Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Hálfnað verk þá hafið er ... og beðið eftir myrkrinu (ef það kemur)

Framkvæmdir helgarinnar fram til þessa: Búið að steypa í samskeytin milli timburgólfsins og steypta gólfsins uppi á lofti hjá okkur. Það er ágæt byrjun, þótt búið hafi verið að tæma loftið talsvert þokkalega þá hafa ansi mörg handtök farið í að lóðsa dót yfir á svalir og yfir í geymslu eða ruslakerru. Nú bíðum við eftir myrkrinu (ef það kemur) til að geta mælt mismunandi halla á gólfinu uppi, en vegna birtu sjást mælingarnar ekkert  - skil það reyndar ekki, það hlýtur að eiga að vera hægt að gera mælingar í björtu. 

Hvítasunnan - ný verkefni bætast við

Spurði fyrir tveimur dögum hvað ætti að gera um Hvítasunnuna og svaraði sjálf: ,,Blogga um nýju ríkisstjórnina? Flota gólfið á efri hæðinni? Glápa á sjónvarpið? Fara upp í sumarbústað? Slappa af? Vinna í lokaverkefninu sínu? Alla vega get ég svarað fyrir mig, ég ætla að reyna að gera þetta allt, en ekki allt í einu þó." Þetta var áður en ég vissi að Ari þurfti að fara á undirbúningsfund fyrir hestaferð, vinnutengdan hádegismat á hvítasunnudag og við bæði í matarboð um kvöldið (líka vinnutengt), auk þess sem við þurftum að taka allt timbrið sem var út um allt tún eftir framkvæmdir vetrarins og taka niður stillasa af sömu ástæðu. Nema hvað, þetta bætist þá bara við listann.

  • Þrjú til fögur atriði eru þegar framkvæmd:
  • Túnið er tómt og tilbúið til sláttar
  • Ari er á hestaferðarfundinum einmitt núna
  • Við erum búin að slappa smá af (mikill svefn í gærkvöldi)
  • Sjónvarp hefur verið skoðað lítillega í bland við svefn og hvíld
Á dagskrá dagsins í dag er síðan hið metnaðarfulla verkefni: Flota gólf á efri hæðinni... vonandi að það gangi allt óskapalaust fyrir sig. Mikill áfangi þegar því verður lokið.

Allt betra en að þegja ef manni blöskrar

Þessi ljóti leikur hefur verið fjarlægður ar torrent.is og umræðan sem spratt held ég að hafi verið góð. Anarkíska hjartað mitt gleðst alltaf þegar ég heyri hvað það eru margir sem vilja ekki endilega stýra samfélaginu bara með boðum og bönnum heldur með umræðu og ábyrgð. Kropotkín anarkistakenningasmiður væri eflaust stoltur af umræðunni á blogginu að undanförnu og jafnvel kjarnakvendið Emma Goldman hefði ábyggilega verið búin að blanda sér í umræðuna, ég þarf aðeins að pæla meira í hvað ég held að hún hefði sagt. En sem sagt, sumir aðstandendur frelsis á netinu (eins og torrent.is hlýtur að telja sig vera) vildu frekar láta lögguna taka sig en að taka sjálfstæða og ábyrga afstöðu, og það er ákveðin yfirlýsing. Þá veit maður hverjir þrá netlögguna heitast, skrýtið!

Dýrmætu tækifæri til að taka afstöðu gegn kynferðisglæpum hafnað - hugleysi eða hugsunarleysi?

Umræða um frelsið á netinu hefur alltaf verið óskaplega brothætt. Ég held að flest hugsandi fólk sé á móti nauðgunarleikjum, í hvaða birtingarmynd sem þeir koma. Um það þarf varla að deila. En mér fannst merkilegt að heyra í kvöld í fréttum viðtal við einstakling (sem ég átti von á að væri hlynntur frelsi á netinu) segja að hann væri ekki tilbúinn að taka net-naugunarleikinn af torrent.is nema að honum yrði skipað það af einhverjum vörðum laganna. Á það sem sagt að stýra móralnum á netinu hvort einhver lög eru til eða ekki sem leyfa eitthvert fyrirbæri eða banna það. Lög eru misströng, misréttlát og misvirk. Í einu landi er það í takt við lög að drepa menn (gengur undir dulnefninu dauðarefsing) í öðru landi er allt leyft ef það er ekki sérstaklega bannað. Mér finnst að netverjar eigi að setja markið hærra en svo að bíða eftir því að löggan taki þá. Vissulega þrífst margt og margvíslegt á netinu og ég er innilega sammála því að stundum dugar ekkert nema vald laganna til að stöðva menn, eins og til dæmis barnaníðinga. En mér finnst fáránlegt að skýla sér bak við lögin og stilla sér upp við hlið barnaníðinganna sjálfviljugur að óþörfu, ,,þetta er ok á meðan ég er ekki tekinn af löggunni"-stíllinn. Það er vitað að krimmar, meira að segja barnaníðingar hafa sloppið undan lögum út af tæknigöllum, skorti á sönnunargögnum eða öðru, en það þýðir ekki að ekki eigi að stoppa þá. Það er líka vitað að sá möguleiki er fyrir hendi að menn séu dæmdir í harðari refsingu fyrir þjófnað af hvers konar tagi, hugbúnaðar-, skartgripa-, peninga- og alls konar þjófnað en fyrir kynferðisglæpi. Mér finnast skráaskipti fín hugmynd, allt frá því ég fór fyrst að kíkja á gamla Napster, en mér finnst ekki að það firri þá sem skipulegga skráskiptin ábyrgð á að hugsa og íhuga sína samfélagslegu ábyrgð. 

Einu sinni var sagt að fyllibytturnar kæmu óorði á brennivínið. Nú er löngu orðin þjóðarsátt um miklu þroskaðri hugsun gagnvart vímuefnum, hugsun sem byggir á íhlutun þegar í óefni er komið, ábyrgð og ýmsum aðgerðum og leiðum sem útheimta velvilja, þroska, hugsun, yfirvegaðar aðferðir og vitund um að til sé eitthvað sem er jákvæðara en annað.  Lýsi eftir sams konar móral á netinu, íhlutun og ábyrgð netverja sjálfra. Hvar er allt liðið sem er á móti netlöggunni, er það kannski farið að kveina: Ég vil ekki sýna ábyrgð, ég vil bara að löggan taki mig!


Loðinn og afdráttarlaus - er það málefnasamningur ríkisstjórnarinnar?

Þegar er farið að deila hart um hvað felist í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar (Matthildingar (Daðvíð Oddsson, Hrafn Gunnlaugsson og Þórarinn Eldjárn) kölluðu þetta fyrirbæri reyndar málamyndasamsetning, á meðan sá frægi útvarpsþáttur ,,Beint útvarp frá Matthildi" var við lýði).

Sem sagt, var verið að afstýra Norðlingaölduvirkjun eða ekki? Ekki, segir Landsvirkjun.

Óbreyttur hraði á stóriðjuframkvæmdum eða ekki? Allir spyrja í kross og enginn veit neitt.

Kristján Rétursson hefur fjallað nokkuð um orðfærið á plagginu: Stefnt skal að ... og allt þetta loðna orðalag sem einhvern tíma hefði verið kallað ,,loðið og afdráttarlaust"

Ég veit að ég á eftir að grafa mig í þessi orð og reyna að skilja þau, og fylgjast svo með hvernig verk ríkisstjórnarinnar þróast. En í augnablikinu finnst mér þetta allt saman frekar og finnst tilhugsunin um kalda en sólríka hvítasunnu fulla af framkvæmdum og vonandi smá hvíld líka vera fýsilegri. 

 


Hvað á að gera um hvítasunnuna?

Blogga um nýju ríkisstjórnina? Flota gólfið á efri hæðinni? Glápa á sjónvarpið? Fara upp í sumarbústað? Slappa af? Vinna í lokaverkefninu sínu? Alla vega get ég svarað fyrir mig, ég ætla að reyna að gera þetta allt, en ekki allt í einu þó. Ég veit að þetta er ekki svooooo löng helgi, en mér er sama, ætla samt að reyna það. Ég vitna stundum í spakmælið: Ef þú ert í vafa, gerðu hvort tveggja! sem með hæfilegri aðlögun gæti hljómað þannig: Ef þú ert í vafa, gerðu allt!

Hópspennufall

Cesar er död, Napoleon er död og selv föler jeg mig faktisk lidt sloj, sagði í gömlum brandara. Hálf dösuð þessa stundina, vinnan hefur verið óvenju lýjandi, stjórnmálin reynt á þolrifin, alla vega réttlætiskenndina og svo er þetta svikavor ekki alveg við minn smekk. Ég kann miklu betur við sól og blíoðu, og þá meina ég logn og hlýju. Mér finnst ég skynja svipað víða í kringum mig. Í vinnunni eru auðvitað ýmsir á sama bát, talsvert álag þessa dagana, þannig að það er engin furða, bloggvinir fagrir eru í sömu súpunni og ég, einhverjir fagna ákaft, en fleiri finnst mér hálf hugsi. Og öll þjóðin heyrist mér vera meira og minna öskuill út í verðurguðina, svona eftir því sem hún þorir.

Ég er að upplifa í annað sinn að skuldinni er skellt á rangan aðila, nefndi um daginn hvernig Kvennalistakonum var kennt um að þær lentu ekki í stjórn á sínum tíma, þótt þeim væri ætlað að hanga með upp á vonlaus býti, og eins finnst mér núna að Steingrímur J. sé gerður að blóraböggli að ósekju fyrir að hafa talað hreinskilnislega um hvernig honum þætti réttast að standa að stjórnarmyndunarviðræðum og hvers konar stjórn hann teldi helst í anda kosningaúrslitanna. Það var hreinlega ekki stjórn með Framsókn innanborðs, skýr skilaboð kjósenda, en það var heldur ekki stjórnin sem nú hefur verið mynduð. En vitanlega lokaði hann aldrei á neina leið, það vita allir sem hlustuðu á hann og aðra málsvara Vinstri grænna.

Sannarlega vona ég að stjórnin reynist farsæl en skynja ákveðna ábyrgð og alls ekki þakklátt hlutverk Vinstri grænna í sögulegri stjórnarandstæðu. 


Opnun eða ekki opnun á umræðu um ESB aðild?

Geir las Evrópusambandskafla málefnasamnings nýju ríkisstjórnarinnar og ég gat ekki heyrt að verið væri að opna á umræðu um ESB aðild. Athugasemdir Ingibjargar Sólrúnar gáfu heldur ekki tilefni til að telja að svo sé. Hins vegar var annað gefið í skyn í gærkvöldi, annað hvort eru fréttir misvísandi eða eitthvað sem ekki sést í málefnasamningnum verið rætt. Við fylgjumst spennt með. Annars verður heilmikil stúdía að leggjast yfir þetta skjal, en það gerir maður ekki fyrr en í kvöld.


Draumurinn var réttur en ráðningin röng - síður en svo nein draumastjórn.

Sagði frá því á blogginu að mig dreymdi Ingibjörgu Sólrúnu rétt fyrir kosningar (sem kemur ekki oft fyrir). Var að vona að það yrði fyrir vinstri stjórn. Draumurinn var réttur, en mér sýnist að draumar hennar hafi leitt hana annað. Leitt. 

Þetta er sannarlega ekki draumarstjórn. Og af hverju í ósköpunum dreymdi Samfylkinguna um að efna frekar til frjálshyggjustjórnar en þeirrar vinstri stjórnar sem hún hlaut kosningu út á? Svarið fáum við væntanlega í málefnasamningnum í fyrramálið, hálfgerð martröð að bíða eftir því hvort hann inniheldur 1 stk ESB, nokkur álver, einkarekna heilbrigðisþjónustu eða eitthvað annað, sumt frekar hrollvekjandi? Mig dreymir enn um annars konar niðurstöðu, jafnvel í anda martraðar ritara Reykjavíkurbréfsins á sunnudaginn var.


Fótboltamaður fundinn, Gurrí kom mér á sporið!

Þá er hann fundinn, myndlistarmaðurinn Boltadrengirsem ég var að tala um í næstu færslu á undan. Gurrí kom mér á sporðið með því að segja mér að hann væri að sýna í Kirkjuhvöli á Akranesi. Endilega að sjá þessa sýningu.  Frjáls+sem+fuglinnListamaðurinn heitir Sigurþór Jakobsson er er greinilega enginn nýgræðingur, er að sýna í níunda sinn, en ég bara vissi ekki um hann, svei mér þá. Hér er linkur á síðuna hans. Þar eru ýmsar fleiri myndir sem mér finnst mjög áhugavert að skoða og vonandi ykkur hinum líka. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband