Færsluflokkur: Menning og listir

Söngvakeppnir rokka

Búin að vera að fylgjast með þessum tveimur aðalsöngkeppnum landsins samtímis, norrænum Eurovision undirbúningsþætti (hvað var þessi að hugsa sem gaf Eiríki ,,bara" 4 stig?) og svo Jógvan X-factor sigurvegara, þar sem ég á eiginmann með meirapróf á fjarstýringar. Mjög gaman, mikið rosalega erum við og Færeyingar heppin að eiga svona flotta rokkara, Magni innifalinn. Eiríkur lofar endurkomu rauða hársins og Jógvan er svo mikill rokkari, þrátt fyrir krúttlegt útlit, að hann er vel að sigrinum kominn. Reyndar fékk ég þetta fína sms til New Mexico: Jógvan vann! Því miður sagði þetta systrum mínum lítið og Annie ekki neitt. Hins vegar var Nína ábyggilega orðin fræg í háskólanum sínum þegar hún var að kjósa Magna í sumar - mig grunar að háskólakennarar geri ekki mikið af slíku í Bandaríkjunum, en hún var ekki að hika við það ;-)

Frumbyggjar

Þegar ég var lítil þá vildi ég alltaf vera indjáninn í kúreka og indjánaleikjunum, enda með fléttu(r) og dökk yfirlitum. En ekki bara það, það var bara svo töff eitthvað. Svo er maður búinn að sjá flutt af meðvituðum Hollywood og ekki Hollywoodmyndum þar sem taumur indjána er dreginn, ólíkt því sem gerðist í Roy Roggers (við töluðum aldrei um Rogers) myndunum, þar sem aðallega voru kúrekar, góðu með hvíta hatta og vondu með svarta. En alla vega, þá hefur verið vaxandi skilningur á málum frumbyggja um allan heim, og það er flott.

Þegar ég fór til Ástralíu fyrir 13 árum þá voru frumbyggjarnir nýbúnir að harma landnám hvítingjanna þar í álfu og báðu um að fá að endurheimta menningu sína sæmilega óáreittir. Menningu sem er mjög spennandi, rétt eins og indjánamenningin sem ég er að byrja að fá smá smjörþef af. Nína systir er nefnilega æði vel tengd við indjánasvæðin í Ameríku, auk þess ein fárra hvítra sem hefur kennt kúrsa í indjánabókmenntum. Þegar hún bjó í Wyoming var hún í mikilli nánd við indjánamenningu, fór með mér á svæði þeirra í Arizona meðan hún bjó það, og þegar við vorum í Úlfaldaklettur á leið í fjöllin við Santa FeSanta Fe um daginn þá hittum við vini hennar, bæði af indjánaættum og sem vinna með indjánum. Bæði í tengslum við menningu þeirra og einnig þau vandamál sem komið hafa upp við misvelheppnaðar tilraunir við að deila landinu með innflytjendum víða að úr heiminum. Reyndar þarf ég endilega að finna við tækifæri mynd sem ég prentaði út einu sinni af tveimur indjánum sem sitja upp á hæð og horfa yfir Manhattan. Annar segir við hinn: Ekkert af þessu hefði gerst ef við hefðum haft strangari innflytjendalöggjöf!

Við hittum nokkra núna í túrnum, keyptum list og listmuni af þeim, en þar er hvað öðru fallegra. Ég er hugfangin af því sem ég sá og heyrði. Keypti mér diska með indjánatónlist, mjög heillandi tónlist, en áður féll ég kylliflöt fyrir tónlist Ástralíufrumbyggja. Reyndar rifjast það upp fyrir mér þegar Nína systir hafði vit á að toga mig með sér á frumbyggjatónleika í Salnum í Kópavogi fyrir tveimur árum eða svo. Debbie, sjálfmenntuð listakona sem málar og sker í dúk sýndi okkur brot úr sögunni á veitingahúsi þar sem fullt af vinum Nínu og vinkvenna hennar borðuðu með okkur og svo heimsóttum við hana og vinkonu hennar og skoðuðum myndirnar hennar. Elísabetu langaði mest í stórt málverk, en við létum okkur nægja smærri og flytjanlegri myndir á fáránlega góðu verði. En allt er ódýrara í Ameríku. Mér er þó eiginlega minnisstæðastur hljóðlátur maður í verslun í Santa Fe, sem ég heimsótti í tvígang.  Keypti af honum þrjú lítil veggteppi og fékk hann til að velja fyrir mig perlusaumaða buddu til að setja um hálsinn. Systur mínar segja að ég hafi neytt hann til þess, en hann gerði það ábyggilega með gleði og yfirvegun, því á henni er björn fyrir okkur Björnssonana. Vissi ekkert í hvað ég átti að nota hana í, en auðvitað smellpassar linsuhulstrið í þetta. Og það kemur sér vel núna þegar ég er búin að vera með aðra linsuna í fríi. Tók mynd af indjánamarkaðnum í Santa Fe, úr fjarlægð og án áreitis, því maður má ekki taka myndir af indjánum, nema í hæsta lagi eins og þessa. Yfirlit yfir indjánamarkaðinn í Santa FeAllt sem selt er á indjánamarkaðinum í Santa Fe er unnið af indjánunum sjálfum eða fjölskyldumeðlimum og þarna fékk maður tækifæri til að spjalla við yndislega listamenn, fallegt og lífsreynt fólk, sem hafði gaman af að útskýra verk sín. Annie frænka keypti rosalega flottan hring sem er hægt að snúa eftir árstíðum, og Elísabet fékk sér eftir nokkra umhugsun hliðstæðan. Ekki smá flott, en ég fékk mér heilsuskartgrip (sem er auðvitað glæsilegur líka) með onyx og sólargeislum, ekki hægt að útskýra. En alla vega, það er gaman að vera þarna. Mig langar aftur til Santa Fe. Salvör var að kommentera um spilavítin, já þau eru þarna og urmull af þeim. Ég hef ekki komið inní þau og séð smókingklædda indjána, og ég viðurkenni að ég yrði eflaust frekar sorgmædd við þá sjón. Hins vegar var bara gaman að sjá þá með kúrekahattana sína, það var ekkert nema flott. Það er mjög umdeilt hvernig áhrif spilavítanna eru á samfélag indjánanna. Sumir fagna því fé sem kemur inn og segja það fara til samfélagsins, aðrir vilja meina að þetta sé bara neikvætt og jafnvel að peningarnir skili sér ekki. Jæja, eitt enn, hér er hún Debbie, hún er af Navahó ættum, og fín myndlistarkona.

Listakonan Debbie skýrir verk sín

 

 

 

 


Flottir tónleikar í Seltjarnarneskirkju

Fór á næsta nes til að hlusta á Nelson-messuna eftir Haydn í flutningi Selkórsins, kammersveitar og einsöngvara. Mjög flottir tónleikar, flutningur verksins magnaður og mikið í þennan viðburð lagt, enda skilaði það sér. Á undan voru reyndlar líka mjög skemmtileg atriði líka, mjög ungir hljóðfæraleikarar að spreyta sig, góður sellóleikur og hreint út sagt glæsilegur flautuleikur. Óli fór á fund Framtíðarlandsins fyrir hönd fjölskyldunnar og var mjög ángæður með fundinn, þannig að kvöldið var frekar gjöfult fyrir okkur fjölskylduna, mér finnst á lykinni að Ari hafi líka komist á hestbak í blíðunni. Ég ætla ekki að segja eins og um daginn að mér finnst vorið vera að koma, en samt, dagurinn í dag var bara fínn. 

Ótrúlegur endasprettur, ekki í X-factor heldur Gettu betur

Vil ekki binda mig of mikið við sjónvarpið, nóg að vera föst í 24 og næstum í Prison Break. Þess vegna fylgist ég helst ekki með spurningakeppnum í sjónvarpi, bara í útvarpi. Veit samt að MR vann í gær, gamli skólinn minn, en endasprettur MH og MK í kvöld var með ólíkindum og ekki hægt annað en fagna með MK. Lofa ekki að horfa á úrslitin, en gæti hent. Og svo sjáum við bráðum hvort atkvæðin mín hafa bjargað Guðbjörgu eða ekki Cool

Flottir tónleikar í Fríkirkjunni - suðurríkjablús og Burt Bacharach

Tónleikar til styrktar Vímulausri æsku í Fríkirkjunni í kvöld voru óskaplega fallegir. Efnisskráin að mestu lágstemmd, fjöldi trúbadora og annarra söngvaskálda fluttu frumsamda tónlist og aðra vel valda tóna. Fyrir okkur sem hrífumst auðveldlega með góðri tónlist voru sveiflurnar miklar milli tára og taktfasts klapps sem minnti mest á stemmningu sem frekar hefði mátt vænta í svörtum suðurríkjamessum. Atriðin voru hvert öðru frábærara en alla leiðina heim hljómaði ,,You gotta move" sem er gamall blús sem ég þekkti fyrirfram aðallega frá Rolling Stones (sem aldrei eru betri en í blúsinum) og svo Hallelujah frá Helga Val trúbador, lag sem ég hef alltaf elskað frá því ég heyrði það fyrst með Cohen. Helgi Valur átti fleira skylt með John Cale útgáfunni, en fyrst og fremst var þetta hans eigin útgáfa. Þessi lög hljómuðu í huganum af því ég þekkti þau fyrir, en svo voru líka minna þekkt lög innan um sem ég gæti alveg hugsað mér að fá á heilann, frumsamin og jafnvel frumflutt. Gæti vel hugsað mér að heyra alla tónleikana aftur til að njóta enn betur. 

Að senda Alan heim úr X-factor - fáránlegt!

Horfi á X-factor eftir því sem ég kemst yfir, enda finnst mér enn meira hæfileikafólk þar en lengst af í fyrirrennurum þessa þáttar. Einn hæfileikaríkasti söngvarinn þar er Alan og nú er verið að senda hann heim, mér finnst það fáránlegt! Hann er að mínu mati meðal þriggja bestu atriðanna í þessum þætti og það að hann skuli hafa lent í botnsæti núna er út af fyrir sig mjög vont. Oft er ég sammála Ellý (auk þess sem hún var hæfileikabolti í Q4U á sínum tíma) en í þessum þætti er ég ósammála ákvörðun hennar. Hún er greinilega að vísa til einhverra annarra þátta en í kvöld, því á forsendum frammistöðunnar í kvöld var hann mun betri en Hara.


Aldrei aftur menningarbindindi

Fyrir nokkrum árum var ég búin að yfirbóka mig svo mikið að ég ákvað að fara í pólitískt, félagslegt og menningarlegt bindindi. Var í krefjandi vinnu og ströngu námi og fann að ég var ekki til skiptanna lengur. Núna er ég í krefjandi vinnu en á lokaspretti í náminu og sprungin á pólitíska bindindinu, það er svo margt að gerast. Félagsbindindið gengur betur, hef losað mig úr flestum félagsmálum og sátt við það.

Þá er það menningarbindindið. Mér tókst hreinlega aldrei alveg að standa við það. Missti mig af og til. Sem betur fer. Annars hefði ég aldrei séð Rómeó og Júlíu hjá Vesturporti, fallegu Gauguin sýninguna í Glypotekinu í Köben, hlustað á Matthíasarpassíuna í Hallgrímskirkju eða málað seinustu málverkin mín. Hins vegar hef ég takmarkað menningariðkunina óhóflega en núna er ég hreinlega komin að þeim punkti að það er ekki hægt öllu lengur. Þannig að ég er farin að tína saman smálegt af því sem ég hef verið að gera í myndlist og á myndir af (sem er mjög tilviljanakennt - hef látið mest frá mér). Byrjuð að reita inn eitthvað smávegis af því á myndasíðurnar. Þeir sem hafa áhuga geta kíkt á það.

grafik


Líka hætt í menningarbindindinu, sem betur fer, ljósmyndasýning Soffíu rokkar

Þessi ár sem ég var í pólitísku bindindi var ég líka í menningar- og félagsbindindi, sem ég hélt að vísu misvel. Núna er ég farin að dreypa á smá menningu, þótt í hófi sé. Skrapp á opnun á ljósmyndasýningu Soffíu Gísladóttur sjávarmegin í Hafnarhúsinu áðan. Þarna er grafíkfélagið með lítinn og skemmtilegan sýningarsal, alveg passlegan fyrir myndirnar hennar Soffíu. Þetta er góð sýning, umhverfið betra en á seinustu sýningunni hennar sem ég sá á Sólon. Sýningin er vel þess virði að skoða hana og ég féll sérstaklega fyrir myndinni af manninum sem er að spila pool. Þeir sem líta þarna við (opið frá fimmtudegi til sunnudags) skilja ábyggilega hvað ég meina.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband