Búin að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór

Það eina sem ég hef engan húmor fyrir og tek gríðarlega alvarlega, af því sem ég hef fengist við, er myndlistin. Hún er ekki hobbí, heldur lífið sjálft. Mundi til dæmis aldrei spyrja heittrúaða manneskju hvort það væri nú ekki gaman að hafa trúna sem hobbí. Legg þetta svona á vissan hátt að jöfnu. Samt hef ég bæði valið að verða ekki myndlistarkona (þá var ég 22 ára) og jafnframt sinnt þessari köllun af miklum móð og talsverðri elju. 

mhi

Þetta merkir sannarlega ekki að ég sinni ekki öðru af mikilli ánægju. Flest störf sem ég hef fengist við (meira að segja uppvask í þremur löndum) hafa verið mjög skemmtileg. Seinustu tvo áratugina hef ég verið í ýmsum hlutverkum í hugbúnaðargerð og nýt þess í botn, einkum félagsskaparins við þá vinnufélaga mína sem ég get flokkað sem sam-nörda. Datt inn í pólitík um hríð og fannst ég gera gagn. Skriftir hafa alltaf verið mín ástríða, hvort sem er umfjöllum um þing meltingarlækna, snobb, Grýlurnar eða sögu Álftaness. Glæpasagnaskrif seinustu ára (tvær bækur og ein gáta í glæpa-appi komnar út nú þegar) eru nákvæmlega það sem mig dreymdi um að gera þegar ég færi á eftirlaun, sem ég gerði um stund og mun gera aftur. EN - nú er ég búin að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég verð stór. Taka til baka ákvörðunina sem ég tók þegar ég var 22 ára og gerast myndlistarkona. 

242103043_10226749247655743_6750454971589571632_n (1)

Eitt skrefið á þeirri leið er að ég er að byrja að setja myndirnar mínar í vefgalleri Apollo Art og líst mjög vel á þann vettvang. Eldri málverk og nýrri myndir, aðallega vatnslitir, í bland, nú þegar eru sex myndir komnar inn og undir lok mánaðarins verða þær orðnar 14. Það fer svo eftir undirtektum hvort ég bæti við myndum og þá hvers konar. Lífsverkið fram til þessa er æði stórt og bætist hratt við. Fleiri nýlegar vatnslitamyndir byrja að koma inn í lok vikunnar og enn fleiri fyrir mánaðarmótin. Svo eftir enn eina einkasýningu í nóvember set ég ef til vill eitthvað óselt af þeirri sýningu inn. Allt fer þetta eftir áhuga þeirra sem skoða, en á þessum vef er fjöldi góðra verka og ég bæði í góðum félagsskap og harðri samkeppni. Það er bara gott. 

https://apolloart.is/collections/anna-olafsdottir-bjornsson

v uppvaskið - olía á striga - millistor


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband