Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Bróðurbörnin mín með börnin sín fimm og maka í heimsókn í bústaðnum í hellirigningunni

Fékk skemmtilega heimsókn í dag uppi í bústað, Stebbi, Guðrún og Katrín Ólöf, börn Georgs bróður komu í heimsókn með fríðu föruneyti, Margréti konu Stebba og Runólfi, manninum hennar Guðrúnar og ekki má gleyma börnunum fimm, sem öll eru bráðung, Guðrún á Bensa og tvíburana Emil og Elínu og Stebbi á Kötlu Maríu og einn son svo ungan að hann hefur enn ekki fengið nafn. Það var glatt á hjalla í Gljúfraborg eins og sjá má á þessum myndum og ég er enn brosandi allan hringinn.

Margrét með nýja soninn

 

 

 

 

 

 

 

Stolt móðir, Margrét, með nýfædda soninn

Katrín Ólöf og Bensi

 

 

 

 

 

 

 

Katrín Ólöf og Bensi

Emil og Elín, tvíburarnir hennar Guðrúnar og Runa

 

 

 

 

 

 

 

Tvíburarnir Emil og Elín

Guðrún með nýja frænda Stefánsson

 

 

 

 

 

 

 

Guðrún fékk nýja frænda lánaðan

Runi og Elín og Margrét með Emil

 

 

 

 

 

 

 

Runi með Elínu og Margrét með Emil

Guðrún með Emil og Katla María Stefánsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Katla María orðin stóra systir og Guðrún með Emil

Stebbi með nýja soninn og Runi með Emil

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stebbi með nýja soninn og Runi með Emil 

Elín litla komin í boltann

 

 

 

 

 

 

 

Elín litla komin í boltann

 


Seint koma sumir en koma þó ...

Fékk ánægjulega heimsókn í gær, þegar Gunna vinkona mín fyrir norðan komst loksins í ,,útskriftarpartíið" en hún varð á seinustu stund upptekin yfir þýskum gesti á laugardaginn. Þótt margir hefðu nú gjarnan vilja hitt á Gunnu þá er auðvitað alltaf rosalega gaman að fá að einoka hana.

Ómannglögg kona í fýlu

Pælingarnar um vináttu og fleira komu af stað frekari vangaveltum um samskipti fólks í sálartetrinu mínu. Ekki oft sem ég dett í þann fasann (alltaf upptekin) en gaman að prófa. Nema hvað, ég fór að hugsa um það hvað það væri gaman að hafa svona ákveðinn fjölbreytileika í samskiptum, jafnvel við vini sína. Ég er sem sagt EKKI með tékklista sem ég útfylli um skilyrði sem vinkonur mínar þurfa að uppfylla:

Þagmælska x

Góð sál x

Skynsöm x

Laus við afbrýðisemi x

Víðáttuskemmtileg x

Ekki langrækin x

og svo framvegis x

Ónei, síður en svo. Ég á vinkonur sem uppfylla þetta allt saman, aðrar sem hafa marga fleiri kosti, en líka nokkrar sem eru ekki endilega lausar við afbrýðisemi eða þagmælskar, svo dæmi sé tekið, en hafa óteljandi aðra kosti. Það er heldur ekki krafa. Eina sem ég þarf að átta mig á er að segja þessum sem eru ekki þagmælskar ekki leyndarmál sem ekki eiga að fara að flakk. Það er afskaplega auðvelt. 

Og þá er auðvitað að máta sjálfa sig við þennan ekki-kröfulista. Og hmmm, ég er alla vega ekki langrækin, þótt ég sé afskaplega minnug, hins vegar, sem sagt: Man ef á hlut minn er gert en á furðu létt með að fyrirgefa þeim sem ég met að öðru leyti mikils.

Það hefur hins vegar komið fyrir að ég hef einsett mér að vera ekkert að kássast upp á fólk sem mér líkar ekki framkoma hjá, venjulega eru það þá reyndar einhverjir sem ég þekki ekki vel. Og þá vandast málið. Ég er nefnilega svo hrikalega ómannglögg og óskaplega fljót að verða jákvæð. Þannig að einu sinni setti ég minnismiða á náttborðið vegna manneskju sem hafði gert eitthvað voðalega mikið á hlut minn (og barnanna minna reyndar): Muna að ég er í fýlu út í NN! Það virkaði, en ég er viss um að ef ég hefði ekki sett þennan miða á náttborðið þá hefði ég brosað hringinn næst þegar ég hitti viðkomandi. Sem hefði auðvitað verð fullkomlega ótímabært. Eflaust hef ég brosað bæði blítt og oft til þessarar manneskju síðan þar sem ég er löngu hætt að þekkja hana í sjón.

Eitt sinn lenti ég í orðaskaki við náunga sem mér er ekkert sérlega um gefið, hitti hann svo á fundi og brosti mínu blíðasta þar til ég sá undrunarsvipinn á manninum, þá áttaði ég mig á því að þetta var ekki Lionsfélagi mannsins míns, heldur hinn. Þannig að mórallinn í sögunni er, það þýðir eiginlega ekkert að rembast við að vera í fýlu ef maður er ómannglöggur, og mér leiðist líka svo rosalega að vera í fýlu. En ég lofa engu ... ;-)


Vinkonur

Ég á ábyggilega alveg óvenju stóran og skemmtilegan kunningjahóp, en ég er líka svo ljónheppin að eiga nokkrar alveg rosalega góðar vinkonur. Sumar meira að segja náskyldar mér. Við sumar er ég  alltaf í tengslum, aðrar týnast um stund og finnast svo aftur, en þær þekkjast alltaf á því að það er eins og það hafi aldrei orðið hlé. Það er bara hægt að setjast niður og tala um tilveruna eins við við höfum hist í gær. Ekkert endilega þetta gamla góða, þótt það sé auðvitað bæði gamalt og gott, heldur tilveruna hér og nú og jafnvel í framtíðinni. Systir mín heldur því reyndar fram að ég eigi vinkonur af báðum kynjum og þá má til sanns vegar færa, man alla vega eftir einni eða tveimur, en þær uppfylla alveg það sama.

Sé því stundum haldið fram að vinátta kvenna og karla sé mismunandi, það er að vinir (tveir karlkyns) tali ekki saman um það sama og vinkonur. Hmmm, er þá verið að meina að öll vinkvennasett tali alltaf um það sama? Ef svo er þá eru þau sett sem ég á aðild að frávik frá reglunni. Fólk er bara misjafnt og ef ég lít á vináttuna sem þeir tveir karlmenn sem ég er mest í kringum hafa skapað í kringum sig, þá get ég ekki séð að það sé neitt annað en bara jafn fjölbreytt dæmi og vinátta mín og minna góðu vinkvenna. Þannig að ég verð eiginlega að hafna þessari kenningu.


Hvernig kveður maður vin?

Okkur sem bloggum er það tamast að nota orðin til að lýsa hugmyndum okkar og stundum einnig tilfinningum. Að undanförnu hef ég þó lítið getað bloggað og ástæðan er einfaldlega sú að veikindi náins vinar okkar Ara míns, Ársæls Karls Gunnarssonar, sem áttu að enda með sigri, tóku óvænta og hraða stefnu í ranga átt og hann dó eftir stutta legu þann 26. apríl síðastliðinn. Ég hef áður þurft að kveðja vini hér á blogginu og það er aldrei auðvelt. Ekki eru nema 19 mánuðir síðan Anna, eiginkona Ása, lést eftir erfiða sjúkdómslegu og ég minntist hennar á gamla blogginu mínu. Börnin þeirra fjögur eru nú á aldrinum 15-35 ára og það er erfitt að sætta sig við að þau hafi þurft að ganga í gegnum þennan óskaplega missi.


Alltaf úti að borða

 

 

 

 

 

 

 

Það eru ekki nema rétt rúmlega tveir mánuðir síðan við sátum saman glöð og kát á Kanarí, Ási, Gunni pabbi hans, Baldi frændi hans, Binna frænka hans, Inga kærastan hans Gunna (báðar svolítið of mikið í hvarfi), ég og Ari 

Við Ari settum saman minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag og ég held ég hafi engu við hana að bæta:

Ársæll Karl Gunnarsson:

Það stóð aldrei annað til en að fá að eldast saman. Áratuga löng og góð vinátta tveggja fjölskyldna, fjölskyldunnar hans Ása og okkar í Blátúni 1 á Álftanesi er mikils virði á þessari stundu. Við áttum áreiðanlega öll von á að fá að verða gömul. Það sem fylgir okkur, sem eftir lifum, um ókomna framtíð eru yndislegar minningar. 

Það sópaði að Ása þegar hann birtist í hesthúsunum á Álftanesi skömmu eftir að hann fluttist aftur á nesið upp úr 1980. Ara og honum varð strax vel til vina og fljótlega varð sú vinátta að vináttu tveggja fjölskyldna. Börnin okkar voru á sama reki, en Ási og Anna áttu bæði yngri og eldri dóttur. Þetta var vinátta sem bara dýpkaði eftir því sem árin liðu.  

Vinátta þarf ekki að byggjast á því að vera alltaf sammála um allt. En um grundvallarlífsgildi Ása, ríka réttlætiskennd og skoðanafestu, þurfti aldrei að deila.  Hann sá aldrei ástæðu til að liggja á skoðunum sínum, ef honum fannst eitthvað í ólagi, en frásagnarsnilld hans var slík að gagnrýni hans var fyndin og hárbeitt. Hann lá heldur ekki á skoðunum sínum ef honum líkaði eitthvað vel og var kátur í góðra vina hópi.  Best lét honum að setja fram hugsanir sínar í góðri stöku og varð sífellt snjallari í þeirri list. Hátindurinn var nú í vetur er hann orti um samferðamennina í hesthúsunum og flutti á Góugleði hestamannafélagsins Sóta. Sumar vísurnar urðu til á sjúkrahúsi á Kanaríeyjum er hann var farinn að kenna aftur meinsins sem dró hann til dauða á ótrúlega skömmum tíma.  

Það fór ekkert á milli mála að þegar Anna hans Ása féll frá fyrir hálfu öðru ári var það áfall fyrir alla. Ef hægt er að segja um einhver hjón að þau hafi verið eitt, þá átti það við um þau. Hann var þó aldrei í nokkrum vafa um að hann ætlaði að standa sig í hvívetna í því mikilvæga hlutverki sem hann gegndi gagnvart fjölskyldu sinni. Hann horfði fram á veginn, var orðinn slyngur í ýmsu sem Anna hafði alltaf séð um, svo SMS-skilaboðum og að glíma við mismunandi skapgóða hraðbanka, auk þess að reka fallega heimilið þeirra af miklum myndarskap. Mikilvægast af öllu var þó að vera til staðar fyrir börnin og fjölskyldur þeirra. Hann var stoltur af þeim, enda full ástæða til, umhyggjusamur og skildi eftir mikilvægt vegarnesti: Lífsspeki sem hann innrætti þeim og góð ráð sem hann átti nóg af.

Við fjölskyldan í Blátúni 1 þökkum fyrir allar góðu samverustundirnar með Ása, bæði hér heima og í fríunum okkar á Kanaríeyjum á undanförnum árum. Þar skapaðist merkileg stemmning í kringum þau Ása og Önnu, stórfjölskyldan og vinirnir fjöldamörgu mynduðu glaðværa heild. Ási átti stóra og skemmtilega fjölskyldu og var með eindæmum vinamargur. Í hesthúsunum verður aldrei allt eins og fyrr, og þó, sögurnar hans Ása lifa. Og þótt við fáum ekki að eldast saman þá mun minningin um Ása, sögurnar, vísurnar og hlýjan sem frá honum stafaði fylgja okkur öllum eins lengi og við fáum að vera hér á jörðunni.

Hugur okkar og samúð er með fjölskyldunni hans Ása sem stóð eins og klettur við hlið hans í veikindunum.

Fjölskyldan Blátúni 1                         


Er sumarið kom yfir sæinn ...

Þá er komið löglegt sumar. Gleðilegt sumar öll!

Fallegur morgunn þótt himinn væri ekki alveg heiðskír (hver er yfir höfuð heiðskýr?) og það er alveg eins hægt að trúa því að það sé að koma sumar. Fyrir næstum ári fór ég norður yfir heiðar dagspart og lenti í 17 stiga hita á Akureyri þegar verið var að heiðra hana Málmfríði Sigurðardóttur í tilefni áttræðisafmælisins. Núna eru vinir og fjölskylda líka í forgrunni í tilverunni og það er ósköp indælt. Í blíðu og stríðu sagði einn úr þeim hópi um daginn og var reyndar að vísa til síns unga hjónabands, en ég held það sé bara hægt að yfirfæra það á alla vináttu og fjölskyldubönd og þannig á það að vera. Engar vangaveltur um fréttir og fjölmiðla núna og ég ætla að vona að allir njóti dagsins með vinum sínum og fjölskyldum.

Og ef einhver skyldi ekki þekkja hið fallega lag: Dagný, þá er það einmitt lagið sem hefst svona: Er sumarið kom yfir sæinn/og sólskinið ljómað' um bæinn/  ... lag sem á svo ljómandi vel við í dag og vonandi alla daga.


Ferming í fjölskyldunni og lausar skrúfur

Við Ari eigum alveg rosalega stóra fjölskyldu, reyndar aðallega hans megin. Flest árin er þvi verið að ferma einhver börn okkur nákomin. Á þessu ári held ég þó að það sé aðeins ein ferming, en reyndar frétti ég hlutina oft seinust, þannig að allt er mögulegt í þem efnum. Kjartan systursonur minn er sem sagt að fara að fermast í dag.

Fermingargjöfin frá okkur frænkunum og fjölskyldum var löngu skipulögð og keypt loksins í gær, en afgreiðslumaðurinn í tölvubúðinni bauðst (mjög vingjarnlega) til að setja saman það sem þurfti af gjöfinni (sem ekki er gefið upp hver er). Þegar heim var komið og farið að huga að gjöfinni hafði blessaður drengurinn ekki gert þetta betur en svo að skrúfur vantaði og gripurinn skrölti. Nokkrar mínútur síðan búðinni var lokað og ekkert svar símleiðis. Ekki opin á morgun. Illt í efni. Byko og Elko og alls konar -ko selja ekki svona skrúfur. En með því að ráðast á aldna heiðurstölvu innanhúss er nú loks búið að bæta úr þessum lausu skrúfum. Hjúkk, leiðinlegra ef það hefði ekki gengið upp.

Og svo er bara að mæta í veisluna á eftir, alltaf gaman að sjá fólkið sitt og fermingarbarnið auðvitað í aðalhlutverki.


Vinir og fjölskylda

Held að  ég geti aldrei sagt það of oft hvað ég er lánsöm að eiga svona góða vini og fjölskyldu. Það er alveg ástæðulaust að vera alltaf að nefna það, en svona einstaka sinnum, er það ekki bara allt í góðu? Wink

Afmæli Óla, sonar okkar, mmmmm súkkulaðiveisla í boði afmælisbarnsins

Óli sonur okkar Ara er 29 ára í dag og þurfti reyndar að halda tölu í málstofu í stjórnmálafræði í dag, þannig að hann vaknaði snemma og átti mjög annríkt í dag. Kom nú samt ekki í veg fyrir að hann bakaði stórkostlegar súkkulaðikræsingar ofan í okkur fjölskylduna, m.a. súkkulaðibalukökur með gráðosti. Syndsamlega gott. Svo fer hann út að borða með vinum sínum í kvöld, sem er orðinn nokkuð fastur vani á afmælisdaginn hans, enda mjög skemmtilegir vinir sem hann á (alla vega að mínu mati). Ekki spillti fyrir að systir hans í Ungverjalandi lengdi afmælið hans um klukkustund með því að óska honum til hamingju kl. 11 í gærkvöldi, en þá var afmælisdagurinn genginn í garð hjá henni.

Þessi dagur hefur verið rosalega góður í alla staði, þrátt fyrir mikið annríki fjölskyldunnar, þannig að ég mæli með sem flestum afmælisdögum Óla, t.d. 4. hvers mánaðar? ... það væri auðvitað ágætt ;-) 


Gaman að vera Álftnesingur - Góugleði hestamannafélagsins Sóta heppnaðist einstaklega vel

Hestamannafélagið Sóti á Álftanesi er einstaklega skemmtilegur félagsskapur og heldur geysilega skemmtilega Góugleði ár hvert. Þetta er sú samkoma í skemmtanalífi Álftnesinga sem ég reyni að missa ekki af, óvirk hestakonan. Góugleðin í ár var engin undantekning, vel heppnuð með mexíkósku ívafi, miklum söng, miklum dansi, góðum mat og virkilega góðum kveðskap. Pínulítið félagsheimili Sóta var troðfullt af góðri stemmningu.

Myndirnar og myndbandsskotið tala vonandi sínu máli. Fleiri myndir í albúmi.

Steina formaður og Eyrún báru fram tequila og sumir fengur fult af því

Steinunn formaður og Eyrún báru fram tequila í flottum kúrekastíl.

 

 

 

 

 

 

 

Gunnar Valur á gítar, feðgarnir Toni og Kjartan og Steinunn formaður leiddu sönginnGunnar Valur á gítar ásamt feðgunum Tona og Kjartani og Steinunni formanni leiddu sönginn.

 

 

 

 

 

 

 

Og hér má heyra ómfagran sönginn, sýnishorn þar sem Jörundur er á rölti milli borðanna en í bakgrunni söngvararnir. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband