Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Yfirbragð eða merking? Fegursta orð íslenskrar tungu valið

Ég hef fengið margar skemmtilegar tilnefningar og athugasemdir í leitinni að fegursta orði íslenskrar tungu. Rökstuðningurinn sem fylgir tilnefningunum er svo skemmtilegur og oft svo fallegur líka. Og svo koma spurningarnar: Eiga tilnefningarnar að byggjast á merkingarlegri fegurð, eða hljóðfræðilegri? var ein spurningin sem ég fékk. Því er til að svara að keppnin lýtur sínum eigin lögmálum og fer þangað sem þátttakendurnir leiða hana. Mitt er eingöngu að leggja til rammann. Mér sýnist á tilnefningunum að hvort tveggja ráði för, ekki síður merkingin, það eru æði mörg jákvæð og skemmtileg orð tilnefnd. Húmor og vangaveltur um tungumálið hafa líka greinilega áhrif.

Í fyrri tilraunum mínum, sem aldrei náðu þessu flugi sem við erum komin (saman) á núna, þá held ég að hljóðfræðileg fegurð hafi algerlega ráðið ferð. Mig minnti endilega að himinblámi sem Gurrí tilnefndi hefði sigrað, en það orð fékk bara 3% atkvæða. Blikur var orðið sem sigraði þar, jöfn í öðru og þriðja sæti voru öldugjálfur og brynja. 

Tvöfalt afmæli truflaði mig í að taka saman lista yfir þær tilnefningar sem eru komnar inn, en þær eru allar sjáanlegar í athugasemdakerfinu. Spurning hvort ég á að raða orðunum eftir því hvenær tilnefningar bárust eða í stafrófsröð? Auðvitað væri mest gaman að raða þeim eftir því hvernig þau passa saman, mér finnst til dæmis varla hægt að setja saman orðin jæja og himinblámi. En eflaust er það smekksatriði. Röðun er merkilegt fyrirbæri, bæði í nýja faginu mínu, tölvunarfræði, og eins í hugvísindum og listum, þar sem ég á bakgrunn. Bara eitt atriði, hvernig fólk raðar bókunum sínum í hillur, er heilmikil stúdía.


Frumlegar, skemmtilegar og nýjar tilnefningar í keppninni um fegursta orð íslenskrar tungu

Það er ekkert smá skemmtilegt að sjá tilraunina sína um að finna fegursta orð íslenskrar tungu komna á fljúgandi flug. Enn eru að koma inn tilnefningar - en ég tók kúnstpásu og ákvað að sofa aðeins í stað þess að blogga í gærkvöldi - af því flugi dóttur minnar frá Köben seinkaði allverulega. Þannig að um þrjú leytið í nótt stóð ég frekar mikið syfjuð og beið eftir að hitta Ungverjann okkar í Leifsstöð. Var búin að kría út 2-3 tíma svefn og náði öðru eins fyrir vinnu, þannig að það er stundum gagnlegt að sleppa blogginu eitt og eitt kvöld.

En það liggur fyrir smá vinna að koma saman ábyrgum lista yfir allar tilnefningar g birta hér á blogginu, nokkur orð eru þegar orðin vinsælli en önnur, ég held að orðið ljósmóðir sé komið með forystuna. Enn er opið fyrir nýjar tilnefningar og verður fram á sunnudagskvöld.


Orðin streyma inn - tilnefnið fegursta orð íslenskrar tungu fram á sunnudagskvöld

Viðbrögðin við beiðni minni um að tilnefna fegursta orð íslenskrar tungu hafa verið mjög góð. Ég lofaði að birta tilnefningar jafnóðum og hér er afraksturinn í lok 4. júlí.

Jæja

Nenna

Óstjórn

Samstarf

Samkennd

Ljósmóðir (3)

Öndvegi

Unaður (2)

Kærleikur

Ást

Sól

Vor

Óðfluga

Orð

Yndi

Fjóla

Dís

Taktur

Sólskríkja

Mamma

Ljúflingur

Tekið verður við fleiri tilnefningum fram á sunnudagskvöld í athugasemdum við þessa færslu eða næstu á undan. Þá tekur við stutt tímabil þar sem fólk getur lýst yfir stuðningi sínum við einstakar tilnefningar. Tvö orð hafa nú þegar fengið fleiri en eitt atkvæði. 


Tilnefnið fegursta orð íslenskrar tungu

Eins og ég lýsti á blogginu í gær þá hef ég gert tvær mis-mislukkaðar tilraunir til að koma á keppni um hvert sé fegursta orð íslenskrar tungu. Fékk bara nokkuð góðar undirtektir og þar af leiðandi ætla ég að reyna í þriðja sinn, allt er þegar þrennt er. Bún að fá tvær tilnefningar, mjög skemmtilegar:

Jæja og nenna

Flott orð. Á hinu blogginu mínu var kominn vísir að vinsældarlista íslenskra orða þannig að ég á smávegis í handraðanum. En hér er fyrirkomulagið:

1. Opnað hefur verið fyrir tilnefningar, endilega setjið tilnefningar í athugasemdir.

2. Nýjustu tilefningar eru kynntar jafnóðum.

3. Endilega lýsið yfir stuðningi við einstök orð.

4. Þegar marktækur hópur orða liggur fyrir (helst með stuðningi sem flestra) þá eru þau vinsælustu sett á skoðanakönnunarsvæðið.

5. Svo er bara að sjá hvernig atkvæðin leggjast ... og sigurvegarinn verður kynntur í lokin.

6. Það fer eftir þátttöku hve lengi hægt verður að setja inn tilnefningar og hvenær úrslit liggja fyrir.

Og svo bara bíð ég eftir tilnefningum! 

 


Gott viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu

Síðdegisútvarpið á rás 2 tók viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu í tilefni af ferð hennar sem utanríkisráðherra til Afríku þar sem henni tókst að hitta flesta eða alla Afríkuleiðtogana á einu bretti. Hef áður lýst ánægju minni með þá sýn sem fram kom um daginn hjá henni um að það geti verið framboði Íslands í vil að landið er utan Evrópusambandsins. Með því er ég ekki að leggja dóm á hversu heppilegt er að Ísland fari í þá stöðu, meðan við erum svona óttalega höll undir utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

En það er annað úr þessari för sem mér fannst gott að heyra, það var hreinlega tónninn í viðtalinu. Það er ekkert launungarmál að Íslendingar hafa verið miklir eftirbátar nágrannaþjóðanna í framlagi til þróunaraðstoðar og það er greinilegt að nýr utanríkisráðherra okkar er ekki par stolt af því. Finnst reyndar markmiðin um að komast upp í 0.35 % af þjóðarframleiðslu á næstu árum greinilega ekkert of metnaðarfull. Það var talsverður sannfæringarkraftur í því þegar hún sagði að Íslendingar hafi sko alveg efni á þessu. Ég hef talsverða trú á að hún eigi eftir að vekja Íslendinga upp af þessum skammarlega doða og reyndar er ég ekki frá því að forsætisráðherra gæti verið sama sinnis, þótt flokkssystkini beggja dragi kannski lappirnar. Flott! Og svo benti hún á skemmtilegt atriði, stemmningin hafði nefnilega minnt hana á kvennabaráttuna, nýtt og baráttuglatt afl. Og léti Evrópu virka eins og miðaldra karl. Halo


Besta

Fyrirsagnarstíllinn minn er ekki uppreisn gegn vaxandi tilhneigingu á blogginu. Ég hef alltaf verið hálf feimin við hugtakið ,,besta". Draumar hippakynslóðarinnar fólust meðal annars í því að gera ekki upp á milli, dæma ekki (of mikið) og að ráðast gegn öllu ríkjandi verðmætamati, líka öllum þessu dilkadrætti í ,,besta" þetta og besta hitt. Og að mörgu leyti finnst mér það ágætt veganesti. Það merkir alls ekki að fletja út allt, þannig að allt sé í sömu meðalmennskunni, heldur að viðurkenna að það besta fyrir einn er ekki það besta fyrir annan og að það sem ríkjandi verðmætamat telur ,,best" er oft harla forgengilegt. 

En auðvitað lendir maður í þversögn við sjálfa sig. Ætla ég að segja að Gunna vinkona fyrir norðan sé bara meðalgóð vinkona, þegar hún er búin að vera ,,bestavinkona" í bráðum 40 ár? Og hvort ég skemmti mér ekki við að velja áhugaverðar bækur (þáverandi bestar) fyrir ,,19. júní" eitt árið.  Reyndar fékk ég bakþanka áður en blaðið var komið úr prentun, ó, ég hefði frekar átt að nefna Hvunndagshetjur, hvernig gat ég gleymt þeim, ó, ég hefði átt að ...

Ég er sannfærð um að Creep sé besta lagið í heimi (fucking special útgáfan). Einu sinni var það lag ekki til, og furðu stutt síðan reyndar, og þá var annað lag best.  

Það rifjaðist líka upp fyrir mér fyrir skömmu að bókin Litli prinsinn er besta bók ever. Meðan ég var (rosalega) blankur námsmaður keypti ég í Næpunni 10-12 eintök af bókinn, á góðu verði, og gaf þeim sem mér fannst að yrðu að eignast hana. Þegar góð vinkona mín dó, þá var það fyrsta sem ég hugsaði: Var ég búin að gefa henni Litla prinsinn? Ég held það. Áttaði mig seinna á því að þessi tilfinning er vísan í bókina. Þeir sem þekkja hana vita eflaust hvað ég á við. Hjálmurinn, blómið ...

Og þar að auki langar mig alltaf til að setja af stað könnun um fegursta (besta) orð íslenskrar tungu. Ég er búin að gera tvær máttlitlar tilraunir, reyndi fyrst að fá þetta inn í Vikuna (1980-1985 ca) en talaði fyrir daufum eyrum. Sá fyir mér fegursta orðið á palli, með krans um hálsinn eins eða kórónu eins og fegurðardrottning, heyrði málfræðingana gefa því einkunn fyrir þokka og einhvers staðar hefði verið rúm fyrir ,,lestur góðra bóka". Svo gerði ég þessa könnun á hinu blogginu mínu og þakka Gurrí og hinum tilnefningar og þátttöku. En það blogg var hvergi auglýst og er eiginlega ennþá bara einkaflipp með gömlum vinum og ættingjum.

Þannig að kannski á ég eftir að vera með alls konar ,,besta" dót hér á síðunni í framtíðinni. Reyna aftur að virkja kraft þjóðarinnar til að finna fegursta orð íslenskrar tungu, fyrst fólk gat fundið þjóðarblómið (reyndar varð rangt blóm fyrir valinu, blágresið blíða er alltaf flottast) þá hlýtur það að takast einhvern tíma. Svo væri gaman að vera með lista yfir bestu bækurnar, bestu lögin, já, ég held það sé best að gera eitthvað í þessu ...


Hiti í hitaveituumræðu og einkavæðing orkufyrirtækja orkar tvímælis

Alvarleiki umræðunnar um afdrif Hitaveitu Suðurnesja - sem ég held að verði ákveðinn prófsteinn á fyrir hvað þessi ríkisstjórn stendur (ef hún nær að sameinast um það) - hvarf aðeins í orðaflipp á ríkissjónvarpinu í kvöld. Þar var sagt frá því að hiti væri í hitaveituumræðunni og einkavæðing orkufyrirækjanna orkaði tvímælis að mati viðskiptaráðherra. Með þessu áframhaldi má skera verulega niður þau orð sem not eru fyrir í hverri frétt fyrir sig. En aðallega skiptir þó máli hver niðurstaða þessa máls verður. Eftir öll trikk og plott og þegar allir eru búnir að nota forkaupsréttinn sinn (í hlutfalli við eignarhluta) þá verður mórallinn í sögunni kannski samt sá að Suðurnesjabær ráði ferðinni og afhendi einkaaðilum forræði orkufyrirtækisins, hvað sem það hefur nú í för með sér. Og stjórnin á að vera klofin í þessu eins og fleiru og fróðlegt að vita hvað kemur út úr því. 

Kemur ekki á óvart - vona að þetta verði áfram einkenni eftirlætisborgar minnar

London er geysilega stór borg, enda nóg af grænum svæðum þar ennþá, oft miklar tafir, en samt finnst mér hún aldrei stressandi. Ég vona að íbúar þessarar uppáhaldsborgar minnar beri gæfu til að halda ró sinni áfram.


mbl.is Ekkert virðist raska ró Lundúnabúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað tónlist getur breytt öllu (líka því sem sólardagarnir breyttu)

Rétt áðan var ég að láta skýin rugla mig í ríminum en svo lenti ég á frábærum konsert á bloggi nöfnu minnar (anno) og það glaðnaði aðeins til. Mundi allt í einu eftir lagi sem ég setti inn á hitt bloggið mitt og verð eiginlega að koma á framfæri fyrir unnendur rapps frá Chile: Tiro de Gracia! 

Undarlegt hvað nokkrir sólardagar geta breytt manni ...

Horfi á skýin undir svefinn. Var búin að steingleyma þeim. Undarlegt hvað nokkrir sólardagar geta breytt manni, ég sem fyrir stuttu tuðaði um snjólétt sumar, var farin að halda að svona yrði þetta bara í allt sumar, 15-20 stiga hiti og sól! Farin að plana það að ná tökum á golfinu, reyta kringum fallegu plötunurnar í garðinum, en sennilega verður það að bíða næstu sólartarnar. Ef hún kemur ... (þetta seinasta er hjátrú, ég er orðin svo bjartsýn á sumarið að ég vil ómögulega bera ábyrgð á langvinnri rigningartíð með óábyrgum fullyrðinum. Og af því ég trúi ekki á 7,9,13 þá verð ég bara að berja í tré og segja: Ef hún kemur ...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband