Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Fjölskyldan og fríið

Stuttu sumarfríi að ljúka og allt að smella saman í sameiningu fjölskyldunnar. Nína systir flutt heim frá Ameríku, og ég er bjartsýn á að það sé varanlegt, Hanna mín að koma frá skátamótinu mikla á Englandi í dag og Óli okkar enn ófarinn til Ameríku þar sem hann ætlar að heimsækja Anne frænku okkar, dóttur Nínu. Ari að sækja hestana í Borgarfjörðinn en við vorum þar um helgina og erum svo að fara upp á Skaga í afmælið hennar Gurríar fljótlega. Sem sagt æði.

Sautjándi júní er alltaf sérstakur

Sautjándi júní runninn upp og mörgum eftirminnilegum skýtur upp kollinum. Skrúðgöngur bernskunnar, sautjándi júní á Seyðisfirði 1964 þegar pabbi sagði að Haukur Mortens eða Bítlanirnir myndu spila og Haukur mætti, en ég fékk samt að fara á ballið og vera til klukkan hálf 12 rétt nýskriðin á þrettánda árið. Hvort pabbi þurfti að beita sér til að breyta reglunum veit ég ekki, en við krakkarnir tveir sem vorum þarna eyddum kvöldinu í að flissa og blása upp blöðrur. Á Seyðisfirði var sjómannadagurinn miklu meiri hátíðisdagur, en það skyggði ekkert á þennan tiltekna sautjánda.

Stúdentsárið, þá var frostnótt á sautjándann en úti skokkaði maður með stúdentshúfuna aftur á baki (bandið sem á að liggja framan á svarta hlutanum er nefnilega ágætt til að halda svona sumarhúfum um hálsinn ;-) óformlegheit hippaáranna urðu til þess að það var bara fyndið og gaman að eignast húfu, en svo var aftur á móti annað mál með notkunina. Húfan hefur prýtt marga góða kolla eftir það, einkum í minni ágætu tengdafjölskyldu. Með krakkana okkar nýflutt á Álftanesið, rétt fyrir neðan húsið okkar þar sem þá var sundlaugargrunnur sem síðar var fyllt uppí og laugin færð hinu megin við skólann. Það var heitur og sólríkur dagur. Einhvern tíma lék ég fótbolta í regngalla með hreppsnefndinni, í annað skipti var það hátíðarræðan og einhvern tíma var Ari í reiptogi og fleiri fíflalátum með Lions. Ófáar skrúðgöngur fór maður frá Bessastaðakirkju, meðan krakkarnir voru á skrúðgöngualdrinum.

Og svo var það árið sem ég hélt hátíðarræðuna í Sandgerði, þá nýbyrjuð að skrifa sögu sveitarfélagsins, sem bíður útgáfu í handriti, kemur vonandi út fyrr eða síðar. Það var gaman, enn meira gaman fannst mér þegar fótboltaleikurinn Ísland-Pólland hófs þar, en svo var brennt í bæinn (okkar, Álftanes) með viðkomu í sjoppunni hjá Fitjum, en þar skófluðum við Ari í okkur pulsum. Veðrið var ágætt en allt í einu fauk bíllinn harkalega til og Ari hafði orð á því að hann væri aldeilis farinn að blása og þetta hefði verið snörp vindhviða. Skömmu síðar hringdi nágranninn að norðan og spurði hvernig ástandið væri á Álftanesinu eftir jarðskjálftann. ,,Vindhviða, hvað?" Heima var allt uppistandandi nema ein stytta og enginn í stressinu. Vinir okkar af nesinu sem voru á Selfossi urðu betur varir við skjálftann og í dag heyrði ég að á Arnarhóli hefði mannskapurinn klappað ;-) 

Gleðilega þjóðhátíð! 


Fyrstu myndir komnar inn í albúm

Meðan við drukkum kaffið með smiðnum sem hjálpar okkur að setja hurðirnar okkar uppi á sinn stað, þá setti ég inn nokkrar myndir frá því í gær. Njótið vel, þær eru í albúmi MR72 en svo ætla ég að bæta enn fleiri inn í kvöld eða síðar.Sætar: Inka, Anna Sjöfn, Jenní, Gunna Jó og Áslaug

Ljúft og gott stúdentaafmæli

Mikið óskaplega var stúdentaafmælið okkar ljúft og gott. Þau eru alltaf góð, en þetta var alveg einstaklega skemmtilegt. Þingvallaafmælin okkar (15 ára, 25 ára og núna) eru alltaf sérstaklega vel heppnuð. Góð stemmning, gott jafnvægi, góður tími til að spjalla og rosalega skemmtilegt lagaval hjá hinni stórgóðu hljómsveit séra Hannesar Arnar Blandon. Set inn fleiri myndir fljótlega í sérmöppu en hér til að byrja með ein af okkur í D-bekknum. Og NB þessi var tekin á Þingvöllum um 11 leytið í gærkvöldi!

CIMG0612


Að hitta skólafélagana á fimm ára fresti - og móðga vonandi engan!

Þar sem ég er í fjölmennasta útskriftarárgangi úr framhaldsskóla á Íslandi, fyrr eða síðar, þá hlakka ég mikið til að vakna á sunnudagsmorgun í Valhöll á Þingvöllum og heyra einhvern segja: Var þessi með mér í árgangi? Seinasta þegar útskriftarárgangurinn úr MR 1972 hittist á Þingvöllum ákváðum við Ari að gista þar eftir ballið og núna ætlum við að gera það sama og eflaust hafa fleiri skólasystkini mín fengið sömu bráðsnjöllu hugmyndina eins og seinast. Þar sem ég er hluti af 300 (!) útskriftarfélögum þá fer ekki hjá því að leiðir einhverra okkar hafi legið saman seinna meir og svo komi það á óvart á næsta stúdentaafmæli að, já, þetta er reyndar einhver úr þessu dæmalausa árgangi. 

Ég hef verið svo hundheppin að komast á fimm ára fresti í öll stúdentaafmælin og það hefur alltaf verið mjög vel lukkað. Þegar við vorum 10 ára stúdentar var ég reyndar hryggbrotin eftir hestaslys og Ari að vinna uppi í fjöllum þannig að Ólafur fóstri minn skutlaði mér á Lækjarbrekku, ég þurfti að liggja í aftursætinu á Passatinum hans, til að komast, gat nefnilega bara legið og staðið en ekki setið. Síðan stóð ég til borðs með bekkjarfélögunum í 6-D skan36og loks var farið í Hollywood að hitta alla hina, þangað hlýtur Ólafur að hafa skutlað mér, nema ég hafi lagt undir mig baksæti á leigubíl, ekki man ég það nú alveg. Kjartan Gunnarsson færði okkur bekkjarsystkinunum rósir, eins og hans var von og vísa. 

Seinasta stúdentaafmæli mótaðist talsvert af því að ég þurfti að halda ræðuna og að aflokinni rútuferð var fólk mismunandi mikið til í að hlusta á það sem ég hafði að segja. Tókst að móðga 6-M í heilu lagi, nennti ekki að heyra hvers vegna :-) en fékk mikið af knúsi og fallegum orðum á kvennaklósettinu. Takk stelpur mínar! Ég var búin að segja Markúsi Möller að hátíðarræðurnar mínar væru umdeildar og hann hefði átt að muna það frá gaggó-reunion fyrir 8-10 árum, þegar mér tókst ábyggilega að segja eitthvað annað en fólk ætlaðist til, en samt allt í lagi (held ég). En hins vegar var hann ekki með mér í barnaskóla þannig að ræðan mín frá því að 12 ára bekkurinn hjá Sigríði hittist fór framhjá honum þegar ég mátaði okkur 12 ára rollingana í ameríska unglingamynd, ég skemmti mér vel yfir því og hluti hópsins, en hinn hlutinn er ábyggilega enn að klóra sér í hausnum. Ef fólk vill þægilegar og ,,mainstream" hátíðarræður, vinsamlegast ekki biðja mig, ég reiti alltaf einhverja til reiði. Tókst meira að segja að stíga ofan á tærnar á einhverjum ölvuðum blaðamanni úr Kópavogi þegar ég talaði fyrir minni karla á Þorrablóti hér á Álftanesi. Úpps :-D - En á morgun heldur einhver annar ræðuna og ósköp er ég fegin.

Þar sem ég álfaðist nú gegnum menntaskóla án þess að bragða áfengi og man þar af leiðandi ALLT sem gerðist þar, þá kemur vel á vondan að vera komin á pensilín og þurfa að afþakka alla þá drykki sem ég geri ráð fyrir að verði á boðstólum á morgun. En ég hlakka svoooo mikið til, og svo mun ég muna allt, eins og í gamla daga. Í smáatriðum, hehe!


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband