Minningar frá kvennafrídögum, ,,kvenna-konur" og villikellingar

Líklega mun 24.október 1975 aldrei líða þeim úr minni sem tóku þátt í þeim merkilega viðburði. Eins og fjöldi kvenna mætti ég á Lækjartorg og hitti þar Síví mágkonu mína neðarlega í Bankastræti. Við stóðum bergnumdar og vissum að við vorum að taka þátt í heimsviðburði. Rauða örin á myndinni bendir á litlu punktana í Bankastræti sem ég held að hljóti að vera við tvær. Síðar um daginn slóst ég í hóp með góðum skólasystrum úr MR og Hagaskóla, við fórum heim til Svövu nokkur saman, því einhverjar voru komnar með eiginmenn upp á arminn. Öll auðvitað mjög heit í kvennabaráttunni þá sem bæði fyrr og síðar. Svava líklega virkust okkar með Rauðsokkum og Kvennaframboðinu en við Sirrý og Ásta fundum okkur einnig farveg með Kvennaframboði og/eða Kvennalista síðar.

postkort_kvennafridagur

Tíu árum síðar var Kvennalistinn orðinn að veruleika og að stjórnmálaafli. Við á Vikunni tókum mjög virkan þátt í undirbúningi undir 10 ára afmælis kvennafrídagsins, bæði með virku framlagi til baráttusýningar sem var haldin í bílakjallara Seðlabankans, ef mig misminnir ekki. Á vef Kvennasögusafnsins segir um þessa sýningu: ,,Þann 24. október opnaði í seðlabankabyggingunni, sem þá var hálfköruð, mikil sýning kvenna er bar heitið Kvennasmiðja. Kjörorð hennar var: Konan - vinnan - kjörin. Sýningin var opin í vikutíma og þar gafst almenningi kostur á að kynnast atvinnuþáttöku kvenna í þjóðfélaginu. Samnefnt dagblað var gefið út og geymir það miklar upplýsingar."

Það sem mér er þó minnisstæðast er að orðrómur var um að eitt fyrirtæki með margar konur í vinnu ætlaði að halda þeim í vinnunni þennan dag með góðu eða illu. Það kom í minn hlut að hringja í trúnaðarmanninn og hún hellti yfir mig bældum kenndum um illsku okkar kvennabaráttukvenna og klykkti út með því að hún þyldi ekki ,,þessar kvenna-konur". Margt fleira var gert kringum þennan viðburð og það sem ég kom helst að var að velja ljóð eftir konur fyrr og nú fyrir dagskrá sem haldin var í Gerðubergi. Líklega ,,lenti" ég í því hlutverki vegna þess að ég hafði haldið úti útvarpsþáttum um bókmenntir í margs konar sambandi á árunum þar á undan.

Árið 2005 fórum við konurnar hjá Betware niður í bæ, galvaskar. Við vorum að drukkna í kvennaþrönginni og komumst aldrei alveg inn á Ingólfstorg, þegar ég skoða vef Kvennasögusafnsins þá sé ég hvers vegna mér fannst svona margar konur vera mættar: ,,Talið er að allt að 50.000 manns hafi verið í miðbænum meðan fundurinn stóð yfir, mestmegnis konur. Það er þriðjungur allra kvenna á landinu. Þetta er stærsti fundur Íslandssögunnar. Fundir voru einnig haldnir víða um land sem tókust með miklum ágætum." Blaðafréttir af deginum taka í svipaðan streng varðandi fjöldann. Hvers vegna skyldi einmitt þá hafa brotist fram svona mikil þörf fyrir að mótmæla misrétti? Það skyldi þó aldrei vera að það hafi verið vegna þess að góðæri útrásarvíkinganna var ekki góðæri þorra kvenna?

Það er mikið talað um hvernig veðrið var árið 2010 en ég skrifaði þetta á Facebook (svolítið væmin) þann dag: ,,Stórkostlegur kvennafrís- og verkfallsdagur í kulda og trekki, en hlýjan kom frá öllum konunum á Arnarhóli. Einmitt núna var ég svo spennt að vita hvernig mætingin yrði, en varð ekki fyrir vonbrigðum og við vorum bara allar svo vel klæddar!"

Austurvöllur var þéttskipaður í dag, eins og við var að búast, ekki þó 50.000 eins og 2005 - þrem korterum í hrun. Við, sem mættum líka 1975, ræddum okkar á milli hvers vegna enn væri þörf á þessum aðgerðum. En þær sem voru varla eða alls ekki fæddar þá voru ekkert að láta það trufla sig og einfaldlega tilbúnar að ganga í málið og klára það. Og núna heyrði ég hugtakið ,,villikelling" í fyrsta sinn í lagi hjá hljómsveitinni Evu og smell-fann mig í hlutverkinu, enda gamall villiköttur úr VG. 

kvennafri.2016


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband