Færsluflokkur: Ferðalög
Fallega Debrecen í 20 stiga hita
19.10.2007 | 08:27
Stjörnubjarti himininn yfir sléttunum
17.10.2007 | 16:11
Það var sérkennilegt og skemmtilegt að aka frá Budapest til Debrecen í gærkvöldi, úti á ökrum sléttunnar mátti sjá stórvirkar landbúnaðarvélar að slá kornið, en uppi í stjörnubjörtum himninum óteljandi stjörnur, slatta af flugvélum (mikil traffík í háloftunum) og stöku gervitungl. Þekkja má muninn á þessu tvenna síðastnefnda með nokkurri vissu, við mæðgurnar fórum í gegnum þann pakka í morgun.
Þegar ég kom til Debrecen í gærkvöldi þá fann ég allt í einu muninn á því að koma hingað í íbúðina fyrir liðlega ári, þegar við Hanna dóttir mín vorum frekar grænar á þessum slóðum, að flytja hana inn, og núna þegar hún tók á móti mér og gerði upp við leigubílsstjórann, á ungversku! Þótt henni finnist hún ekki kunna mikið í þessu torskilda máli, þá er gaman að fara um og hlusta á hana kjafta ótrúlega mikið á ungversku, í búðum og veitingahúsum, panta bíl og fleira, sem fylgir því að fá móðurina í heimsókn. Mér finnst svo merkilegt að það skuli vera til þessar tvær þjóðir hér í Evrópu, Ungverjar og Finnar, sem eru eins og litlar slettur í þjóðahafinu, sem hafa orðið eftir, með óskylt mál næstum öllum öðrum (nema Eistum) og svolítið annað yfirbragð í fasi og útliti. Fallegt fólk en svolítið sérstakt að því leyti að tungan er svona torskilin. Á flugvellinum voru tvær vélar nýkomnar frá Helsinki og nokkrar annars staðar frá. Þrátt fyrir að tungumálin hafi orðið viðskila fyrir svona þúsund árum er mér sagt, þá er greinilega frændsemistaug milli þjóðanna, það finn ég í báðum löndunum, einkum þegar svona stutt er milli heimsókna bæði til Finnlands og Ungverjalands.
Ég var víst búin að lofa að skýra þetta með sprungna dekkið, hef ekki áður lent í því að vera í flugvél sem þarf að tjakka upp til að skipta um framdekk. Það er spes! Við vorum komin út á braut í gær þegar uppgötvaðist að danski flugstjórinn (sem flaug eins og engill) hafði óvart lent á einhverjum aðskotahlut á brautinni og vegna öryggisreglna var öðru dekki vippað undir. Svo var hann smá ónákvæmur, blessaður, þegar hann ók uppað rampinum á Feryhegy flugvelli í Budapest, því um leið og allir voru staðnir upp og voru að drösla dótinum sínu úr skápunum þá heyrðist í mínum, með sterkum dönskum hreim á enskunni: Afsakið, allir að setjast aftur, við hittum ekki alveg á innganginn og þurfum aðeins að bakka! Annars fín flugferð, laust sæti milli mín og notalegs sessunauts sem var að fara að heimsækja kærustuna í Budapest. Við í okkar röð hlógum hæst yfir brandaraþáttum frá Kanada (falin myndavél) og Music and Lyrics. Einhvers staðar frammí var Hildur flugfreyja, sem bjó einu sinni uppi á horni, og Atli Rúnar ásamt félaga frammí líka, vonandi að fara að gera eitthvað rosalega skemmtilegt í Budapest.
Í dag fórum við mæðgur á Palma, veitingastað sem ég hef heyrt mikið um, mitt milli háskólans og heimilis Hönnu, milli tíma hjá henni. Svo var kíkt í búðir, slegnir lyklar handa mér og ég fengið ungverskt símakort. Hittum Maju vinkonu Ellenar á Palma. Ég á stuttermabol í 19 stiga hita, hún í lopapeysunni. Enda segir Hanna að allt undir 30 gráðum sé kalt.
Nú er Hanna farin aftur í tíma og ég ætla að líta á heimadæmi og hætta þessu bloggi í bili.
Fallegur dagur í Debrecen
17.10.2007 | 09:46
Ungverjaland
15.10.2007 | 01:44
Einn uppáhaldsbrandarinn hans pabba, sem hafði frekar absúrd húmor, var: ,,Ung var ég gefin Njáli, eins og kellingin sagði." (Fyrir ykkur sem efist, þá er brandarinn búinn). Vandamálið fyrir mig var bara að ég vissi aldrei hver þessi Ungverji var.
Þetta hefur eflaust verið um það bil sem ég var fjögurra ára og ungverskir flóttamenn komu til Íslands. Svo liðu árin og ég hugsaði ekki meira um Ungverjaland en hver annar krakki og unglingur með mikla ferðaþrá. Svo þegar ég var átján eignaðist ég ágæta ungverska vinkonu, Esteru Vechery, sem reyndar var frá Osijek í Vojvodina og tilheyrði ungverska minnihlutanum þar, en Vojvodina var þá sjálfsstjórnarsvæði innan þáverandi Júgóslavíu. Hún sagði í tíma og ótíma: I'm hungry, I'm angry and I'm Hungarian, sem er svona álíka fyndið og brandarinn hans pabba.
Þegar ég kom fyrst til Búdapest, 22 ára að aldri, féll ég í stafi yfir heimsborginni miklu, sem mér þótti mun meira til koma en Parísar, sem ég var nýbúin að heimsækja. Þetta var löngu fyrir fall múrsins og á flakki mínu um Austur-Evrópu fannst mér þá mikill munur á fólkinu í Prag og Budapest á þessum tíma. Í Budapest var lítið hægt að merkja að fólk fyndi sig kúgað og bælt, sem aftur á móti var sláandi tilfinning í Prag, sex árum eftir ,,Vorið í Prag".
Síðan múrinn féll hef ég komið bæði til Budapest og Debrecen, sem er næststærsta borgin, austarlega í landinu og státar af allmörgum erlendum stúdentum, þeirra á meðal fáeinum tugum Íslendinga, sem flestir eru að læra læknisfræði. Þangað er ég að fara á þriðjudaginn að heilsa upp á hana dóttur mína sem er í þessum ágæta stúdentahópi, hlakka mikið til. Debrecen er afskaplega falleg miðevrópsk borg, hefur yfir sér þokka rótgróinna smáborga, í bland við bjartsýna neyslugleði. Verðlagið ennþá gott og veðrið enn betra, nema rétt yfir blá vetrarmánuðina. Samkvæmt veðurspánni verður hitinn á næstunni 14-19 gráður á daginn og sól flesta daga, en fer niður í 3-7 gráður á nóttunni. Og svo verður auðvitað mest gaman að heilsa upp á dótturina, en við ætlum líka að vera duglegar að læra/vinna í bland við skemmtunina.
Vantar skýrari línur í veðurspá vetrarins
25.9.2007 | 23:19
Hér til vinstri lúrir lítil könnun sem er mér afskaplega kær. Þannig er mál með vexti að mig langar svo óskaplega til að fá að vita, fyrirfram, hvernig veðrið í vetur verður. Þannig að ef þið eruð tengd við æðri máttarvöld, veðurguðina til dæmis, þá þætti mér afskaplega vænt um að fá að vita með meiri vissu hvernig veðrið í vetur á að vera. Atkvæðin eru nefnilega að dreifast óþarflega vel. Eins og flestir Íslendingar er ég veðurfíkill og á þar að auki eftirfarandi hagsmuna að gæta:
1. Þarf að vita hvenær ég á að panta Kanarí.
2. Er ég komin ótímabært á vetrardekk? (Það getur reyndar verið fyrirbyggjandi, því fleiri sem eru á sléttum sumardekkjum, þeim mun meiri líkur á hálku og snjó og öfugt, skv. Murphy vini okkar allra).
3. ... og svo bara einskær forvitni.
Palmitos Park - Kanaríeyjum - raunalegar fréttir
1.8.2007 | 13:13
Veðurfarsbreytingar eru að taka á sig ýmsar myndir. Skógareldar á Kanarí eru ein þeirra. Ég var svolítið sein að uppgötva kosti þess að eyða fáeinum vetrarvikum á suðlægari slóðum og fara til Kanarí á veturna. En það sem af er öldinni hefur þessi siður verið í hávegum hafður meðal fjölskyldu og vina.
Fyrsta árið sem ég kom til Kanarí eyddum við góðum stundum með vinum okkar, gamalreyndum Kanarí förum, og vinkona okkar sagði nánast á fyrsta degi að við ættum að fara í Palmitos Park. Þar sem við höfðum engin börn með okkur til afsökunar fannst okkur þetta svolítið furðulegt, að fara í fuglagarð, hoppuðum samt upp í strætó, held það hafi verið nr 45 og eyddum yndislegum degi í Palmitos Park. Síðan höfum við komið þangað nokkrum sinnum, ekki á hverju ári, en nóg til að endurnýja kynnin af þessum unaðsreit þar sem oft er hlýrrra og skjólsælla en á láglendinu. Garðurinn er/var í þröngum dal og þar voru fágætir fuglar sem komu manni alltaf í gott skap. Nú hefur þessi fallegi garður orðið skógareldum að bráð og því miður sumir íbúanna líka. Mér finnst þetta sorglegt.
Brot úr ferðasögu
13.4.2007 | 17:55
Útsofin og uppfull af skemmtilegum minningum úr páskaferðinni til Nínu systur í New Mexico, þar sem hún og Annie frænka tóku yndislega á móti okkur Elísabetu. Fyrst smá skýring á geltandi (eða var það hneggjandi, undarlegt hljóð alla vega) flugþjóninum. Hann tók á móti okkur í flugi 1111 frá Albuquerque til Chicago og okkur leist ekki svo vel á hann þegar hann kynnti flugfreyjuna sem stóð við hliðina á honum sem fyrrverandi eiginkonu sína. Hálf hallærislegt, alla vega við fyrstu kynni. En þegar hún sagði að hann væri fyrrverandi m.a. af því hann færi ekki einu sinni rétt með nafnið hennar, þá fór okkur að gruna að þetta væri allt eitt stólpagrín. Næst var tekið á loft, sæmilega bratt enda fullt af fjöllum fyrir, og þá sagði sá káti: "Here comes the peanuts." Við áttum von á röltandi flugliðum með hnetupoka, en ónei, niður brekkuna milli sætanna runnu ótal hnetupokar. Brekkan var brött því flugvélin var í þessu bratta flugtaki, og hneturnar hurfu fljótt í hendurnar á áköfum farþegum. Restinni var útdeilt með hefðbundnari aðferðum. Svo hélt sprellið áfram og í lok ferðarinnar, þegar lent var frekar harkalega, þá heyrðist í flugþjóninum, whoops! og svo hneggjaði hann svolítið og gelti smávegis og ég verð að játa það að það var bara ekki annað hægt en að hlæja með honum, enda lá allt liðið í vélinni í hlátri. Mér er sagt að svona fíflalæti séu góð fyrir flughrædda.
Á flugvellinum (Midway) í Chicago eru þessir frábæru ruggustólar, að vísu umsetnir, en ég lauma þessari hugmynd hér með að forsvarsfólki Leifsstöðvar.
Ruggustólar eru mikið þarfaþing. Enn hef ég ekki hrundið gömlu hugmyndinni minni um ruggustólastofu í framkvæmd, en hún er ekki dauð. Fyrir framan húsið hennar Nínu í Portales - sem er nánast það eina sem er fallegt þar í bæ (fyrir utan páskasnjóinn - nú er kominn 24 stiga hiti þar) - er ruggustóll líka og ennfremur róla. Þetta er svo notalegt, en vegna roks er varla hægt að hugsa þetta til enda hér heima. Hins vegar getur hvesst í Austur New Mexico, því í nágrannabænum Clovis voru nýlega margir hvirfilbyljir og við sáum ummerkin glögglega, hálf hús, rifin þök og tré og klesstir mjólkurtankar. Náði ekki mynd en þetta er eflaust uppflettanlegt á netinu. Hér er hins vegar stemmninginsmynd frá Nínu. Meira í kvöld eða um helgina, allt eftir stuði.
Ferðasagan í myndum - og ekki orð um geggjaða flugþjóninn
12.4.2007 | 17:27
Gleðilega páska úr Ameríkufjörinu
8.4.2007 | 17:28
Þá er ferðin til Santa Fe loksins að hefjast, hér er enn morgunn, og við höfum það ofsalega gott hér í snjónum í Portales, en nú eru vegir orðnir auðir og hægt að fara til Santa Fe enn ofar í fjöllin. Gleðilega páska öll heima, og góðar kveðjur frá öllum hér.
Snjór í sumarveðri og kuldaskræfur frá Íslandi
7.4.2007 | 16:29
Hér í New Mexico hefur verið sumarveður að undanförnu, öll tré í fullum blóma og apríkósutrén slá fallegu kirsuberjatrjánum næstum við í fegurð. En hmmm, hér erum við systurnar samankomnar um páskana og úti er snjór og frost. Ferðinni til Santa Fe hefur verið frestað um dag vegna hálku. Við höfum það hins vegar yndislegt á heimili Nínu systur okkar hér í Portales. Hér var fjöldi vina hennar og Anniear systurdóttur okkar í gærkvöldi, rosalega skemmtilegt fólk. Öllum finnst mjög fyndið hvað íslensku systurnar eru miklar kuldaskræfur ;-) en hér kunna ALLIR brandarann um að Ísland ætti að heita Grænland og öfugt.
Hér spyr fólkið eins og á Íslandi: How do you like Portales? En þá er líka búist við því að við svörum: Hriklalega ljót, þvi öllum hér finnst Portales mjög ljótur bær. Þetta er 12 þúsund manna háskólabær og Nína var búin að vara okkur við að bærinn væri með afbrigðum ljótur, og satt að segja er ég ekki frá því eftir smá rúnta hér, að hún hafi rétt fyrir sér. Allir brosa hringinn þegar maður segir varlega: Mér finnst háskólasvæðið fínt og húsið hjá Nínu! Og svo er bara talað um ljótleika bæjarins. Skrýtið! En við höfum það afskaplega gott hér í í flatneskjunni og hlökkum til að komast til hinnar gullfallegu borgar Santa Fe þar sem okkar bíður indjánapartí.