Bloggfærslur mánaðarins, júní 2023

Já, við vitum að Rás 2 er fertug á árinu og margt hefur gerst á ,,áttunni"

Rás 2 var hressandi viðbót við fátæklega útvarpsflóru í upphafi níunda áratugarins, áttunnar, eins og farið er að kalla hann. Þórarni Eldjárn hefur verið eignuð sú nafngipt, með réttu eða röngu, og þetta venst. Eftir útvarpsvinnu frá árinu 1978 fannst mér upplagt að sækjast eftir því að vinna eitthvað fyrir Rás 2 en aldrei varð það mikið. Hafði verið með smálegt af tónlistartengdu efni á Rás 1 (sem þá var eina útvarpið) og Zappa-þátturinn minn líklega best þekktur hann hét auðvitað: Zappa getur ekki verið alvara, í takt við úrklippuna hér að neðan. En þá var Rás 2 ekki til.

2020-07-10_23-49-24

 

Fékk þó að leika lausum hala í einhverjum klukkutímaþætti á Rás 2 einhvern tíma á þessari margnefndu áttu, en það var kannski aldrei mitt uppáhaldstímabil í tónlist, þótt ég hefði vissulega fallið fyrir ýmsu, pönki hjá Clash, Utangarðsmönnum og Stranglers, kvennarokkinu hjá Grýlunum. Tók eitt af þremur stærri viðtölunum við þær fyrir Vikuna, mjög gaman, fannst þær hressar og skemmtilegar. Spilaði seinna skvass við Herdísi um tíma og það var svosem ekki minna hresst, önnur hlið á þessum snillingi. En í þessum eina þætti tæmdi ég til öryggis vel af listanum yfir mín uppáhalds á þeim tíma, man bara eftir Special Aka með Free Nelson Mandela (það var líka gert).

Skemmtilegasta verkefnið var þó án efa að fá, ásamt Andreu Jónsdóttur, að kynna upptöku Rásar 2 af tónleikum Leonards Cohen á Íslandi 1988. Andrea hafði farið á blaðamannafundinn fyrir hönd RUV og inn í þættina, sem voru tveir, fléttuðum við klippum þar úr. Þar sem ég hafði gert BA-ritgerðina mína í almennri bókmenntasögu um ljóðagerð Leonards Cohen fékk ég að taka þátt í þessu verkefni og fannst það alveg dásamlegt. Andrea alltaf ein af mínum allra uppáhalds, datt þetta einmitt í hug áðan þegar ég fór að hlusta á þátt hennar Pressuna í einhverju hlaðvarpinu. Vonandi hef ég í þessum þáttum okkar Andreu bætt fyrir prakkarastrik í þætti sem ég var með skömmu fyrr á Rás 1 um ljóðagerð Leonards Cohen, því í honum fjallaði ég nákvæmlega um það efni (og spilaði enga tónlist, mörgum til mikillar armæðu).  

2023-06-24_00-05-22

unnamedcohen


Sautjándinn: Bómullarís í Tívolí og ísköld nótt (nokkru) eftir útskriftardaginn

Við vinnufélagarnir óskum hvert öðru yfirleitt góðrar helgar þegar við tínumst út á föstudögum. ,,Fáið ykkur svo candy-floss á sautjándann," sagði einn félagi minn í kveðjuskyni dag. ,,Bómullarís?" spurði ég. Man þessa klístruðu, bleiku sem festust á kinnunum í Tívolí í Vatnsmýrinni. Þau hin auðvitað ekki, enda áratugum yngri. 

Skrúðgöngur og fánar, mættum samviskusamlega í allt svoleiðis, einkum þegar krakkarnir okkar voru komnir í skátana hér á Álftanesi, og eflaust hefur einhvern tíma verið boðið upp á bómullarís undir dulnefni hér á nesinu. Þekkti líka flestar fjallkonurnar með nafni og sumar voru vinkonur mínar.

Sautjándinn er alls konar, árið þegar ég útskrifaðist úr MR og vildi helst vera í venjulegum, hvítum bómullarbol með húfuna aftan á hnakka (en ekki fína útskrifarkjólnum sem Auður á Hvoli saumaði á mig) þegar ég fór á djammið frostnóttina eftir útskriftina 16. júní, eða jafnvel fyrr (15.6.). Engu að síður ,,sautjánda" minning. Var hún ekki í Háskólabíói, við vorum svo stór árgangur? Jú, segir timarit.is. Ég sem man allt, man það ekki fullkomlega. Alla vega fóru mamma og Ólafur fóstri minn með okkur Gunnu vinkonu í kaffi í Grillinu á eftir, en ég harðneitaði að halda stúdentaveislu. Svo var Gunna farin í sveitina sína. Ég vona annars að hún hafi náð kaffinu með okkur, það stóð eitthvað tæpt. Amma Kata mætti þó á sautjándann og þá hafði hlýnað og við sátum úti, báðar með húfur. Día frænka gaf mér orðabók í stúdentagjöf. Sumir voru einbeittari og neituðu að setja upp húfu, en mín hefur reynst vel og tyllt sér á ýmsa kolla í fjölskyldum okkar Ara míns. 

vid.amma (2)

17


En aftur á móti, ef það kæmi vont veður í vitlausu landi ...

Ýjaði að því í seinasta bloggi að stundum stæðist veður erlendis ekki væntingar. Ein vinkona okkar fór í virkilega regn-ferð til Havaí og fimm af sjö dögum okkar mömmu á Rarotonga í Suður-Kyrrahafi um árið voru votir. Engu að síður dásamleg vika á yndislegri eyju. Þetta bitnar ekki síst á staðföstu veðurflóttafólki, en annar markhópur er auðvitað vatnslitafólk á leið í skiplagða útimálun. Gríðarlega vel valinn markhópur. Glöggir veðurfræðingar spáðu úrhellisrigningu fyrsta daginn minn í Cordóba í mars, en þá forðuðum við, Íslendingarnir þrír, okkur undir stórar svalir sem nóg var um þar. Pokinn með hátíðarskjölunum varð að vísu gegndrepa en fyrir eitthvert kraftaverk slapp sýningarskráin sem er stórkostlegt rit. Og eins og sumir vina minna vita endaði þessi vika bara æðislega. 

unnamed (1)

Nú á ég sem sagt eitt erindi í útimálun erlendis í sumar. Eftir masterclass hjá Alvaro Castagnet í Cambridge í fyrra (í fínu veðri) var ég nefnilega bara rétt að byrja að vinna úr því sem hann hefur fram að færa. Þótt hann komi til Íslands í sumar (Vatnslitafélagið tók myndarlega við boltanum sem hann sendi mig með til Íslands) þá ganga þeir fyrir um pláss hér á landi sem ekki hafa áður verið hjá honum. En konur sem eiga syni í Amsterdam leysa það auðvitað með því að fara bara á næsta námskeið á undan, útimálun í Amsterdam. Og það geri ég. Veðrið þar hefur verið alveg stórkostlegt að undanförnu, en langtímaspáin er svona (sjá mynd), svo ég pantaði og fékk sendar 2 mismunandi tegundir af regnhlífastöndum til að skrúfa á trönurnar mínar (sjá næstu mynd).

2023-06-07_17-11-03 unnamed


Ef það kæmi gott veður ...

Merkilegt hvað sumir (ég) eru hikandi við að bóka ferðir fram í tímann á sumrin. Ef ske kynni að það kæmi gott veður á heimaslóðum, þá er auðvitað ómögulegt að missa af því. Bóka helst ekki utanferð að sumri nema hafa aðra ástæðu til þess en sólarfíkn. Kannski er ég ein um það, en grunar þó að við séum fleiri. Sumarblíða uppi í sumarbústað eða við Bessastaðatjörn, golfdagar í pilsi, auðvitað er ekki hægt að missa af svoleiðis löguðu. Haustið þegar við Ari fórum í sólarlanda- og berjaferð á Austurland verður líka alltaf í minnum haft. 

Langtímaspár lofa ekki endilega góðu, en stöku veðurfræðingar hætta sér í að vera bjartsýnir. 

Yfirleitt hef ég frekar tekið eiginlegt sumarfrí á veturna og eftir að hafa streist á móti öllum Kanaríferðum fórum við Ari minn í tíu skipti á 12 árum í vetrarferðir þangað í byrjun þessarar aldar. Fleiri staðir hafa orðið fyrir valinu á veturna, vestan hafs en þó aðallega suðaustan. Það er nokkurn veginn hægt að treysta því að veðrið sé betra á suðlægum slóðum en hér heima á veturna en á sumrin. Núna snemma sumars hef ég reyndar heyrt af óvenju mörgu veðurflóttafólki héðan af suðvesturhorninu, sem flúið hefur til Spánar, Ítalíu eða á Melrakkasléttu. 

2012-07-14 19.53.41 (3)

Spurði vini mína á Facebook um daginn hvort bítlalagið væri í meira uppáhaldi, Here comes the sun eða I´ll follow the sun. Mér finnst öruggara að halla mér að því síðarnefnda, og auk þess er það miklu fallegra lag. Hef skásta reynsluna af því að taka svoleiðis ákvarðanir þegar nokkuð traust veðurspá liggur fyrir og fara þá ekki um of langan eða dýran veg. Ótrúlega góð spá í Borgarfirði fyrir áratug eða svo og einn frídagur í vinnunni varð eftirminnilegur, í fyrra elti ég sólina frá London til Norwich og þegar spáð var úrkomu í Sitges á Spáni dreif ég mig suður með ströndinni og fann sólina heita og góða. Ekki gengur þetta alltaf vel, frétti af einum sem ætlaði að ,,skjótast" til Egilsstaða í góða veðrið um einhverja af nýliðnum helgum, en var ekki til í að borga flugfargjald öðru hvoru megin við fimmtíu þúsund kallinn fyrir nokkra klukkutíma í sólinni, enda gisting ekki alltaf á lausu í áfangastað og heldur ekki gefin.  

Framundan er heilt sumar, alls konar veður út um allar trissur, hitabylgjur, meinhægt veður, skrifstofufárviðri, Jónsmessuhret eða bara rigningartíð og rok. Sumir panta sér dýrar ferðir í sólina án þess að sjá sólina fyrir veðrinu, aðrir eru heppnari. Sumir halda því fram að það sé ekki til vont veður, bara vitlaus fatnaður. 

Við vitum auðvitað öll af því að þessi forgangsröðun okkar er lúxusvandamál, í heimi þar sem veðuröfgar verða sífellt fleirum að fjörtjóni, stríð geisa og alvarlegur uppskerubrestur ógnar lífi fólks. En þetta er nú samt það sem fólk er að tala um, sem hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu landans og hlýtur að teljast hinn eini, sanni þjóðarpúls.  


Talað við þrælkurteisan og hjálpsaman þjónustufulltrúa eftir 2ja mínútna bið

Lenti í svolitlu undarlegu í fyrradag. Svo vildi til degi fyrr að hræðilegt vefviðmót erlends flugfélags, sem var það eina sem hentaði mér að nota til að koma mér á vatnslitavinnustofu og heilsa upp á son minn í leiðinni, hafði orðið til þess að ég glataði gersamlega bókunarnúmerinu. Án þess var ég heillum horfin. Um tíma hélt ég að færslan fyrir flugferðina hefði ekki farið í gegn, en innan sólarhrings kom í ljós að hún var komin á kortayfirlitið mitt. En enginn kom staðfestingarpósturinn, og ég sem yfirleitt tek skjáskot af keyptum flugbókunum hafði einmitt í þetta skiptið sleppt því. Nú kaupi ég yfirleitt ekki dýrar flugferðir og fjárhagsskaðinn hefði verið bætanlegur, en mér er alveg bölvanlega við að láta fara illa með mig og sérlega viðkvæm fyrir því ef lélegar hugbúnaðar(prófanir) valda. Svo ég gerði það sem ég helst aldrei geri, hringdi í flugfélagið sem um ræðir. Var auðvitað vel birg af lesefni, gott ef ekki vatnslitablokk líka, og bjó mig undir vetursetu við símann, einkum eftir að ég hafði uppgötvað nýjasta trikkið hjá einu flugfélagið (að vísu slapp ég þá með 100 mínútna bið) en þar byrjaði ég númer 46 í röðinni og vann mig svo upp goggunarröðina þar til ég var orðin ,,næst" og eyddi síðan meira en hálftíma í að vera ýmist ,,næst" nr. 2 í röðinni eða þaðan af fjær þjónustufulltrúanum.

En þennan dag gerðust undur og stórmerki. Í fyrsta lagi (eftir að hafa spilað píanókonsert á lyklaborðið á símanum) var mér sagt að ég væri næst í röðinni og í öðru lagi VAR ég næst í röðinni og það eftir varla meira en tveggja mínútna bið. Þrælkurteis þjónustufulltrúi kynnti sig og ég sagði honum erindi mitt. Við höfum varla spjallað meira en korter allt í allt. Tilgreindi nafn, áfangastað og pantaðan flugdag, hann var snöggur að finna þetta til. Eina samskiptavandamál okkar var eins og einhver Agöthu Cristie saga: N eða M. Það var ekki fyrr en ég sagði honum hreint út að það væri ekkert M (Metro) í nafninu mínu né netfanginu að samskipti okkar urðu fullkomlega góð. Hann lofaði tölvupósti og varð líka við beiðni minni um að gefa mér upp bókunarnúmerið gegnum síma, sem reyndist síðan rétt, þegar bókunarupplýsingarnar fóru að streyma í tölvupósthólfið mitt. 

Það er engin furða að konu sé mál að blogga.

n-or-m


Að komast (loksins) á áttræðisaldurinn

Þegar ég átti stórafmæli fyrir hartnær ellefu árum fannst mér mjög spennandi að vera komin á sjötugsaldur, en ónei, ekki fékk ég nú lengi að njóta þess. Ótrúlegasta fólk reyndi allt hvað af tók að fá mig ofan af þeirri firru að með því að verða sextug væri ég komin á sjötugsaldur, það ætti ekki að verða fyrr en ég yrði 61 árs. 

Bráðum er ár síðan ég varð sjötug og ég hef þagað þunnu hljóði yfir því að vera komin á áttræðisaldurinn, þótt ég efist ekki andartak um að svo sé. Hins vegar nenni ég ekki aftur að taka þennan slag. Biðin er brátt á enda og þá ætla ég svo sannarlega að fagna því upphátt að vera komin á áttræðisaldurinn. Mér finnst það auðvitað bæði guðsþakkarvert og svolítið fyndið líka, af því ég hef aldrei almennilega náð mér uppúr því að vera átján. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband