land sem tókust með miklum ágætum." Blaðafréttir af deginum taka í svipaðan streng varðandi fjöldann. Hvers vegna skyldi einmitt þá hafa brotist fram svona mikil þörf fyrir að mótmæla misrétti? Það skyldi þó aldrei vera að það hafi verið vegna þess að góðæri útrásarvíkinganna var ekki góðæri þorra kvenna?

Það er mikið talað um hvernig veðrið var árið 2010 en ég skrifaði þetta á Facebook (svolítið væmin) þann dag: ,,Stórkostlegur kvennafrís- og verkfallsdagur í kulda og trekki, en hlýjan kom frá öllum konunum á Arnarhóli. Einmitt núna var ég svo spennt að vita hvernig mætingin yrði, en varð ekki fyrir vonbrigðum og við vorum bara allar svo vel klæddar!"

Austurvöllur var þéttskipaður í dag, eins og við var að búast, ekki þó 50.000 eins og 2005 - þrem korterum í hrun. Við, sem mættum líka 1975, ræddum okkar á milli hvers vegna enn væri þörf á þessum aðgerðum. En þær sem voru varla eða alls ekki fæddar þá voru ekkert að láta það trufla sig og einfaldlega tilbúnar að ganga í málið og klára það. Og núna heyrði ég hugtakið ,,villikelling" í fyrsta sinn í lagi hjá hljómsveitinni Evu og smell-fann mig í hlutverkinu, enda gamall villiköttur úr VG. 

kvennafri.2016


Skömmusta og sjálfumgleði

Þótt ég eigi samleið með mótmælendum, enn einu sinni, þá er ég ekki alltaf sammála þeirri orðræðu sem á sér stað. Orðræðan og hvernig við skilgreinum okkur skiptir máli ef okkur á að þoka áfram á skárri stað. Þessi skömmusta gagnvart Evrópu og/eða Vesturlöndum, hún hefur vakið mig til umhugsunar. Mig langar til að vita af hverju hún stafar? Ef við dáumst að nágrannalöndunum af því þau fara flest betur með sjúklingana sína en við, þá er ég með. En ef það er vegna þess að við viljum vera viss um að við tilheyrum ,,elítunni“ í heimi þjóðanna, þá er ég ekki með. Ágætu vinir, gegn hverju erum við einmitt að berjast núna?

Mér líður sem sagt ekkert allt of vel með það hvernig margir hér á landi skammast sín aðallega gagnvart öðrum velsælum Vesturlöndum, núna þegar til umræðu er einmitt misskipting auðs og valda. Slík misskipting á sér ekki aðeins stað innan landa, heldur milli landa. Þótt fáeinir spilltir þjóðarleiðtogar og sá hluti auðsstéttarinnar sem sinnir eingöngu sérhagsmunagæslu komi óorði á mörg þau lönd sem við flokkum okkur EKKI með, lönd sem ekki eru hin frábæru Vesturlönd, þá finnst mér of oft gleymast hve ríka menningu, góða menntun og eftirsóknarverð gildi mörg önnur menningarsvæði en Vesturlönd eiga. Við Vesturlandabúar erum ekkert endilega til fyrirmyndar á öllum sviðum. Má ég nefna umhverfismálin? Og það er staðreynd að ýmsir verstu siðspillar Vesturlanda einbeita sér enn að því að níðast á fólki í öðrum heimshlutum. Eigum við bara að gleðjast yfir því að þeir láta okkur á meðan svolítið meira í friði, ef þeir þá gera það?

Ég veit það vel að ég má vera þakklát fyrir að búa ekki í samfélögum þar sem konur eru gersamlega valdalausar í nafni (misskilinnar eða skilinnar) trúar. Eða í landi þar sem líkurnar á því að búa við sára fátækt og skort á mannréttindum eru yfirgnæfandi meiri en að líkurnar á að tilheyra forréttindastéttinni. Og að hafa ekki búið við raunverulega, alvarlega skoðanakúgun, já ég er þakklát fyrir það líka. En ég get engan veginn talað um Rússa eða Úkraínumenn með einhverri sjálfvirkri fyrirlitningu þótt þeir sitji uppi með meiri forystuvandamál en við (er það annars ekki?). Eða dæmt fyrrum nýlenduþjóðir Evrópu fyrir að halda áfram að láta kúgara kúga sig eftir margra alda þjálfun. Finnst heldur ekki allt á Vesturlöndum frábært. Vona að það skili sér í umræðuna með tíð og tíma, við höfum alveg séð hryggileg dæmi um hvernig sjálfumgleði fer með fólk, stéttir, tímabil og heilar þjóðir og heimshluta.


Tíðindi dagsins kalla á blogg

Lagaumhverfið og skortur á vilja til að herða löggjöf um skattaskjól eru líklega það markverðasta í umfjöllun fjölmiðla – hvernig stendur á þessu?

En að öðru leyti liggur mér þetta á hjarta núna: Er ég sú eina sem er ekkert óskaplega undrandi á því að ýmsir ráðamenn þjóðarinnar skuli standa nákvæmlega fyrir það sem þeir standa? Í ljósi þeirrar staðreyndar að ýmsir þeirra tilheyra sérréttindastétt sem telur hreinlega eðlilegt að skara eld að eigin köku en þykist standa fyrir annað þegar að kosningum kemur. Og þá er ég að tala um í víðari skilningi en bara þeir einstaklingar sem eru í kastljósinu núna. Mikil misskipting auðs og valds er staðreynd, bæði á Íslandi og annars staðar og hún leiðir einmitt til þessarar stöðu. Tveir og stundum þrír flokkar hafa verið kræfastir í því að hygla forystumönnum sínum og staðið vörð um hagsmuni stóreignafólks. Fullt af öðrum flokksmönnum styðja hinar fallegri hugsjónir þessara flokka og alls ekki fulltrúar eigin hagsmunagæslu. Við þekkjum flest marga þeirra. En: Afsakið, en hvaða flokkar voru eiginlega kosnir til valda aðeins fimm árum eftir hrun? Og hver kaus þá? Vissulega gerði ég það ekki, en er samt hluti af þessu samfélagi sem ber ábyrgð á þessum mönnum. ,,Ooops we did it again“, segir í vinsælu lagi. Það hefur ekki eins mikið breyst frá því skattaskjólsmálin komu upp eins og margir vilja vera láta. Það var alltaf tilefni til tortryggni. Og ef niðurstaðan verður sú sem mig grunar, að annar af helst auðs- og valdaflokkum landsins svíki hinn í tryggðum og verði fyrir vikið refsað ,,minna“ en hinum, þá kemur það mér heldur ekki á óvart. Hefði ekki gert það ef við (það er ráðamenn Íslands og fulltrúar landsins á alþjóðavettvangi) værum ekki enn einu sinni orðin opinber á alþjóðavísu að dómgreindarleysi. Eins og Guðni Th. Jóhannesson minnti á í fréttatíma áðan, þá hefur tekið sig upp gamalgróinn hugsunarháttur: ,,Ég á þetta, ég má þetta.“

Kosningar nú í vor/sumar, samhliða forsetakosningunum, eru að mínu mati líklegasta niðurstaðan nú, ekki sú eina mögulega, heldur líkleg. Hvernig nákvæmlega það ber að veit ég ekki á þessari stundu. Það mun líklega koma í veg fyrir breytingar á heilbrigðiskerfinu sem sumar hverjar virðast stefna að því að halda áfram að rukka íslenska sjúklinga miklu meira en sjúklinga í nágrannalöndunum. Ég ætla rétt að vona að næsta ríkisstjórn muni bera gæfu til að létta þessum byrðum af sjúklingum og rétta hlut þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu. Afsakið aftur, en ég er ekki bjartsýn. En breytingar alla vega sá kraftur sem gefur möguleika til að gera betur – eða verr.


Regnboginn er: Bjarni Harðarson, Jón Bjarnason, Harpa Njálsdóttir, Baldvin H. Sigurðsson, Friðrik Atlason, Valdís Steinarsdóttir, Atli Gíslason og margir fleiri

Mér skilst að það séu ekki allir búnir að átta sig á því hvað Regnboginn er í þessum kosningum. Það er annað hvort hægt að skoða allt um Regnbogann á www.regnboginn.is eða þetta hér: Regnboginn er ekki flokkur heldur framboð fólks, meðal annars þessara sem eru taldir upp hér á eftir: Bjarni Harðarson, Jón Bjarnason, Harpa Njálsdóttir, Baldvin H. Sigurðsson, Friðrik Atlason, Valdís Steinarsdóttir, Atli Gíslason, Þorsteinn Bergsson, Sædís Ósk Harðardóttir, Arnþrúður Heimisdóttir, Karólína Einarsdóttir, Guðmundur Brynjólfsson og margir fleiri og ég er stolt af því að vera í hópi þessa góða fólks.

Regnboginn


Ef skakkar skoðanakannanir eru nú skoðanamyndandi ...

Skoðanakannanir undanfarna daga virðast gefa vísbendingar um hvert stefnir varðandi úrslit kosninganna. En er það svo?

Óvenju margt bendir til að skekkjur séu margar nú, og sumir félagsvísindamenn reyna vissulega að vekja athygli á því.

1. Sveiflur á fylgi flokka eru óvenju miklar svo skömmu fyrir kosningar.

2. Kjósendur eldri en 67 ára (35 þúsund manns heyrðist mér sagt í útvarpinu) eru ekki spurðir í sumum könnunum. Það hefur verið gagnrýnt. 

3.  Ótrúlega hátt hlutfall kjósenda hefur ekki gert upp hug sinn. Þegar aðeins næst í 63,2 % kjósenda og aðeins 67,8 % þeirra hafa gert upp hug sinn, er í raun ekki komið á hreint hvað næstum 60% kjósenda ætla sér, heldur aðeins um 42%. 

Skoðanakannanir á þessum mjög svo ótrausta grunni eru engu að síður skoðanamyndandi að einhverju marki. 

Mjög oft í undanförnum kosningum hafa skoðanakannanir skömmu fyrir kosningar reynst býsna nálægt úrslitum kosninga. Reyndar ekki endilega í takti við það hversu fagleg vinnubrögð eru ástunduð. Í fyrstu árum mínum í blaðamennsku bauð Blaðamannafélagið upp á ýmis mjög metnaðarfull blaðamannanámskeið, aðallega í samstarfi við Háskóla Íslands. Ég sótti nokkur þeirra, meðal annars námskeið um skoðanakannanir. Þar lærði ég margt um hvernig faglegar skoðanakannanir eru gerðar. En hins vegar vildi oft svo til að þeir sem gerðu þær kannanir sem þóttu minnst ábyggilegar (en alls ekki óábyggilegar) römbuðu á réttustu útkomuna. En þessar kannanir byggðu á allt öðrum veruleika en nú er uppi. Miklu fleiri höfðu gert upp hug sinn. Sveiflur eins og nú sjást voru ekki til staðar, heldur miklu meiri langtímasveiflur. 

Hver mun tapa og hver mun njóta góðs af ef veruleikinn sem kemur upp úr kjörkössunum verður annar en sá sem skoðanakannanir halda að okkur veit enginn. Eitt af því sem hefur áhrif er hvort skakkar skoðanakannanir verða skoðanamyndandi. 

Gott að hafa þetta í huga! 

400_f_45803204_r3bastk7s6wen97ink0vtjl0ktd2cd2t_-_copy.jpg


Ég meina það

Mér finnst ekki hægt að vera í stjórnmálum nema að meina það. Stjórnmál eru ekki endilega áhugamál, eiga ekki að vera lífsstíll og þaðan af síður einhver rós í hnappagatið. Kringum búsáhaldabyltinguna fann ég að verið var að umbylta æði mörgu, meðal annars hugmyndum um hvað stjórnmál væru og hvernig þau ættu að vera. Allt í einu var farið að setja spurningamerki við svo ótal margt og enginn gat lengur sagt að hann eða hún ætlaði bara að kjósa eins og pabbi og mamma, enda gat allt eins verið að pabbi væri farinn til Noregs að vinna og mamma að tromma á potta niðri á Austurvelli, eða öfugt. Vonbrigði þess kjörtímabils sem nú er að ljúka eru ekki vegna þess sem vel hefur verið gert, sem er vissulega fjölmargt, heldur vegna þess sem hefur brugðist. Við höfum öll okkar hugmyndir um hvað hefur einkum brugðist og hvers vegna.

Mín er þessi: Ómældum tíma, fé og orku hefur verið eytt í vitleysu. Toppurinn á ísjakanum er Icesave, en hin 90% eru aðildarferlið að ESB. Þar hefur peningum verið sóað og tíma fjölda fólks, sem átti að vera að sinna því að finna úrræði til að bjarga fjölskyldum og einstaklingum sem hafa verið að missa allt sitt, verið kastað á glæ á altari ESB-trúarinnar. 

Og ég meina það!

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband