Blaðamenn og heimildamenn - óhugnanleg þróun ef Geirar Goldfingers geta stoppað alvarlega fjölmiðlaumfjöllun um mikilvæg mál

Þegar blaðamaður tekur viðtal um þjóðfélagsmein, við heimildarmann sem er að greina frá einhverju háskalegu, jafnvel hættulegu, þá eru báðir aðilar þegar að taka nokkra áhættu. Frjáls blaðamennska hefur alltaf átt undir högg að sækja í heiminum og nú er búið að slá enn einn naglann í líkkistu hugrakkrar blaðamennsku á Íslandi, með dómi yfir blaðamanni Vikunnar. Ekkert er hægt að fetta fingur út í vinnubrögð blaðamannsins, það hefur komið fram. Það sem hæstiréttur er að gera með því að snúa dómi héraðsdóms um Goldfinger málið er að segja: Þú mátt ekki taka viðtal við manneskju sem gárar yfirborð hættulegrar umræðu, jafnvel þótt þú hafir hárrétt eftir heimildarmanni. Umræða um vændi og mansal er hættuleg umræða, því þar er verið að ýta við þeim sem eiga mikla fjárhagslega hagsmuni undir. Það þarf kjark til að fjalla um tabú samfélagsins og það þarf hugrekki til að koma í viðtal um slík málefni. Fylgifiskur er oftar en ekki hótanir eða jafnvel annað verra. 

Blaðamannafélagið hefur brugðist við af mikilli festu og ábyrgð. Mér þykir vænt um að þetta góða stéttarfélag mitt til margra ára er enn einu sinni vel vakandi fyrir ábyrgð á aðstæðum blaðamanna. Á www.press.is er að finna vandaða umfjöllun um málið og ég stikla aðeins á því helsta en mæli með að fólk skoði síðu félagsins. Leturbreyting er mín:

Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur ákveðið að láta kanna hvort efni séu til að senda nýlegan dóm Hæstaréttar Íslands í máli Ágeirs Þórs Davíðssonar gegn Björku Eiðsdóttur blaðamanns á Vikunni til Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg. í ályktun sem stjórnin samþykkti fyrr í dag segir m.a. að brýnt sé "að blaðamenn viti hvort það sé réttmæt niðurstaða að blaðamenn beri ábyrgð á öllu því sem viðmælendur þeirra segja. Þá þurfa blaðamenn að vita hvort þessi túlkun Hæstaréttar á við um alla miðla. Hvað með beinar útsendingar til dæmis? Hver er þá ábyrgur?".

Þess má geta að í júní 2008 féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Ásgeirs gegn tímaritinu Ísafold (Nýju lífi)  þar sem blaðamaður og ritstjóri voru dæmd til að greiða honum eina milljón króna í miskabætur fyrir grein sem fjallaði um vændi og mansal í tengslum við súlsustað Ásgeirs í Kópavogi. Þar þótti þó ekki meiðandi að fjallað var um vændi  á staðnum enda umræðan ekki talin tilefnislaus, heldur var það hugtakið "mansal" sem þótti meiðandi fyrir Ásgeir - miðað við skýringar orðabókar á hugtakinu.

Ályktun stjórnar Blaðamannafélags Íslands 11. mars:

"Blaðamannafélag Íslands mótmælir harðlega nýlegum dómi Hæstaréttar þar sem blaðamaður Vikunnar er dæmdur í háar fjársektir vegna dómsmáls sem Ásgeir Davíðsson veitingamaður á Goldfinger höfðaði. ... Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að viðmælandi Vikunnar bæri ábyrgð á ummælum sínum. Þar sem fallið hefði verið frá kröfum á hendur henni bæri að sýkna blaðamanninn. Niðurstaða Hæstaréttar er hinsvegar þveröfug. Hún er sú að skjóta sendiboðann og skilja þar með gervalla blaðamannastéttina eftir í algerri réttaróvissu.  ...

Ljóst er að þessi nálgun Hæstaréttar breytir verulega starfsumhverfi blaðamanna og möguleikum þeirra á því að fjalla um umdeild samfélagsmál."

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband