Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Fótboltakappi með áhugaverða myndlistarsýningu

Þarf endilega að endurspila 10-fréttir RUV, ekki vegna pólitískra tíðinda, heldur til að leita að frekari upplýsingum um myndlistarmanninn sem mér heyrist að hafi verið í ÍA. Sýndar voru nokkrar af myndum hans á sýningu og ég verð að viðurkenna að það er langt síðan nýr myndlistarmaður (eða nýuppgötvaður í mínum bókum alla vega) hefur gripið athygli mína jafn skjótt. Hreyfingin, karakterinn og töfrarnir í myndum hans náðu til mín. Nú er ég búin að nauðkemba Skessuhorn án þess að finna meira um þessa sýningu, en ég þarf rétt að skreppa á milli stýrikerfa til að spila aftur 10-fréttirnar. Þessa sýningu langar mig að sjá og ennfremur að fá að vita meira um myndlstarmanninn. Kannski getur mín góða vinkona Gurrí upplýst meira, enda með himneskt útsýni yfir ÍA völlinn.

Ekkert viss um að ég hlakki lengur til að sjá málefnasamninginn ...

Fyrst vil ég óska Samfylkingunni til hamingju með jafnræði kynjanna í ráðherraliðinu. En ég hef áhyggjur af ummælum Ingibjargar Sólrúnar varðandi Evrópumálin, áhyggjur af því að hún segir að Samfylkingin ætli að halda Evrópumálunum á lofti. Varaði við því um daginn að ríkisstjórn sem setti Evrópusambandsaðild á dagskrá gæti verið í uppsiglingu, og þegar tilvonandi utanríkisráðherra lætur þessi ummæli falla þá er full ástæða til að hafa áhyggjur af innihaldi málefnasamningsins, það er að segja fyrir okkur sem viljum vera utan skrifræðis ESB og erum á móti því að tapa forsjá yfir auðlindum á borð við fiskimið okkar.
mbl.is Ingibjörg: Evrópumálum verður haldið á lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnishorn af tegundinni - heil kona í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins!

Ég hélt það væri liðin tíð að einni konu væri stillt upp í hópi karla og það þætti duga. Greinilega ekki í ráðherraliði Sjálfstæðisflokksins! Varla að maður trúi þessu, konurnar eru greinilega mjög reiðar en vel tamdar, illu heilli. Nú langar mig að sjá Ástu Möller öskra og Guðfinnu stappa í gólfið.

Veðmál á síðasta snúningi en málefnasamningurinn forvitnilegri

Nú er allt að springa úr spenningi í veðmálum út um allt land um ráðherra skipan. Vissulega er ég búin að setja niður minn lista, ekki óskalista heldur líklegan ráðherralista, veit um eina villu í honum, þannig að ég vinn engin velmál, enda engin í gangi. 

Málefnasamningurinn er mun forvitnilegri, einkum stóriðjan og Evrópusambandsmálin. Fylgist spennt með fréttunum og aukafréttatímnunum. 


Kúnstpáska eða fyrirstaða

Veit ekki hvort ég á að túlka hlé sem gert var í dag á stjórnarmyndunarviðræðum sem kúnstpásu eða að rekist hefur verið í einhverja fyrirstöðu. Spurning hvort vangaveltur fjölmiðla um hver fyrirstaðan sé séu réttar. Hef lýst áhyggjum mínum út af Evrópusambandsmálunum og vona sannarlega að ég hafi rangt fyrir mér um það að þar sé brotpunkturinn sem Samfylkingin ætlar að ná fram. Hef samt enga trú á að uppúr slitni.

Uppákoman með Jón Sigurðsson (eru fjölmiðlar að reyna að knýja hann í afsögn) eru líka merkileg. Ekki óvitlaus tilgáta, en hálf hallærislegt að leyfa manninum ekki að bíða með að tilkynna þetta, eða yfir höfuð að fá að ráða þessu sjálfur, ef hann ætlar að sitja áfram.


Fálæti út af Flateyri og hvað er framundan?

Mér finnst merkilegt fálæti út af ástandinu á Flateyri. Kvennalistinn vildi á sínum tíma byggðakvóta og ég er alltaf að sjá betur og betur hvað það er góð hugmynd. Framsalshugmyndin var trúarbrögð á þeim tíma í nafni þess að auka hagræði í greininni, en ég sé ekki vitundarögn þjóðhagslegt hagræði í að knýja fólk til fólksflutninga og þeytings á eftir kvótanum landsenda á milli. Eykur hagvöxtinn, rétt eins og ýmis óáran svo sem vont tíðarfar, en það er vegna þess að hagvöxtur er svo vitlaus mældur. Þjóðir sem hafa reynt að mæla grænan hagvöxt og hagvöxt út frá lífsgæðum og fleiri breytum sem nú eru utan við helkalda hagvaxtarútreikninga, hafa sannarlega unnið brautryðjendastarf, en nokkuð langt er síðan ég hætti að fylgjast nógu grannt með þeim málum. Grunar samt að ég hafi séð enduróm í Draumalandinu hans Andra Snæs. En vinkona mín sem dæsti og skírði stjórina sem virðist vera að fæðast stjórn stóriðju og ESB má alveg bæta við: Og fólksflótta vegna kvótaframsals ...

Núna kallar Jón Bjarnason á að þingmenn kjördæmisins komi saman og ræði ástandið en mætir alveg ótrúlegu tómlæti. Ég ætla rétt að vona að menn fari að vakna til lífsins og taka á alvöru viðfangsefnum og missi sig ekki í eintómt stólakarp.


Varúð - Evrópusambandsstjórn í uppsiglingu

Miklar vangaveltur eru upp á hvaða býti Samfylkingn fer í stjórn. Flestir sem ég hef heyrt í telja að nú fái hægri öflin í Samfylkingunni byr undir báða vængi, en það er þá líka þvert á þá stefnu sem Samfylkingin fékk fylgi sitt út á í kosningunum, velferðarmálin og miklar vinstri áherslur. Held ekki að velferðarmálin muni koma sterk út úr þessari ríkisstjórn, hins vegar verður eflaust eitthvað gefið í skyn í málefnasáttmála, sem ekki mun leiða til efnda. Það sem ég held að verði stóra málið sem Samfylkingin nær fram séu aðildarviðræður við Evrópusambandið. Allt í einu heyrir maður undarlegar yfirlýsingar frá Sjálfstæðismönnum, Kristjáni Júl. í Silfri Egils og Einar Oddur í BB. Mjög ógnvekjandi. Svo óttast ég um hag landbúnaðar og sjávarútvegs á Íslandi og er frekar sannfærð um að ekkert verði af stóriðjustoppi.

Stórkostlegur dagur: Ari mætti með bikar heim, gull fyrir fimmgang, 32 ára trúlofunarafmæli og ýmislegt fleira

Þetta er búið að vera rosalega góður dagur. Ari fagnaði 32 ára trúlofunarafmælinu okkar með því að vinna gull fyrir fimmgang á íþróttamóti Sóta og fékk líka fimmtu verðlaun í fjórgangi fyrir annan hest. Verðlaunamerin heitir Paradís og hinn heitir Jarpur, svo öllu sé haldið til haga. Bikarinn hans AraÞótt ég elti Ara á marga viðburði á vegum hestamannafélagsins þá var ég upptekin í dag og missti af herlegheitunum. Reyndar hef ég þá kenningu að Ara gangi alltaf betur þegar ég er fjarstödd, reynslan hefur sýnt það, en samt kem ég með stundum, það er svo gaman. Í kvöld er einmitt afmæli hjá félögum Ara í hestabransanum þannig að við eigum eftir að fagna frameftir kvöldi.

Við Óli fórum á málþing til heiðurs Oddi Benediktssyni, hittum fullt af skemmtilegu fólki og hlustuðum á rosalega góða fyrirlesara, sem reyndar hittu misvel í mark eftir því sem áhugasviðið var. Við tölvunördarnir skemmtum okkur rosalega vel en þeir sem mættu aðallega vegna þess að þeir eru vinir Odds annars staðar frá eða úr fjölskyldunni skemmtu sér misvel yfir hugbúnaðarfyrirlestrunum, skrýtið! Fín stemmning. Tók líka í mig kjark og lét Ebbu Þóru sem er leiðbeinandi minn í lokaverkefninu fá handritið á því stigi sem það er nú, hef verið að ýta því á undan mér óralengi en fann smá trikk til að gera það, prentaði út eintak og lét hana fá af því ég vissi að ég myndi hitta hana í dag. Það er svo miklu auðveldara að bíða aðeins með að senda uppkastið í tölvupósti, það þarf alltaf að laga það smávegis í viðbót. 

Svo hitti ég Grétu, gamla skólasystur úr MR, í Samkaupum, við eigum bráðum stúdentaafmæli en það hefur eitthvað skolast til að boða okkur. Fann samt á vefsíðunni okkar www.mr72.is hvenær þetta stúdentaafmæli á að vera, ætla sko ekki að missa af því! Frábær dagur í alla staði og engan veginn búinn. Nú er bara að rölta út í Vesturtún, mundi auðvitað ekkert eftir afmælinu, þannig að við Óli versluðum vel í matinn í Samkaupum, hann hefur þá alla vega nóg að snæða í kvöld og við öll um helgina. 


Afmælismálþing og smá vinna um helgina

Vinnan mín er þess eðlis að hún kemur í svolitlum skorpum, aðallega fer kúrfan í toppa en minna bólar á léttum dögum, sem er svo sem allt í lagi af því ég er ekkert yfir mig hrifin af iðjuleysi í vinnu. Venjulega reyni ég að hafa vinnuna ekki með mér heim, enum sjö leytið í dag var ég bara orðin of þreytt til að halda áfram svo það er lítil mappa af lljómandi skemmtilegu verkefni í töskunni minni og á það verður kíkt þegar andinn kemur yfir mig. Annars ætla ég á málþing til heiðurs Oddi Benediktssyni prófessor í tölvunarfræði á morgun. Hlakka til, Oddur á brautryðjendastarf að baki í tölvunarfræði á Íslandi og svo var hann ágætur kennari í þeim eina og hálfa kúrsi sem ég tók hjá honum, einkum skemmtilegur í kúrsinum: Gæðastjórnun í hugbúnaðargerð, sem var mjög spennandi. Langaði að vera búin að vinna aðeins meira í lokaverkefninu mínu áður en ég hitti kennarana mína alla, það er svo grátlega lítið sem ég á eftir í að það sé á skemmtilegu stigi. Vona að ég sleppi eitthvað í það um helgina.

Hef ábyggilega sagt eitthvað um það í blogginu fyrir einhverjum vikum að ég tryði á líf eftir kosningar. Ekki hef ég nú beinlínis sýnt það í framkvæmd, upptekin af pólitíkinn þar til kannski í dag. Hef þó rétt lufsast á eitt leikrit og svo hrunið fyrir framan sjónvarpið trekk í trekk og fengið mér rúnt á göngubretti, sem er mikil heilsubót, þótt það sé enn betra að rölta úti við. En kuldaskræfan sem þolir heldur ekki rigningu nema hún sé yfir 17 stiga heit, kann alveg að meta innigöngutúra líka. 

Vona sannarlega að sumarið komi þetta árið.  

 


Forsetinn ætlar ekki að boða alla flokksformenn til sín

Efast ekki um að það sé löglegt, en hins vegar alltaf umdeilanlegt hvert hlutverk forseta er í því tilfelli sem komið er upp núna. Hann er að leggja línur fyrir komandi forseta. Hvor tveggja leiðin hefur verið farin áður, að forseti feli einum flokksformanni umboðið án samráðs við aðra, eða með samráði. Þá veit maður það.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband