Yfirgangsstjórn í uppsiglingu - vonandi ekki? En SVO gaman að sjá Guðfríði Lilju í þingsal!

Vona að ég hafi eitthvað misskilið fréttirnar. Heyrði samt ekki betur en að nú ætti að nýta stóran meirihluta til að valtra yfir minnihlutann, það er að hætta að taka mál sem þurfa afbrigði fyrir í samkomulagi. Kannski var þetta bara flumbrugangur, Árni Páll var að vísu að reyna að sannfæra okkur um að ekki ætti að beita ofríki. En sannarlega er þetta óheppileg byrjun. 

Var að hlusta á Steingrím J. í sjónvarpinu og tek heilshugar undir með honum að hlutverkið sem VG er núna í er eitt hið mikilvægasta sem samtökunum hefur nokkru sinni verið fengið, að halda aftur af hægri öflunum og gráu öflunum sem virðast hafa orðið ofan á í Samfylkingunni. Ég skil ekki alveg hvað Árni Páll á við með loðnum ummælum um andstöðu við Norðlingaöldu í ,,núverandi mynd". 

Sé að Guðfríður Lilja er núna á sumarþinginu, Ögmundur hefur greinilega tekið inn varamann. Sjón sem gleður mig óneitanlega, en þau ættu auðvitað að vera þarna bæði, jafn ótrúlega jafnhæfa einstaklinga er erfitt að finna. Það varð hins vegar ekki niðurstaða kosninganna og heldur ekki þess lotterís sem röðun jöfunarsæta alltaf er.

Ingibjörg Sólrún talar eins og hún sé ekki í þeirri ríkisstjórn sem hún er, um jafnréttismál eins og hún sé ekki í samstarfi við flokk sem hefur bara pláss fyrir eina konu í ráðherraliði sínu, um umhverfismál eins og hún hafi ekki heyrt mótbárur Sjallanna um stóriðjustopp og um Íraksmálið eins og við séum ekki enn á lista hinna ,,staðföstu þjóða".

Mér líkar svo sannarlega vel við tóninn hjá henni í þessari ræðu og virklega ánægjulegt að heyra hann (og hún ræddi ekki um ESB, það gleður mig sérstaklega, eða datt ég út andartak?). En mér líkar ekki við þann félagsskap sem Ingibjörg Sólrún er í núna, hvorki í eigin flokki meðal harðlínu-stóriðjusinnaðra hægrikrata, né heldur bandamanna þeirra sem eru í hinum stóra hægriflokki Íslands. 

 


Gestir sem koma á bestu eða verstu stundu

Merkilegt hvað sumir gestir (vinir og vandamenn meðtaldir) hafa lag á að koma þegar síst skyldi, þegar allt er á hvolfi hjá manni, einhver rosalega upptekinn og þar fram eftir götunum.

En merkilegt nokk, það er líka til fólk sem er alger andstæða þessa, kemur bara þegar vel stendur á. Bróðir minn er einn þessara manna sem betur fer stundum frekar óvænt í heimsókn, en það merkilega er, helst ekki nema mjög vel standi á. Held hann hafi aldrei komið þegar við erum rétt að þjóta út úr dyrunum, þegar tíminn er að hlaupa frá manni í einhverju verkefni, og reyndar vill yfirelitt svo til að ég er rétt búin að gera einhverja (minni háttar) lagfæringu eða tiltekt heima fyrir þegar hann birtist. Um helgina vorum við loksins að ryðja það sem eftir er af efri hæðinni og flota, og einmitt í gærkvöldi þegar við vorum ekki með neitt planað í framkvæmdum vegna praktískra mála, þá dúkkaði Georg bróðir upp ásamt yngri dóttur sinni. Ekki nóg með það, ég var nýbúin að vinna mig í gegnum hrúgu sem hafði safnast smátt og smátt fyrir á eldhúsborðinu og koma fyrir fallegum dúk og skálum á borðinu í staðinn. Merkilegt. Vissulega margt ógert hér á byggingasvæðinu, en þetta bara klikkar ekki! 

 


Nýrnalotterí

Ég hef beðið með að blanda mér í þessa furðulegu nýrnaumræðu, það er raunveruleikaþáttinn sem á að sýna í Hollandi, þar sem þrír nýrnaveikir þátttakendur eiga að keppast um nýru dauðvona krabbameinssjúklings. Fáránleikinn verður sífellt meiri. Nógu slæmt er að æsa upp einhverja múgæsingu (ef einhver horfir á þessi ósköp) og láta fólk fara að greiða atkvæði um  hver eigi skilið að fá nýra og hver ekki. Samkvæmt kvöldfréttum eru hins vegar ýmsir aðrir vankantar, ekki vitað hvort nýrun henta tilvonandi nýrnaþegum (þeim heppna eða heppnu - ekki vitað hvort eitt eða fleiri eru í boði né heldur hvort eitt eða fleiri vantar) eða ekki, né heldur hvort gjafanýrun eru hugsanlega með krabbameini innanborðs, veit ekki hvort átt er við möguleika á frumubreytingum eða meinvörpum. Evrópusambandið er hins vegar næstum að gefa grænt ljós þvert á eigin fordæmingu með því að detta núna fyrst í hug að það sé sniðugt að útbúa samræmd líffæragjafakort, vatn á myllu þeirra sem segja að svona þættir eigi rétt á sér. 

Sætasta stelpan á ballinu - diskótexti óskast

Eitt sinn leitaði ég til lesenda bloggsins þegar ég datt niður í texta á lagi (sem ég var ekki par hrifin af) og nú vantar mig enn að fletta upp í visku ykkar. Þegar ég var að keyra í vinnuna í morgun þá heyrði ég ekki betur en að dúettinn ,,Þú og ég" sé kominn með nýtt diskólag um sætustu stelpuna á ballinu. Látum það nú vera að það sé tilviljun að þessi texti sér að koma fram núna, en þegar ég heyrði að textinn fór út í þá sálma - rétt í þann mund sem ég beygði af Kringlumýrarbrautinni og í áttina að Valhöll - að til að ná í sætustu stelpuna á ballinu hefði blessaður drengurinn orðið að stíga ofan á tærnar á rauðhærðum náunga, sem einnig ætlaði að nálgast hana, þá fann ég fyrir ómótstæðilegri löngun til að sjá textann í heild.

Tilviljun? Já, ábyggilega, eða ekki ... ;-) kannski er einhver textahöfundur að stríða þessu ágæta diskódúói, sem ég minnist alltaf með hlýju frá því ég tók viðtal við þau Helgu og Jóhann er þau voru á hátindi frægðar sinnar. Auk þess skilst mér að Helga sé forfallin golfáhugakona (það er kostur) og eigi meira að segja eiginmann sem einhverju sinni tók að sér að leiðrétta ljóta villu sem ég var að koma mér upp, ábyggilega mjög góður golfkennari. Eins og glöggir lesendur sjá þá gruna ég þau ekki andartak um að hafa samið þennan texta með pólitískum áherslum, en hvað veit ég? 


Sumarþing framundan - prófsteinn á æði margt

Styttist í sumarþing og það verður aðalæfing fyrir komandi kjörtímabil. Hvort við megum eiga von á mildum áherslum eða valdhroka hinna stóru, hvernig hin stórfjölbreytta stjórnarandstaða mun virka. Ég er ekkert viss um að það sé nauðsynlegt eða æskilegt að svona ólíkir hópar stilli endilega saman strengi sína, en ég treysti okkar fólki (VG) alveg til að finna sinn stíl. Það er mikill ábyrgðarhluti að vera í stjórnarandstöðu, og því miður erum við ,,vanir menn (konur og karlar)" í því hlutverki. 

Flot, flot, flott

Ekki hefði ég trúað því að mér þætti þriðjungur úr flotuðu gólfi svona fagur. Það er greinilega mikið verk að flota 50 fermetra og ekki tókst að ljúka verkinu um helgina, en mikill áfangi að rýma til fyrir framkvæmdum. CIMG0541Við erum öll búin að vera hrikalega dugleg um helgina (já, ég verð bara að viðurkenna það) og Simbi er ekki  (ennþá alla vega) búinn að svína allt út og setja steinsteypt kattarspor út um allt. Þannig að þótt enn sé verk að vinna þá erum við búin með meginhluta þess. Þreytt eftir góða helgi, og svo lentum við auðvitað í þvílíkri matarveislu með tengdamömmu og sænskum gestum í gær, að ljúfa lífið hefur heldur ekki verið vanrækt.

CIMG0544


Helgi húsbyggjenda

Ég komst að því að þetta var helgi húsbyggjenda þegar ég heyrði af því að Húsasmiðjan væri opin alla Hvítasunnuna, ekki einu sinni lokuð á Hvítasunnudag. Hefur ábyggilega komið sér vel fyrir einhvern, en samt, mér fannst þetta pínulítið skrýtið. hvitasunna1Við höfum vissulega tekið virkan þátt í þessari húsbyggjendahelgi, sem og fyrri hvítasunnuhelgar, og verið að tæma fullt af byggingadóti úr miðrými á háaloftinu þar sem koma skal falleg fjölnotastofa, við erum svo mikil stofufjölskylda hvort sem er, alltaf eins og allir safnist saman á einn stað, hvað sem verið er að gera. Þróun stofunnar verður síðan að koma í ljós eins og annað. En alla vega, miklar framkvæmdir víða, Addi mágur og Hjördís að leggja parket austur í sveitum og mér heyrist að fleiri hafi orðið framkvæmdagleðinni handgengnir. Sumarbústaðurinn bíður á meðan, seinustu hvítasunnu tengdum við rotþró þar á bæ, þarseinustu vorum við greinilega að vinna í sökklunum, þannig að alltaf er eitthvað þessu framkvæmdageni tengt að gerast um hvítasunnuna. Svo er bara að ímynda sér að allt byggingadraslið sé horfið uppi á lofti hjá okkur og þá er þessi mynd frá því á seinasta ári í fullu gildi. hvitasunna2

Pólitísk þreyta um hvítasunnu?

Merkilegt, það er eins og þreytutóns gæti í pólitískri umræðu um helgina. Nóg er að viðtölum i blöðum og fjölmiðlum en fátt nýtt að sjá og heyra, Halldór vildi Guðna ekki, ok við vissum það öll, Ingibjörg Sólrún er ættgreind á einum stað Guðlaugur Þór og Þórunn Sveinbjarnar í viðtali á öðrum stað, en engra mikilvægra spurninga spurt. Hver er á móti forvörum? Er það merkilegasta umhverfisverndarmálið að færa eigi matvælaeftirlitið til landbúnaðar-útvegs? og eitthvað annað til umhverfisráðuneytisins? Össur reynir að koma því á framfæri að Norðlingaölduvirkjun sé út af borðinu, en þegar Landsvirkjun segir annað, hverju trúir fólk? Vonandi hefur Össur rétt fyrir sér og við sjáum enga hártogunarlausn.

Ég er ekki þreytt, nema kannski á þessu máttlausa tali í fjölmiðlum. Geri orð Arlo Gurthie að mínum þegar hann segir eitthvað á þessa leið í lok hins endalausa lags (18 mín 20 sek langt): I can carry on, I'n not proud, nor tired ...


Hálfnað verk þá hafið er ... og beðið eftir myrkrinu (ef það kemur)

Framkvæmdir helgarinnar fram til þessa: Búið að steypa í samskeytin milli timburgólfsins og steypta gólfsins uppi á lofti hjá okkur. Það er ágæt byrjun, þótt búið hafi verið að tæma loftið talsvert þokkalega þá hafa ansi mörg handtök farið í að lóðsa dót yfir á svalir og yfir í geymslu eða ruslakerru. Nú bíðum við eftir myrkrinu (ef það kemur) til að geta mælt mismunandi halla á gólfinu uppi, en vegna birtu sjást mælingarnar ekkert  - skil það reyndar ekki, það hlýtur að eiga að vera hægt að gera mælingar í björtu. 

Hvítasunnan - ný verkefni bætast við

Spurði fyrir tveimur dögum hvað ætti að gera um Hvítasunnuna og svaraði sjálf: ,,Blogga um nýju ríkisstjórnina? Flota gólfið á efri hæðinni? Glápa á sjónvarpið? Fara upp í sumarbústað? Slappa af? Vinna í lokaverkefninu sínu? Alla vega get ég svarað fyrir mig, ég ætla að reyna að gera þetta allt, en ekki allt í einu þó." Þetta var áður en ég vissi að Ari þurfti að fara á undirbúningsfund fyrir hestaferð, vinnutengdan hádegismat á hvítasunnudag og við bæði í matarboð um kvöldið (líka vinnutengt), auk þess sem við þurftum að taka allt timbrið sem var út um allt tún eftir framkvæmdir vetrarins og taka niður stillasa af sömu ástæðu. Nema hvað, þetta bætist þá bara við listann.

  • Þrjú til fögur atriði eru þegar framkvæmd:
  • Túnið er tómt og tilbúið til sláttar
  • Ari er á hestaferðarfundinum einmitt núna
  • Við erum búin að slappa smá af (mikill svefn í gærkvöldi)
  • Sjónvarp hefur verið skoðað lítillega í bland við svefn og hvíld
Á dagskrá dagsins í dag er síðan hið metnaðarfulla verkefni: Flota gólf á efri hæðinni... vonandi að það gangi allt óskapalaust fyrir sig. Mikill áfangi þegar því verður lokið.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband