Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007
Framkvæmdir helgarinnar - flot taka 2
3.6.2007 | 23:13
Sjómannadagurinn: Til þeirra sem vilja að fiskveiðar verði sífellt minni hluti af hagkerfinu okkar
3.6.2007 | 17:47
Sjómannadagurinn er ekki nein óskapleg hátíð hér í stærstu kaupstöðunum á Íslandi, Akureyri hætt að halda upp á hann þótt þangað hafi framsalskvótinn oft streymt. Man hins vegar vel eftir öllum ljósmyndunum sem pabbi tók á sjómannadaginn á Seyðisfirði, meðan hann bjó þar á síldarárunum, reyndar í hlutverki sýsluskrifara. Ég var ennþá í bænum á þeim tíma árs, af því ég hélt upp á afmælið mitt í bænum með öllum vinkonunum, en upp úr sjómannadegi var ég komin til pabba á Seyðisfirði og var þar alltaf á 17. júní. Fljótlega komst ég að því að ég missti af aðalhátíðahöldunum, því þau voru á sjómannadaginn en ekki 17. júní, fjörið var raunverulegt á myndunum sem enn eru ljóslifandi í huganum. Þarna bjó fólk sem skildi mikivægi sjávarútvegs fyrir samfélagið.
Síðan hef ég alltaf litið sjómannadaginn í þessu ljósi bernskunnar, sjórinn heillar mig, enda lengst af verið afskaplega sjóhraust, og eitt sinn upplúr tvítugu var ég raunar komin með pláss á bát, en því miður fannst kokkurinn áður en ég lagði upp, hafði gengið á hurð í Klúbbnum sáluga. Seinna fékk ég smá útrás í sjávarútvegsnefnd, og þá snerist aðalbardaginn um framsalið á kvótanum. Mér fannst ég alltaf eina manneskjan sem skynjaði framsalið sem aðalóvininn og uppskar ekki mikla kátínu félaga minna sem flestir voru á því að framsalið væri einmitt nauðsynlegt vegna hagræðingarinnar. Og svo talaði ég fyrir hinum umdeilda ,,byggðakvóta" og gegn brottkasti, og þá fyrst kynntist ég yfirgangi þeirra sem valdið höfðu, kvótakónganna. Fékk öskrandi útgerðarmann yfir mig og öskraði smávegis á móti (ég þessi rólyndismanneskja) og kom öskuvond til baka og sagði við sessunauta mína Steingrím J. og Guðjón Arnar (þá Sjálfstæðismann): Það hefur greinilega aldrei bröndu verið hent í sjó! Steingrímur varð alvarlegur en Guðjón skellti uppúr.
Fiskveiðistjórnunin hefur ekki skilað okkur lengra en raun ber vitni og sjómannadagurinn er haldinn í skugga niðurskurðar og slæms ástands í hafinu. Það sem mér svíður sárast er að vita að margir fagna því að sjávarútvegurinn sé ekki lengur sá burðarás í hagkerfinu okkar sem hann áður var. Vaxtastefnan fer illa með hann, þannig þarf það ekki að vera, og í leiðinni fjölmargar aðrar atvinnugreinar, meðal annars hugbúnaðinn. Vissulega er það alltaf gott að eiga margar körfur undir eggin sín, en það á að gera með því að auka hlut annarra greina í hagkerfinu, ekki með því að vanrækja, hunsa eða hata sjávarútveginn! Eitt af því sem oft er bent á er að einu rökin gegn aðild að Evrópusambandinu séu áhrifin á sjávarútveginn, og ef þau minnka sé sú (eina) fyrirstaða úr sögunni. Við þetta er tvennt að athuga: Í fyrsta lagi eru mörg önnur rök gegn Evrópusambandsaðild og í öðru lagi þá eigum við að hlúa að sjávarútveginum eins og við mögulega gera, leiðrétta það sem rangt er gert, og fara vel með greinina, ekki síst að auka verðmætin í vinnslunni. Nokkuð hefur verið að gert þar og meira þarf til. En það verður ekki gert með Flateyraraðferðinni, með því að framselja kvóta og kippa í einu vetfangi stoðunum undan heilu byggðarlagi! Alls ekki! Aðgerðir gegn brottkasti, meiri fullvinnsla, önnur vaxtastefna, allt þetta getur létt undir með greininni.
Meira um bókabúðir ... og bókasöfn - aðeins fyrir bókaunnendur
2.6.2007 | 19:10
Datt niður á aldeilis yndislega umræðu um bókabúðir hjá einum bloggvini mínum, Júlíusi Valssyni, þar sem unnendur bókabúða hafa sannarlega dottið í skemmtilega umræðu. Og auðvitað blandaði ég mér í umræðuna, en finn að ég var ekki hálfnuð með allar yndislegu bókabúðaminningarnar þegar ég ákvað að setja punktinn. Og þess vegna er bara best að taka upp umræðuna hérna.
Bókabúðir og bókasöfn hafa einhverja ótrúlega töfra. Fyrsta ástin mín á því sviði var litla útbú Borgarbókasafnsins við Hofsvallagötu, þar sem mátti ekki taka nema 4 bækur á dag. Oft reyndist það of lítið. Seinna fór ég að læra bókmenntafræði í háskóla og eftir það hefur lestrarhraðinn dottið aðeins niður, en athyglin færst á fleiri atriði en bara blákaldan þráðinn. Á menntaskólaárunum tók ég ástfóstri við aðalsafnið í Þingholtsstræti (þar sem ég held að sé nú einkavilla Odds Nedrums) og loks var það Landsbókasafnið sem heillaði. Einu jólafríinu varði ég á bókasafninu í Bristol í Englandi og las þar undir próf og undraðist lélegar bókakost. Hafði ekki haft með mér nema 25 kg af bókum og treyst því að ég fyndi restina sem mig vantaði á ensku bókasafni. En notalegt var það engu að síður.
Einkabókasafnið Gurrí á Akranesi er eitt skemmtilegasta bókasafn sem ég kem á, enda leggur Gurrí metnað sinn í að stilla upp hlið við hlið Ísfólkinu og Birtingi eftir Voltaire.
Bókabúðir nálgaðist ég hins vegar af meiri lotningu og varúð til að byrja með. Lotingu af því ég þorði ekki að detta í lestur (og gat þar með ekki leikið eftir það sem sagt var um einn sem rölti niður Laugaveginn milli bókabúðanna meðan þær voru fleiri en nú og náði að ljúka nýútkominni bók í einni slíkri ferð). Varúð af því bækur kosta peninga. En svo fann ég fornbókaverslanirnar, við Gunna vinkona fórum aðallega á Laufásveginn og einhvern veginn var allt til þar, eða næstum allt. Ég á líka góða minningu frá Prag úr fornbókaverslun sem seldi mikið af íslenskum bókum, aðallega Laxness og Kristmann, og aðallega á tékknesku. En innan um mátti sjá ótrúlegustu höfunda. Fornbókasalar á götum úti á Kúbu og í London eru líka spennandi. Mamma sér um þessa deild fyrir hönd fjölskyldunnar núna og hefur fært mér ófáar perlur frá Braga á Hverfisgötunni.
Núna er hins vegar svo komið að ég kaupi bækur aðallega á ferðalögum og í fríum, en það ræðst bara af tímaleysi. Eitt og eitt kvöld í Mál og menningu krydda lífið að vísu. Og á netinu finn ég margar ófáanlegar gersemar, seinast framtíðarskáldsögu um róbota eftir Karel Capek, tékkneskan höfund sem m.a. skrifaði bókina Salamöndrustríðið, það merkilega er að þetta var skrifað um 1950. Hlakka til að lesa hana, hún hefur verið ófáanleg um áratugaskeið. Nú er ég að leita að bók um anarkisma, sem hefur verið ófáanleg lengi, er eftir Georg Crowder, nýsjálenskan frænda minn sem ég hef aldrei hitt, við þetta með anarkismann er greinilega í genunum.
Á ferðalögum er hins vegar alltaf hægt að finna tíma fyrir bókabúðir. Og fátt eins yndislegt og góð bókabúð í nýrri borg. Kvennabókabúðin í Tucson sem Nína systir kynnti mig fyrir, grúskbúðin á leiðinni til Georgstown í Washington sem Jón Ásgeir sýndi mér, stóra búðin í New Haven sem Heiða og Fibbi sýndu mér og svo uppáhaldið mitt, Foyles í London, þar sem ég er annar eða þriðji ættliðurinn sem eyði þar ómældum stundum. Ég hreinlega elska Foyles, þar keypti ég fyrstu kennslubækurnar mína í serbókróatísku á fimmtu hæð árið 1970 og svona tíu kíló af stærðfræði og tölvubókum í seinustu almennilegu ferðinni minni þangað, fyrir rúmum tveimur árum. Síðan hef ég reyndar komið þangað svona 2-3 sinnum, en maður verður að stoppa í nokkra klukkutíma til að njóta verunnar þar til fulls. Og það er einmitt kjarni málsins, það eru ekki allir eins og Jón Ásgeir, Heiða og Fibbi, og stundum verður fjölskyldan óþolinmóð. Þetta er vandamál sem við Nína systir eigum báðar við að stríða, þannig að við fórum í bókabúða-sukkferð til London fyrir 2-3 árum, saman, aðeins ríflega helgarferð, og eyddum 22 stundum þar af í bókabúðum. Náðum samt leikhúsi og síðdegis-sunnudagboði í Camden í leiðinni.
Og þá eru ótaldar stóra Barnes and Nobles í New York, sem ég hef alls ekki fullkannað enn og mun sjálfsagt aldrei gera, fallega en fátæklega bókabúðin í Lancaster og þessi tveggja hæða í Liverpool, en ég fór reyndar sérstaka ferð frá Lancaster til Liverpool, gagngert til að komast í almennilega bókabúð! Svo eru nokkrar afspyrnudýrar bókabúðir í Osló og Kaupmannahöfn sem ég hef stundum glapist til að heimsækja, en þar verslar maður ekki nema í neyð. Dýrari en íslenskar bókabúðir!
Afhjúpun og alvarlegt grín
1.6.2007 | 23:54
Raunveruleikaþáttur um nýrnagjafa reyndist gabb | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |