Færsluflokkur: Kvikmyndir

,,Hitt" kvikmyndaþema helgarinnar: Forseta(kosninga)kvikmyndir

Bond myndir voru áberandi í dagskrá sjónvarpsstöðva um helgina eins og þegar hefur komið fram og sömuleiðis forseta(kosninga)kvikmyndir. Myndin með Michael Douglas og Annette Bening var á tveimur stöðvum að minnsta kosti og svo var Chris Rock myndin líka sýnd. Wag the Dog hefur greinilega ekki þótt við hæfi, þótt sú mynd standi nú alltaf fyrir sínu. En alla vega, þokkaleg afþreying, sem alltaf er gott í kreppustemmningunni. Við fáum kannski ekki Cabaret-ástand þar sem allir reyna að skemmta sér af öllum kröftum til að gleyma ástandinu, en ef það færi að bresta á er líka hollt að muna hvað fylgdi í kjölfarið.

Í tilefni helgarinnar: BOND

Það væri vel við hæfi að hafa Bond-maraþon núna um helgina. Sá seinni helminginn af Live and let die í danska sjónvarpinu áðan, mér fannst Roger Moore alltaf skemmtilegur Bond og er frekar ein um það, húmor og trylltar senur, þótt þær séu heldur stilltari núna 30 árum seinna, en mig minnti. En alla vega, er að horfa á fyrstu Bond myndina með núverandi Bond (Casino Royale), ég vildi fá Clive Owen í hlutverkið, en var því miður ekki höfð með í ráðum. Þannig að við sitjum uppi með lítinn, eyrnastóran nagg sem hefur breytt Bond myndunum í góðar spennumyndir með litlum Bond-sjarma. En alla vega, gaman að horfa á spennumynd á laugardagskvöldi og tilbreyting frá daglegum fréttum. Við Ari sáum Casino Royale í bíói en ég er ekkert viss um að við gerum okkur ferð á þá sem núna er verið að frumsýna.


Sex and the city á ungversku - ekki fyndið!

Köflóttur dagur. Hápunkturinnátti að vera þegar við færum þrjár saman, Hanna, Sara og ég, á Sex and the city, sem aldrei þessu vant átti að vera sýnd á ensku, en ekki döbbuð á ungversku. Misstum af fimm-sýningunni því allir leigubílar voru seinir þegar mikið úrhelli og þrumuveður skall á. Fórum á flottan veitingastað á undan og náðum átta-sýningunni. Korter án nokkurs bíós, síðan korter af ,,úr-næstu-700-myndum" og loks byrjaði myndin - á ungversku!!!! Mér skilst að Mr. Big (heitir hann það ekki) hafi náð að segja bæði takk fyrir og gerðu svo vel á ungversku, hvort tveggja mun lengri orð, áður en við læddumst frekar lúpulegar út. Sex and the city sérfræðingarnir í hópnum sögðu að það væri útilokað að horfa á þessa mynd með þessari limlestingu. Ég var hætt að hlæja, en fyrstu viðbrögðin hjá mér voru hrikalegur hlátur.

Þetta var svona frátekið kvöld þegar kaflaskil í próflestri leyfðu bíóferð, og satt að segja voru vonbrigðin mikil, einkum hjá þeim tveimur (hinum) sem þekkja almennilega haus og sporð á þáttunum sem myndin byggist á. Ég hafði þrælgaman af þeim þáttum sem ég sá, en þeir voru reyndar afskaplega fáir.

Góðu fréttirnar voru góður matur úti að borða (sem enn er hræbillegt hér þrátt fyrir gengisbreytingar) og góður félagsskapur, en ég virkilega fann til með stelpunum sem voru loksins að upplifa smá tilbreytingu í erfiðum próflestri og fengu þess í stað bara ungverskan brandara, sem var ekkert fyndinn.

Heyrði í morgunþætti BBC mikla hneykslan á því að það hefði verið sagt frá því í fréttatíma BBC að Sex and the city hefði verið heimsfrumsýnd í London. Æ, aðeins svona nefið-upp-í-loft stíllinn.


Kvikmynd sem ég mæli EINDREGIÐ með: In the Valley of Eliah

Undanfarin misseri hef ég helst horft á rómantískar gamanmyndir og spennumyndir. Álpast til að sjá eina og eina mynd sem skilur eitthvað eftir sig, í sjónvarpi, en lítið elt slíkar myndir í kvikmyndahúsum. Nínu systur tókst að koma mér á eina slíka mynd í gærkvöldi, In the Valley of Eliah, sem ég vona að sé enn sýnd í Álfabakkanum. Hún er mögnuð! Tommy Lee Jones, Susan Sarandon og Charlize Theron. Leikaravalið segir auðvitað strax eitthvað gott. Þetta er með áhrifameiri myndum sem ég hef séð. Ádeila á Íraksstríðið og stríð almennt, en líka mjög óvenjuleg mynd.

eliah


Loks kom ég því í verk að horfa á Juno - og sú mynd veldur ekki vonbrigðum

Sjaldan að ég ákveð fyrirfram að sjá væntanlega kvikmynd, en um leið og ég heyrði eitthvað almennilega af myndinni Juno vissi ég að þessa mynd ætlaði ég að sjá. Juno-movie-f01Og loksins er ég búin að því og þetta er mynd sem ekki veldur vonbrigðum, þvert á móti, alveg rosalega góð mynd. Ég sá stelpuna sem leikur Juno í spjallþætti um daginn (eflaust Jay Leno) og hún alveg geislaði af húmor og það skilar sér skemmtilega í þessari ,,feel-good" kvikmynd sem er samt ekki eins heilalaus og sumar ,,feel-good" myndirnar sem ég hef fallið fyrir. Alveg stórfín mynd.

Robert Downing Jr. er ótrúlega skemmtilegur leikari

Datt óvænt ofan í fáránlega kvikmynd í sjónvarpinu, Kiss, Kiss, Bang, Bang með Robert Downing Jr. og undrast enn og aftur hvað þetta er skemmtilegur leikari, JrMiVal Kilmer var líka alveg æði og handritið ótrúlega skemmtilegt og reyndar mjög geggjað. Mæli með myndinni fyrir þá sem eru til í svolítið ,,yfir strikið" myndir og ekki spillti að horfa á þetta vandaða rugl með Nínu systur og Óla syni mínum sem bæði kunna að meta góðar myndir.

Ekki missa af Astrópíu!

Hef verið svolíitð léleg við að fara á ævintýramyndir jafnvel þær allra vinsælustu, og ekki nógu dugleg að fara á íslenskrar kvikmyndir heldur, hálf skammast mín fyrir það síðarnefnda, því þegar ég fer þá skemmti ég mér yfirleitt vel. Mýrin er til dæmis ein af þessum myndum sem mig langar að sjá aftur, mynd sem gekk fullkomlega upp.

Í kvöld skrapp ég svo á Astrópíu með Óla (28 ára syninum). Það var reyndar ég sem fékk að velja myndina og úr mörgu góðu að moða, en þetta var myndin sem mig langaði á og vissi eiginlega ekki alveg hvers vegna. Hafði bara góða tilfinningu fyrir myndinni. Handritshöfundurinn (Ottó Borg)  stórvinur Halldórs vinar míns (nema ég fari mannavillt) og það er yfirleitt ávísun á húmur, skot sem ég hef séð úr myndinni toguðu líka, þannig að já, ég náði meira að segja að sjá hana í stórum sal í Háskólabíói. Venjulega dugar mér að horfa á stórmyndir í stofunni heima, nema hasarmyndir sem krefjast góðs hljóðkerfis, þær reyni ég að sjá í bíói. En í þessu tilfelli var eiginlega nauðsynlegt að sjá myndina í sal með fleira fólki og hlæja eða súpa hveljur í kór. Reyndar var mjög misjafnt hvað vakti viðbrögð í salnum og hvernig viðbrögð, en salurinn var mjög lifandi og sýndi skemmtilegra lífsmark en poppkornsskrjáf.

Þetta er sem sagt dúndurmynd og yndislega fyndin. Maður þarf ekkert að vera ævintýramyndafrík (ábyggilega samt ekkert verra) og þetta er mynd sem er ólík öllum íslenskum myndum sem ég hef séð. Las í blaði að þetta væri hafnfirsk mynd og mikið rosalega er ég sammála því. Þið, sem þekkið Hafnarfjörð, skiljið hvað ég meina ef þið skellið ykkur á hana. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband