Sjómannadagurinn: Til þeirra sem vilja að fiskveiðar verði sífellt minni hluti af hagkerfinu okkar

Sjómannadagurinn er ekki nein óskapleg hátíð hér í stærstu kaupstöðunum á Íslandi, Akureyri hætt að halda upp á hann þótt þangað hafi framsalskvótinn oft streymt. Man hins vegar vel eftir öllum ljósmyndunum sem pabbi tók á sjómannadaginn á Seyðisfirði, meðan hann bjó þar á síldarárunum, reyndar í hlutverki sýsluskrifara. Ég var ennþá í bænum á þeim tíma árs, af því ég hélt upp á afmælið mitt í bænum með öllum vinkonunum, en upp úr sjómannadegi var ég komin til pabba á Seyðisfirði og var þar alltaf á 17. júní. Fljótlega komst ég að því að ég missti af aðalhátíðahöldunum, því þau voru á sjómannadaginn en ekki 17. júní, fjörið var raunverulegt á myndunum sem enn eru ljóslifandi í huganum. Þarna bjó fólk sem skildi mikivægi sjávarútvegs fyrir samfélagið.

Síðan hef ég alltaf litið sjómannadaginn í þessu ljósi bernskunnar, sjórinn heillar mig, enda lengst af verið afskaplega sjóhraust, og eitt sinn upplúr tvítugu var ég raunar komin með pláss á bát, en því miður fannst kokkurinn áður en ég lagði upp, hafði gengið á hurð í Klúbbnum sáluga. Seinna fékk ég smá útrás í sjávarútvegsnefnd, og þá snerist aðalbardaginn um framsalið á kvótanum. Mér fannst ég alltaf eina manneskjan sem skynjaði framsalið sem aðalóvininn og uppskar ekki mikla kátínu félaga minna sem flestir voru á því að framsalið væri einmitt nauðsynlegt vegna hagræðingarinnar. Og svo talaði ég fyrir hinum umdeilda ,,byggðakvóta" og gegn brottkasti, og þá fyrst kynntist ég yfirgangi þeirra sem valdið höfðu, kvótakónganna. Fékk öskrandi útgerðarmann yfir mig og öskraði smávegis á móti (ég þessi rólyndismanneskja) og kom öskuvond til baka og sagði við sessunauta mína Steingrím J. og Guðjón Arnar (þá Sjálfstæðismann): Það hefur greinilega aldrei bröndu verið hent í sjó! Steingrímur varð alvarlegur en Guðjón skellti uppúr. 

Fiskveiðistjórnunin hefur ekki skilað okkur lengra en raun ber vitni og sjómannadagurinn er haldinn í skugga niðurskurðar og slæms ástands í hafinu. Það sem mér svíður sárast er að vita að margir fagna því að sjávarútvegurinn sé ekki lengur sá burðarás í hagkerfinu okkar sem hann áður var. Vaxtastefnan fer illa með hann, þannig þarf það ekki að vera, og í leiðinni fjölmargar aðrar atvinnugreinar, meðal annars hugbúnaðinn. Vissulega er það alltaf gott að eiga margar körfur undir eggin sín, en það á að gera með því að auka hlut annarra greina í hagkerfinu, ekki með því að vanrækja, hunsa eða hata sjávarútveginn! Eitt af því sem oft er bent á er að einu rökin gegn aðild að Evrópusambandinu séu áhrifin á sjávarútveginn, og ef þau minnka sé sú (eina) fyrirstaða úr sögunni. Við þetta er tvennt að athuga: Í fyrsta lagi eru mörg önnur rök gegn Evrópusambandsaðild og í öðru lagi þá eigum við að hlúa að sjávarútveginum eins og við mögulega gera, leiðrétta það sem rangt er gert, og fara vel með greinina, ekki síst að auka verðmætin í vinnslunni. Nokkuð hefur verið að gert þar og meira þarf til. En það verður ekki gert með Flateyraraðferðinni, með því að framselja kvóta og kippa í einu vetfangi stoðunum undan heilu byggðarlagi! Alls ekki! Aðgerðir gegn brottkasti, meiri fullvinnsla, önnur vaxtastefna, allt þetta getur létt undir með greininni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband