Baugsrappið

Er Spaugstofan ekki endurtekin? Sé hana greinilega allt of sjaldan, sá samt söngleik um íslenska samfélagið einhvern tíma fyrr á árinu, sem var alveg frábær og svo er þátturinn sem núna stendur yfir ekkert smá fyndinn. Þannig að ef þið hafið ekkert skárra að gera þegar þátturinn verður endurtekinn (ef hann verður endurtekinn) þá er vel þess virði að sjá smá Baugsrapp með meiru. Hef alltaf haft frekar blendnar tilfinningar gagnvart sjónvarpi, meira gefin fyrir útvarp af því það gerir mann ekki eins verklausan, en stend mig að því að finna sífellt fleira skemmtilegt að horfa, fyrir utan 24 og fræðsluþætti um flugvélasmíði, sem eru alltaf sígildir ;-) á Discovery. Þetta seinasta er fjölskyldubrandari sem ég ætlast ekki til að utanaðkomandi skilji, en þið sem eruð með Discovery, takið eftir hvað þörfum áhugafólks um flugvélasmíði er vel sinnt Sideways

Óskhyggja eða verður af því núna?

Mér finnst ég hafa heyrt þetta áður. Rétt fyrir kosningar er kominn pirringur og yfirlýsingar. Þetta þykir víst pólitískt klókt, hef aldrei verið neitt óskaplega trúuð á þessa pólitískt klóku leiki. Þegar upp er staðið eru það raunveruleg stefnumál og heiðarleiki sem gilda, en líklega deila ekki margir þessari skoðun með mér. 

Fyrst þegar ég heyrði orðróm um mögulegt stjórnarslit á einhverri bloggsíðu blaðamanns, þá fannst mér hann leiða allgóð rök fyrir því að núna gæti möguleikinn verið raunverulegur. Það er löngu kominn tími á uppstokkun og línurnar í stjórnmálum gerólíkar því sem gerðist fyrir fjórum árum þegar fulltrúar okkar voru kjörnir. En eftir því sem æsingurinn verður meiri og yfirlýsingarnar stangast meira á, þá er ég hrædd um að þetta séu bara fastir liðir eins og venjulega og ég er ekkert svo vongóð um að kosningum verði flýtt. Óskhyggjan segir mér að við eigum að kjósa strax, en spá mín er sú að við þurfum að bíða eftir settum kjördegi. 


mbl.is Núningur og kurr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að senda Alan heim úr X-factor - fáránlegt!

Horfi á X-factor eftir því sem ég kemst yfir, enda finnst mér enn meira hæfileikafólk þar en lengst af í fyrirrennurum þessa þáttar. Einn hæfileikaríkasti söngvarinn þar er Alan og nú er verið að senda hann heim, mér finnst það fáránlegt! Hann er að mínu mati meðal þriggja bestu atriðanna í þessum þætti og það að hann skuli hafa lent í botnsæti núna er út af fyrir sig mjög vont. Oft er ég sammála Ellý (auk þess sem hún var hæfileikabolti í Q4U á sínum tíma) en í þessum þætti er ég ósammála ákvörðun hennar. Hún er greinilega að vísa til einhverra annarra þátta en í kvöld, því á forsendum frammistöðunnar í kvöld var hann mun betri en Hara.


Nú er bara að koma Íslandi á toppinn líka

Það eru nokkrir góðir möguleikar til að koma Íslandi hærra á listann þar sem mesti jöfnuður ríkir. Forval VG hér á höfuðborgarsvæðinu var glæsilegur sigur kvenna og í öðrum kjördæmum er hlutur þeirra til fyrirmyndar. Svo eru þetta bara svo æðislegar konur, allar saman. Netverjar hér á Moggablogginu þekkja Guðfríði Lilju og fleiri í forystu VG af skrifum þeirra hér og þar sem aldrei komið að tómum kofanum. Það er ekki spurning að með því að kjósa VG er hægt að gera mikið til að rétta hlut kvenna og láta feminískar raddir heyrast á alþingi, því það er ekki minna um vert.


mbl.is Flestar þingkonur í Rúanda, Svíþjóð og Kosta Ríka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stolt, Vinstri græn og netverji

Ég ætlaði ekki að blanda mér í umræðuna um Steingrím J. og ummæli hans um klám á netinu og netlögguna. Hann er fullfær um að skýra sitt mál og hefur gert það með sóma. Tek fram að ég er feministi og anarkisti sem uni mér vel innan VG og ekki hrifin af lögregluríki, enda hefur VG aldrei varið lögregluríki, innan flokksins eru þar að auki fullt af fólki sem hefur orðið fyrir barðinu á þeim vísi af lögregluríki sem hefur nýlega verið afhjúpaður af góðum sagnfræðingum.

En mér hefur alltaf fundist of mikil viðkvæmni í okkur netverjum gagnvart leit fólks að úrræðum gegn glæpum sem framdir eru með aðstoð netsins. Það er ábyggilega flestra skilningur að það sé ógeðslegur glæpur að nota netið til að lokka börn á fund barnaníðinga eða dreifa og stundum auðgast á því að misnota aðra, í sumum tilvikum að misþyrma börnum grimmilega og jafnvel drepa. Þótt netið sé ekki eini miðillinn sem notaður er til slíkra glæpa, þá firrir það okkur, sem unna því, ekki ábyrð á því að grípa í taumana.

Það eru einmitt frábær dæmi til um að fólk geri slíkt. Kannski eru allir búnir að gleyma sláandi dæmi fyrir allmörgum árum, meðan IRK-ið var upp á sitt besta þegar ungt par á Akureyri kom upp um barnaníðing, einmitt með IRK-ið að vopni. Ég var svo lánsöm að fá tækifæri til að taka viðtal við þau (auðvitað á IRK-inu) og flytja frásögn þeirra sem kveðju frá þeim á ráðstefnuröð gegn kynferðisofbeldi sem haldin var í Háskólabíó. Netið er nefnilega eitt besta tækið sem við höfum til að hafa upp á slíkum glæpamönnum og best er að það sé gert á forsendum okkar, sem viljum ekki skerða frelsið á netinu. Mér finnst þetta einstaklingsframtak að mörgu leyti einn merkilegra en glæsilegt frumkvæði fjölmiðla um daginn, einmitt vegna þess að það spratt upp úr grasrótinni, frá fólki sem var í fremstu röð í umræðu á netinu en jafnfram var nóg boðið.

Það eru önnur öfl, miklu hættulegri en andstæðingar kláms og barnaníðinga, sem ógna netinu. Við höfum nú þegar mjög hættulega aðila sem vilja svo gjarnan stöðva frjálsa umræðu um samfélagið og stjórnmál. Það eru nú þegar stundaðar njósnir um saklausa borgara á vegum fjársterkra, öfgafullra aðila beggja vegna hafsins hvort sem við erum að tala um CIA og enn leynilegri stofnanir eða Kína og önnur ritskoðunarstjórnvöld (og hér með, með því að nefna CIA, er ég komin í sjálfvirkan fæl yfir hættulegt fólk hjá CIA).

Ef við verjum glæpamenn á netinu þá eykur það möguleika öfgafullra aðila til að verja gerðir sínar, rétt eins og atburðirnir 11. september voru vatn á myllu öfgafullra eftirlitsaðila í Bandaríkjunum. Ekki sætta okkur við að netið sé griðastaður fyrir glæpi, ekki myndum við lána barnaníðinginn kjallarana okkar til að fremja sína glæpi. Netið er raunar alveg frábær vettvangur fyrir alla sem eru á móti ógeði að gefa skýr skilaboð.

Varð bara að koma þessu frá mér, sakna þess að hafa ekki getað lesið of mikið af efni um þetta mál, enda hefur sumt af því sem ég hef séð valdið mér nokkrum vonbrigðum. Það er ekkert vandamál, jafn ánægð yfir frelsi þeirra til að tjá þær skoðanir sem ég er ósammála og frelsi mínu til að segja nákvæmlega þetta sem ég hér með hef komið frá mér

Arlo Guthrie sagði eitt sinn í yndislegum söng sínum frá seinasta manni í heimi sem hringdi símtal og sagðist ætla að hleypa öllu í bál og brand, og viti menn, hann var ekki lengur síðasti maður í heimi, CIA var mætt! Höfum áhyggjur af réttum aðilum, andstæðingar kláms og ofbeldis eru besta fólk, trúið mér!

 

 


Hlerana fyrir gluggana og enginn út?

Mér finnst alltaf gaman að lesa fréttir um veður, enda veðurfíkill eins og flestir Íslendingar. Samt ekki alveg viss um hvað fréttin um sterku vindstrengina norðvestur af landinu merkir fyrir okkur, er verið að segja okkur að halda okkur inni og setja hlera fyrir gluggana eða er þetta bara smá fróðleikur? Aldrei of mikið af honum reyndar ;-)
mbl.is Vindstrengir sterkari en úreikningar höfðu gefið til kynna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnulausir og/eða athyglissjúkir bloggarar?

Missti ég af fjörlegri umræðu hér á blogginu meðan ég var í fríi eða er ég eina manneskjan sem les blöð á pappír? Ég rak nefnilega augun í svo bráðskemmtilega skilgreiningu Víkverja (eða Staksteina, skiptir ekki máli) á bloggurum í Mogganum fyrir líklega rúmri viku. Þar sem systir mín var svo sæt að koma með Moggann til okkar á Kanarí þá var hvert snifsi í blaðinu lesið upp til agna og þar kom að röðin var komin að Víkverja sem skildi bara alls ekki í því hvernig bloggarar hefðu tíma til að tjá sig um allt mögulegt og ómögulegt. Varpaði fram spurninginni hvort þeir væru ekki upp til hópa annað hvort atvinnulausir eða athyglissjúkir, ef ekki hvort tveggja.

Nú skal játast að ég sinnti internetinu ekkert óskaplega mikið í fríinu og vera má að þessi umræða hafi farið ljósum logum um Moggabloggið, en ef ekki þá langar mig endilega að heyra álit fleiri á þessari skilgreiningu á manni ársins (bloggaranum). Hafi athyglissýki rekið Víkverja til þessara skrifa, þá finnst mér líka fróðlegt að vita hvort hann hefur haft erindi sem erfiði. Ég hefði nefnilega haldið að þetta væri pottþétt aðferð til að fá svolítið krassandi umræðu og gruna Víkverja um að hafa einmitt langað til koma einhverju slíku af stað ;-) því augljóslega les hann bloggið.


Smá viðbót við mini-golf-tapara kveðskap

Aftur reikar hugurinn til Kanarí þar sem kveðskapurinn var seinast farinn að fjalla um listina að tapa í mini-golfi. Heiðursfólkið Gunnar og Inga af Álftanesi og Ási sonur Gunnars voru orðin æði slyng í mini-golfi þegar í hópinn bættust viku síðar þau Hafsteinn og Inga og Anna og Ari. Því var á brattann að sækja að fella það vígi. Af því tilefni orti Hafsteinn vísu sem má sjá í næstseinasta bloggi hér á undan. En varla hafði ég sett það á blað þegar upp rifjaðist að bæði Ari og Hafsteinn höfðu raunar sigrað þá feðgana sem skæðastir voru og þar sem einn sigur er skárri en ekki neinn þá verð ég að fá að bæta þessum vísum í sarpinn og lýkur þá (væntanlega) umræðu um mini-golf á Kanarí. 

Heyrðu góði Hafsteinn minn
haf þú þökk og Inga
Fyrir frækinn kveðskapinn
og fyrir það að snúa á feðga slynga.

Ef ég man það ekki rétt
að sigur hafir unnið
Í baráttu sem barst um stétt
og brekkur - þá ég það í draum' hef spunnið.

Við öll vitum um það snýst
að vera í sigur þyrstust
Og af ákefð stundum hlýst
á endanum að síðust verða ,,fyrstust"


Allt er vænt sem vel er vinstri grænt

Eftir mjög stopular flettingar í mbl.is og einstaka fréttir að heiman síðastliðnar tvær vikur er ég að byrja að ráðast á blaðabunkann og fletta í vefsíðunum. Vinstri græna hjartað gleðst yfir mörgu þar, góðu gengi í könnunum, góðum málefnum, dirfsku til að ræða óhefðbundin, ný og oft viðkvæm mál og koma þeim í umræðuna og því góða fólki sem leggur málstað okkar lið.


Sigrar og ósigrar í frí-ríkinu Kanarí

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum sem les pistlana mína að mér þykir afskaplega vænt um Kanarí, þetta furðulega frí-ríki. Á meðan verðbréfamarkaðir heimsins riða hugsa ég dreymin til Kanarí, komin heim í  kuldann hér heima. Leonard Cohen orti í miðri Svínaflóadeilunni (frá Kúbu) ljóð sem hann kallaði: The only Tourist in Havana turns his Thoughts Homewards. Ég hef þetta bara öfugt og yrkisefnið aðeins minna dramatískt.

Þróunin á Kanarí er merkileg. Rótgróin viðskipti, eins og indverski dúkasölumaðurinn í Fair Trade í CC Gran Capparel á Ensku ströndinni eiga í vök að verjast og þessi geðfelldi Indverji er að flytja til Barcelona eftir mánuð. Hann hefur selt mörgum Íslendingum fallega dúka, enda einn sá smekkvísasti í bransanum, og nú er hægt að gera reyfarakaup í Fair Trade áður en pakkað verður niður, Rúmfatalagersverð á fallegum dúkum í öllum stærðum. Skýringin að sögn eigandans er sú að uppbyggingin í nágrannabænum Meloneras hafi falist í því að vera með fleiri og flottari hótel sem byggja á því að allt sé innifalið og fólk fari helst ekki út af hótellóðinni. Það er í rauninni alveg í andstöðu við lífsstílinn á Kanarí sem byggist á því að fara víða, hitta vini og kunningja eða vera út af fyrir sig. En fyrst og fremst að vera út um allt, taka strætó nr. 1 til Las Palmas eða nr. 32 til Puerto Mogan og þræða góða veitingastaði á Ensku ströndinni eða Meloneras. Nokkrir punktar frá seinustu dögunum á Kanarí.

Hér er alltaf tími til að hreyfa sig, ganga, spila tennis, golf eða hvað sem hugurinn stendur til. Hér er alltaf hægt að borða hollan og góðan mat án þess að fara á hausinn, án þess að þurfa að hirða um matseld eða uppvask, frekar en hver og einn vill. Hér er tími til að spjalla, gera eitthvað skemmtilegt saman, bara vera til saman.  

  • Okkar maður á Teneguia fékk að vita að hótelið væri í endurbyggingu. Ef svo er þá fer hún hægt af stað, þar er enn búið í mörgum íbúðum (við erum búin að rannsaka málið), en reyndar er þessi endurbyggingin á döfinni og líklega hafin í hluta hótelsins. Þetta er hér með áréttað vegna fyrri fréttar.
  • Paraiso Maspalomas, sú aldra heiðursdrotting íbúðahótelanna, er í smá lægð þessa stundina, en við Ari viljum samt hvergi annars staðar vera. Næturvaktin er formlega séð aflögð (samt er feiti næturvörðurinn enn á vakt í lobbyinu) og nú er komin slá fyrir illa malbikaða heimreiðina ef maður kemur heim eftir eitt á nóttunni. Allt í lagi fyrir fótgangandi. Heimreiðin hér er merkileg, hér er nefnilega vinstri umferð fyrstu 100 metrana eftir að inn á hótellóðina er komið. Ekki spyrja mig hvers vegna.
  • Abdul götusali lenti í óvæntu ævintýri í gær þegar kona nokkur (undirrituð) hljóp hann uppi til að fá að kaupa af honum úr. Hann er vanari því að þurfa að ota vöru sinni að viðskipavinunum. Ég ætla ekki að fara út í nein smáatriði um málið en sumir veitingastaðir banna götusölum aðgang og Abdul selur mjög skemmtileg úr sem endast í nákvæmlega ár og þykjast ekki vera Rolex. Hann var svo hissa að hann seldi mér úrið umyrðalaust á fimm evrur en venjulega hefur tekið um korter að prútta því niður í sex evrur. Mæli með þessum viðskiptaháttum.
  • Paddy Murphy í kjallara Roque Nublo er allur að koma til eftir eigendaskiptin. Enskur skemmtanastjóri er að ná sér á strik þar en ég er ekki viss um að allir Skandinavarnir sem stunduðu staðinn áður hafi húmor fyrir honum. Eitt af því sem hann gerir er að útdeila glasamottum til að henda í ákveðinn karókísöngvara ef hann er of duglegur að syngja Rawhide og ég hef séð viðkvæma Skandinava setja upp sársaukafullan undrunarsvip. Þarna eru Íslendingarnir hins vegar í essinu sínu.
  • Besti írski pöbbinn núna er búinn að stroka út orðið Irish úr útstillingunni sinni: Live Irish Music Every Night. Sá heitir Friar Tuck og er á vinstri hönd þegar farið er niður ,,Gilið”. Besta músíkin á svæðinu, Skotinn Elsa McTaggard sem á íslenska mágkonu. Heimurinn er svo lítill. Hún var svo vinsamleg að kalla okkur nokkra félagana hér: ,,The queen of Iceland, the man who sold the horse and the man who bumped his head to the ceiling".
  • Ég beið spennt eftir að fá næstu vísu frá honum Hafsteini, sú fjallar um tapara í mini-golfi og ég ætla rétt að vona að hún sé ekki ort til mín! Hér er hún:

Við mætum hress í mini-golf

og miðum stíft í holugatið

Síðan fer svo allt á hvolf

þetta var nú meira tapið 

Erfitt að spila við þá ég þekki

þeir eru bara með tóma hrekki

og þá er úti með góða skapið

þar til næst, ég á þeim hvekki.     

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband