Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Stokkað upp á nýtt
13.4.2013 | 01:19
Allt er á fleygiferð í íslenskum stjórnmálum nú. Formaður flokks sem hefur löngum gert kröfu um að vera sá stærsti á Íslandi veit ekki í hvorn fótinn hann á stíga. Önnur ágjöf er á sumum vonarpeningunum, sem komið hafa fram á sjónarsviðið.
Það merkilega er að nú eru aðeins tvær vikur til kosninga.
Jafnvel Framsóknarflokkurinn veit ekki hvort fylgið í skoðanakönnunum skilar sér upp úr kjörkössunum. Heyri sífellt oftar að þar á bæ hafi menn áhyggjur af tvennu: Annars vegar að kosningarnar skuli ekki vera yfirstaðnar nú þegar, eða alla vega áður en meiri umræða verður um efnahagstillögur þeirra og hins vegar að einhver kunni að fatta að þeir eru einn af fjórflokknum. Margir segja nú: Alla vega ekki fjórflokkinn! Kannski geta þeir í Framsókn eignað sér gamlan brandara sem var stundum sagður þegar þorri Íslendinga skildi skrýtlur sem sagðar voru á dönsku:
Ceasar er död!
Napoleon er död!
Og selv föler jeg mig faktisk lidt slöj!
Hvað sem verður þá er eitt víst að ekkert er víst. Og vonandi verður niðurstaðan að fólk kýs eftir málefnum sem það trúir að verði fylgt eftir af heilindum og heiðarleika. Í rauninni kallar skuldavandi heimilanna ekki á minna en að allir snúi bökum saman. Við getum tekist á um önnur mál, svo sem ESB-aðild, þar sem við í Regnboganum erum kannski þau einu sem munum örugglega ekki ljá máls á að stuðla að aðild Íslands að ESB- með beinum eða óbeinum hætti. En ráðstafanir til að koma til bjargar þeim sem enn eru að ströggla við að ná endum saman og endurheimta sjálfsögð mannréttindi eins og lífsviðurværi og húsaskjól: Gera verður kröfu til að í þeim aðgerðum taki allir þátt og klári málið þannig að þessi hópur fái ekki minni fyrirgreiðslu og fé en stórskuldarar sem fá niðurfellingu á milljarðatugum, fjárglæframenn og sjálftökustéttin nýja.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:23 | Slóð | Facebook
Flokkar eiga ekki fólk en sumt fólk á flokka
6.4.2013 | 02:36
Flokkar eiga ekki fólk, þótt sumir þeirra hagi sér stundum eins og svo sé. Hver og einn kjósandi getur ráðstafað atkvæði sínu eins og henni eða honum lystir og þau mannréttindi eru dýrmæt. Þarf ekki einu sinni að kjósa flokk, ef annað er í boði.
Hins vegar vita það allir, sem hafa fylgst með stjórnmálum í meira en korter, að fólk getur ,,átt" flokka í krafti auðs og valda. Það kaupir sér ekki flokk af því það sé svo gaman að eiga flokk, svona eins og að eiga persneskt teppi eða listaverk eftir Eggert. Nei, að eiga flokk merkir ekkert annað en að ætla sér að nota flokkinn til þess að skara eld að sinni köku. Þetta ætti að vera öllum þeim áhyggjuefni sem ráðstafa atkvæði sínu í kosningunum eftir þrjár vikur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:37 | Slóð | Facebook
Það ferli sem Ísland sogaðist inn í með aðildarumsókn að ESB er rammasta alvara. Það veit þorri þjóðarinnar og það er engin tilviljun að andstaðan við aðild Íslands að ESB var orðin mjög mikil áður en ljóst varð í hvaða óefni var komið á Evru-svæðinu.
Hvað er það sem við viljum raunverulega fá að vita?
Viljum við ekki fá að heyra það sagt af fullum heiðarleika hvað aðildarferlið kostar okkur raunverulega? Hvað það kostar að borga öllu því ráðuneytisfólki og starfsfólki stofnana, opinberra sem annarra, kaup fyrir að breyta regluverki samfélagsins svo það uppfylli kröfur ESB? Væri þessum tíma og þessu fé ekki betur varið í annað? Og þá eru ekki talið það vinnutap og kostnaður sem hlýst að utanferðum.
Viljum við ekki fá að vita hversu miklar breytingar er verið að gera á stjórnsýslu Íslands áður en við ,,fáum að vita hvað er í pakkanum"?
Viljum við ekki fá að vita hvort þessar breytingar eru gerðar með hagsmuni almennings í huga eða til að hlýða tilskipunum og dómum sem fallið hafa í ESB?
Viljum við ekki fá að vita hvort þær breytingar sem verið er að gera eru afturkræfar ef þær reynast nú ólánlegar?
Viljum við ekki fá að vita hvaða afleiðingar sumar þær reglugerðir sem við erum að undirgangast nú þegar munu hafa á atvinnulíf og lífið í landinu?
Viljum við ekki fá að vita hversu miklu stendur til að breyta áður en óvinsælu og umdeildu kaflarnir, um landbúnaðarmál og sjávarútveg verða opnaðir?
Ef við viljum vita það sem raunverulega skiptir máli þá þýðir ekki að bíða endalaust. Við viljum vita sannleikann núna og ekki halda áfram ESB-aðildarviðræðum sem geta tekið óratíma og engu skilað, nema einhverjum pakka sem við annað hvort verðum að taka við, hvað sem í honum er, eða henda á haugana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 3.4.2013 kl. 00:00 | Slóð | Facebook
Endilega heimsækið villikattabloggið
28.3.2013 | 02:15
Á blogginu villikettir.blog.is er bloggað um villiketti og annað fólk sem kennir sig við Regnbogann þessa dagana.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook
Það er engin leið að hætta ...
15.3.2013 | 18:06
Nokkuð oft hef ég reynt að hætta í pólitík. Seinast í janúar, og hafði þá verið óvirk í flokksstarfi í meira en hálft ár. Svo hringdu vinir mínir í mig í byrjun þessa mánaðar. Ég held ég verði að fara að spila tölvuleik, sem ég þekki ekki haus né sporð á (og hætta í Angry Birds á meðan). Þessi virðist nefnilega dekka nokkurn veginn það sem ég er að fara að gera - það skilja eflaust margir áður en skellur í villikattatönnum:
En held áfram að hafa þetta einka-bloggið mitt.
Þeir sem vilja frekar pólitík geta skoðað eftirfarandi, sem ég er að fara að sinna betur en fyrr:
villikettir.blog.is
og síðan:
villikettir.is
Karlar eru körlum verstir
25.10.2012 | 17:00
Hvernig er það með þessa karlmenn? Þegar tekist hefur að finna frambærilegan karlmann í efsta sæti á framboðslista, þá skal alltaf koma til sögunnar annar karl sem sækist eftir sæti hins fyrrnefnda. Það ætlar að sannast hið fornkveðna, karlar eru körlum verstir.
Ekki alveg hætt að hugsa um pólitík
17.8.2012 | 00:17
Þó ég sé að hugsa um að breyta blogginu mínu í ferðablogg og búin að lofa/hóta því að setja inn Facebook-stöðuna: Hætti í pólitík og farin að spila golf!, þá finnst mér að ef til vill sé komin ögurstund í stjórnmálum, enn einu sinni. Eftir að Kvennalistinn var lagður niður og hluti hans rann inn í Samfylkinguna, ákvað ég að verða pólitískur munaðarleysingi og kunni því bara ágætlega. Svo voru Vinstri græn stofnuð og ég tók þátt í því og tókst að halda mér á hliðarlínunni í áratug. Svo breyttist allt, búsáhaldabyltingin hreyfði við mér eins og fleirum og ég endaði sem varaþingkona VG, en greinilega án nokkurra starfsskyldna. Löng saga og ekki merkileg. En alla vega, samviskusamlega sótti ég landsfundi og flokksráðsfundi, var ein af fimm sem ekki taldi kostina sem okkur var boðið upp á í samstarfi við Samfylkinguna nógu aðgengilega vegna ESB-mála. Sannfærð um að við hefðum getað gert betur þar, en fyrst svo var ekki var bara að standa sína pligt og hreyfa þeim málum sem mér fannst ástæða til á vettvangi flokksins.
Líklega er ég of seinþreytt til vandræða. Mörg skoðanasystkini mín og vinir hafa horfið úr VG, því miður. Sjálf er ég orðin langþreytt á að finnast ég tala við tómið. Og núna, þegar allt í einu virðist rofa til í baráttugleði forystu VG gegn ESB-ferlinu, af hverju er ég þá full efasemda um að þetta muni snúast rétt? Þannig að ég er ekki hætt í pólitík, en ég er (loksins) farin að spila golf!
Smá misskilningur
23.7.2012 | 17:04
Seint í apríl hélt stúdentsárgangurinn 1972 frá Menntaskólanum í Reykjavík upp á 40 ára stúdentsafmælið sitt í Súlnasal Hótels Sögu. Þetta er stærsti árgangur sem útskrifast hefur úr framhaldsskóla á Íslandi fram til þessa, rétt liðlega 300 manns. Enn er fólk að rekast á skólafélaga sína á útskriftarafmælum og spyrja: ,,Varst þú með mér í skóla? Eða eins og einn virtur sveitarstjórnarmaður sagði (með þunga) við morgunverðarborðið í Valhöll eftir 30 ára stúdentsafmælið: ,,Þessi maður var aldrei með mér í skóla! Ójú, ég er búin að fletta því upp, hann var víst með okkur í skóla.
Það er alltaf ótrúlega skemmtilegt að hitta skólafélagana á fimm ára fresti, eins og fólk eins og ég gerir, þar sem ég er hvorki í saumaklúbb eða úr B-bekknum, en það fólk hittist oftar. Auðvitað fá alltaf einhverjir smá sjokk yfir öllu gamla fólkinu sem var með okkur í skóla, en að sama skapi er hægt að undrast og gleðjast yfir þeim sem hafa ,,bara ekkert breyst. En þetta er með skemmtilegustu skemmtunum, enda frábært fólk á skemmtilegum tímum í skólanum.
Held þó að ég hafi í fyrsta sinn núna á 40 ára stúdentsafmælinu áttað mig á því hvernig aðrir upplifa okkur og allt er það bara fyrst og fremst fyndið, en alveg stórskrýtið í leiðinni. Diskótekarinn, eflaust hin ljúfasta sál og vel meinandi, var illa haldinn af einhverjum misskilningi sem ekki réðst bót á allt kvöldið. Hann orðaði það best sjálfur þegar hann sagði: ,,Alltaf þegar ég spila Stones þá fyllist gólfið ... og svo hélt hann áfram að spila einhverja mjög undarlega tónlist sem ýmist var frá vögguárum okkar, lögin sem við þoldum ekki þegar bítla- (og aðallega Stones) æðið skall á og voru ábyggilega fimm til tíu árum of gömul fyrir okkur og það versta var að hann ákvað að dæla yfir okkur Lónlí Blús Boys tónlist, sem fæst okkar fíla og mörg okkar hreinlega hata. Verst var þó þegar Hljómalagið sem út kom 2003: ,,Mývatnssveitin er æði, brast á í tíma og ótíma. Mín niðurstaða er að diskótekarinn hafi hugsað: Ef lagið hljómar gamalt eða hallærislegt, þá hljóta þau að fíla það! Nú efast ég ekki um að einhver skólasystkina minna hafa til að bera meira umburðarlyndi í tónlistarmálum en ég, ég hef meira að segja mildast á seinna árum og er hætt að nota línuna: ,,Uppáhaldssöngvari minn er Andy Williams! ef ég vil koma af stað hörðum orðaskiptum í partíum, enda er ég viss um að það myndi ekki lengur duga, svo þolinmóð eru sum okkar orðin. Til að eyða öllum misskilningi, þá þoli ég þennan Andy ekkert sérlega vel.
En sem sagt, ef svona verður einhvern tíma endurtekið, til dæmis þegar við verðum 50 ára stúdentar árið 2022 og flest á aldrinum 69-74 ára, þá er öruggasti flytjendalistinn: Stones, Kinks, Stones, Bítlarnir, Stones, Creedence Clearwater, Stones, Led Zeppelin, Stones, Deep Purple, Stones, Náttúra, Stones, Kinks, Stones, Stones ...
Diskótekarinn getur notað Find/Replace og hent lagalistanum (þekki ekki alla flytjendurna) sem var svona sirka svona: Are you lonesome tonight, Við erum tvær úr Tungunum, Mývatnssveitin er æði, Föðurbæn sjómannsins, In the Ghetto, Why do fools fall in love, Lilla Jóns, Mývatnssveitin er æði, Ég vild ég væri hænu-hana-grey, Mývatnssveitin er æði ...
Þar með rofnaði áralöng hefð ...
21.4.2012 | 02:23
Fljótsdalshérað í úrslit | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
LOFTORKA - verktakafyrirtæki 50 ára í dag
16.3.2012 | 19:53
Verktakafyrirtæki 50 ára! Það er ótrúlegt en satt, Loftorka er 50 ára í dag. Verktakafyrirtæki hafa sannarlega átt undir högg að sækja, ekki síst undanfarin ár, og því er merkilegt að fá að fagna því að eitt þeirra skuli nú vera orðið 50 ára. Upp á það var haldið í dag, þar sem starfsmenn, makar og velunnarar og samstarfsaðilar fögnuðu saman.
Mér er málið vissulega skylt, og reyndar bæði ljúft og skylt, því það er tengdamóðir mín, Sæunn Andrésdóttir, sem á þetta merkilega fyrirtæki og er stjórnarformaður þess þrátt fyrir að eiga að vera komin í rólegheit fyrir aldurs sakir fyrir löngu. Fyrir 50 árum stofnaði tengdafaðir minn, sem alltaf var kallaður Sigurður í Loftorku, þetta fyrirtæki ásamt mági sínum, bróður Sæunnar, Konráði. Fyrirtækið varð síðar að tveimur, Loftorku, Reykjavík og Loftorku Borgarnesi með ákveðinni verkaskiptingu og fóru þeir mágar lengst af fyrir hvoru fyrir sig. Fyrsti starfsmaður Loftorku, Indriði Björnsson, var mættur í afmælið í dag ásamt þeim systkinunum Sæunni og Konráði.
Lukka Loftorku er sterkur kjarni starfsmanna sem hefur að stórum hluta starfað í mörg ár hjá fyrirtækinu og hefur bæði þekkingu, reynslu og dugnað til að gera fyrirtækið að því sem það er í dag. Þetta var stór dagur hjá okkur mörgum í dag.
Heimasíða Loftorku, Reykjavík.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook