Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

Magnaðir miðlar - kosning um fegursta orð íslenskrar tungu heldur áfram enn um sinn

Mér finnst bloggið magnaður miðill. Það sem er svo magnað er ,,gagnvirknin" (hér vantar okkur betra orð - lýsi eftir því ;-). Frá því kosningin um fegursta orð íslenskrar tungu hófst hér á einkafjölmiðlinum mínum sem líkist frekar stofu með fullt af gestum, kunnugum og ókunnugum, sem spjalla saman og koma með skemmtilegar athugasemdir, hefur verið stöðug þátttaka í því góða verkefni að finna fegursta orð íslenskrar tungu.

Í gær blönduðust síðan fjölmiðlar, fyrst Sandkornið hjá DV og síðan sjónvarpið, í málið. Og kosningin, sem var dala, tók stórt stökk upp á við. Magnaður miðill, sjónvarpið, og fréttakonan sem hélt utan um málið hafði skemmtilega og ferska sýn á þetta uppátæki. Tókst alla vega að koma mér á óvart þegar hún spurði hvort ég ætlaði ekki að standa fyrir kosningu um ljótasta orðið ;-) Það mun ég reyndar ekki gera, en fyndin spurning. 

Enn leiðir orðið ljósmóðir kosninguna en bilið minnkar stöðugt milli þriggja efstu orðanna og orðið dalalæða sækir fast að ljósmóður, þannig að hver verður að styðja sitt orð. Ég hef látið huggast yfir vandræðunum sem ég var að komast í vegna allra góðu ,,nýju" tilnefninganna. Þessi orð eru ekki týnd, þau verða annað hvort sýnd á góðum stað eða með í næstu keppni.  

 


Hvað á ég að gera við allar nýju tilfnefningarnar í keppnina um fegursta orð íslenskrar tungu?

Sum ykkar hafið fylgst með þessari keppni um fegursta orð íslenskrar tungu frá upphafi, önnur skemur og sum jafnvel að koma inn á síðuna í fyrsta sinn. Keppnin er komin langt og valið stendur núna aðeins um þau 12 orð sem fengu flestar tilnefningar á meðan tekið var á móti tilnefningum. Nú er búið að loka fyrir tilnefningar, auk þess að eyða nokkrum tíma í að gera upp á milli þeirra 87 orða sem voru tilnefnd tímanlega. Og eftir standa þau 12 orð sem sjást hér í skoðanakönnuninni á vinstri hönd. Endilega veljið ykkar orð, ef þið eruð ekki búin að því. 

En ... vandinn er sá að enn streyma inn tilnefningar um flott orð, þær eru orðnar hátt á annað hundrað ef ekki að nálgast þriðja hundraðið. Meira að segja í símtölum koma upp ný orð sem fólk vill koma að, lausaleikur, til dæmis. Og öll þessi glæsilegu orð, hvað á ég að gera við þau? Opin fyrir öllum tillögum. Ég safna þeim alla vega saman. Kannski þarf ég að koma þeim fyrir á vefsíðu og halda aðra keppni. Kannski vilja aðrir aðilar taka við. Fjölmiðlar eru farnir að hafa áhuga á málinu og þetta er áhugaverð glíma við að gera það rétta, sýna öllum orðum fullt réttlæti innan þess lausa og skemmtilega ramma sem bloggið er og verður.  


Gott fyrir gróðurinn - og fer atkvæðum fækkandi í kosningu um fegursta orð íslenskrar tungu?

Eins eða tveggja daga rigning, bara gott fyrir gróðurinn. Svo á aftur að sjá til sólar um helgina, búið að vökva blómin. Svo virðist sem atkvæðum um fegursta orð íslenskrar tungu fari nú ört fækkandi og  að ef þannig verður áfram mun ég tilkynna hér á blogginu þriggja daga frest til að ljúka atkvæðagreiðslunni.

Gleym-mér-ei nálgast andvara í fjórða sætinu - og framhaldssagan um pottinn

Nú eru aðeins 2,5 prósent milli orðsins gleym-mér-ei í fimmta sæti og andvara í fjórða sæti keppninnar um fegursta orð íslenskrar tungu, þannig að vera má að þetta litla blóm sé að blanda sér í slaginn, eftir að hafa komist langt en tapað í keppninni um þjóðarblómið. Ljósmóðir hefur forystu, skammt undan og furðu jöfn eru orðin dalalæða og kærleikur. 

Og sumarbústaðarbúinn er fluttur heim, alla vega eina nótt, en í staðinn fór dóttirin uppeftir, þannig að ekki liggja leiðirnar saman enn (þetta er önnur framhaldssaga sem er komin í gang hér á blogginu - munu móðir og dóttir ná saman áður en dóttirin fer aftur til útlanda .... ). Allt í góðu og á sínar skýringar, en það er miklu meira gaman að gefa þær ekki. 


Pottormar á ferð og flugi - og hve lengi verður hægt að kjósa fegursta orð íslenskrar tungu?

Við Ari erum orðin hálfgerðir pottormar - sem er reyndar flott orð - núna vegur maður og metur hvert orð ;-) - Þannig er nefnilega mál með vexti að fyrir ári gaf tengdamamma okkur æðislegan heitan pott, sem upphaflega hafði verið ætlað annað hlutverk og hafði því staðið í sennilega eitt til tvö ár. Nú er búið að yfirfara hann og byggja inn í sumarbústaðarpallinn okkar en þá vill ekki betur til en að straumurinn í bústaðinn okkar megnar ekki að hita hann upp í upphafshita. Þannig að við höfum búið uppi í bústað frá því um helgina til að reyna að finna út úr þessu og sótt vinnu í bæinn og mættum svo með rafstöð í gær (sem bjargaði okkur alveg þar til við fengum rafmagn í bústaðinn fyrir einu og hálfu ári). En fyrst passaði ekki klóin á rafmagnskapalinn í pottinn og síðan gaf rafstöðin engan straum :-( - mjög furðulegt mál.

Þannig að það er spurning hvenær við flytjum heim aftur, ef við gerum það. Það er yndislegt uppi í bústað, en mig er farið að langa til að hitta hana dóttur mína sem kom frá Ungverjalandi fyrir 2 vikum! Ýmist hefur hún verið í útilegu eða uppi í bústað eða við uppi í bústað og ótrúlega fáar stundir gefist til að spjalla saman. Hún var að vísu að hugga mig á því í gærkvöldi að hún hefði verið með eindæmum upptekin að undanförnu þannig að þótt við hefðum verið í sama kjördæmi hefði það litlu breytt. Við höfum líka verið að reyna að véla son okkar til að vera með okkur uppfrá, bara upp á samveruna, og hann hefur reyndar stundum verið á sama tíma og við, en oftar einn síns liðs eða með sínum vinum. Á þessu stigi málins ætti ég kannski að upplýsa að ,,börnin" okkar eru 28 og 30 ára. 

Eins og ljóst má vera hef ég verið mjög upptekin af íslenskri tungu að undanförnu. Meðan þátttaka er enn góð í atkvæðagreiðslunni verður hægt að kjósa hér á síðunni um það hvert þessara 12 orða hér á vinstri hönd verður valið fegursta orð íslenskrar tungu. Þegar atkvæðum fer að fækka verulega, dag hvern, þá auglýsi ég þriggja daga lokafrest til að taka þátt. Síðan verður sigurvegarinn kynntur með pompi og pragt. 


Allir sammála um að orðið ljósmóðir sé fegursta orð íslenskrar tungu? Eða er það kannski dalalæða? Eða kærleikur? Eitthvert annað orð? Þeir sem vilja hafa áhrif á niðurstöðuna þurfa að láta í sér heyra.

Allir sammála um að orðið ljósmóðir sé fegursta orð íslenskrar tungu? Eða er það kannski dalalæða? Eða kærleikur? Eitthvert annað orð? Þeir sem vilja hafa áhrif á niðurstöðuna þurfa að láta í sér heyra. Ennþá gæti eitthvert annað orð skotist upp á stjörnuhimininn, andvari sýnir smá tilburði og orðið von er fremst meðal jafningja í annarri deild. 

Í yndislegri, sólríkri orðleysisveröld

Helgin var yndisleg, sambland af dugnaði, hvíld, einveru og félagsskap og umgjörðin fegurð Borgarfjarðar og sólin sem hefur sannarlega glatt okkur þetta sumarið, frá og með því að það kom. Við náðum í hestana hans Ara upp á Kjalarnes snemma á laugardagsmorgun og komum þeim í Skorradalinn til Halla sem verður ferðafélagi Ara í hestaferð eftir tvær vikur. Buðum nokkrum hestamönnum í miðdegismat á laugardaginn, og einkum var nú gleði hjá meðfylgjandi hundum sem fengu beinin úr hryggnum til áts og afnota á eftir. Svo fóru hestamennirnir að æfa sig og hestana, stutt á laugardeginum og miklu lengri ferð á sunnudeginum, en farið hægt yfir til að þreyta ekki hestana um of.Mynd014

Heiti potturinn okkar sýnir nú hetjulega tilburði eftir nokkra byrjunarerfiðleika og í morgun, þegar við slitum okkur nauðug frá Borgarfirðinum, til að fara til vinnu, var hitinn kominn í 30 gráður að mati Ara. Þannig að eftir vinnu skal farið með vatnshitamælinn sem gleymdist aftur uppeftir. Þótt maður þurfi að vakna aðeins fyrr í vinnuna með því að búa uppfrá, þá er það vel þess virði. Kjartan vinnufélagi minn, sem hefur staðið í ströngu í ýmsum verkefnum með mér að undanförnu, kom í smá heimsókn úr næsta sumarbústaðahverfi í gærkvöldi, ásamt Berglindi sinni og Tinnu litlu og tíkinni Emily. 

En mestalla helgina hef ég sleikt sólina, pikkað aðeins á tölvuna og lesið smá lokaverkefnisefni, á vindsæng á neðri pallinum í bústaðnum. Eftir að hafa lifað í heimi orða að undanförnu eru þessi orðlausu síðdegi skemmtileg tilbreyting. Vel hvíld og sólbrún er ég afskaplega sæl, en auðvitað kemur að því að við fáum okkur nettenginu í bústaðinn líka, en allt hefur sinn tíma.  

Ég held að krökkunum okkar þyki alveg ágætt að hafa hitt heimilið út af fyrir sig á meðan foreldrarnir eru hálf fluttir upp í bústað, en svo er skipt um vaktir af og til og þau hafa átti sína góðu spretti uppfrá líka, Óli fyrr í sumar og Hanna núna í seinustu viku, þannig að það er með ólíkindum hvað einn sumarbústaður nýtist vel ;-)


Ljósmóðir leiðir naumlega eftir fyrsta daginn í kosningu milli 12 fegurstu orða íslenskrar tungu

Ljósmóðir leiðir naumlega eftir fyrsta daginn í kosningu milli 12 fegurstu orða íslenskrar tungu. Fast á eftir koma orðin Dalalæða og Kærleikur. Mjög góð þátttaka var á fyrsta degi, þegar hafa 160 kosið og ég sé fram á að þær niðurstöður sem fást verði góðar. Öll orðin eru falleg, en vissulega á ég mín eftirlætisorð meðal þeirra og kannski upplýsi ég það eftir keppnina. En þangað til verðið það þið, þátttakendur í atkvæðagreiðslunni, sem ráðið ferðinni.

Annars var föstudagurinn 13. alveg yndislegur.  Ég var komin með snert af fordómum í garð föstudagsins 13. eftir að hafa upplifað nokkra leiðinlega 13. daga mánaðar, ekki alla á föstudegi, einn var að minnsta kosti á miðvikudegi, en í þetta sinn stýrði ég því svo að föstudaginn 13. myndi ég bara gera eitthvað skemmtilegt og það gekk eftir. Með mjög skemmtilegan fund í vinnunni í morgun, tengist framtíðarverkefnum, og eftir kl. 14 var ég komin í stutt en bráðskemmtilegt ferðalag um Suðurland með gömlum og góðum félögum. Hvar sem við komum var tekið yndislega á móti okkur og ég kom með sælubros á vör heim um hálf níu leytið. Náði meira að segja að skreppa í smá golf í annað skiptið í sumar, en þar er sannarlega mikið verk óunnið í að æfa sig til að verða skammlaus á vellinum. Mun ekki láta mitt eftir liggja. 


Svona er lokakeppnin - og þið ráðið hvaða orð verður á endanum valið fegursta orð íslenskrar tungu

Leikreglurnar í lokaáfanganum eru einfaldar. Í skoðanakannakerfi Moggabloggsins hér til vinstri eru tólf orð. Það er einfalt að kjósa, smella í reitinn við það orð sem þér finnst fallegast af þessum tólf. Meginreglan er sú að ekki sé hægt að kjósa oftar en einu sinni úr hverju heimilisfangi eða vinnustað (háð IP-tölum og ef til vill enn betri síun). Svona einfalt er þetta. Og ég vona bara að fegursta orðið sigri.

Tólf orð komust í úrslit um fegursta orð íslenskrar tungu - kjósið fallegasta orðið!

Nú er hafin lokahrinan í leitinni miklu að fegursta orði íslenskrar tungu. Hér á vinstri hönd er skoðanakönnunin sem verður vettvangur kosningarinnar þar til niðurstaða fæst. Orðin urðu á endanu tólf, sem hleypt var í úrslit, og er greint frá því hér að neðan hvernig það atvikaðist. Njótið vel og kjósið rétt ;-)

Svolítið merkilegt, núna er ég búin að vera að fylgja þessari fegurðarsamkeppni eftir um nokkurt skeið, minna fólk á ýmsa fresti sem voru að renna út, frestinn til að tilnefna orð, frestinn til að kjósa orð í aðalkeppnina, en allt í einu núna er þetta að baki og keppnin fer að lifa sínu eigin lífi hér á síðunum, ég mun vissulega minna á hana reglubundið og segja tíðindi, en núna er hún komin í farveg og mun lifa eins lengi og þarf til að fá skýr úrslit. Og ég ætla að leyfa mér að taka orð eins yndislegasta skálds Íslands, Jóns Helgasonar, mér í munn og segja:

Ég hverf inn til anna minna

Allt er líkt og var 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband