Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Yfirbragð eða merking? Fegursta orð íslenskrar tungu valið

Ég hef fengið margar skemmtilegar tilnefningar og athugasemdir í leitinni að fegursta orði íslenskrar tungu. Rökstuðningurinn sem fylgir tilnefningunum er svo skemmtilegur og oft svo fallegur líka. Og svo koma spurningarnar: Eiga tilnefningarnar að byggjast á merkingarlegri fegurð, eða hljóðfræðilegri? var ein spurningin sem ég fékk. Því er til að svara að keppnin lýtur sínum eigin lögmálum og fer þangað sem þátttakendurnir leiða hana. Mitt er eingöngu að leggja til rammann. Mér sýnist á tilnefningunum að hvort tveggja ráði för, ekki síður merkingin, það eru æði mörg jákvæð og skemmtileg orð tilnefnd. Húmor og vangaveltur um tungumálið hafa líka greinilega áhrif.

Í fyrri tilraunum mínum, sem aldrei náðu þessu flugi sem við erum komin (saman) á núna, þá held ég að hljóðfræðileg fegurð hafi algerlega ráðið ferð. Mig minnti endilega að himinblámi sem Gurrí tilnefndi hefði sigrað, en það orð fékk bara 3% atkvæða. Blikur var orðið sem sigraði þar, jöfn í öðru og þriðja sæti voru öldugjálfur og brynja. 

Tvöfalt afmæli truflaði mig í að taka saman lista yfir þær tilnefningar sem eru komnar inn, en þær eru allar sjáanlegar í athugasemdakerfinu. Spurning hvort ég á að raða orðunum eftir því hvenær tilnefningar bárust eða í stafrófsröð? Auðvitað væri mest gaman að raða þeim eftir því hvernig þau passa saman, mér finnst til dæmis varla hægt að setja saman orðin jæja og himinblámi. En eflaust er það smekksatriði. Röðun er merkilegt fyrirbæri, bæði í nýja faginu mínu, tölvunarfræði, og eins í hugvísindum og listum, þar sem ég á bakgrunn. Bara eitt atriði, hvernig fólk raðar bókunum sínum í hillur, er heilmikil stúdía.


Gott viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu

Síðdegisútvarpið á rás 2 tók viðtal við Ingibjörgu Sólrúnu í tilefni af ferð hennar sem utanríkisráðherra til Afríku þar sem henni tókst að hitta flesta eða alla Afríkuleiðtogana á einu bretti. Hef áður lýst ánægju minni með þá sýn sem fram kom um daginn hjá henni um að það geti verið framboði Íslands í vil að landið er utan Evrópusambandsins. Með því er ég ekki að leggja dóm á hversu heppilegt er að Ísland fari í þá stöðu, meðan við erum svona óttalega höll undir utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

En það er annað úr þessari för sem mér fannst gott að heyra, það var hreinlega tónninn í viðtalinu. Það er ekkert launungarmál að Íslendingar hafa verið miklir eftirbátar nágrannaþjóðanna í framlagi til þróunaraðstoðar og það er greinilegt að nýr utanríkisráðherra okkar er ekki par stolt af því. Finnst reyndar markmiðin um að komast upp í 0.35 % af þjóðarframleiðslu á næstu árum greinilega ekkert of metnaðarfull. Það var talsverður sannfæringarkraftur í því þegar hún sagði að Íslendingar hafi sko alveg efni á þessu. Ég hef talsverða trú á að hún eigi eftir að vekja Íslendinga upp af þessum skammarlega doða og reyndar er ég ekki frá því að forsætisráðherra gæti verið sama sinnis, þótt flokkssystkini beggja dragi kannski lappirnar. Flott! Og svo benti hún á skemmtilegt atriði, stemmningin hafði nefnilega minnt hana á kvennabaráttuna, nýtt og baráttuglatt afl. Og léti Evrópu virka eins og miðaldra karl. Halo


Hiti í hitaveituumræðu og einkavæðing orkufyrirtækja orkar tvímælis

Alvarleiki umræðunnar um afdrif Hitaveitu Suðurnesja - sem ég held að verði ákveðinn prófsteinn á fyrir hvað þessi ríkisstjórn stendur (ef hún nær að sameinast um það) - hvarf aðeins í orðaflipp á ríkissjónvarpinu í kvöld. Þar var sagt frá því að hiti væri í hitaveituumræðunni og einkavæðing orkufyrirækjanna orkaði tvímælis að mati viðskiptaráðherra. Með þessu áframhaldi má skera verulega niður þau orð sem not eru fyrir í hverri frétt fyrir sig. En aðallega skiptir þó máli hver niðurstaða þessa máls verður. Eftir öll trikk og plott og þegar allir eru búnir að nota forkaupsréttinn sinn (í hlutfalli við eignarhluta) þá verður mórallinn í sögunni kannski samt sá að Suðurnesjabær ráði ferðinni og afhendi einkaaðilum forræði orkufyrirtækisins, hvað sem það hefur nú í för með sér. Og stjórnin á að vera klofin í þessu eins og fleiru og fróðlegt að vita hvað kemur út úr því. 

Kemur ekki á óvart - vona að þetta verði áfram einkenni eftirlætisborgar minnar

London er geysilega stór borg, enda nóg af grænum svæðum þar ennþá, oft miklar tafir, en samt finnst mér hún aldrei stressandi. Ég vona að íbúar þessarar uppáhaldsborgar minnar beri gæfu til að halda ró sinni áfram.


mbl.is Ekkert virðist raska ró Lundúnabúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kapphlaup um orkufyrirtæki

Augljóslega veit enginn nákvæmlega hvernig kapphlaupinu um Hitaveitu Suðurnesja mun lykta, alla vega ekki á þessari stundu. Ásóknin í orkufyrirtækið segir mér hins vegar að einhverjir eygja aukna einkavæðingu í þessum geira og þá verður þessi eign enn verðmeiri. Hitt veit ég ekki, hvort einhver fyrirheit eru um ákveðna stefnu varðandi orkukaupendur meðal hugsanlegra kaupenda. En það ætti ekki að útiloka það sem einn þátt þessa undarlega leiks.

Vísir að sögulegum viðsnúningi Samfylkingarinnar gagnvart ESB?

Las á vef ríkisútvarpsins áhugaverða frétt um ferð Ingibjargar Sólrúnar til Afríku. Meðal þess sem þar bar á góma er sá áhugi sem hún skynjaði meðal Afríkuríkja á framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Nú er ég með nokkra varnagla varðandi það framboð, einkum vegna þess að mér hefur þótt ríkisstjórn Íslands of mikill taglhnýtingur Bandaríkjamanna í utanríkismálum og mér finnst ekkert fengið með því að fjölga atkvæðum Bandaríkjanna í þvísa ráði. En hins vegar þótt mér eftirfarandi hluti fréttarinnar einstaklega fróðlegur:  

,,Ingibjörg Sólrún segir að sér virðist sem talsverður stuðningur sé við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna meðal Afríkuríkja. Að sögn Ingibjargar er stofnun sambandsríkis Afríku mikið rædd á fundinum. Ástæðan sé sú að ráðamenn í Afríku vilji láta meira að sér kveða á alþjóðlegum vettvangi. Þar sem að margir telji nú nauðsynlegt að Afríka verði einhvers konar mótvægi við Bandaríkin og Evrópusambandið geti það verið kostur fyrir Ísland í baráttunni um sæti í öryggisráðinu að vera utan Evrópusambandsins."

Ég hef reyndar ekki farið dult með þá skoðun mína að það skapi Íslandi margfalt fleiri tækifæri á alþjóðavettvangi að standa utan sambandsins en innan. Hins vegar verð ég að vona að skilningur fréttamanns ríkisútvarpsins, og minn á frétt RUV, sé réttur að hér örli á skilingi einnar helstu þungavigtarmanneskju Samfylkingarinnar á tækifærum Íslands utan ESB. Mikið væri þá gaman að lifa. 


Fátt um fínar gúrkur

Það stefnir í uppskerubrest í gúrkutíðinni, því sannar fréttir yfirskyggja alveg hinar hefðbundnu gúrkufréttir þessa árstíma. Þótt sumt sé kannski eins og endurtekið efni (dómur fallinn í Baugsmálinu, deja vu) þá eru bara allt og margar þungavigtarfréttir af stóriðjuáætlunum, virkjanaframkvæmdum, umferðarafbrotum, bönnuðum einkadönsum, nýrri stjórn í Englandi (mestmegnis) og ýmsu fleiru ... til þess að við fáum að vita nokkuð um horfurnar í gúrkuræktinni. Og svo er veðrið bæði himneskt (hér) og harðneskjulegt (þar) og spennandi að finna út hvernig restin af sumrinu verður. Má ég koma með pöntunarlista stórfrétta:

  1. Fallið verði frá frekari stóriðjuframkvæmdum, það mætti til dæmis kalla þá frétt. Stóriðjustopp. Hugsið ykkur fyrirsagnirnar!
  2. Bandaríkjamenn og aðrar viljugar þjóðir dragi herlið sitt frá Írak og alþjóðasamfélagið veiti fé og stuðningi í uppbygginguna þar.
  3. Raunverulegt vopnahlé verði samið í Mið-Austurlöndum og friðsæl framtíð Palestínu tryggð.
  4. Vitundarvakning gegn ofsaakstri skili slysalausu sumri.
  5. Launakönnun í lok sumars sýni að launamunur kvenna og karla á Íslandi sé úr sögunni.
  6. Aukin eftirspurn verði eftir störfum á Landspítalanum vegna góðrar launahækkunar, einkum í núverandi kvennastéttum.
  7. Langtímaveðurspá sýni gott veður um allt land í allt sumar.
  8. Hugbúnaðarfyrirtækjum og garðyrkju verði veitt sömu kjör og fyrirgreiðsla á Íslandi og stóriðju (þetta er gúrkufréttin, gróðurhúsin gera íslenskar gúrkur þær samkeppnishæfustu í Evrópu).

Ykkur er velkomið að bæta við ...  

 


Ég er jafnaðarmaður, sagði Hannes Hólmsteinn í dag

Hannes skólabróðir minn lýsti þessu yfir á Rás 2 í viðtali í dag. Ég sperrti eyrun. Ekki langt síðan Hannes taldi að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur væru svo líkir að þeir ættu að sameinast. Ég skil Hannes reyndar alls ekki alltaf. Hitt er annað mál að hann hefur svo sannarlega rétt fyrir sér að Tony Blair hafi að mörgu leyti verið arftaki Thatcher og því miður held ég að hann hafi talsvert til síns máls að ekki sé svo ýkja langt á milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, en það mun einnig hafa í för með sér að margir góðir og gegnir félagar í Samfylkingunni verða færðir lengra til hægri en þeir hafa ef til vill hugsað sér fyrir kosningar. Hins vegar tel ég að hann greini það rangt að andstæðurnar í íslenskri pólitík séu úr sögunni, þvert á móti magnast þær en pólarnir eru vinstri grænar áherslur versus hægri stefna Sjálfstæðisflokks og ríkjandi afla í Samfylkingu. Ég hef ekki hugmynd um hvar Framsókn stendur í þessu nema mig grunar að Bjarni Harðar eigi samleið með okkur vinstri græningjunum.

Verður Íslandi drekkt í skógi ? Virkjanablús 2. hluti

Stóriðja, virkjanir, stóriðja. Það er eins og aldrei áður hafi verið eins mikið kapphlaup um að virkja meira og koma meiri stóriðju á. Öllum brögðum er beitt, forstjórnar mæta með alls konar gylliboð fyrir sveitarstjórnir í meintum virkjana- og stóriðjusveitarfélögum og það nýjasta: Ekkert mál að uppfylla Kyoto, bara að planta 100 milljónum trjáplantna. Skógrækt er ósköp hugguleg en í guðanna bænum ekki drekkja landinu í skógi! Ég er næstum farin að iðrast þess að hafa keypt mér syndaaflausn á volvo-inn minn undir dulnefninu kolefnisjöfnun.

Virkjanablús

Næstu dagar og vikur verða prófsteinn á svokallað ,,stóriðjustopp" sem Samfylkingin boðaði. Er eitthvert hald í því eða ekki. Flóamenn funda í kvöld, forstjóri Alcan er eins og fló á skinni út um allt suðvesturland að redda stóriðjumöguleikum fyrir 1. júlí og víðar um land styttist í að dragi til tíðinda. Við bíðum og sjáum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband