Málþing Möllu á morgun og Guðfríður Lilja á sunnudagskvöldið

Stefnir í ótrúlega vinstri græna kvennahelgi. Á morgun ætla ég að kíkja á málþing á Akureyri sem VG heldur til heiðurs Málmfríði vinkonu minni og stórstjörnu úr kvennabaráttunni og VG veröldinni, auk margra annarra afreka hennar á lífsleiðinni. Málmfríður er ein allra skemmtilegasta kona sem ég hef kynnst, eftir fyrstu kosningarnar sem Kvennalistinn tók þátt í, sátum við næturlangt ásamt fleiri kvennalistakonum á Selfossi og sungum saman íslensk sönglög milli þess sem við rifjuðum upp svona 50-100 uppáhalds ljóðin okkar. Ég varð uppnumin af því að kynnast þessari skemmtilegu konu þá og er enn þakklát fyrir að leiðir okkar lágu saman gegnum kvennabaráttuna.

Síðar vorum við saman á þingi um hríð og fyrsta haustið mitt fórum við einmitt um kjördæmið hennar, þar sem hún þekkti alla og ég meira að segja suma, enda alin upp annars vegar með mömmu og fóstra mínum á kúasýningum og hins vegar með pabba og stjúpu minni á Seyðisfirði, en leiðin lá einmitt um núverandi Norðausturkjördæmi. Gleymi aldrei deginum þegar við keyrðum frá Þorshöfn um Melrakkasléttu með viðkomu á Raufarhöfn, sáum heim til Oddstaða, þar sem ættbálkur vinkonu minnar hefur aðsetur á sumrin, hittum síðan Pétur skólastjóra á Kópaskeri sem var með hörkusamstarf norrænna skóla gegnum tölvusamskipti og smitaði mig af eldmóði sínum, en í ljósi þess að þetta var haustið 1989 (!) þá var það auðvitað rosalegt að skipuleggja internetsamskipti án internets, en Pétur kallaði barnið sitt Imbu. Þeir sem vilja vita meira geta fundið það á þessum link (innsetning linka er óvirk, þannig að hér er slóðin): http://www.ismennt.is/main.asp?id=1&uid=1 Málmfríður var án efa ein af þeim sem hvatti Pétur hvað mest áfram í þessu frábæra starfi. 

En alla vega, dagurinn var ekki hálfnaður,  viðtalstími á Húsavík, sýna mér Ásbyrgi, smá heimsókn heim í Reykjadalinn og svo var brunað á Akureyri því þar var fundur kl. 21. Malla hvatti mig áfram á bílaleigu-Subaru-num eins og staðan klár, en einhvern veginn hafðist þetta. Mikið óskaplega var þetta skemmtileg ferð og allir sem Malla þekkti á leiðinni, allt sem hún vildi sýna mér, gerði ferðina ógleymanlega og í leiðinni vorum við auðvitað líka að sinna kvennapólitíkinni. Ég hlakka til að fara á málþingið á morgun, húrra VG að standa fyrir því.

Meira seinna um sunnudagskvöldið, en þá verður Guðfríður Lilja gestgjafi fyrir VG konurnar í Kraganum (kl. 20 í Hamraborg 1) og ég hlakka mikið til þess kvölds. Það er svo indælt að sjá allar þessar snilldarkonur koma til liðs við VG, fyrr og nú. Meira um það seinna.  

VGkonur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

anno fékk ég úthlutað hjá Pétri Þorsteinssyni og það var árið 1990. Eins og sést hér á blogginu mínu þykir mér svo vænt um það að ég skil það helst aldrei við mig  Pétur kom til mín í heimsókn þar sem ég bjó á Vopnafirði og tengdi mig við Imbuna sína, þaðan sem ég síðan leiðsagði KHÍ-nema með lokaverkefnið sitt. Fyrsta fjarleiðsögn í kennaranámi á Íslandi gegnum netið sem ég veit um. Og auðvitað var það meistari Pétur sem gerði það mögulegt. Hann er Frumkvöðullinn með stóra F-inu í netmálum á Íslandi. Og hann bjó á Kópaskeri , bæði stórskemmtileg staðreynd og vel við hæfi  

Anna Ólafsdóttir (anno) 28.4.2007 kl. 22:12

2 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Við Malla náðum að rifja upp ferðina til Péturs og allra hinna í dag og hún var einmitt að minna mig á hvað það var ótrúlegt hve margir litu framhjá því merkilega starfi sem hann var að vinna. Fyrir mig var þessi ferð hrein hugljómun og mikilvægur liður í því sem ég seinna tók mér fyrir hendur í hugbúnaðarbransanum, þannig að fingraför hans liggja greinilega víða, og auðvitað var stór hópur líka sem kunni að meta hann, sem betur fer. Heppin að hafa fengið þetta fína nafn. 

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 28.4.2007 kl. 22:59

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Frétti einhvern tíma að úti í heimi væri hald fólks að Kópasker væri næst á eftir Reykjavík í stærð vegna lénsins @kopasker.is netfanganna. Síðar hét það Ísmennt - ég fékk "ingo" hjá Pétri, líklega 1993, og ég náttúrlega held því þar sem ég get. Gaman að hitta þig í Amtinu í gær

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 29.4.2007 kl. 15:51

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband