Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

,,Go liddlu dæduna" og hápólitískir barnagallar

Um leið og ég fór í bleiku angórusokkana mína þá fór ég allt í einu að hugsa um barnagallamálið hennar Kolbrúnar Halldórs. Eins og ég hef einhvern tíma nefnt einhvers staðar á blogginu þá klæddi mamma mig alltaf í ljósblátt þegar ég var lítil og hennar rök voru að ég væri ekki með bleik augu. Eins og gefur að skilja (af samhenginu) var ég með ljósblá augu í þá daga. Síðar á ævinni varð ég ákafur aðdáandi bleiks litar og á veglegt bleikt skósafn því til sönnunar. En, ég er að hugsa um hvort einhver af þeim sem kíkti niður í kerruna forðum hafi sagt: ,,Go liddlu dæduna"* og klipið í kinnina á mér. Ónei, ætli það hafi ekki frekar verið sagt: ,,Ah, myndarlegur strákur, sem þú ert með þarna! Hann á einhvern tíma eftir að verða stór og sterkur!"

 

* Á íslensku: ,,Sko litlu, sætu, stelpuna." 


Húmor í hálku og jólalitirnir!

Ótrúlegt hvað það er hægt að finna upp lygilega hála hálku! Ein(n) þarna uppi liggur undir grun, sé hann til. Og ef svo er, hvað vakir fyrir viðkomandi? Er fyndið að horfa á okkur stjálka eins og asna um flughálar gangstéttir og bílastæði? Ég veit reyndar að mitt göngulag er fyndið, reyni alltaf að láta sem ég sé bara svona íhugul þegar ég geng á 0,3 km hraða yfir flughálar lendur malbiksins í leit að grastó til að geta aðeins gefið í, upp í svona 2,6. Gleymi því ekki þegar ég stóð ein og yfirgefin í brattri malbiksbrekku og komst hvorki afturábak né áfram. Ekki alveg klædd í að renna mér á rassinum (sem allt stefndi þó hvort sem var í) þegar ljúfur vinnufélagi minn skrapp eftir mér, á blankskónum sínum! Og einhvern veginn komumst við í mötuneytið, sem var í næstu götu fyrir NEÐAN!

Sá fyrstu jólalitina á gamalli mynd á blogginu hennar Gurríar (gömum og himnesk Gleðibankamynd).  Mínir jólalitir eru nefnilega fjólublár, svartur, bleikur og blágrænn með smá silfri og gulli! Ef þetta þarfnast skýringar hjá ykkur rauðu, grænu og hvítu jólabörnum þá er hún eftirfarandi: Á tíma grænu krítartaflnanna var til siðs að teikna jólamynd á töfluna í skólastofunni fyrir jólin. Ég var svo lánsöm að fá að gera það, alltaf, fyrir minn bekk. Flest árin valdi ég einhver biblíutengd efni, ekki síst brá oft fyrir vitringunum frá Austurlöndum (sem ég hélt reyndar alltaf að hétu vitfirringarnir frá Austurlöndum, og dáðist að umburðarlyndi kristninnar). Ástæðan einföld, ég var afskaplega hrifin af fallegu fötunum á klæðum fólks á biblíumyndunum sem við fengum í sunnudagaskólanum í Neskirkju (og eflaust víðar ;-)

Eitthvað skárra en þessir eilífu jólasveinar og snjór (í líki snjókalla eða bara þungra þaka) alltaf með stöku grenitré. Þá sjaldan að ég var lokkuð til að teikna eitthvað annað en Jesú, Maríu og Jósef ásamt blessuðum vitringunum, þá tókst mér alltaf að koma stórum blásvörum himni fyrir þarna einhvers staðar, stjórnum og tungli.


Ljóð

Rétt eins og tónlist þá eru ljóð oft mjög spennandi, ekki síst á þessum myrkasta hluta ársins. Þau eru auðvitað eins misjöfn og þau eru mörg, sum fyndin, önnur sorgleg, dularfull, einföld, óræð eða bara flott. Og á mismunandi tíma í tilverunni höfða ólík ljóð til mín. Í allmörg ár hef ég af og til tekið að mér að rölta með alls konar hópa um Álftanesið og segja þeim sitt lítið af hverju um sögu nessins. Þetta eru gönguhópar, vinnustaðahópar, saumaklúbbar og sveitungar mínir, skiptir ekki máli. Meðan ég var að skrifa sögu Álftaness, sem út kom fyrir 11 árum, þá leit ég á þetta sem hluta af kynningunni á bókinni, en svo fór ég að lenda í vandræðum með að sumir hóparnir vildu endilega borga eitthvað fyrir að viðra mig. Datt niður á snjallræði, sem ég hef notað síðan, að þiggja ljóðabækur af þeim sem vildu eitthvað greiða fyrir svona göngutúra. Lausn sem hentaði öllum, og ég hef eignast bækur sem ella hefðu kannski ekki ratað til mín. Eins og bókin hans Árna Ibsen, sem hópurinn hennar Stellu vinkonu minnar gaf mér. Síðasta ljóðabók Árna, og mjög sérstök.

Eitt sinn var það Steinunn Sigurðardóttir sem ég las upp til agna og við vinkonurnar töluðum saman í frösum úr henni, eins og ,,öll eru við skrímsli í sædýrasafni í Sviss" eða álíka. Jóhannes úr Kötlum á alltaf stað í tilverunni, ljóðið hans ,,Maður verður úti" er eitt flottasta ljóð sem ég hef lesið. Þórarinn Eldjárn er auðvitað sér á parti og í svefnrofunum einn morguninn heyrði ég líka ljóð eftir nýtt ljóðskáld, Kristínu að nafni, búin að finna bókina hennar í Bókatíðindum, og hana skal sko kaupa eftir próf, sagnfræðifyrirlestur og önnur verkefni sem ég verð að sinna fyrst. Þetta verða bókajól - eins og alltaf.


Bara eitt sem ég skil ekki: Hver er hissa?

Löngu búin að átta mig á þessari staðreynd, að karlmenn tala meira en konur. En það þarf kannski rannsókn til að sannfæra aðra um það, og hér er hún komin.


mbl.is Rannsókn: Karlar eru málgefnari en konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brúðkaupsveisla á Trollhaugum eftir Grieg

Af því ég er í Grieg gírnum núna þá er best að deila með ykkur svolítið skemmtilegri reynslu af YouTube, saxafón- hljómsveitarútsetning af veislunni á Trollhaugum, ef þið eruð ekki of viðkvæm fyrir hljómgæðum þá mæli ég með að hlusta á þetta.

Annars eru margar skemmtilega útsetningar, aðallega hefðbundnar píanóútsetningar, af þessu meistarstykki á YouTube. Fínir listamenn, sem sumir segjast vera amatörar. Kannski ég láti verða af því einhvern tíma að læra eitthvað annað en Schlaf, Kindlein, Schlaf á píanó, en það lag kenndi Dolinda konan hans pabba mér. En varðandi Brúðkaupsveisluna á Trollhaugum:. Kynntist því reyndar fyrst í flutningi eðalsveitarinnar Náttúru í Glaumbæ forðum og ánetjaðist alvarlega. Sem sagt rokk og klassík geta verið góð blanda en popp og klassík stundum aftur á móti alveg skelfileg, alla vega Richard Chamberlain (hann heitir eitthvað svoleiðis) útsetningar sem valda alvarlegum hrolli.


Sveiflast öfganna á milli í tónlistarhlustun

Dottin í smá klassískt tónlistarflipp þessa stundina. Skrýtið hvað tónlist hefur sterk áhrif, alla vega á mig. Hef aldrei verið virk sjálf í tónlistariðkun, en þeim mun ákafari hlustandi. Þetta klassíska skot kom þegar ég heyrði að 100 ára ártíð Grieg væri um þessar mundir, nagaði mig í handabökin að hafa ekki drifið mig á sinfóníutónleika þar sem hann var í brennidepli, en bætti það upp með því að tína fram þá diska sem ég fann með Grieg og finna restina á netinu. Fín tónlist og í framhaldi eru nokkrir aðrir klassískir diskar komnir á borðið við hliðina á mér.

Svo sit ég í Megadeth bolnum mínum og hlusta. Margt reyndar skylt með þungarokki af hörðustu gerð og klassík, flottar melódíur og mikill kraftur. Svo datt ég í smá rapp-fíling eina nóttina, ætla að dusta rykið af Rolttweiler og rímum og rabbi við tækifæri og ég er meira að segja farin að hlusta á laugardagslögin eftir Hó, hó hó-ið um daginn, en ekki af mikilli innlifun, enda fíla ég aðallega hó, hó-lagið, ekki hin, en það eru innan um alveg þokkaleg lög þó.

Málið er að það er hægt að skapa sér svo mismunandi andrúmsloft með tónlist og þessa dagana þegar ég læri og vinn mest í stofunni með fjölskylduna og sjónvarpið á fullu í kringum mig, þá dett ég inn í eigin heim á milli þegar eitthvað stórkostlegt hljómar í eyrnaskjólunum (head-phonunum) en uppi í vinnuathvarfinu mínu eru þessi fínu (gömlu) hátalarar mínir sem eru í notkun þegar ég vil láta fleiri njóta.

 


Dreg tillögu mína um ráðríki í stað ráðherra til baka og mæli þess í stað með -ráði Sigurðar Hreiðars, forsætisráð, utanríkisráð og svo framvegis. Alveg þjóðráð!

Dreg tillögu mína um ráðríki í stað ráðherra til baka og mæli þess í stað með -ráði Sigurðar Hreiðars, forsætisráð, utanríkisráð og svo framvegis. Alveg þjóðráð! Þessi hugmynd kom fram í vingjarnlegum ritdeilum hér á bloggsíðunni minni og ég vil endilega koma henni á framfæri, og auðvitað rétt feðraðri. Engin ástæða til að skreyta sig með lánuðum fjöðrum. Í tilefni af því má ég til með að segja ykkur eina litla sem téður Sigurður sagði mér einmitt einhverju sinni:

Maður hringdi í bókabúð Æskunnar í því skyni að athuga hvort til væri sú ágæta ljóðabók Svartar fjaðrir, sem hann var vanur að gefa fermingarbörnum.

- Góðan daginn, eigið þið til ,,Svartar fjaðrir"?

- Nei því miður, engar fjaðrir! 


Í stað ráðherra komi ráðríki - og þá er málið leyst!

Í stað ráðherra komi ráðríki - og þá er málið leyst! Þetta fína hvorugkynsorð, beygist: Ráðríki, ráðríki, ráðríki, ráðríkis. Ekkert flókið við þetta mál. Einfalt, þjálft og hljómfagurt orð. Á sér sögulega skírskotun, einmitt nú þykir framkvæmdavaldið (nokkur ráðuneyti skipuð nokkrum ráðríkjum) nokkuð valdamikið samanborið við löggjafarvaldið og jafnvel dómsvaldið. Það vendist fljótt að segja: Hæstvirt samgönguráðríki Kristján Möller til dæmis. Þarf að ræða þetta eitthvað frekar? Og meðan þið eruð stödd hérna á síðunni, endilega bætið í púkkið ef þið þekkið eitthvert orð sem endar á gangur og ekki hefur verið tilnefnt nú þegar.

Og svo er ráðríki auðvitað í ríkisstjórn.  


Orð sem enda á ,,gangur"

Eitt sinn bjó ég með mjög skemmtilegu fólki á Miklubraut. Eitt af því sem okkur datt einhvern tíma í hug var að finna eins mörg orð og við gætum sem enduðu á ,,gangur". Við vorum komin með yfir 40 orð þegar við gáfumst upp. Flestir þekkja þessi orð, uppgangur, niðurgangur, tilgangur, fjórgangur, frágangur ... þau eru sem sagt alla vega fleiri en 40 allt í allt. Lýsi eftir tilnefningum, orð eru svo skemmtileg!

Misstuð þið líka af jarðskjálftanum?

Ég veit að jarðskjálftar eru ekkert grín, en samt er ég alltaf svolítið spæld þegar ég ,,missi af" jarðskjálftum, eins og þegar stóri 17. júni skjálftinn kom árið 2000. Þá sat ég í bíl í Keflavík og þegar skjálftinn reið yfir kom þessi ágæta athugasemd úr sætinu við hliðina: Það er aldeilis farið að hvessa. Svo hringdi nágranninn að norðan og vildi vita hvort húsið hans stæði enn. Frétti það líka frá Ungverjalandi núna að skjálfti hefði orðið hér rétt fyrir utan Álftanes. Vissi það ekki fyrr en þá, sem sagt missti af þessum.

Hef náð nokkrum mögnuðum skjálftum, stóll rúllað með mig (það var Jónsmessuskjálftinn 2000) og sá besti var þegar við Elísabet systir vorum í símanum, hún á Seltjarnarnesi og ég á Álftanesi. Einn af Krýsuvíkurskjálftunum minnir mig. Ég spurði: Fannstu þennan, hann var stór! Og hún sagði nei, .... jú núna finn ég hann. Hann ER stór.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband