Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2024

Ný stefna í tilverunni: Tvær af myndunum mínum á leið á alþjóðlegar vatnslitasýningar

Núna snemma árs er ljóst að tvær af vatnslitamyndunum mínum eru á leið á sterkar alþjóðlegar sýningar erlendis. Sú fyrri er í mars í Córdoba á Spáni, það er meira en vikulöng vatnslitahátíð, en aðaldagskráin stendur 4-5 daga. Hún var haldin í fyrsta sinn í fyrra og tókst alveg stórkostlega vel. Það var í fyrsta sinn sem ég freistaði þess að komast á slíka hátíð og þótti spennandi að myndin mín var tekin inn á sýninguna. Vissi þá ekki að þetta var um leið samkeppni og þegar ég landaði öðru sætinu í henni hristi það upp í mér að fara að endurskoða forgangsröð viðfangsefna, ekki seinna vænna á áttræðisaldri.

Samt sem áður vissi ég sem var að það var ekki sjálfgefið að komast aftur inn á þessa sýningu, samkeppnin er mikil og hver fær aðeins að senda inn eina mynd. Það var ekki fyrr en 16.11.23 að ég fann að ég var búin með mynd sem gæti verið nokkuð öruggur kandidat, en þá voru innan við tvær vikur í lokaskil. Myndin var vissulega þornuð þegar ég tók myndina sem ég sendi inn, sem hefði ekki verið ef um olíumálverk hefði verið að ræða. Það er nefnilega ekki sama mynd af blautri mynd eða þurri. Viðraði þessa mynd einmitt hér í blogginu sama dag og ég málaði hana, en síðar bætti ég við rauðu peysunni, af því mig vantaði að myndin segði sögu. 

Iceland_Anna.Olafsdottir.Bjornsson_Lost.Red.Sweater_56x38_2023

Setti síðan á bið ákvörðun um hvort ég ætlaði að taka þátt í annarri sýningu síðar um vorið, Fabriano sýningunni í Bologna á Ítalíu apríl/maí, sem verður svo sett upp í Austin, Texas í október. Félagar mínir úr Córdoba-ferðinni í fyrra voru að hvetja til þess en í þetta sinn ákvað ég að velja ekki ,,örugga" mynd til að senda, heldur eina sem ég taldi svolítið áhættusama, þar sem ég var alveg til í að taka sjansinn varðandi þessa sýningu. Hún var tekin á sýninguna, svo ég þarf að gera upp við mig hvort ég elti hana líka, dagskráin í kringum þá sýningu er ekki síður spennandi en í Córdoba, þótt hún sé svolítið öðru vísi. 

2024-01-29_23-03-54

Við vorum þrjú, Íslendingarnir, sem tókum þátt í Córdoba-sýningunni í fyrra, en það verður ögn stærri hópur Íslendinga á hvorri sýningu fyrir sig í vor, 6 og 8 ef ég hef tekið rétt eftir. Með því að taka þátt í svona sýningum, en sýningargjald er mjög lágt, fáum við sjálfkrafa og frítt aðgang að alls konar viðburðum, útimálun, sýnikennslu og skoðunarferðum þannig að það er gríðarlega freistandi að fylgja myndunum sínum. 

Þótt ég sé búin að ráðstafa meiru en ég sá fyrir af tíma mínum núna eftir að ég gerði heiðarlega tilraun til að fara á eftirlaun í annað sinn, þá held ég þessu í forgangi, og stend við það. 

 

 


Eini almennilegi prinsinn (fyrir utan Prins Póló)

Eins og sjá má á fyrirsögninni er ég ekki royalisti. 

Litli prinsinn hefur fylgt mér lengst af ævi og ég á nokkur eintök af þessari litlu og mögnuðu bók, sem lengi fékkst á góðu verði hjá Menningarsjóði í Næpunni. Næpan var á mínu nánasta svæði í Reykjavík, í rammanum: Uppsalir við Aðalstræti vestast (meaðn þeir stóðu); Kaffi Tröð, Austurstræti nyrst; MR og Næpan í miðjunni; Þingholtsstræti, 29a (Borgarbókasafnið) og Þingholtsstræti 31, þar sem Beta frænka og Elísabet, litla systir bjuggu, suðaustast. Þar var alltaf gaman að koma í Næpuna og einhvern tíma var verðið á bókinni orðið svo hagstætt að ég keypti nokkur aukaeintök til að gefa. Síðasta eintakið sem ég gaf, vona ég, var til vinkonu minnar sem var tveimur árum yngri en ég en alltaf ári á undan í skóla, svo hún var aðeins ári á eftir mér í Menntó. Við lásum oft saman á lesstofunni á Borgarbókasafninu. Eftir að við útskrifuðumst vorum við í góðum tengslum sem entust þar til um hálfu ári áður en hún féll frá, þá voru samskiptin orðin stopulli. Ég spyr mig stundum hvort ég hafi ekki örugglega náð að gefa henni bókina? Hvort hún hafi viljað bókina? En eins og blómið í Litla prinsinum, sem ekki vildi fá hjálminn sér til varnar þegar prinsinn fór af stjörnunni þeirra, en hann hafði svo sífellt áhyggjur af því hvernig því hefði vegnað svona hjálmlausu, þá veit ég auðvitað að ein bók skiptir bara engu máli í þessu samhengi. Áhyggjur mínar eru óþarfar. Alveg sama hversu góð þessi bók er. 

Þýðing Þórarins Björnssonar á íslensku er alveg afbragðsgóð, en ég hugsa oft, hvernig hefði farið ef pabbi minn hefði lokið við sína þýðingu? - ég á nefnilega í fórum mínum upphaf hans þýðingar á bókinni, ódagsetta. Ætli hann hefði haft framtakssemi til að koma henni til útgáfu? Man hvað mömmu sveið mikið þegar hann hafði lokið fínni þýðingu á bókinni Félagi Don Camillo, en kom sér ekki að því að finna útgefanda að henni. Það var ekki fyrr en rúmum áratug eftir að þau skildu skiptum að bókin kom út í annarri þýðingu, ári eftir að pabbi lést. 

Í þessum fáu blöðum af þýðingu pabba á Litla prinsinum, sem mér finnst NB mjög góð og ekkert mjög ólík þýðingu Þórarins, sá ég eitt sem ég alltaf breyti ósjálfrátt í huganum þegar ég les bókina. Ég les: ,,Börn! Varið ykkur á apabrauðtrjánum!" (en ekki baóböbunum, eins og Þórarinn segir í sinni þýðingu).  

Gamalt og snjáð eintak á frönsku var til á æskuheimilinu mínu og er nú komið milli lítils og stærra eintaks af íslensku útgáfunni. Ég hélt endilega að ég hefði keypt annað eintak á frönsku í Montreal, þegar ég var þar á rölti ásamt tengdadóttur minni, þá hafði ég ekki tekið við bókasafni foreldra minna. Fannst svo upplagt að eiga franska útgáfu líka, því þegar ég blaðaði í henni fannst mér um stund að ég kynni meiri frönsku en frönskukennarann minn í menntó hefði nokkurn tíma grunað. Man eftir munnlega prófinu í frönsku þegar hann lagði fyrir mig sérlega léttar sagnbeygingar og fikraði sig varlega yfir í ögn þyngri sagnir. Undrun hans þegar ég beygði þær allar rétt var svo ósvikin að við lá að ég færi að hlæja. Það sem hann vissi ekki var að Gunna vinkona hafði tekið sig til og búið svo um hnútana að ég kunni þessar sagnbeygingar alveg upp á punkt og prik. Hvort ég endaði á að kaupa bókina eða ekki veit ég ekki fyrir víst, því hún er ekki með hinum eintökunum, en mig minnir að hún sé í of stóru broti fyrir lágu hilluna sem hinar eru í. Það verður gaman að flokkar bækurnar okkar betur, sem stendur til eftir yfirvofandi flutninga, tímasetning óviss.  

Mörgum árum seinna var ég stödd í búðkaupi vinkonu minnar rétt hjá Bordeaux í Frakklandi. Við vorum allnokkur vinir og ættingjar sem fórum með til borgardómara og hún og hennar franski ektamaður voru gift upp á frönsku (sjálf er hún kínversk/íslensk og þau búa í London). Allt í einu fór ég að skilja allt sem blessaður borgardómarinn sagði, enda var hún að lesa upp kaflann um blómið úr Litla prinsinum. 

Uppáhald mitt á Litla prinsinum blossaði upp þegar við Ari fórum á heimssýninguna í Lissabon, ekki síst til að skoða ísvegginn hans Árna Páls Jóhannssonar, en Ari og hann höfðu þá brasað svolítið saman, sem þó ekki tengdist þessu stórkostlega og vinsæla verki. Á leiðinni af sýningunni, stolt yfir að hafa ekki keypt neitt, féll ég fyrir gleraugnahlustri. Þó notaði ég ekki gleraugu, bara linsur. Nú í seinni tíð hef ég hvílt augun á linsunum af og til og þá er ekki amalegt að eiga þetta gleraugnahulstur, með öllum góðu minningunum. litli prinsinn


Stríð stjórnvalda, ekki fólksins

Árið 2024 er gengið í garð og ég finn að margir vina mínna bera kvíða og harm í brjósti vegna þeirra átaka sem standa yfir víða um heim, þótt við heyrum mest af Gaza-átökunum og stríðinu í Úkraínu af því þau eru okkur landfræðilega næst.

Það fer auðvitað eftir aldri fólks og áhugasviði (við sagnfræðingar erum ekki barnanna best) hversu mikið af átökum og stríðum hafa raðast í minnið. Foreldrar mínir voru enn talsvert brenndir eftir minningar frá árum seinni heimstyrjaldarinnar og eftirstríðsáranna í mömmu tilfelli, því hún upplifði skortinn og kuldann sem var á þeim tíma er hún var unglingur á kvennaskóla í Skotlandi. Afabróðir minn féll í fyrri heimsstyrjöldinni, eftir að hafa flutt til Kanada, ungur Íslendingur, eftirvæntingafullur og óvitandi um framtíðina, sem var ekki löng. Jafnvel við á Íslandi tengjumst átökum úti í heimi bæði persónulega og að því leyti sem við fylgjumst með. 

Mér eru helst í barnsminni (minni barns með hrikalegan fréttaáhuga) Alsírdeilan með sínum vígum, stríðið í Kongó og Kúbudeilan. Sumarið 1959 bjuggu í raðhúsi við hliðina á okkur mömmu á Suður-Spáni belgísk fjölskylda sem hafði flúið forréttindastöðu sína í ,,Belgíska Kongó" og annan eins nýlenduhroka og bjó í þessum fallegu, ljóshærðu börnum sem voru á mínu reki, hafði ég aldrei upplifað né gert mér grein fyrir að til væri í heiminum. 

Svo tók við eitt af öðru, vorið í Prag og Víet-Nam stríðið setti svip sinn á tilveru ungmennaáranna minna og ég tók þátt í mótmælagöngum gegn báðum stórveldunum sem mest var mótmælt í þeim stríðum, Rússunum sem réðust inn í Prag og Könunum í Víet-Nam. Nokkrum árum síðar fór ég til Prag og mér rennur enn til rifja sorgin og kúgunin sem ég varð vitni að hjá þessari bældu þjóð sem hafði átt sínar vonir og drauma, og reyndar óraunsæja mynd af Vesturlöndum líka. 

En það voru önnur átök sem ég man líka á svipuðum tíma. Kveikjan að þessu bloggi mínu var þegar dóttir mín var að segja mér af ferð yfir á tyrkneska svæðið á Kýpur nú í haust. Á haustdögum 1970 var svokölluð Kýpurdeila enn mjög í fréttum (og óleyst enn) og ég, þá 18 ára, búsett í London og sinnti ýmsum störfum. Meðal annars var ég að vinna á frekar fínu kýpversku veitingahúsi í norðvesturhluta London um hríð. Eigandinn og stjórnandinn var Kýpurtyrki en yfirþjónninn Kýpurgrikki, báðir afskaplega notalegir menn. Mér fannst þetta dálítið merkilegt í ljósi aðstæðna, en þeir gáfu skýr skilaboð, þetta var ekki þeirra stríð. 

Sex daga stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs var líka á mínum unglingsárum og vakti mikinn ugg um alla heimsbyggðina eins og flest þau átök sem hafa orðið þar um slóðir og málstaður undirokaðs almennings í Palestínu er fleirum en mér hugleikinn. Þar, eins og annars staðar, tekur fólk afstöðu samkvæmt réttlætiskennd en ekki þjóðerni eða kynþætti. Mér er það minnisstætt þegar ég rifjaði það upp að ég hafði þekkt ágætlega væna konu sem hafði sinnt herskyldu í Ísrael, gyðingur í húð og hár. Hún tengdist Íslandi sterkum böndum og var búsett hér á landi um tíma. Þetta var Myriam Bat-Yosef, eða María Jósefsdóttir, eins og hún kallaði sig stundum uppá íslensku. Var þá gift Erró, meðan hann hét Ferró. Hún var tíður gestur á heimili mínu og mamma fékk hana til að mála risastórt málverk af mér þegar ég var fimm ára gömul, en þá framfleytti hún sér einmitt með því að mála myndir af ýmsu fólki, og hefur áreiðanlega munað um þennan eyri eins og annan. Hún gaf sér góðan tíma til að spjalla við mig, sem var forvitinn krakki, ekki svo mikið þegar ég sat fyrir í sparikjólnum mínum í kuldanum á háaloftinu í Iðnskólanum líklega, alla vega í skóla á Skólavörðuholti, heldur í hlýrri stofunni heima. Mér fannst alveg stórmerkilegt að hún, konan, skyldi hafa sinnt herskyldu. Hún hvarf svo til Parísar og síðar flutti hún til Ísraels í áratug en aftur til Parísar þegar hún var búin að fá sig fullsadda á herskárri pólitíkinni í Ísrael. Leiðir okkar lágu aftur saman snemma á níunda ártugnum þegar ég tók við hana heilmikið blaðaviðtal, en á þeim tíma vorum við uppteknari við feminískar pælingar en aðra veraldarpólitík. Þegar hún féll frá fannst mér vænt um að sjá í minningargrein um hana getið um einarða afstöðu hennar gegn stríðsrekstri Ísraels og að hún sýndi málstað Palestínumanna fullan stuðning. 

Það eru svo ótal margir sem ekki sætta sig við stríðsrekstur stjórnvalda eða þjóða sinna hvernig sem liggur í málum. Alina vinkona mín frá Kharkiv, 100% af rússneskum ættum, er sem betur fer flutt til Hamborgar en svarinn andstæðingur stríðsreksturs Rússa í Úkraínu og svo ótal margt annað fólk vill ekki sjá stríð stjórnvalda og síst af öllum ofstopa stórvelda í garð smærri ríkja. 

Og hverjir mata krókinn? Kaldrifjaðir vopnaframleiðendur og strengjabrúður þeirra, stjórnvöld hvar sem þau grípa til vopna. Ekki fólkið, ekki fórnarlömbin. 

 


Fjölbreytta/fjörbreytta Fuerteventura

Hef ekki farið dult með það að ég sæki frekar í aðrar Kanaríeyjar en Tenerife og ekki síst Fuerteventura. Þangað hef ég farið þrisvar til þriggja, mjög ólíkra bæja og fjórða ferðin á áætlun fljótlega. Um að gera að nýta sér beint flug og gott verð, meðan hvort tveggja endist.

Það er mjög skemmtilegt að sjá hvað fólk upplifir þessa eyju misjafnlega, en skilgreiningin ,,hippalegri en Tene" er kannski alveg jafn góð og hver önnur. Það sem ég sæki þangað er það sama og kemur fram sem hálfgerð afsökun í greininni sem ég linka hér á Nýr áfangastaður: ,,Minna er um ferðamennsku og sést það ágæt­lega á búðum og veit­inga­stöðum. Það er þó margt hægt að gera á eyj­unni sem gæti heillað ís­lenska ferðamann­inn." Það er einmitt af því að þarna er svo miklu minna af ferðamennsku en víða annars staðar sem mér finnst gott að vera þar. Og það er svo sannarlega fleira en ,,búðir og veitingastaðir" sem heilla marga íslenska ferðamenn, ég þori að fullyrða það. Að því sögðu sá ég ýmislegt ágætt í þessari grein og mun eflaust tékka á einhverju af því í næstu ferð minni á þessar slóðir. Upplifun mín og greinarhöfundar skarast helst á Corralejo, þar hef ég ekki gist en komið þangað í tvígang og finnst staðurinn fínn. Fuerteventura er einfaldlega mjög stór og fjölbreytt eyja og þar er margt að finna fyrir margs konar ferðamenn, en ef aðaláherslan er að komast í búðir, þá eru aðrir staðir heppilegri, veitingastaðir eru annað mál og margir ágætir. Alls konar valkostir, frá hörðustu vegan-stöðum í alls konar þjóðlega, alþjóðlega, sólarstrandarlega og óvenjulega.  

Mínar ferðir til Fuerteventura hafa að mestu leyti verið til annarra staða en þarna eru nefndir, á suðuroddann Morro del Jable/Jandia, höfuðborgina/-bæinn Puerto del Rosario og svo ferðamannabæinn sem er næst 2 bestu golfvöllunum á eyjunni, Caleta de Fuste. Ef þið eruð golfarar, þá sleppið því alveg að tékka á syðsta vellinum nálægt Morro. 

Puerto del Rosario og Corralejo eru kátir bæir með alls konar skemmtilegheitum, ólíkir hvor öðrum þar sem túrismi er mun meiri í Corralejo en lókal-fjör í höfuðstaðnum. Það eru alls konar gönguleiðir um alla þá bæi sem ég hef komið til, heilmiklar strendur mjög víða og svo er það öll listin, sem greinilega er mjög meðvitað styrkt um alla eyjuna. Vegglistaverk eru alveg ótrúlega víða og mörg skemmtileg, skúlptúrar margir og sumir framúrskarandi og litríkt bæjarlíf bæði í útliti og upplifun. Kaffihús, sem mér finnst að séu ómissandi í tilverunni, eru mörg virkilega skemmtileg og lókal bragur á mörgum þeirra, en almennt mjög gott kaffi á alvöru kaffihúsum. Bókmenntanördum er bent á hús Miguel Unamuno í höfuðstaðnum. 

Almenningssamgöngur eru góðar, sem er mikill kostur, þar sem eyjan er löng og mjó og vegalengdir nokkuð miklar miðað við stærð eyjarinnar. Sem sagt, mikil fjölbreytni, eins mikið fjör og þið óskið (kynnið ykkur málin, en Corralejo er nokkuð öruggur staður) og mikil náttúrufegurð og skemmtilegt bæjarumhverfi út um alla eyjuna. 

2024-01-07_15-23-552024-01-07_15-26-172024-01-07_15-26-41

 


Galdrafólkið kennarar

Hvað sem segja má um íslenska skólakerfið, og það er auðvitað ýmislegt, þá efast ég ekki andartak um að þar má nú finna frábæra kennara, rétt eins og þegar ég var í skóla (sem hefur verið furðu oft). Það er svo margt sem ég hef haft með mér út í lífið, sem ég get rakið til góðra kennara og annarra sem höfðu varanleg áhrif á mig til góðs eða jafnvel ekki. Man helst þetta góða. Sleppi því að nefna nöfn, en vinir mínir og gamlir skólafélagar geta eflaust giskað. Í barnaskóla var ég mestmegnis heppin með kennara, fékk mjög góða undirstöðu, einkum í íslensku, og afskaplega jákvæð skilaboð út í lífið. Bekkjarkennarinn okkar lagði mikla áherslu á að við væru góð hvert við annað og ég man að hún sendi eitt sinn einn nemandann, sem átti undir högg að sækja, úr stofunni til að reka fyrir sig eitthvert erindi og á meðan sagði hún okkur að ef við sýndum honum á einhvern hátt leiðindi væri henni að mæta. Vinkona mín sem kom síðar í bekkinn fann því miður ekki fyrir sömu velvild en hrósaði henni fyrir íslenskukennsluna, held að það fyrrnefnda hafi komið okkur flestum á óvart. 

Mamma útskrifaðist sem teiknikennari þegar ég var fimm ára og það hefur eftir á að hyggja verið mín lukka, þótt hún léti sem hún reyndi aldrei að kenna mér neitt. Var nefnilega ekkert sérlega heppin með teiknikennara í barnaskóla, en það breyttist heldur betur í gaggó, þegar við lentum hjá einum allra besta teiknikennara á landinu, þori ég að fullyrða. Þótt ég hafi síðar lært að nota (líka) aðrar aðferðir í myndlist en þær sem hann predikaði, þá var góður grunnur að læra að bjarga myndum án þess að nota strokleður, mæla ekki neitt, heldur þjálfa augað til að ,,sjá" hlutföll og nota íþróttasíður dagblaðanna til að finna módel í alls konar (undarlegum) stellingum. Í menntó stóð listafélagið hins vegar fyrir vikulegum kvöldum undir leiðsögn eins okkar besta teiknara og þar lærði ég að teikna með strokleðri. Í inntökuprófinu (sem stóð í heila viku) í MHÍ var ég örugglega eina manneskjan sem gerði tilraun til að teikna tauklemmu í yfirstærð í heilan dag, án þess að mæla. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég kæmist inn í skólann með bravör, en hefði ég fallið þá hefði það verið út af gömlu innrætingunni úr gaggó. Samt, ég held að hvor tveggja tæknin eigi rétt á sér.

Líklega hefur framúrskarandi sögukennari í MR ráðið mestu um að ég ákvað að fara (líka) í sagnfræði og bókmenntasögu meðfram náminu í MHÍ og þegar ég var þvinguð til að velja milli HÍ og MHÍ valdi ég sagnfræðina. Var svo lánsöm að hitta þennan velgjörðarmann minn í barnaafmælum síðar, af því hann var pabbi vinkonu minnar. Í sagnfræðinni var líka annar kennari minn úr MR sem hafði ekki minni áhrif á mig, sumir kölluðu hann alfræðibók og þá ekki til hróss, en hans þekking, þótt mikil væri, var miklu dýpri. Á háskólaárunum voru nýlendur, einkum í Afríku, ein af annarri að fá sjálfstæði og hann sagði fyrir um það með fáránlegri nákvæmni hvenær hver nýlenda yrði frjáls, hvers vegna og hvaða vandamál gætu fylgt í kjölfarið. Sama máli gengdi um upplausn Sovétríkjanna, sem voru löngu eftir hans dag, hann greindi með ótrúlegri nákvæmni þá togstreitu sem hefur verið á flestum átakasvæðum, vegna trúarbragða, efnahagslegra hagsmuna og mismunandi menningar. 

Stærðifræðikennari í gaggó var að prufukeyra námsefnið Tölur og mengi, einmitt á mínum bekk, og kenndi mér því snemma á galdra tvíundakerfisins og mengjafræðinnar. Þegar ég fór að bæta við mig framhaldsskólastærðfræði sem hafði breyst mikið frá árunum fyrir 1970, naut ég góðs af þessum grunni, og einhvern veginn komst ég í gegnum mastersnám í tölvunarfræði um og uppúr fimmtugu, þótt máladeildarstúdent væri. Seinasti stærðfræðikennarinn í þeirri lotu bjargaði mér alveg gegnum þá glímu, enda kennari af guðs náð. Í tölvunarfræðinni var það samt kennarinn sem kenndi kúrsinn Samskipti manns og tölvu, sem lagði grunninn að tveggja áratuga störfum í hugbúnaðargerð. Hún var skipuleg, skemmtileg og fann fyrir okkur námsefnið sem einmitt varð til þess að ég hugsaði: Hér á ég heima. 

Það er ekki öllum gefið að vera kennarar. Aðeins eitt ár af starfsævinni hef ég haft kennslu (í íslensku) að aðalstarfi og gleðst innilega yfir því að bæði ég og nemendurnir komumst heil frá þeim vetri. Þess vegna var ég undrandi þegar ég hitti, á myndlistarsýningu í fyrra eða hitteðfyrra, nemanda sem sagði mér frá þeim jákvæðu áhrifum sem ég hefði haft á hana. Engu að síður gerði ég rétt með því að velja mér ekki kennslu að ævistarfi. Það þarf sterk bein og mikinn mannkærleika og fagmennsku til að verða eins og þetta fólk sem reyndist mér svona vel. Það sem ég kann að hafa af svoleiðis löguðu nýttist þá í annað. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband