Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Aftur í pólitískar bloggstellingarnar - hvað nú Framsókn?

Fátt óvænt í kjöri varaformanns Framsóknar. ,,Hinn" armurinn fékk varaformanninn, þar sem Guðni var allt í einu orðinn formaður. Einhverjir farnir að tala um þörf á kynslóðaskiptum, sem sagt að losna við Guðna væntanlega, ekki Valgerði, sem þó er á sama aldri. Guðni segir flokknum að líta inn á við í leit að skýringum á fylgishruninu og vissulega er nóg af skýringum að hafa þar, en Guðni er sjálfum sér ekki samkvæmur þar sem hann hefur viljað skella skuldinni á Baug og DV.

Hvort sem okkur í VG likar betur eða verr verðum við saman í stjórnarandstöðu, væntanlega alla veag næstu fjögur árin. Ég efast ekki um að það mun ganga vel að græða sárin eftir málefnalega ósamstöðu í stóriðjumálum. Oft eru flokkar saman í stjórnarandstöðu sem eiga ekkert annað sameiginlegt en að veita sitjandi ríkisstjórn aðhald og það er einmitt það sem ég sé þessa flokka eiga sameiginlegt. Hvorugum hugnast einkavæðing í heilbrigðiskerfinu eða íbúðalánasjóðum né heldur vill meiri hlutinn (nokkrir undanvillingar að vísu í Framsókn) aðild að ESB. Þannig að verkefnin eru ærin.


MR72 - myndir og minningar - með smá framkvæmdapistli

Það var ótrúlega ljúft að vakna á Þingvöllum í morgun, en við Ari erum farin að kunna að meta að gista í Valhöll þegar stúdentaafmæli eru haldin á Þingvöllum. Sandey stóð á höfði í stillunni í hádeginu þegar við renndum í bæinn til að koma hurðunum upp heima á háalofti. Reyndar bíður það betri dags, vegna þess að timbursalan er lokuð hjá Byko á sunnudögum og gerektið reyndist of mjótt, vegna þess að við veggþykktina bætist nefnilega veggklæðningin. En allt er klárt til að halda áfram seinna í vikunni og við notuðum stillurnar til að fara með fyrstu jeppakerruna af drasli af byggingasvæðinu í Sorpu. Á milli hef ég verið að tína inn myndir frá því í gærkvöldi og vona að skólasystkini mín og aðrir vinir geti afritað myndirnar eftir þörfum. Hér eru nokkrar góðar frá fögnuðinum: Laufey ásamt eigimanni, Jóhanni HeiðariCIMG0615

 Við vorum að velta því fyrir okkur yfir morgunverðinum í morgun, (seint í morgun), hvers vegna þetta hefði verið svona sérlega notalegt. Mætingin var ekkert sérlega góð, kannski náði fólk betur að komast yfir að spjalla saman vegna þess? Var það stuðið í hljómsveitinni? Góða veðrið?

Gunna Jó og KolbeinnMér finnst þau svo sæt: Gunna Jó og KolbeinnHrafnkell og Þórhildur (held ég), Kristín Klara og KjartanHrafnkell og Þórhildur (held ég), Kristín Klara og Kjartan

 

Miklu fleiri myndir í myndaalbúmi MR72. Skoðið, njótið og afritið. Og takk fyrir skemmtunina. 

 Mestmegnis D: Jenný, Sólveig (Stonesaðdáandi), Kjartan, Jóka og Guðjón.

Fibbi vinur minn er farinn að líkjast enskum aðalsmanni, fer honum vel

 


Fyrstu myndir komnar inn í albúm

Meðan við drukkum kaffið með smiðnum sem hjálpar okkur að setja hurðirnar okkar uppi á sinn stað, þá setti ég inn nokkrar myndir frá því í gær. Njótið vel, þær eru í albúmi MR72 en svo ætla ég að bæta enn fleiri inn í kvöld eða síðar.Sætar: Inka, Anna Sjöfn, Jenní, Gunna Jó og Áslaug

Ljúft og gott stúdentaafmæli

Mikið óskaplega var stúdentaafmælið okkar ljúft og gott. Þau eru alltaf góð, en þetta var alveg einstaklega skemmtilegt. Þingvallaafmælin okkar (15 ára, 25 ára og núna) eru alltaf sérstaklega vel heppnuð. Góð stemmning, gott jafnvægi, góður tími til að spjalla og rosalega skemmtilegt lagaval hjá hinni stórgóðu hljómsveit séra Hannesar Arnar Blandon. Set inn fleiri myndir fljótlega í sérmöppu en hér til að byrja með ein af okkur í D-bekknum. Og NB þessi var tekin á Þingvöllum um 11 leytið í gærkvöldi!

CIMG0612


Að hitta skólafélagana á fimm ára fresti - og móðga vonandi engan!

Þar sem ég er í fjölmennasta útskriftarárgangi úr framhaldsskóla á Íslandi, fyrr eða síðar, þá hlakka ég mikið til að vakna á sunnudagsmorgun í Valhöll á Þingvöllum og heyra einhvern segja: Var þessi með mér í árgangi? Seinasta þegar útskriftarárgangurinn úr MR 1972 hittist á Þingvöllum ákváðum við Ari að gista þar eftir ballið og núna ætlum við að gera það sama og eflaust hafa fleiri skólasystkini mín fengið sömu bráðsnjöllu hugmyndina eins og seinast. Þar sem ég er hluti af 300 (!) útskriftarfélögum þá fer ekki hjá því að leiðir einhverra okkar hafi legið saman seinna meir og svo komi það á óvart á næsta stúdentaafmæli að, já, þetta er reyndar einhver úr þessu dæmalausa árgangi. 

Ég hef verið svo hundheppin að komast á fimm ára fresti í öll stúdentaafmælin og það hefur alltaf verið mjög vel lukkað. Þegar við vorum 10 ára stúdentar var ég reyndar hryggbrotin eftir hestaslys og Ari að vinna uppi í fjöllum þannig að Ólafur fóstri minn skutlaði mér á Lækjarbrekku, ég þurfti að liggja í aftursætinu á Passatinum hans, til að komast, gat nefnilega bara legið og staðið en ekki setið. Síðan stóð ég til borðs með bekkjarfélögunum í 6-D skan36og loks var farið í Hollywood að hitta alla hina, þangað hlýtur Ólafur að hafa skutlað mér, nema ég hafi lagt undir mig baksæti á leigubíl, ekki man ég það nú alveg. Kjartan Gunnarsson færði okkur bekkjarsystkinunum rósir, eins og hans var von og vísa. 

Seinasta stúdentaafmæli mótaðist talsvert af því að ég þurfti að halda ræðuna og að aflokinni rútuferð var fólk mismunandi mikið til í að hlusta á það sem ég hafði að segja. Tókst að móðga 6-M í heilu lagi, nennti ekki að heyra hvers vegna :-) en fékk mikið af knúsi og fallegum orðum á kvennaklósettinu. Takk stelpur mínar! Ég var búin að segja Markúsi Möller að hátíðarræðurnar mínar væru umdeildar og hann hefði átt að muna það frá gaggó-reunion fyrir 8-10 árum, þegar mér tókst ábyggilega að segja eitthvað annað en fólk ætlaðist til, en samt allt í lagi (held ég). En hins vegar var hann ekki með mér í barnaskóla þannig að ræðan mín frá því að 12 ára bekkurinn hjá Sigríði hittist fór framhjá honum þegar ég mátaði okkur 12 ára rollingana í ameríska unglingamynd, ég skemmti mér vel yfir því og hluti hópsins, en hinn hlutinn er ábyggilega enn að klóra sér í hausnum. Ef fólk vill þægilegar og ,,mainstream" hátíðarræður, vinsamlegast ekki biðja mig, ég reiti alltaf einhverja til reiði. Tókst meira að segja að stíga ofan á tærnar á einhverjum ölvuðum blaðamanni úr Kópavogi þegar ég talaði fyrir minni karla á Þorrablóti hér á Álftanesi. Úpps :-D - En á morgun heldur einhver annar ræðuna og ósköp er ég fegin.

Þar sem ég álfaðist nú gegnum menntaskóla án þess að bragða áfengi og man þar af leiðandi ALLT sem gerðist þar, þá kemur vel á vondan að vera komin á pensilín og þurfa að afþakka alla þá drykki sem ég geri ráð fyrir að verði á boðstólum á morgun. En ég hlakka svoooo mikið til, og svo mun ég muna allt, eins og í gamla daga. Í smáatriðum, hehe!


Grasofnæmi og andúð sumra á köttum

Þegar við Ari minn ákváðum, barnung, að byggja okkur hús hér á Álftanesi, þá létum við burðinni í þakinu miðast við níðþungt torfþak. Síðan kom í ljós að dóttir okkar með er heiftarlegt grasofnæmi og sonur okkar með heyofnæmi, þannig að horfið var frá því snarlega. Hins vegar er tún fyrir utan húsið og svo slatti af öðrum mis-vingjarnlegum jurtum, nokkuð villt allt saman. Gráa beltið kringum húsið hrekkur skammt, enda ekki nema 1-3 metra fyrir utan malbikaða planið okkar. Þannig að við erum á mjög gráu (les grænu) svæði heilsufarslega fyrir krakkana okkar.

En það er segin saga, ef fréttist af ofnæminu þá eru fyrstu viðbrögð svo óskaplega margra: Verið þið þá ekki að losa ykkur við köttinn? (áður kettina). Nei, ekkert frekar en hneturnar í eldhússkápnum! Allt of margir nota ofnæmi sem skálkaskjól til að hata ketti og ég hef bara aldrei skilið það. Fjölbýlishúsalögin hafa verið freklega misnotuð af fólki sem skákar í skjóli ofnæmissjúklinga til að skipta sér að lífsstíl annarra. Eitt sinn lenti ég í því að þurfa að svara ofstækisfullri manneskju sem vildi gera ketti útlæga úr öllum fjölbýlishúsum vegna mögulegs ofnæmis og ég sagði sama aðila að ég væri til í að skrifa undir það um leið og grasi yrði útrýmt með öllu. Ég ber fulla virðingu fyrir ofnæmi og vil síst af öllu stuðla að því, en þetta er nokkuð sem fólk lærir að lifa með, krakkarnir mínir sem aðrir, ekki auðvelt, en þau reyna ekki að umbylta lífsstíl allra annarra.

Þegar hundabann var í Reykjavík (man það vel) þá var einn afbrotahundur í eigu fólksins á móti á Nýlendugötunni. Hann bjó á fjórðu hæð og fór aldrei út nema undir styrkri stjórn eigenda sinna, meðal annarra unglingsstráks sem seinna varð þekktur í tónlistarheimi landsins. Það var aldrei ónæði af hundinum en iðulega var hins vegar hópur geltandi barna fyrir neðan gluggann sem ullu verulegu ónæði fyrir mig og ungbörnin á heimilinu, en í glugganum á fjórðu hæð sat hundurinn og horfði með fyrirlitningarsvip á börnin sem geltu frá sér allt vit. 


Fótboltavæl

Við hverju býst fólk þegar íþróttaþættir eru skírðir 14-2, alla vikuna á undan Lichtenstein leiknum keppast allir um að láta vita að Lichtenstein sé sýnd veiði en ekki gefin og svo er verið að tönnlast á því að við leikum nú svo sjaldan landsleiki? ... Ef þetta eru vandamálin, hvers vegna þá ekki að laga þau! Við eigum fullt af góðum atvinnumönnum, og hana nú!

Illugi hitti naglann á höfuðið og Katrín hrakti mýtur

Frábærar pallborðsumræður nýrra þingmanna á aðalfundi Heimssýnar í dag. Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Harðarson og Illugi Gunnarsson tóku þátt í pallborðinu og voru hvert öðru betra. Gott að eiga slíka málsvara á þingi gegn innlimun okkar í Evrópusambandið.

Ein af þeim rökum sem oft eru notuð fyrir innlimum okkar í Evrópusambandi eru þau að okkur vanti ,,evrópskt verðlag" sem á að vera svar við öllum okkar vanda. Vissulega gremst flestum verðlagið á Íslandi, en það er frekar þreytandi að hlusta á þessa síbylju um að í ,,Evrópu" (les Evrópusambandslöndunum) ríki eitt verðlag. Það eru alls konar launagreiðslur og alls konar verð í gangi. Svo ég geri orð Illuga að mínum þá er álíka gáfulegt að tala um sam-evrópskt verðlag og sam-evrópskt veðurfar. Og spurningin er líka hvort fólk er tilbúið að taka við öllu sem tilheyrir Evrópusambandinu, atvinnuleysinu og doðanum í tilverunni þar líka? Eða það sem mér finnst vega þyngst, afsal sjálfsákvörðunarréttar í hendur á fulltrúm sem aldrei hafa verið kjörnir (ekki Bandaríki Evrópu heldur Sovétríki Evrópu, eins og Bjarni kallar ESB). Katrín benti á að Evrópusambandssinnar væru með þessum verðlagsfrösum að finna sér nýjar klissjur, af því sú gamla hefði verið hrakin. Fyrir ári eða svo heyrði maður síbyljuna að við ættum að ganga í Evrópusambandsins af því við sætum hvort sem er undir 80% af lögum bandalagsins, en sú bábylja hefur verið hrakin af Evrópustefnunefndinni og núna heyrir maður þetta nánast aldrei, nema hjá einhverjum eftirlegukindum sem ekki vita betur. Staðreyndin er sú að rétta prósentan er um 20% eftir að Evrópustenfunefndin lét rannsaka það.


Týnd tónlist (og ljóð)

Veit ekki hvort það var hér eða á öðru bloggi sem ég sagði frá því þegar ég fann löngu týnda plötu, Fresh Liver, með Scaffold og pantað. Tók tímann sinn að fá hana til landsins, en hingað er hún komin og ég auðvitað búin að fatta að ég kann hana utanað eða því sem næst. Tónlistin er skemmtileg, í anda annarra Scaffold laga svo sem Lily the Pink og Thank U very much, með smá Zappa fíling í bland, en það sem betra er, ljóðin eru ennþá skemmtilegri og sömuleiðis hálfgerðir leikþættir í rosalega enskum anda. Þannig að nú er hægt að rifja upp þetta eðalefni, sem er orðið ansi fágætt, og kynna fyrir nýjum kynslóðum. 

Veit að fyrir norðan er Gunna vinkona og kann líklega jafn mikið utan að af og ég. Svona gamla frasa eins og:

- Wasn't a bad party ...

- Except for the people.

- People always spoil things ...

Mig minnir að einhver hér hafi sagt mér að Roger McGough (ljóðskáldið í hópnum, á eina fína bók eftir hann) eða Mike McGear (bítlabróðirinn í bandinu, bróðir Paul McCartney) sé ekki lengur í tölu lifenda, mikil synd, einkum ef McGouch hélt áfram að yrkja og hrökk svo uppaf. Hef ekki fylgst með honum á netinu, en - andartak - eftir smá uppflettingar sé ég að hann er enn að og orðinn enn virtari en þegar ég var að kaupa fyrstu bókina hans. Veit ekki um afdrif Mike McGar, virðist vera að hann hafi tekið upp McCartney nafnið síðar (aftur) hins vegar er Adrian Henry, félagi þeirra í hljómsveitinni dáinn. Og annað skemmtilegt sem ég sá, Scaffold og Bonzo Dog sameinuðust í the Grimms. Langar að fletta þessu gamla dóti aftur, það hefur elst misvel, en margt furðu vel. Svo á ég líka smávegis af indjánatrommutónlist frá New Mexíkó ferðinni um páskana, sem ég þarf að gefa mér tíma til að hlusta á. Þótt ólesin bók sé nauðsynlegri en diskur sem ekki hefur fengið hlustun, þá telst hvort tveggja til andlegra nauðþurfta. 


Afmæli

,,Hvað á svo að gera í tilefni af afmælinu?" var ég spurð þegar ég var að fara úr vinnunni í dag. Búin að halda uppi hefðinni og mæta með kökur í vinnuna og var reyndar alls ekki að hugsa um hvað ég ætlað'i að fara að gera. ,,Horfa á 24 sem ég missti af í gærkvöldi vegna steypuvinnunnar" sagði ég sannleikanum samkvæmt. Og í tilefni af mjög skemmtilegu námskeiði sem við vinnufélagarnir vorum á í morgun, þar sem persónuleikarnir voru afhjúpaðir, bætti ég við: ,,Annað hvort heldur maður 100 manna afmæli eða sleppir því!" Og það er líklegast stíllinn hjá mér, léleg í að halda einhver notaleg kaffiboð með fáeinum gestum, sem þá þarf meira að segja að bjóða. Þannig að maður gerir þetta sjaldan og myndarlega, ekki satt? Núna í ár vorum við með eitt frábært afmæli, þrítugsafmælið hennar Hönnu okkar, þannig að það dugar okkur ábyggilega lengi og vel. Og innan við 3 ár síðan við héldum eitt enn stærra þegar Ari varð fimmtugur, þannig að ætli við höldum okkur ekki bara við þennan stíl. Gurrí og mamma búnar að hringja, ósköp sætt, Hanna sendi sms snemma í morgun og svo náðum við saman á msn, og svo hitti ég feðgana í kvöld, þá verð ég með meiri rænu en í morgun þegar ég þó mætti óvenju snemma í vinnuna vegna námskeiðsins. Hvað getur maður beðið um það betra?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband