Fótboltavæl

Við hverju býst fólk þegar íþróttaþættir eru skírðir 14-2, alla vikuna á undan Lichtenstein leiknum keppast allir um að láta vita að Lichtenstein sé sýnd veiði en ekki gefin og svo er verið að tönnlast á því að við leikum nú svo sjaldan landsleiki? ... Ef þetta eru vandamálin, hvers vegna þá ekki að laga þau! Við eigum fullt af góðum atvinnumönnum, og hana nú!

Illugi hitti naglann á höfuðið og Katrín hrakti mýtur

Frábærar pallborðsumræður nýrra þingmanna á aðalfundi Heimssýnar í dag. Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Harðarson og Illugi Gunnarsson tóku þátt í pallborðinu og voru hvert öðru betra. Gott að eiga slíka málsvara á þingi gegn innlimun okkar í Evrópusambandið.

Ein af þeim rökum sem oft eru notuð fyrir innlimum okkar í Evrópusambandi eru þau að okkur vanti ,,evrópskt verðlag" sem á að vera svar við öllum okkar vanda. Vissulega gremst flestum verðlagið á Íslandi, en það er frekar þreytandi að hlusta á þessa síbylju um að í ,,Evrópu" (les Evrópusambandslöndunum) ríki eitt verðlag. Það eru alls konar launagreiðslur og alls konar verð í gangi. Svo ég geri orð Illuga að mínum þá er álíka gáfulegt að tala um sam-evrópskt verðlag og sam-evrópskt veðurfar. Og spurningin er líka hvort fólk er tilbúið að taka við öllu sem tilheyrir Evrópusambandinu, atvinnuleysinu og doðanum í tilverunni þar líka? Eða það sem mér finnst vega þyngst, afsal sjálfsákvörðunarréttar í hendur á fulltrúm sem aldrei hafa verið kjörnir (ekki Bandaríki Evrópu heldur Sovétríki Evrópu, eins og Bjarni kallar ESB). Katrín benti á að Evrópusambandssinnar væru með þessum verðlagsfrösum að finna sér nýjar klissjur, af því sú gamla hefði verið hrakin. Fyrir ári eða svo heyrði maður síbyljuna að við ættum að ganga í Evrópusambandsins af því við sætum hvort sem er undir 80% af lögum bandalagsins, en sú bábylja hefur verið hrakin af Evrópustefnunefndinni og núna heyrir maður þetta nánast aldrei, nema hjá einhverjum eftirlegukindum sem ekki vita betur. Staðreyndin er sú að rétta prósentan er um 20% eftir að Evrópustenfunefndin lét rannsaka það.


Týnd tónlist (og ljóð)

Veit ekki hvort það var hér eða á öðru bloggi sem ég sagði frá því þegar ég fann löngu týnda plötu, Fresh Liver, með Scaffold og pantað. Tók tímann sinn að fá hana til landsins, en hingað er hún komin og ég auðvitað búin að fatta að ég kann hana utanað eða því sem næst. Tónlistin er skemmtileg, í anda annarra Scaffold laga svo sem Lily the Pink og Thank U very much, með smá Zappa fíling í bland, en það sem betra er, ljóðin eru ennþá skemmtilegri og sömuleiðis hálfgerðir leikþættir í rosalega enskum anda. Þannig að nú er hægt að rifja upp þetta eðalefni, sem er orðið ansi fágætt, og kynna fyrir nýjum kynslóðum. 

Veit að fyrir norðan er Gunna vinkona og kann líklega jafn mikið utan að af og ég. Svona gamla frasa eins og:

- Wasn't a bad party ...

- Except for the people.

- People always spoil things ...

Mig minnir að einhver hér hafi sagt mér að Roger McGough (ljóðskáldið í hópnum, á eina fína bók eftir hann) eða Mike McGear (bítlabróðirinn í bandinu, bróðir Paul McCartney) sé ekki lengur í tölu lifenda, mikil synd, einkum ef McGouch hélt áfram að yrkja og hrökk svo uppaf. Hef ekki fylgst með honum á netinu, en - andartak - eftir smá uppflettingar sé ég að hann er enn að og orðinn enn virtari en þegar ég var að kaupa fyrstu bókina hans. Veit ekki um afdrif Mike McGar, virðist vera að hann hafi tekið upp McCartney nafnið síðar (aftur) hins vegar er Adrian Henry, félagi þeirra í hljómsveitinni dáinn. Og annað skemmtilegt sem ég sá, Scaffold og Bonzo Dog sameinuðust í the Grimms. Langar að fletta þessu gamla dóti aftur, það hefur elst misvel, en margt furðu vel. Svo á ég líka smávegis af indjánatrommutónlist frá New Mexíkó ferðinni um páskana, sem ég þarf að gefa mér tíma til að hlusta á. Þótt ólesin bók sé nauðsynlegri en diskur sem ekki hefur fengið hlustun, þá telst hvort tveggja til andlegra nauðþurfta. 


Afmæli

,,Hvað á svo að gera í tilefni af afmælinu?" var ég spurð þegar ég var að fara úr vinnunni í dag. Búin að halda uppi hefðinni og mæta með kökur í vinnuna og var reyndar alls ekki að hugsa um hvað ég ætlað'i að fara að gera. ,,Horfa á 24 sem ég missti af í gærkvöldi vegna steypuvinnunnar" sagði ég sannleikanum samkvæmt. Og í tilefni af mjög skemmtilegu námskeiði sem við vinnufélagarnir vorum á í morgun, þar sem persónuleikarnir voru afhjúpaðir, bætti ég við: ,,Annað hvort heldur maður 100 manna afmæli eða sleppir því!" Og það er líklegast stíllinn hjá mér, léleg í að halda einhver notaleg kaffiboð með fáeinum gestum, sem þá þarf meira að segja að bjóða. Þannig að maður gerir þetta sjaldan og myndarlega, ekki satt? Núna í ár vorum við með eitt frábært afmæli, þrítugsafmælið hennar Hönnu okkar, þannig að það dugar okkur ábyggilega lengi og vel. Og innan við 3 ár síðan við héldum eitt enn stærra þegar Ari varð fimmtugur, þannig að ætli við höldum okkur ekki bara við þennan stíl. Gurrí og mamma búnar að hringja, ósköp sætt, Hanna sendi sms snemma í morgun og svo náðum við saman á msn, og svo hitti ég feðgana í kvöld, þá verð ég með meiri rænu en í morgun þegar ég þó mætti óvenju snemma í vinnuna vegna námskeiðsins. Hvað getur maður beðið um það betra?

Framkvæmdir helgarinnar - flot taka 2

Lauglétt önnur umferð af floti reyndist þegar til átti að taka jafn umfangsmikil og fyrsta umferð. En hún er búin. Rok og rigning var ekkert svo erfið tíð, held jafnvel að mér hafi þótt það skárra en logn og kuldi hvítasunnunnar. Alla vega þá er þetta allt að koma. Ein umferð eftir, sú gæti orðið drjúg, en þetta verður bara flot(t) á endanum. 

Sjómannadagurinn: Til þeirra sem vilja að fiskveiðar verði sífellt minni hluti af hagkerfinu okkar

Sjómannadagurinn er ekki nein óskapleg hátíð hér í stærstu kaupstöðunum á Íslandi, Akureyri hætt að halda upp á hann þótt þangað hafi framsalskvótinn oft streymt. Man hins vegar vel eftir öllum ljósmyndunum sem pabbi tók á sjómannadaginn á Seyðisfirði, meðan hann bjó þar á síldarárunum, reyndar í hlutverki sýsluskrifara. Ég var ennþá í bænum á þeim tíma árs, af því ég hélt upp á afmælið mitt í bænum með öllum vinkonunum, en upp úr sjómannadegi var ég komin til pabba á Seyðisfirði og var þar alltaf á 17. júní. Fljótlega komst ég að því að ég missti af aðalhátíðahöldunum, því þau voru á sjómannadaginn en ekki 17. júní, fjörið var raunverulegt á myndunum sem enn eru ljóslifandi í huganum. Þarna bjó fólk sem skildi mikivægi sjávarútvegs fyrir samfélagið.

Síðan hef ég alltaf litið sjómannadaginn í þessu ljósi bernskunnar, sjórinn heillar mig, enda lengst af verið afskaplega sjóhraust, og eitt sinn upplúr tvítugu var ég raunar komin með pláss á bát, en því miður fannst kokkurinn áður en ég lagði upp, hafði gengið á hurð í Klúbbnum sáluga. Seinna fékk ég smá útrás í sjávarútvegsnefnd, og þá snerist aðalbardaginn um framsalið á kvótanum. Mér fannst ég alltaf eina manneskjan sem skynjaði framsalið sem aðalóvininn og uppskar ekki mikla kátínu félaga minna sem flestir voru á því að framsalið væri einmitt nauðsynlegt vegna hagræðingarinnar. Og svo talaði ég fyrir hinum umdeilda ,,byggðakvóta" og gegn brottkasti, og þá fyrst kynntist ég yfirgangi þeirra sem valdið höfðu, kvótakónganna. Fékk öskrandi útgerðarmann yfir mig og öskraði smávegis á móti (ég þessi rólyndismanneskja) og kom öskuvond til baka og sagði við sessunauta mína Steingrím J. og Guðjón Arnar (þá Sjálfstæðismann): Það hefur greinilega aldrei bröndu verið hent í sjó! Steingrímur varð alvarlegur en Guðjón skellti uppúr. 

Fiskveiðistjórnunin hefur ekki skilað okkur lengra en raun ber vitni og sjómannadagurinn er haldinn í skugga niðurskurðar og slæms ástands í hafinu. Það sem mér svíður sárast er að vita að margir fagna því að sjávarútvegurinn sé ekki lengur sá burðarás í hagkerfinu okkar sem hann áður var. Vaxtastefnan fer illa með hann, þannig þarf það ekki að vera, og í leiðinni fjölmargar aðrar atvinnugreinar, meðal annars hugbúnaðinn. Vissulega er það alltaf gott að eiga margar körfur undir eggin sín, en það á að gera með því að auka hlut annarra greina í hagkerfinu, ekki með því að vanrækja, hunsa eða hata sjávarútveginn! Eitt af því sem oft er bent á er að einu rökin gegn aðild að Evrópusambandinu séu áhrifin á sjávarútveginn, og ef þau minnka sé sú (eina) fyrirstaða úr sögunni. Við þetta er tvennt að athuga: Í fyrsta lagi eru mörg önnur rök gegn Evrópusambandsaðild og í öðru lagi þá eigum við að hlúa að sjávarútveginum eins og við mögulega gera, leiðrétta það sem rangt er gert, og fara vel með greinina, ekki síst að auka verðmætin í vinnslunni. Nokkuð hefur verið að gert þar og meira þarf til. En það verður ekki gert með Flateyraraðferðinni, með því að framselja kvóta og kippa í einu vetfangi stoðunum undan heilu byggðarlagi! Alls ekki! Aðgerðir gegn brottkasti, meiri fullvinnsla, önnur vaxtastefna, allt þetta getur létt undir með greininni.


Meira um bókabúðir ... og bókasöfn - aðeins fyrir bókaunnendur

Datt niður á aldeilis yndislega umræðu um bókabúðir hjá einum bloggvini mínum, Júlíusi Valssyni, þar sem unnendur bókabúða hafa sannarlega dottið í skemmtilega umræðu. Og auðvitað blandaði ég mér í umræðuna, en finn að ég var ekki hálfnuð með allar yndislegu bókabúðaminningarnar þegar ég ákvað að setja punktinn. Og þess vegna er bara best að taka upp umræðuna hérna.

Bókabúðir og bókasöfn hafa einhverja ótrúlega töfra. Fyrsta ástin mín á því sviði var litla útbú  Borgarbókasafnsins við Hofsvallagötu, þar sem mátti ekki taka nema 4 bækur á dag. Oft reyndist það of lítið. Seinna fór ég að læra bókmenntafræði í háskóla og eftir það hefur lestrarhraðinn dottið aðeins niður, en athyglin færst á fleiri atriði en bara blákaldan þráðinn. Á menntaskólaárunum tók ég ástfóstri við aðalsafnið í Þingholtsstræti (þar sem ég held að sé nú einkavilla Odds Nedrums) og loks var það Landsbókasafnið sem heillaði. Einu jólafríinu varði ég á bókasafninu í Bristol í Englandi og las þar undir próf og undraðist lélegar bókakost. Hafði ekki haft með mér nema 25 kg af bókum og treyst því að ég fyndi restina sem mig vantaði á ensku bókasafni. En notalegt var það engu að síður.

Einkabókasafnið Gurrí á Akranesi er eitt skemmtilegasta bókasafn sem ég kem á, enda leggur Gurrí metnað sinn í að stilla upp hlið við hlið Ísfólkinu og Birtingi eftir Voltaire.

Bókabúðir nálgaðist ég hins vegar af meiri lotningu og varúð til að byrja með. Lotingu af því ég þorði ekki að detta í lestur (og gat þar með ekki leikið eftir það sem sagt var um einn sem rölti niður Laugaveginn milli bókabúðanna meðan þær voru fleiri en nú og náði að ljúka nýútkominni bók í einni slíkri ferð). Varúð af því bækur kosta peninga. En svo fann ég fornbókaverslanirnar, við Gunna vinkona fórum aðallega á Laufásveginn og einhvern veginn var allt til þar, eða næstum allt. Ég á líka góða minningu frá Prag úr fornbókaverslun sem seldi mikið af íslenskum bókum, aðallega Laxness og Kristmann, og aðallega á tékknesku. En innan um mátti sjá ótrúlegustu höfunda. Fornbókasalar á götum úti á Kúbu og í London eru líka spennandi. Mamma sér um þessa deild fyrir hönd fjölskyldunnar núna og hefur fært mér ófáar perlur frá Braga á Hverfisgötunni. 

Núna er hins vegar svo komið að ég kaupi bækur aðallega á ferðalögum og í fríum, en það ræðst bara af tímaleysi. Eitt og eitt kvöld í Mál og menningu krydda lífið að vísu. Og á netinu finn ég margar ófáanlegar gersemar, seinast framtíðarskáldsögu um róbota eftir Karel Capek, tékkneskan höfund sem m.a. skrifaði bókina Salamöndrustríðið, það merkilega er að þetta var skrifað um 1950. Hlakka til að lesa hana, hún hefur verið ófáanleg um áratugaskeið. Nú er ég að leita að bók um anarkisma, sem hefur verið ófáanleg lengi, er eftir Georg Crowder, nýsjálenskan frænda minn sem ég hef aldrei hitt, við þetta með anarkismann er greinilega í genunum.

Á ferðalögum er hins vegar alltaf hægt að finna tíma fyrir bókabúðir. Og fátt eins yndislegt og góð bókabúð í nýrri borg. Kvennabókabúðin í Tucson sem Nína systir kynnti mig fyrir, grúskbúðin á leiðinni til Georgstown í Washington sem Jón Ásgeir sýndi mér, stóra búðin í New Haven sem Heiða og Fibbi sýndu mér og svo uppáhaldið mitt, Foyles í London, þar sem ég er annar eða þriðji ættliðurinn sem eyði þar ómældum stundum. Ég hreinlega elska Foyles, þar keypti ég fyrstu kennslubækurnar mína í serbókróatísku á fimmtu hæð árið 1970 og svona tíu kíló af stærðfræði og tölvubókum í seinustu almennilegu ferðinni minni þangað, fyrir rúmum tveimur árum. Síðan hef ég reyndar komið þangað svona 2-3 sinnum, en maður verður að stoppa í nokkra klukkutíma til að njóta verunnar þar til fulls. Og það er einmitt kjarni málsins, það eru ekki allir eins og Jón Ásgeir, Heiða og Fibbi, og stundum verður fjölskyldan óþolinmóð. Þetta er vandamál sem við Nína systir eigum báðar við að stríða, þannig að við fórum í bókabúða-sukkferð til London fyrir 2-3 árum, saman, aðeins ríflega helgarferð, og eyddum 22 stundum þar af í bókabúðum. Náðum samt leikhúsi og síðdegis-sunnudagboði í Camden í leiðinni.

Og þá eru ótaldar stóra Barnes and Nobles í New York, sem ég hef alls ekki fullkannað enn og mun sjálfsagt aldrei gera, fallega en fátæklega bókabúðin í Lancaster og þessi tveggja hæða í Liverpool, en ég fór reyndar sérstaka ferð frá Lancaster til Liverpool, gagngert til að komast í almennilega bókabúð! Svo eru nokkrar afspyrnudýrar bókabúðir í Osló og Kaupmannahöfn sem ég hef stundum glapist til að heimsækja, en þar verslar maður ekki nema í neyð. Dýrari en íslenskar bókabúðir! 

 


Afhjúpun og alvarlegt grín

Þetta er með betur heppnuðum göbbum sem ég hef heyrt um. Alla vega verð ég að viðurkenna að mér er stórlega létt að þetta nýrnalotterí var ekki alvara í þeim búningi sem það var sett fram. Hins vegar afhjúpar þetta nokkrar staðreyndir: Í fyrsta lagi að það er ekki lengur útilokað að svona þáttur verði settur í loftið (auðvitað ekki þessi, en eitthvað í sama dúr). Í öðru lagi virðist þurfa að grípa til æði róttækra ráða til að vekja athygli á verðugum málstað. Og í þriðja lagi, sjúklingarnir sem bíða, bæði þeir sem tóku þátt í gabbinu og allir hinir, þeir eru ekki búnir að fá úrlausn. Þannig að öllu almennilegu gamni fylgir alvara og í þessu tilfelli dauðans alvara. 
mbl.is „Raunveruleikaþáttur“ um nýrnagjafa reyndist gabb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og ekki brást Guðfríður Lilja ...

Þetta er líklega skemmtilegasta stefnuræðuumræða sem ég hef fylgst með. Ekki brást Guðfríður Lilja þeirri trú sem ég hef á henni, enda átti ég ekki von á því. Hún talar um umhverfismál af þeirri brennandi sannfæringu og þekkingu sem sæmir þessum málaflokki. Og af lífi og sál. Þetta kvöld var upplifun og ég er til í að sætta mig við Vinstri græna stjórnarandstöðu með þessa glæsilegu málsvara í fararbroddi. Vonandi verða áhrif vinstri grænna á þessu kjörtímabili jafn öflug og þau á umræðuna í aðdraganda kosninganna, þá verður jafnvel hægt að lifa með þessari ríkisstjórn, af því hún VERÐUR að hlusta. 

Katrín Jakobsdóttir segir sannleikann betur en flestir aðrir í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Þótt mér verði tíðrætt um Guðfríði Lilju (sem á þegar þetta er skrifað eftir að tala) þá merkir það svo sannarlega ekki að ég geri mér ekki grein fyrir þvílíka perlu við Vinstri græn eigum í Katrínu Jakobsdóttur. Hins vegar hefur baráttan fyrir því að koma Guðfríði Lilju á þing (fast þingsæti án þess að missa Ögmund út) verið mér mjög hjartfólgin, meðan aldrei var neitt efamál að Katrín flygi inn með glæsibrag, enda ,,uppgötvuð" mun fyrr innan okkar ágætu hreyfingar.

Katrín sýndi svo sannarlega hvers vegna hún er okkar stærsti spútnik í stuttri og hnitmiðari ræðu núna rétt í þessu. Hún hefur feril sinn á alþingi með því að sýna hversu létt hún á með að grípa, vinna úr og orða það sem segja þarf, hnitmiðað og svo undan svíður. Engu orði ofaukið, allt rétt sagt og svona ótrúlega vel orðað. Þótt mér finnist gott innihald ræðu ávallt mikilvægara en flotta umgjörðin þá hlýnar mér alltaf um hjartarætur þegar hvort tveggja getur farið saman, og það þótt verið sé að bregðast við orðum sem falla kannski ekki nema tíu, fimmtán mínútum fyrr. Það þarf mikla hæfileika til þess, og þá hefur Kartrín svo sannarlega til að bera.

Mikið er gaman að vera ekki sá pólitíski munaðarleysingi sem ég hélt að ég yrði við sundrungu Kvennalistans. Mikið er þægilegt að sitja með tölvuna í fanginu og fylgjast með þessum mikilvæga vinnustað sem ég þekki svo ágætlega, líkaði ávallt vel við og sakna þó ekki með trega heldur bara með svolítilli gleði yfir að sjá allt þetta yndislega fólk orða skoðanir mínar á svo frábæran hátt. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband