Pínulítið pólitískari upprifjun

Margt kemur í hugann við áramótin, mér finnst snjallt trikk að setja svona tímamót á einu sinni á ári, til að hægt sé að líta yfir farinn veg og fram á við. Þetta var viðburðaríkt ár í pólitískum skilningi. 

Kosningar og hálfgerð stjórnarskipti, sumir sátu og öðrum var skipt út. Breytingin er til hins betra hvað varðar stóriðjuáherslur, því þar var Framsókn sýnu verst, en nú er kominn umhverfisráðherra sem mark er á takandi, Þórunn er heil og góð í sínu hlutverki. Hins vegar er breytingin til hins verra hvað varðar áherslur í Evrópusambandsmálum. Þrátt fyrir að aðild að Evrópusambandinu sé ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar, þá fara sumir ráðherrar hamförum núna. Mér finnst þó jákvætt að utanríkisráðherra horfir víðar en til Evrópu og horfir á raunveruleg viðfangsefni framtíðarinnar, baráttu norðurs og suðurs og hvernig megi grípa til aðgerða til að jafna hlut þessara heimshluta áður en það er um seinan. Mjög margt í áherslum Ingibjargar Sólrúnar er umtalsverð breyting til batnaðar frá langri utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar. Davíð, Valgerður og Geir stóðu skemur við og af þeim þremur var ég lang sáttust við Geir. 

Framsókn hefur verið refsað fyrir grimmilega fyrir hægristefnu Halldórs og félaga, á því leikur enginn vafi að það er stór þáttur í því hvernig nú er komið fyrir flokknum. Nú er flokkurinn aftur á leið til vinstri undir stjórn Guðna og Bjarni Harðar er góð viðbót og vonandi draga Framsóknar menn einhvern lærdóm af því hvar flokkurinn hélt velli og hvar hann galt helst afhroð. 

Mitt Vinstri Græna hjarta hafði margar ástæður til að gleðjast og aðeins eina til að hryggjast. Mér finnst auðvitað hábölvað að við skulum ekki hafa farið í stjórn eftir kosningar, en ég mótmæli því harðlega að það sé Steingrími J. að kenna. Minnir allt of mikið á þegar Kvennalistanum voru settir engir kostir og svo voru Kvennalistakonur skammaðar fyrir að fara ekki í stjórn upp á engin býti. Hefði verið vilji til að mynda vinstri stjórn þá hefði hún verið mynduð. Tillagan um að Framsókn veitti slíkri stjórn hlutleysi hefði fengið flokknum nokkur áhrif í hendur og verið mjög áhugaverð tilraun. Ríkisstjórnin sem þá hefði verið mynduð hefði endurspeglað vel vilja kjósenda, sem veittu VG veglegt brautargengi. Það sem ég gleðst yfir er: Fjöldi frábærra ungra kvenna sem kominn er framarlega í raðir VG, alveg magnaðar. Kosningasigur VG er staðreynd og merkir að málefni hreyfingarinnar eiga hljómgrunn. Mögnuð frammistaða Svandísar Svavarsdóttur i REI-málinu er svo rúsínan í pylsuendann.

Hér á Álftanesi gleðst ég yfir góðri framvindu hjá Álftaneshreyfingunni, þar sem grænn miðbær er í sjónmáli. Það gleður mig sérlega að við skulum vera við stjórnvölinn núna þegar verið er að taka svo afdrifaríkar ákvarðanir sem uppbygging miðbæjar er. Skoðið alftanes.is ef þið viljið vita meira. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband