Vísir að sögulegum viðsnúningi Samfylkingarinnar gagnvart ESB?

Las á vef ríkisútvarpsins áhugaverða frétt um ferð Ingibjargar Sólrúnar til Afríku. Meðal þess sem þar bar á góma er sá áhugi sem hún skynjaði meðal Afríkuríkja á framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Nú er ég með nokkra varnagla varðandi það framboð, einkum vegna þess að mér hefur þótt ríkisstjórn Íslands of mikill taglhnýtingur Bandaríkjamanna í utanríkismálum og mér finnst ekkert fengið með því að fjölga atkvæðum Bandaríkjanna í þvísa ráði. En hins vegar þótt mér eftirfarandi hluti fréttarinnar einstaklega fróðlegur:  

,,Ingibjörg Sólrún segir að sér virðist sem talsverður stuðningur sé við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna meðal Afríkuríkja. Að sögn Ingibjargar er stofnun sambandsríkis Afríku mikið rædd á fundinum. Ástæðan sé sú að ráðamenn í Afríku vilji láta meira að sér kveða á alþjóðlegum vettvangi. Þar sem að margir telji nú nauðsynlegt að Afríka verði einhvers konar mótvægi við Bandaríkin og Evrópusambandið geti það verið kostur fyrir Ísland í baráttunni um sæti í öryggisráðinu að vera utan Evrópusambandsins."

Ég hef reyndar ekki farið dult með þá skoðun mína að það skapi Íslandi margfalt fleiri tækifæri á alþjóðavettvangi að standa utan sambandsins en innan. Hins vegar verð ég að vona að skilningur fréttamanns ríkisútvarpsins, og minn á frétt RUV, sé réttur að hér örli á skilingi einnar helstu þungavigtarmanneskju Samfylkingarinnar á tækifærum Íslands utan ESB. Mikið væri þá gaman að lifa. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er nákvæmlega það sem ég hugsaði í dag þegar ég heyrði þetta haft eftir henni í fréttum. Var það ekki Anna í Grænuhlíð sem talaði um að fólk væri "andlega skylt"? Hvað um það, þá hugsaði ég í dag þegar ég heyrði fréttina: Anna mun taka eftir þessu á nákvæmlega sama hátt og ég og þekki ég hana rétt þá verður þetta bloggfærslan hennar í kvöld! Mitt var síðan að bíða til að geta tekið undir.

Helga 30.6.2007 kl. 01:10

2 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Þótt að það gæti mögulega verið kostur í augnablikinu til að fá kjör inn í öryggisráðið, þá er Samfylkingin ennþá á því að ganga í ESB, þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur af öðru :)

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 30.6.2007 kl. 10:49

3 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mínar einu áhyggjur eru að Samfylkingin haldi áfram að viljaganga í ESB. Ég tel ennþá að þessi ummæli séu söguleg tíðindi, en hvort þau tíðindi verða stök eða vísir að einhverju meira verður bara að koma í ljós. Ég held þó að við Helga eigum ákveðið veganesti frá fortíðinni sem gera okkur að mörgu leyti meðvitaðar um hversu merkileg þessi ummæli eru.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 30.6.2007 kl. 12:45

4 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Reyndar Jónas, er stefna Samfylkingarinnar aðeins að sækja um aðild og sjá svo hvað kemur út úr aðildarviðræðunum. Það þýðir einfaldlega að flokkurinn er ekki sannfærðari en svo um að aðild sé virkilega eitthvað sem henti Íslendingum ;)

Hjörtur J. Guðmundsson, 30.6.2007 kl. 12:46

5 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Sem ungliði í Samfylkingunni síðan hún var stofnuð, þá veit ég ágætlega hver stefna Samfylkingarinnar er í Evrópumálum Hörtur og Anna, en það er samt gaman að sjá óskhyggju annara í þeim málum. Það þarf ekki annað en að lesa Evrópuskýrsluna til að sjá hversu sannfærðir Ágúst og Össur eru t.d. að ESB aðild sé góð hugmynd, og enn hef ég ekki hitt þann þingmann Samfylkingar sem hefur efast um að ESB aðild sé góður kostur fyrir Ísland.

.

Þegar stefnan er að sækja um aðild og leggja það undir dóm þjóðarinnar, þá er stefna flokksins auðvitað að ganga í ESB - en að leyfa þjóðinni að ráða út frá því hvernig henni lýst á aðildarsamningana. Heimatilbúnar fréttaskýringar um annað eru ekkert annað en óskhyggja.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 30.6.2007 kl. 23:59

6 identicon

Ég hef aldrei farið dult með þá skoðun mína að ESB sé kostur sem eigi að ræða og ég hef saknað umræðu um þau mál, t.d. var hún mjög takmörkuð í kosningabaráttunni. Því hefur oft verið haldið fram í umræðunni um ESB að það myndi halla á lýðræðið okkur í óhag í lagasetningum a vegum ESB sem snertu hagsmuni okkar. Daði Einarsson, bloggvinur minn skrifaði mjög áhugaverðan pistil um ESB vs Alþingi - lagasetningu og lýðræði. Hvet ykkur til að lesa það.

Anna Ólafsdóttir (anno) 1.7.2007 kl. 00:32

7 Smámynd: Jón Sigurgeirsson

Það er í fleiri málum sem flokkurinn er "sveigjanlegur"

Jón Sigurgeirsson , 1.7.2007 kl. 19:41

8 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér er það fulljóst að þeir sem hafa áhuga á inngöngu í Evrópusambandið eru margir hverjir í Samfylkingunni, þeim mun meiri tíðindi þóttu mér þessi ummæli, og ég vona sannarlega að þessi litla vísbending viti á frekari tíðindi, en það verður áreiðanlega ekki í þökk allra í Samfylkingunni ef til þess skyldi koma.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 1.7.2007 kl. 22:51

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband