Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Afhjúpun og alvarlegt grín

Þetta er með betur heppnuðum göbbum sem ég hef heyrt um. Alla vega verð ég að viðurkenna að mér er stórlega létt að þetta nýrnalotterí var ekki alvara í þeim búningi sem það var sett fram. Hins vegar afhjúpar þetta nokkrar staðreyndir: Í fyrsta lagi að það er ekki lengur útilokað að svona þáttur verði settur í loftið (auðvitað ekki þessi, en eitthvað í sama dúr). Í öðru lagi virðist þurfa að grípa til æði róttækra ráða til að vekja athygli á verðugum málstað. Og í þriðja lagi, sjúklingarnir sem bíða, bæði þeir sem tóku þátt í gabbinu og allir hinir, þeir eru ekki búnir að fá úrlausn. Þannig að öllu almennilegu gamni fylgir alvara og í þessu tilfelli dauðans alvara. 
mbl.is „Raunveruleikaþáttur“ um nýrnagjafa reyndist gabb
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og ekki brást Guðfríður Lilja ...

Þetta er líklega skemmtilegasta stefnuræðuumræða sem ég hef fylgst með. Ekki brást Guðfríður Lilja þeirri trú sem ég hef á henni, enda átti ég ekki von á því. Hún talar um umhverfismál af þeirri brennandi sannfæringu og þekkingu sem sæmir þessum málaflokki. Og af lífi og sál. Þetta kvöld var upplifun og ég er til í að sætta mig við Vinstri græna stjórnarandstöðu með þessa glæsilegu málsvara í fararbroddi. Vonandi verða áhrif vinstri grænna á þessu kjörtímabili jafn öflug og þau á umræðuna í aðdraganda kosninganna, þá verður jafnvel hægt að lifa með þessari ríkisstjórn, af því hún VERÐUR að hlusta. 

Katrín Jakobsdóttir segir sannleikann betur en flestir aðrir í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Þótt mér verði tíðrætt um Guðfríði Lilju (sem á þegar þetta er skrifað eftir að tala) þá merkir það svo sannarlega ekki að ég geri mér ekki grein fyrir þvílíka perlu við Vinstri græn eigum í Katrínu Jakobsdóttur. Hins vegar hefur baráttan fyrir því að koma Guðfríði Lilju á þing (fast þingsæti án þess að missa Ögmund út) verið mér mjög hjartfólgin, meðan aldrei var neitt efamál að Katrín flygi inn með glæsibrag, enda ,,uppgötvuð" mun fyrr innan okkar ágætu hreyfingar.

Katrín sýndi svo sannarlega hvers vegna hún er okkar stærsti spútnik í stuttri og hnitmiðari ræðu núna rétt í þessu. Hún hefur feril sinn á alþingi með því að sýna hversu létt hún á með að grípa, vinna úr og orða það sem segja þarf, hnitmiðað og svo undan svíður. Engu orði ofaukið, allt rétt sagt og svona ótrúlega vel orðað. Þótt mér finnist gott innihald ræðu ávallt mikilvægara en flotta umgjörðin þá hlýnar mér alltaf um hjartarætur þegar hvort tveggja getur farið saman, og það þótt verið sé að bregðast við orðum sem falla kannski ekki nema tíu, fimmtán mínútum fyrr. Það þarf mikla hæfileika til þess, og þá hefur Kartrín svo sannarlega til að bera.

Mikið er gaman að vera ekki sá pólitíski munaðarleysingi sem ég hélt að ég yrði við sundrungu Kvennalistans. Mikið er þægilegt að sitja með tölvuna í fanginu og fylgjast með þessum mikilvæga vinnustað sem ég þekki svo ágætlega, líkaði ávallt vel við og sakna þó ekki með trega heldur bara með svolítilli gleði yfir að sjá allt þetta yndislega fólk orða skoðanir mínar á svo frábæran hátt. 


Yfirgangsstjórn í uppsiglingu - vonandi ekki? En SVO gaman að sjá Guðfríði Lilju í þingsal!

Vona að ég hafi eitthvað misskilið fréttirnar. Heyrði samt ekki betur en að nú ætti að nýta stóran meirihluta til að valtra yfir minnihlutann, það er að hætta að taka mál sem þurfa afbrigði fyrir í samkomulagi. Kannski var þetta bara flumbrugangur, Árni Páll var að vísu að reyna að sannfæra okkur um að ekki ætti að beita ofríki. En sannarlega er þetta óheppileg byrjun. 

Var að hlusta á Steingrím J. í sjónvarpinu og tek heilshugar undir með honum að hlutverkið sem VG er núna í er eitt hið mikilvægasta sem samtökunum hefur nokkru sinni verið fengið, að halda aftur af hægri öflunum og gráu öflunum sem virðast hafa orðið ofan á í Samfylkingunni. Ég skil ekki alveg hvað Árni Páll á við með loðnum ummælum um andstöðu við Norðlingaöldu í ,,núverandi mynd". 

Sé að Guðfríður Lilja er núna á sumarþinginu, Ögmundur hefur greinilega tekið inn varamann. Sjón sem gleður mig óneitanlega, en þau ættu auðvitað að vera þarna bæði, jafn ótrúlega jafnhæfa einstaklinga er erfitt að finna. Það varð hins vegar ekki niðurstaða kosninganna og heldur ekki þess lotterís sem röðun jöfunarsæta alltaf er.

Ingibjörg Sólrún talar eins og hún sé ekki í þeirri ríkisstjórn sem hún er, um jafnréttismál eins og hún sé ekki í samstarfi við flokk sem hefur bara pláss fyrir eina konu í ráðherraliði sínu, um umhverfismál eins og hún hafi ekki heyrt mótbárur Sjallanna um stóriðjustopp og um Íraksmálið eins og við séum ekki enn á lista hinna ,,staðföstu þjóða".

Mér líkar svo sannarlega vel við tóninn hjá henni í þessari ræðu og virklega ánægjulegt að heyra hann (og hún ræddi ekki um ESB, það gleður mig sérstaklega, eða datt ég út andartak?). En mér líkar ekki við þann félagsskap sem Ingibjörg Sólrún er í núna, hvorki í eigin flokki meðal harðlínu-stóriðjusinnaðra hægrikrata, né heldur bandamanna þeirra sem eru í hinum stóra hægriflokki Íslands. 

 


Gestir sem koma á bestu eða verstu stundu

Merkilegt hvað sumir gestir (vinir og vandamenn meðtaldir) hafa lag á að koma þegar síst skyldi, þegar allt er á hvolfi hjá manni, einhver rosalega upptekinn og þar fram eftir götunum.

En merkilegt nokk, það er líka til fólk sem er alger andstæða þessa, kemur bara þegar vel stendur á. Bróðir minn er einn þessara manna sem betur fer stundum frekar óvænt í heimsókn, en það merkilega er, helst ekki nema mjög vel standi á. Held hann hafi aldrei komið þegar við erum rétt að þjóta út úr dyrunum, þegar tíminn er að hlaupa frá manni í einhverju verkefni, og reyndar vill yfirelitt svo til að ég er rétt búin að gera einhverja (minni háttar) lagfæringu eða tiltekt heima fyrir þegar hann birtist. Um helgina vorum við loksins að ryðja það sem eftir er af efri hæðinni og flota, og einmitt í gærkvöldi þegar við vorum ekki með neitt planað í framkvæmdum vegna praktískra mála, þá dúkkaði Georg bróðir upp ásamt yngri dóttur sinni. Ekki nóg með það, ég var nýbúin að vinna mig í gegnum hrúgu sem hafði safnast smátt og smátt fyrir á eldhúsborðinu og koma fyrir fallegum dúk og skálum á borðinu í staðinn. Merkilegt. Vissulega margt ógert hér á byggingasvæðinu, en þetta bara klikkar ekki! 

 


Sumarþing framundan - prófsteinn á æði margt

Styttist í sumarþing og það verður aðalæfing fyrir komandi kjörtímabil. Hvort við megum eiga von á mildum áherslum eða valdhroka hinna stóru, hvernig hin stórfjölbreytta stjórnarandstaða mun virka. Ég er ekkert viss um að það sé nauðsynlegt eða æskilegt að svona ólíkir hópar stilli endilega saman strengi sína, en ég treysti okkar fólki (VG) alveg til að finna sinn stíl. Það er mikill ábyrgðarhluti að vera í stjórnarandstöðu, og því miður erum við ,,vanir menn (konur og karlar)" í því hlutverki. 

Helgi húsbyggjenda

Ég komst að því að þetta var helgi húsbyggjenda þegar ég heyrði af því að Húsasmiðjan væri opin alla Hvítasunnuna, ekki einu sinni lokuð á Hvítasunnudag. Hefur ábyggilega komið sér vel fyrir einhvern, en samt, mér fannst þetta pínulítið skrýtið. hvitasunna1Við höfum vissulega tekið virkan þátt í þessari húsbyggjendahelgi, sem og fyrri hvítasunnuhelgar, og verið að tæma fullt af byggingadóti úr miðrými á háaloftinu þar sem koma skal falleg fjölnotastofa, við erum svo mikil stofufjölskylda hvort sem er, alltaf eins og allir safnist saman á einn stað, hvað sem verið er að gera. Þróun stofunnar verður síðan að koma í ljós eins og annað. En alla vega, miklar framkvæmdir víða, Addi mágur og Hjördís að leggja parket austur í sveitum og mér heyrist að fleiri hafi orðið framkvæmdagleðinni handgengnir. Sumarbústaðurinn bíður á meðan, seinustu hvítasunnu tengdum við rotþró þar á bæ, þarseinustu vorum við greinilega að vinna í sökklunum, þannig að alltaf er eitthvað þessu framkvæmdageni tengt að gerast um hvítasunnuna. Svo er bara að ímynda sér að allt byggingadraslið sé horfið uppi á lofti hjá okkur og þá er þessi mynd frá því á seinasta ári í fullu gildi. hvitasunna2

Pólitísk þreyta um hvítasunnu?

Merkilegt, það er eins og þreytutóns gæti í pólitískri umræðu um helgina. Nóg er að viðtölum i blöðum og fjölmiðlum en fátt nýtt að sjá og heyra, Halldór vildi Guðna ekki, ok við vissum það öll, Ingibjörg Sólrún er ættgreind á einum stað Guðlaugur Þór og Þórunn Sveinbjarnar í viðtali á öðrum stað, en engra mikilvægra spurninga spurt. Hver er á móti forvörum? Er það merkilegasta umhverfisverndarmálið að færa eigi matvælaeftirlitið til landbúnaðar-útvegs? og eitthvað annað til umhverfisráðuneytisins? Össur reynir að koma því á framfæri að Norðlingaölduvirkjun sé út af borðinu, en þegar Landsvirkjun segir annað, hverju trúir fólk? Vonandi hefur Össur rétt fyrir sér og við sjáum enga hártogunarlausn.

Ég er ekki þreytt, nema kannski á þessu máttlausa tali í fjölmiðlum. Geri orð Arlo Gurthie að mínum þegar hann segir eitthvað á þessa leið í lok hins endalausa lags (18 mín 20 sek langt): I can carry on, I'n not proud, nor tired ...


Allt betra en að þegja ef manni blöskrar

Þessi ljóti leikur hefur verið fjarlægður ar torrent.is og umræðan sem spratt held ég að hafi verið góð. Anarkíska hjartað mitt gleðst alltaf þegar ég heyri hvað það eru margir sem vilja ekki endilega stýra samfélaginu bara með boðum og bönnum heldur með umræðu og ábyrgð. Kropotkín anarkistakenningasmiður væri eflaust stoltur af umræðunni á blogginu að undanförnu og jafnvel kjarnakvendið Emma Goldman hefði ábyggilega verið búin að blanda sér í umræðuna, ég þarf aðeins að pæla meira í hvað ég held að hún hefði sagt. En sem sagt, sumir aðstandendur frelsis á netinu (eins og torrent.is hlýtur að telja sig vera) vildu frekar láta lögguna taka sig en að taka sjálfstæða og ábyrga afstöðu, og það er ákveðin yfirlýsing. Þá veit maður hverjir þrá netlögguna heitast, skrýtið!

Dýrmætu tækifæri til að taka afstöðu gegn kynferðisglæpum hafnað - hugleysi eða hugsunarleysi?

Umræða um frelsið á netinu hefur alltaf verið óskaplega brothætt. Ég held að flest hugsandi fólk sé á móti nauðgunarleikjum, í hvaða birtingarmynd sem þeir koma. Um það þarf varla að deila. En mér fannst merkilegt að heyra í kvöld í fréttum viðtal við einstakling (sem ég átti von á að væri hlynntur frelsi á netinu) segja að hann væri ekki tilbúinn að taka net-naugunarleikinn af torrent.is nema að honum yrði skipað það af einhverjum vörðum laganna. Á það sem sagt að stýra móralnum á netinu hvort einhver lög eru til eða ekki sem leyfa eitthvert fyrirbæri eða banna það. Lög eru misströng, misréttlát og misvirk. Í einu landi er það í takt við lög að drepa menn (gengur undir dulnefninu dauðarefsing) í öðru landi er allt leyft ef það er ekki sérstaklega bannað. Mér finnst að netverjar eigi að setja markið hærra en svo að bíða eftir því að löggan taki þá. Vissulega þrífst margt og margvíslegt á netinu og ég er innilega sammála því að stundum dugar ekkert nema vald laganna til að stöðva menn, eins og til dæmis barnaníðinga. En mér finnst fáránlegt að skýla sér bak við lögin og stilla sér upp við hlið barnaníðinganna sjálfviljugur að óþörfu, ,,þetta er ok á meðan ég er ekki tekinn af löggunni"-stíllinn. Það er vitað að krimmar, meira að segja barnaníðingar hafa sloppið undan lögum út af tæknigöllum, skorti á sönnunargögnum eða öðru, en það þýðir ekki að ekki eigi að stoppa þá. Það er líka vitað að sá möguleiki er fyrir hendi að menn séu dæmdir í harðari refsingu fyrir þjófnað af hvers konar tagi, hugbúnaðar-, skartgripa-, peninga- og alls konar þjófnað en fyrir kynferðisglæpi. Mér finnast skráaskipti fín hugmynd, allt frá því ég fór fyrst að kíkja á gamla Napster, en mér finnst ekki að það firri þá sem skipulegga skráskiptin ábyrgð á að hugsa og íhuga sína samfélagslegu ábyrgð. 

Einu sinni var sagt að fyllibytturnar kæmu óorði á brennivínið. Nú er löngu orðin þjóðarsátt um miklu þroskaðri hugsun gagnvart vímuefnum, hugsun sem byggir á íhlutun þegar í óefni er komið, ábyrgð og ýmsum aðgerðum og leiðum sem útheimta velvilja, þroska, hugsun, yfirvegaðar aðferðir og vitund um að til sé eitthvað sem er jákvæðara en annað.  Lýsi eftir sams konar móral á netinu, íhlutun og ábyrgð netverja sjálfra. Hvar er allt liðið sem er á móti netlöggunni, er það kannski farið að kveina: Ég vil ekki sýna ábyrgð, ég vil bara að löggan taki mig!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband