Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fer barátta Heiðu að bera árangur?

Barátta Heiðu (skessa.blog.is) gegn nauðgunarlyfi sem er enn á markaði hér á landinu gæti verið að bera árangur. Í kvöldfréttum mátti alla vega greina smá von í viðtali við landlækni, þrátt fyrir smá fyrirvara sem voru óþarfir. Vonandi að þetta lyf hverfi af markaði sem fyrst áður en fleiri verða fyrir barðinu á því.

Meira um réttlæti

Fyrsta heimsóknin á bloggið mitt eftir að ég skrifaði smá hugleiðingu um réttlæti var frá konu sem er að berjast fyrir réttlæti með mjög ákveðið markmið í huga. Skoðið síðuna hennar Heiðu (skessa.blog.is) sem er að fjalla um það réttlætismál að banna öll nauðgunarlyf tafarlaust. Mig langar að leggja þessari baráttu lið og þakka Heiðu fyrir að koma með ákveðinn farveg fyrir slíka baráttu.

Bendi líka á mjög góða umræðu á síðu gegn ofbeldi gegn konum sem er í tengslum við Amnesty: gegnofbeldi.blogspot.com - þar er líka fjallað um baráttu gegn nauðgunarlyfjum. 


Mogginn tekur upp vindmylluþráðinn minn

Sá að Mogginn hafði ákveðið að birta Vindmyllubloggið mitt á síðum sínum í dag. Aldrei að vita nema hér skapist enn meiri umræða á síðunum um aðra valkosti í orkumálum en að leggja hálendið undir vatnsaflsvirkjanir og lón. Við erum komin að þeim punkti að flestar viðbótarvirkjanir munu verða umdeildar og umdeilanlegar. Gufuaflsvirkjanir eru heldur ekki hafnar yfir gagnrýni, og auðvitað yrðu aðrar hugmyndir, hvort sem væru vindmyllur, sólarorka eða vetnislausnir ekkert undanþegnar gagnrýni frekar en aðrir kostir.

Það sem máli skiptir er að festast ekki í einhverjum ramma og þora aldrei að hugsa út fyrir hann. Vindurinn hlýtur að vera áhugaverður til skoðunar í landi þar sem svona mikið blæs en þar með er ég auðvitað ekki að berjast fyrir vindmyllum í Viðey, eins og einn lesandi minn lét sér detta í hug. Í sakleysi mínu hafði mér hins vegar dottið í hug að nýta mætti gömul framræst og ræktuð tún sem hvert af öðru eru að fara í órækt á Suðurlandi, fjarri allri ósnortinni náttúru. Mér rann til rifja þegar ég fór að morgunlagi í bíltúr um Suðurlandið fyrir 1-2 árum hversu mörg gömul tún eru að komast í órækt og einhverjar þessara sléttna þyldu ef til vill vindmylluakra. Hins vegar er ég þeirrar gerðar að mér finnst alltaf að náttúran eigi að nóta vafans og ef svona framkvæmdir særðu auga annarra, t.d. vegna þess að sjónarhornið væri annað, þá legði ég þeim lið. 

Gaman að hafa opnað umræðuna og leitt hana út fyrir þröngan ramma, kannski er þetta valkostur sem einhverjum finnst áhugaverður, kannski ekki. Kannski er þetta raunhæft, kannski ekki. Og kannski finnast staðir hér á landi sem þola þessi mannvirki, kannski verður alltaf einhver til að mótmæla. Við hljótum öll að þurfa að hlusta á rök annarra.  


Barist við vindmyllur

Á ráðstefnunni sem ég fór á í Helsinki um verslunarmannahelgina var meðal annars fjallað um aðra valkosti en kjarnorku sem orkugjafa. Eins og flestir vita efu Danir framarlega í notkun vindmylla og prófessor við Álaborgarháskóla sem er í fremstu röð á sínu sviði í heiminum talaði m.a. um vindmyllur, sólarorku af ýmsu tagi og fleira. Hér er sólarorka notuð til að hita upp heilu sumarbústaðina en engar vindmyllur (hef að vísu frétt af myllum úti á landi sem hættar eru notkun, held það séu allt vatnsmyllur). Hef spurt nokkra Íslendinga eftir að ég kom heim hvort þeir kannist ekki við mýtuna um að það sé OF hvasst á Íslandi fyrir vindmyllur. Jú, flestir hafa heyrt það. En alla vega ég bara VARÐ að heyra skoðun sérfræðingsins á þessu. Hann fékk flog af hlátri. Sem sagt, ég er gengin í lið með ,,mythbusters" og búin að hrekja eina mýtu nú þegar. Mágkonum mínum leist ekki meira en svo á blikuna vegna þessarar umræðu minnar, þegar ég sagði þeim frá henni, og vildu nú ekki að ég færi að agitera fyrir vindmyllum út um allt Ísland. Mér FINNST reyndar að við eigum að nýta alla orkugjafa en ekki einblína á einn eða tvo, en það er önnur saga. Og alltaf þegar ég ek um flatar sléttur fyrir neðan Landvegamótin þá sé ég fyrir mér að þarna myndi það ekkert skemma að hafa smá vindmylluakur. Aðallega er mín hugsun, vindurinn er svo mikill hjá okkur, þetta er orkugjafi, veltu því alla vega fyrir okkur hvort við ættum að nýta hann. Tek á móti stuðningi og skömmum einmitt hér. Þetta heitir sko að berjast við vindmyllur. (Já, ég hef lesið Don Kíkóta). 

Ný skoðanakönnun um utanríkismál Íslendinga

Hlutverk Íslands á alþjóðavettvangi hefur verið mikið til umræðu að undanförnu. Þessi umræða er þörf og góð. Margt ber þar til, viðræður við önnur lönd, ný ríkisstjórn og ákveðin grundvallarumræða sem er að byrja að eiga sér stað um hlutverk Íslendinga á alþjóðavettvangi. Vona að hún verði góð og málefnaleg. Þess vega skellti ég upp nýrri skoðanakönnun um málið. Þeir sem ekki finna valkost við hæfi verða að nýta athugasemdakerfið.

Af fyrri skoðanakönnun er það að segja að fáir höfðu þörf á að tjá sig um hvort þeir væru sáttir eða ósáttir við úrslit í keppninni um fegursta orð íslenskrar tungu - en flestir sem tjáðu sig voru þó sáttir, lengst af 70-80%.  


Vændi var á alþingi leitt í lög ...

Ætlaði ekki að trúa mínum eigin eyrum þegar ég heyrði nýjasta framlag Bogomil Font til dægurlagaflórunnar. ,,Vændi var á alþingi leitt í lög" var glaðbeitt viðlag hans í hárbeittum texta í lagi um Gunnar og Geira (þið vitið hverja) og slær jafnvel hittaranum frá í fyrra við: ,,Veðurfræðingar ljúga" sem er næsta meinlaus texti hjá þeim sem hann teflir núna fram. Ég hef reyndar lengi verið eldheitur aðdáandi Bogomils Font og allra annarra alter-ego-a Sigtryggs Baldurssonar, en mér heyrist að í þetta sinn hafi hann tekið eldfimt umræðuefni og sett á dagskrá með sínum hætti og kallað hlutina réttum nöfnum. Þarf að komast yfir textann við fyrsta tækifæri, ef einhver á hann þigg ég hann með þökkum. 

Frídagur verslunarmanna framundan, þegar allir eiga frí nema verslunarmenn

Frídagur verslunarmanna framundan, þegar allir eiga frí nema verslunarmenn. Mér finnst það alltaf svolítið skrýtið ;-)

Heimsókn í Foreldrahúsið

Ég skrapp i hádeginu að heimsækja Foreldrahúsið sem Vímulaus æska rekur með miklum myndarbrag. Var komin með alvarleg ,,fráhvarfseinkenni" eftir að hafa starfað með samtökunum í 12-14 ár eða þar til ég sagði af mér formennsku í vetur eftir að hafa verið formaður í nánast ósiðlega langan tíma. Af því ég hætti í stjórninni í leiðinni á ég sjaldan erindi þangað og þarf eiginlega að gera mér erindi til að hitta það ágæta fólk sem þar starfar.

Mér þykir alltaf mjög vænt um þessi samtök og það verk sem er verið að vinna á vegum þeirra er hreinlega ómetanlegt, en jafnframt allt of ósýnilegt. Þrátt fyrir að aldrei hafi tekist að byggja upp einhverja stórkostlega múgsefjun (sem reyndar hefði verið mjög gagnlegt) í kringum starf samtakanna, þá hefur árangurinn alltaf verið ótrúlega góður.

Samt finn ég sambland af gleði og magnleysi eftir heimsókn í Foreldrahúsið, gleði yfir öllu því góða fólki sem vinnur sleitulaust að því sem Vímulaus æska er að gera þessa dagana, en það er ekkert smávegis:

  • að sinna krökkunum sem þarf að styðja að meðferð lokinni – Vímulaus æska hefur fyllt inn í þá eyðu sem var með því að stofna hópa fyrir þessa krakka og veita þeim gott aðhald og mikla lífsfyllingu á erfiðum tíma og oft við erfiðar aðstæður
  • að sinna foreldrum og öðrum aðstandendum krakka sem eru að byrja að fikta við áfengi og vímuefni og valda sínum nánustu áhyggjum – þarna er ráðgjöf virkasta vörnin
  • að sinna fjölskyldum langt leiddra fíkla – það er oft þrautaganga gegnum kerfið og fjölskyldur þurfa á öllum þeim stuðningi að halda sem hægt er að veita þeim

Og magnleysi: Ég veit að sumt af því sem starfsfólk foreldrahússins kynnist í sínu starfi er átakanlegra en orð fá lýst, einkum er það erfitt þegar krakkar eiga í hlut sem eru virkilega að reyna að bæta líf sitt með vímuleysi. Því miður eru ekki aðstæður allra jafn góðar. Þótt við Íslendingar státum okkur af því að hafa náð nokkrum árangri í baráttunni gegn vímuefnum þá bætir það ekki aðstæður þeirra sem eru að brjótast út úr vandanum né þeirra sem þrátt fyrir tölulega góðan árangur eru að ánetjast vímuefnum. Þarna er oftast um bráðunga einstaklinga að ræða.

Fann það líka að umræður um lækkun áfengiskaupaaldurs og vilja ráðamanna til að lækka verð á áfengi veldur miklum áhyggjum í húsinu, enda oft búið að sýna fram á að hvort tveggja gerir aðgengi unglinga að áfengi greiðara. Einkum eru það áhyggjur af því að aldursmörkin færist niður hjá þeim hópi sem sækir í áfengi. Ég vona að það þurfi ekki mælingar á breyttum veruleika að halda til að sýna hvort þessar spár séu réttar eða ekki.


Gæti virkað - markviss hugmyndafræði

Ég hef fylgst með þessu verkefni á netinu um nokkurt skeið að áeggjan sonar míns og ég held að þetta gæti virkað. Hugmyndafræðin er einföld og í takt við það sem margir hafa talið skynsamlegar áherslur í þróunarmálum, að leggja áherslu á menntun barna og ungmenna. Hvernig það er útfært kemur fram í fréttinni. Hugsað hefur verið fyrir flestum vandamálum sem upp geta komið, orku, hita, hnjaski, en það sem gæti orðið prófsteinn á þetta verkefni eru félagslegir og menningarlegir þættir, hvort þetta framtak verður til að auka líkur á menntun barna, sem er megin hugsunin. Ég vona að þetta verkefni muni heppnast vel, hugmyndafræðin er alla vega góð en ég held að ekkert nema reynslan muni segja okkur hvort þetta framtak stenst svartamarkaðsbrask, þar sem slíku er til að dreifa, hvort það dugar til að fleiri börn fái að fara í skóla, þar sem þau eru dýrmætt vinnuafl og hvort bæði stelpur og strákar fá sömu tækifæri til menntunar ef þetta verður til að auka ásókn í menntun barna í þróunarlöndum.
mbl.is 100 dala fartölvan loks í framleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í yndislegri, sólríkri orðleysisveröld

Helgin var yndisleg, sambland af dugnaði, hvíld, einveru og félagsskap og umgjörðin fegurð Borgarfjarðar og sólin sem hefur sannarlega glatt okkur þetta sumarið, frá og með því að það kom. Við náðum í hestana hans Ara upp á Kjalarnes snemma á laugardagsmorgun og komum þeim í Skorradalinn til Halla sem verður ferðafélagi Ara í hestaferð eftir tvær vikur. Buðum nokkrum hestamönnum í miðdegismat á laugardaginn, og einkum var nú gleði hjá meðfylgjandi hundum sem fengu beinin úr hryggnum til áts og afnota á eftir. Svo fóru hestamennirnir að æfa sig og hestana, stutt á laugardeginum og miklu lengri ferð á sunnudeginum, en farið hægt yfir til að þreyta ekki hestana um of.Mynd014

Heiti potturinn okkar sýnir nú hetjulega tilburði eftir nokkra byrjunarerfiðleika og í morgun, þegar við slitum okkur nauðug frá Borgarfirðinum, til að fara til vinnu, var hitinn kominn í 30 gráður að mati Ara. Þannig að eftir vinnu skal farið með vatnshitamælinn sem gleymdist aftur uppeftir. Þótt maður þurfi að vakna aðeins fyrr í vinnuna með því að búa uppfrá, þá er það vel þess virði. Kjartan vinnufélagi minn, sem hefur staðið í ströngu í ýmsum verkefnum með mér að undanförnu, kom í smá heimsókn úr næsta sumarbústaðahverfi í gærkvöldi, ásamt Berglindi sinni og Tinnu litlu og tíkinni Emily. 

En mestalla helgina hef ég sleikt sólina, pikkað aðeins á tölvuna og lesið smá lokaverkefnisefni, á vindsæng á neðri pallinum í bústaðnum. Eftir að hafa lifað í heimi orða að undanförnu eru þessi orðlausu síðdegi skemmtileg tilbreyting. Vel hvíld og sólbrún er ég afskaplega sæl, en auðvitað kemur að því að við fáum okkur nettenginu í bústaðinn líka, en allt hefur sinn tíma.  

Ég held að krökkunum okkar þyki alveg ágætt að hafa hitt heimilið út af fyrir sig á meðan foreldrarnir eru hálf fluttir upp í bústað, en svo er skipt um vaktir af og til og þau hafa átti sína góðu spretti uppfrá líka, Óli fyrr í sumar og Hanna núna í seinustu viku, þannig að það er með ólíkindum hvað einn sumarbústaður nýtist vel ;-)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband